Lögberg - 16.09.1954, Blaðsíða 4

Lögberg - 16.09.1954, Blaðsíða 4
4 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 16. SEPTEMBER 1954 Lögberg Ritstjóri: EINAR P. JÓNSSON GefiíS at hvern fimtudag af THE COLUMBIA PRESS LIMITED 695 SARGENT' AVENfTE, WINNIPEG, MANITOBA J. T. BECK, Manager Utanáskrift ritstjórans: EDITOR LÖGBERG, 695 SARGENT AVENUE, WINNIPEG, MAN- PHONE 743-411 Verð $5.0U um árið — Borgist fyrirfram The “Lögberg” is printed and published by The Columbia Press Ltd- 695 Sargent Avenue, Winnipeg, Manitoba, Canada Authorized as Second Class Mail, Post Office Department, Ottawa Dr. A. H. S. Gillson, f. 4. des. 1889, d. 10. sepl. 1954 (Fáein minningarorð) 1 bréfi, sem Jónas Hallgrímsson skrifaði vini sínum, Páli Melsted yngra, frá Kaupmannahöfn 5. júlí 1844, lýsir Jónas danska skáldinu J. C. Hauch m. a. svo: H. er allra elskulegasti maður; hann er hár og grannur og ólánlega vaxinn", allra manna svartastur, blakkur og suðrænn í andliti, og sérlega fallega ljótur, eins og þú þekkir, með fjarska stórt nef og efra tanngarð og allra manna stóreygðastur og úteygðastur; og samt sem áður þarf ekki nema líta á hann til að sjá hann er fluggáfaður. Þessi mannlýsing varð mér strax minnisstæð, er ég las hana, og hún kom mér ósjálfrátt í hug, er ég sá dr. Gillson í fyrsta skipti daginn eftir að ég kom til Winnipeg. Það var á laugardagsmorgni, annasöm vika senn liðin hjá og eins og ró helginnar hefði færzt yfir forsetann. Hann var í prýðis- skapi, og féll þegar vel á með okkur, og hélzt svo æ upp frá því. • Dr. Gillson var viðkvæmur og ör í lund, fljótur til vin- áttu og tryggur þeim, er hann tók, en lét menn einnig kenna þess, ef honum þótti við þá, því að hann var hrekklaus sjálfur og fékk ekki dulið skapbrigði sín, á hvora sveifina sem þau snerust. Hugmyndin um íslenzka kennarastólinn hreif hann þegar, og veitti hann henni af alhug, er til kasta háskólans kom. Þó að stærðfræði og stjörnufræði væru sérgreinar hans, undi hann ekki við þær einar, heldur haslaði sér miklu víðari völl bæði í listum og bókmenntUm. Og þar sem þekkingu hans þraut í þeim efnum, tók við glöggt hugboð hins sanna menntamanns, er lætur fátt koma að sér óvörum. Honum var kunnugt, hver rækt hefur verið lögð við íslenzk fræði á föðurlandi hans, Englandi, og taldi þau eiga jafnbrýnt erindi hér sem þar. Hann skildi og, að Manitobaháskóli var kjörinn staður til slíkra fræði-iðkana sökum þess, að íslenzk tunga er enn að nokkru lifandi mál í fylkinu og skilyrði til náms í henni að því leyti sérstæð. Loks vissi hann, að miklu varðaði, hvernig búið yrði að íslenzkunni við háskólann í upphafi, og var það hið síðasta, sem við ræddum, áður en hann veiktist, hversu enn mætti bæta aðstöðuna til íslenzkunámsins, svo að kennslan við deildina gæti komið að sem mestum og beztum notum. Þegar ég nú rifja upp kynni mín við dr. Gillson, verður mér einna hugstæðust málsnilld hans, hvort heldur var í einkaviðræðum eða á stórum mannfundum. Forseta- embættið við Manitobaháskóla er umsvifamikið. Forsetinn verður að vera alls staðar heima og með á öllum nótum. Huginn og Muninn þurfa að vera á stöðugu flugi, ef ekkert á að fara framhjá forsetanum. Háskólaráð, kennaralið og nemendur standa stundum í öndverðum fylkingum, og verður forsetinn þá að miðla málum milli þeirra, ef í odda skerst. Biðstofa hans er þéttsetin, og við alla ræðir hann af kunnleika og áhuga. Hann var frábær fundarstjóri, hélt sér að efninu og hafði svipaðan aga á fundarmönnum og góður tamningamaður á hesti sínum. Hátíðlegum samkom- um stýrði hann af miklum virðuleik, og er mér sérstaklega minnisstætt, hver stíll var yfir stjórn hans, er hið nýja bóka- safn háskólans var vígt. í veizlum og á hvers konar gleði- mótum var hann hrókur alls fagnaðar og líkt og lifnaði yfir mönnum, þegar hann byrjaði að tala. Grikkir hinir fornu lögðu mikla áherzlu á, að menn væru snillingar í orðum, en þó jafnframt framkvæmdar- menn í verkum. Eru kunn orð hins gamla riddara Felix, er hann mælti eitt sinn við kappann Akkilles: ----„Hinn aldraði riddari Peleifur lét mig fara með þér þann dag, er hann sendi þig frá Fiðju til Agamemnons; varstu þá ungur og enn óvanur hernaði og mannfundum, þar er menn verða frábærir um fram aðra. Því var það, að hann lét mig fara með þér til að kenna þér allt þetta, svo þú yrðir snillingur í orðum og framkvæmdarmaður í verkum.“------ Þó að dr. Gillson væri e. t. v. meiri orðsnillingur en framkvæmdarmaður, kom hann miklu í verk í stjórnartíð sinni. Hver byggingin reis af annarri á háskólalóðinni og starfsemi skólans jókst og dafnaði á margar lundir. Reynt var að styrkja samband háskólans við almenning í fylkinu, og var dr. Gillson ótrauður að ferðast um í kynningarskyni og flytja mönnum fróðleik um þessa æðstu menntastofnun þeirra. Hann hélt því fram, að háskólinn ætti að spegla menningu og háttu hinna mörgu þjóðarbrota, er fylkið byggja, og styðja þau til að varðveita og ávaxta hvort- tveggja. Minnast íslendingar í Manitoba þannig ferða hans um byggðir þeirra og ýmsir jafnframt persónulegra kynna við hann. Áhrif þeirra kynna verða og varanlegust, þegar frá líður; endurminningin um hlýtt handtak, vingjarnlegt bros og örvandi orð lifir löngu eftir að maðurinn er genginn — og því lengur sem hann var örlátari á allt þetta og þeir fleiri, sem þekktu hann. Ég mun ætíð sakna dr. Gillsons og þykja daufara um þar úti, eftir að hann er farinn. Ekkju hans og syni þeirra votta ég samúð mína og þakka henni um leið alúð hennar í minn garð á liðnum árum. Finnbogi Guðmundsson Fréttir fró ríkisútvarpi íslands 5. SEPTEMBER U N D U R utanríkisráðherra Norðurlanda var haldinn í Reykjavík á mánudag og þriðju- dag og var að honum loknum birt tilkynning um störf fund- arins. Segir þar m. a.: Rædd voru sameiginleg áhugamál, einkum málefni þau, sem tekin verða fyrir á 9. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, og var rætt um ýmsar kosningar, er þar eiga að fara fram. Ráðherr- arnir voru ásáttir um að styðja viðleitni í þá átt að auka tölu þátttökuríkja í Sameinuðu þjóð- unum. Einnig voru þeir sam- mála um, að æskilegt væri að Pekingstjórnin tæki áður en langt um liði sæti Kína hjá Sam- einuðu þjóðunum. — Að því er snertir umræður þær, sem fram eiga að fara innan Sameinuðu þjóðanna um stofnskrána, varð samkomulag um, að sérstökum nefndum í hverju landi um sig, yrði falið að skýra hinar ýmsu hliðar málsins og undirbúa sam- eiginlega norræna afstöðu. Að boði norsku ríkisstjórnarinnar verður næsti reglulegi utanríkis ráðherrafundur Norðurlanda haldinn í Osló vorið 1955. Fundinn sátu utanríkisráð- herrar Danmerkur, íslands og Noregs, og forstjóri sænska utan ríkisráðuneytisins, þar eð sænski utanríkisráðherrann átti ekki heimangengt sjálfur. ☆ Ólafur Thors forsætisráðherra kom í vikunni heim frá útlönd- um, en hann hafði dvalist á Norðurlöndum, í Frakklandi og Englandi frá því að fundi Norð- urlandaráðsins lauk í Osló. For- sætisráðherrann sagði nokkur orð í útvarpið á fimmtudaginn um samþykkt Norðurlandaráðs- ins varðandi friðunarráðstafanir íslendinga á fiskimiðum um- hverfis landið, og sagðist þá m. a. telja rétt að vekja athygli á því, að enda þótt íslendingar fagni því að eiga þess kost að ræða í Evrópuráðinu löndunarbann brezkra útgerðarmanna og skýra málstað vorn, telji þeir að sjálf- sögðu Evrópuráðið ekki réttan aðila til að dæma um lögmæti friðunarráðstafana vorra heldur Haagdómstólinn. Með samþykkt Norðurlandaráðsins hefir m. a. það unnist, að Norðmenn, Danir og Svíar hafa skuldbundið sig til að fylgja þeirri skoðun Is- lendinga. ☆ Á þriðjudaginn var undirritað- ur í Reykjavík nýr viðskipta- og greiðslusamningur milli Is- lands og Tékkóslóvakíu og er gildistími hans til 31. ágúst 1957, en vörulistar, sem jafnframt var samið um, gilda í eitt ár. Gert er ráð fyrir sölu til Tékkóslóvakíu á frystum fiskflökum, frystri síld, saltsíld, fiskimjöli og fleiri vörum, en að þaðan verði keypt m. a. vefnaðarvara, járn og stál, skófatnaður, bifreiðar, glervörur, sykur og pappírsvörur. Áætlað er, að viðskipti landanna aukist verulega frá því sem verið hef- ir á undanförnum árum. ☆ Á mánudaginn var opnuð í Skálholti steinkista Páls biskups Jónssonar, er biskup var í Skál- holti frá 1195 til 1211, en kista þessi fannst fyrir skömmu við gröft í dómkirkjugrunninum. Þóttist Þjóðminjavörður og þeir aðrir, er að rannsóknunum vinna þegar vita að þetta væri stein- kista Páls biskups, því að frá því er sagt í sögu hans, að hann lét gera steinþró ágæta haglega. Það kom og í Ijós að í kistunni voru bein biskups. Kistan var höggvin eða holuð innan úr heilum móbergskletti, og hella yfir. Hellan var sprungin á tveimur stöðum. Þegar lok þetta var hafið af kistunni, kom í ljós höfuðkúpa gulnuð af elli, leggir og fleiri bein, og til fóta í kist- unni var beinamusl líkt og brunnin bein væru. Þykir sýnt, að áður hafi kistan verið opnuð, en eigi er vitað hvenær það hefir verið gert, eða hvaða bein það eru, sem liggja þar til fóta. Við hægri öxl biskups lá biskups- stafur, lítill og mjög fagurlega skorinn húnninn, og hefir stafur þessi verið 123 sentimetrar á lengd. Ekki fannst annað gripa í kirkjunni, en menn höfðu gert sér vonir um að þar kynni að finnast vígsluhringur biskups. Engin mold var í kistunni og beinin svo vel varðveitt, að talið er, að menn geti af þeim gert sér glögga grein fyrir hæð biskups og höfuðlagi. — Þjóð- minjavörður telur þennan fund hinn merkasta og er það eitt, að ekki hefir fundizt hér áður biskupsstafur úr katólskum sið. ☆ Samið var um það í maímán- uði s.l. að íslenzkir verktakar, samþykktir af íslenzku ríkis- stjórninni, skyldu framkvæma allar varnarliðsframkvæmdir hér á landi, sem væru á þeirra færi, og samkvæmt þessu hefir utanríkisráðuneytið beitt sér fyrir stofnun verktakafélags, sem mun hafa á hendi slíkar framkvæmdir í framtíðinni. Fé- lag þetta heitir íslenzkir aðal- verktakar, sameignarfélag. Sam- eigendur félagsins eru Ríkis- sjóður að einum fjórða hluta, Reginn h.f. að einum fjórða og Sameinaðir verktakar að helm- ingi. Formaður stjórnar Is- lenzkra aðalverktaka er Helgi Bergs verkfræðingur. Samkomu- lag varð um það milli ríkis- stjórna Islands og Bandaríkj- anna að koma á stofn æfingar- námskeiðum í þeim tilgangi að æfa íslenzka menn í að fara með og halda við stórvirkum vinnu- vélum í þeim tilgangi m. a. að gera íslendinga sem færasta um að taka að sér framkvæmdir á vegum varnarliðsins. Mun þessi tæknikunnátta einnig koma sér vel á ýmsum öðrum sviðum. — Þegar hefir verið ákveðið að senda allmarga íslendinga til stuttrar dvalar við tæknistörf í Bandaríkjunum. Einnig munu hefjast æfingar hér á landi. Ætlunin er, að unnið verði að vegagerð ofan við Hafnarfjörð með stórvirkum vinnuvélum til þess að beina hinni miklu um- ferð út úr Hafnarfjarðarkaup- stað. ☆ Hin nýja Þverárvirkjun í Strandasýslu, sem tók til starfa í desembermánuði s.l., var form- lega opnuð í gær. Lýsti Stein- grímur Steinþórsson raforku- málaráðherra yfir því, að stöðin væri tekin í notkun. Viðstaddir voru ýmsir forráðamenn Stranda sýslu, þingmaður kjördæmisins og þeir, sem verkinu stjórnuðu. Framkvæmdir við Þverárvirkj- un við Hólmavík hófust haustið 1951 og hafa verið virkjuð 500 kílóvött, en hægt er að bæta við vélasamstæðu, svo að orku- vinnslan tvöfaldist. í fyrra voru lagðar háspennulínur til Hólma- víkur og tveggja sveitabæja og lagt- nýtt innanbæjarkerfi á Hólmavík. Kostnaður við virkj- un þessa hefir numið 5 miljónum 856 þúsund krónum, og er á- ætlað að 500 kílóvatta viðbótar- vél ásamt húsi muni kosta hálfa aðra miljón króna. ☆ Á þessu ári verður lokið við stækkun Landsímahússins í Reykjavík, og er ætlast til þess, að sjálfvirka stöðin í Reykjavík verði fyrst um sinn stækkuð um 3000 númer, og í framhaldi þess verði reist undirstöð með 3000 númerum í Sogamýri við Suður- landsbraut og byrjað á því verki á næsta ári. Símanotendur í Reykjavík og Ilafnarfirði eru nú um 11.000, en fjögur til fimm þúsund eru á biðlista. Sjálfvirka símastöðin á Akureyri verður einnig stækkuð úr 1000 í 1500 númer, og verður þeirri stækk- un loþið seint á þessu ári. — Margir sveitasímar voru lagðir í sumar, og hafa nú rúmlega 80 af hundraði allra sveitabæja á landinu síma. ☆ Aðalfundur Stéttarsambands bænda var haldinn í gær og í fyrradag að Laugum í Reykja- dal. Var þar m. a. samþykkt á- lyktun þess efnis, að fundurinn telji, að rafvæðingu sveitanna eigi að vera lokið innan 10 ára. ☆ Reknetaveiðin hefir verið all- misjöfn að undanförnu og síldin sem veiðist misjafnlega stór. Um helgina, sem leið, hafði verið saltað í 5000 tunnur sunnan- lands. Nokkrir togarar veiða nú fyrir Þýzkalandsmarkað og seldi hinn fyrsti í Þýzkalandi í gær fyrir rúmlega 70.000 mörk, og var það lágt verð. Næsti togari selur þar á morgun. — Samn- inganefndir í kjaradeilu útgerð- armanna togaranna og sjómanna hafa setið á samningafundum, en ekki hefir verið tilkynnt, að samkomulag hafi náðst. ☆ Á sunnudaginn var opnuð í Listasafni ríkisins sýning á norskri nútímalist, fyrsta norska listsýningin, sem haldin er hér á landi, en hún er haldin í boði íslenzku ríkisstjórnarinnar. Áður var haldin sýning í Noregi á verkum íslenzkra listamanna. Fjöldi gesta var viðstaddur, er sýningin var opnuð, og flutti Valtýr Stefánsson formaður Menntamálaráðs ávarp, — en Menntamálaráð sá um undirbún- ing sýningarinnar hér. Því næst flutti Halvard Lange utanríkis- ráðherra Noregs ávarp, og Bjarni Benediktsson menntamálaráð- herra flutti ræðu og lýsti sýn- inguna opnaða almenningi. — Þarna eru sýnd 220 verk eftir nú lifandi norska listamenn, mál- verk, vatnslitamyndir, teikning- ar og höggmyndir. Sýningin hefir verið fjölsótt. ☆ Önnur sýning var opnuð í húsakynnum Þjóðminjasansins í gær. Bókasýning, sem British Council og félagið Anglía standa að. Þar er til sýnis mikill jöldi bóka, sem gefinn hefir verið út í Bretlandi eftir 1950, en auk þess allmargar bækur, er sýna prent- list og fagra bókagerð í Eng- landi síðustu 200 árin, og hafa þær bækur þegar verið sýndar í mörgum löndum. Þegar sýningin var opnuð töluðu þeir James T. Henderson sendiherra Breta á Is- landi, Bjarni Benediktsson menntamálaráðherra, og Hall- grímur Fr. Hallgrímsson for- maður Anglíu. ☆ Aðalfundur Prestafélags Suð- urlands var haldinn í Haukadal og Skálholti um helgina og sóttu hann 20 prestar ásamt biskupi landsins. Fundurinn lýsti yfir þeirri skoðun sinni, að leggja beri áherzlu á það, að hin nýja kirkja, sem áformað er að reisa í Skálholti, fái í megindráttum svipmót þeirrar dómkirkju, sem áður var á staðnum. Einnig æskti fundurinn þess, að Skálholt verði biskupssetur að nýju, og kaus nefnd til þess að athuga í samráði við biskup, hvernig því megi bezt verða fyrirkomið. ☆ í ágústmánuði s.l ferðuðust 1553 farþegar með flugvélum Loftleiða. Vegna mikilla anna þurfti félagið að hafa eina auka- ferð í mánuðinum. Afráðið er, að tvær eða þrjár aukaferðir verði farnar í þessum mánuði til viðbótar hinum föstu áætlunar- ferðum félagsins. ☆ Nýlega er komin til Reykja- víkur sendinefnd á vegum fé- lagsins Menningartengsla Js- lands og Ráðstjórnarríkjanna, og eru í nefndinni nokkrir lista- menn, m. a. píanóleikarinn Tamara Guséva, cellóleikarinn Rostropovitjs og danspar frá Bolshoi-leikhúsinu í Moskvu. Listamenn þessir skemmtu í Þjóðleikhúsinu ásamt íslenzkum listamönnum á miðvikudaginn var, og í fyrrakvöld í Austur- bæjarbíó, er fjórða ráðstefna Menningartengsla Islands og Sovétríkjanna var sett þar. — Meðal þessara gesta er leikstjóri sá, er setja mun á svið í Moskvu hið nýja leikrit Halldórs Lax- nes, Silfurtunglið. ☆ Opnuð hefir verið í Reykjavík sýning á málverkum eftir Gunn- laug Scheving listmálara. Félag í s 1 e n,z k r a myndlistarmanna stendur að sýningunni og heldur hana í tilefni 50 ára afmælis listamannsins. ☆ Karlakórinn Fóstbræður er nu á ferðalagi á meginlandi Evrópu, söng hann á fimmtudagskvöldið í Lubeck og kvöldið eftir í Ham- borg, og hlaut þar mjög góðar viðtökur. Söngstjóri er Jón Þórarinsson. ☆ Sex íslenzkir skákmenn, sem keppa á alþjóðamótinu í Hol- landi, eru komnir til Amster- dam fyrir nokkru. Þeir lentu i riðli með Grikklandi, Ráðstjórn- arríkjunum, Hollandi, Finnlandi og Austurríki. Þeir keppa i fyrstu umferðinni við Hollend- inga. ☆ Knattspyrnumennirnir f r a Akranesi, sem nú eru á ferð i Þýzkalandi, kepptu um daginn í Hannover við Þýzkalandsmeist- arana, og varð jafntefli, eitt mark gegn einu. 1 gær kepptu þeir við úrvalslið úr Neðra- Saxlandi og töpuðu með þremur mörkum gegn sjö. ☆ í dag keppir bandaríski hlaup- arinn Mal Whitfield í 400 metra hlaupi á íþróttavellinum 1 Reykjavík. ítalir fara í dýpsto hellinn Ætla að setja með í neðan- jarðargöngu HÓPUR fullhuga vinnur að því í Lessini-fjöllum að kanna helli, sem talinn er hinn dýpsti i heimi. Er hér um 2ja manna hóp að ræða — 23 karlar og ung stúlka — sem ætla rað fara ofan í Pretahellinn, en menn ætla, að hann sé enn dýpri en Pierre St. Martin-hellirinn í Pyrenea-fjöll- um, sem Frakkar og Spánverjar fóru ofan í árið 1952, þegar þeir settu met að þessu leyti, og foru ofan í 2159 feta dýpi. ítalir telja» að Preta-hellir sé dýpri, og ætla að ganga úr skugga um það 3 næstunni. Undirbúningur leiðangursins hefir gengið illa, því að veður hefir verið mjög slæmt í Lessim- fjöllum, meira að segja svo slæmt í nótt, að eitt tjaldanna sleit upp í veðrinu, en aðalbæki- stöðvar hafa þegar verið reistar neðanjarðar eða í 1184 feta dýpi> og sumir leiðangursmanna hafa kannað hellinn vandlega þanga® niður og heldur lengra, svo og hliðarganga. Hefir herinn lánað ýmsan útbúnað til þess og einnig sveit hermanna, sem er með til öryggis. Foringi leiðangursins er dr' Walter Maucci, sem er í stjórn náttúrufræðifélagsins ítalska. Var ráðizt í leiðangurinn til fagna göngu ítala á K-2, Godwin Austen, annan hæsta tind jarðar, og er gert ráð fyrir að hann taki alls 20 daga. Árið 1927 var gerður út lei®' angur ofan í Preta-hellinn. Kom- ust allir leiðangursmenn í feta dýpi, en foringinn fór einn ofan í 2090 feta dýpi. .. (Frakkar gera nú tilraun ti að ná upp líki hellnafræðingsi0® Loubens, sem hrapaði til bana Pyrena-hellinum fyrir tveim árum). Síðustu jréttir: Leiðangur Mauccis er kominn í 1600 feta dýpi. , . —VÍSIR, 13- ágnst

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.