Lögberg - 11.11.1954, Blaðsíða 6
6
......' '
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
! DALALÍF
^— —r
„En þú gætir séð hann oft, og það skyldi fara vel um hann“,
sagði Anna og svipur hennar dapraðist. Handleggirnir röknuðu
utan af hálsinum á Þóru. Henni létti ósegjanlega mikið við það.
Hún stóð upp, því að hér var ekki hægt að sitja lengur. Hún
óskaði, að hún væri- komin heim. Ef hún hefði látið skíra hann
heima, eins og hin börnin, þá hefði þetta líklega aldrei komið
fyrir. Hún sá gleðiblikið dvína í augum Önnu, en vonbrigðasvip
bregða fyrir í staðinn. Þá var það Jón, sem kom henni til hjálpar.
Líklega hafði hann verið einhvers staðar þar, sem hann hafði
heyrt á tal þeirra. Hann lagði handlegginn utan um konu sína og
kyssti hana á kinnina. /
„Við skulum ekki tala meira um þetta, góða mín“, sagði hann.
„Það er engin von til þess að hún láti drenginn verða jeftir. Ég
man, að mamma sáluga sagði það oft, að það væri ekki eðlilegt,
að nokkur móðir gæti látið frá sér barnið sitt, ef hún hefði nokkur
ráð með að hafa það hjá sér. Ef við tökum fósturbarn, þá er bezt,
að það sé foreldralaust. En svo náttúrlega eignumst við bráðum
svolítinn barnunga. Það er allt of snemmt, að örvænta um það,
meðan þú ert ekki orðin þrítug“.
Anna leit á sofandi barnið í rúminu.
„Hann er svo laglegur, og hárið á honum er alveg eins og á
honum Jakobi mínum“, sagði hún döpur.
„Það verður rautt með tímanum eins og á Friðriki. Hann var
svona bjarthærður á fyrsta árinu“, flýtti Þóra sér að segja. Aldrei
hafði henni dottið í hug, að hún myndi grípa til rauða hársins
eins og hjálparhríslu í svimandi fallhæð.
Sigurður beið úti eftir konu sinni og börnum. Hann var ekkert
hissa, þó að hún kæmi ekki strax. En hún kom fyrr en hann átti
von á, og rétti honum sama böggulinn, sem hann hafði borið til
kirkjunnar. Hann átti svo sem að fá að halda á honum heim aftur.
Ekki var þá dálætið svo mikið hjá henni á þessum Nautaflata-
hjónum, að hún tryði þeim fyrir krakkanum. Þó færi ólíkt betur
um hann hjá þeim en heima. Hann var nú farinn að líta ná-
grannana öðrum augum en fyrsta árið. En það tjáði lítið að tala
um það. Hún varð að fá að ráða, konan sú, ef vel átti að fara.
Hann kvaddi því, og fór með strákangann í fanginu. Þóra kvaddi
önnu í bæjardyrunum. Hún var ekki vel ánægð á svipinn. Það
eru engin eftirlætisbörn, þeagr þau fá ekki óskir sínar uppfylltar.
Þóra gat ekki ásakað sjálfa sig, en samt þótti henni það leiðinlegt.
Jón fylgdi henni út í traðirnar, þar sem riðið var úr hlaði. Það
var alsiða að fylgjast með góðum gestum og bíða, meðan þeir
stigu á bak og óska þeim góðrar ferðar. En þó að Þóra og börn
hennar væru gangandi, var víst ekkert á móti því að fylgja þeim
úr garði. Þóra rétti honum hendina í kveðjuskyni. Hann tók þétt í
hönd henni og lagði vinstri lófann yfir handarbakið. Hún dró
,ekki til sín höndina, jafnvel þótt hún þættist vita, að eiginkonan
stæði í dyrunum og horfði á þau, og sunnar á hlaðinu var Ketil-
ríður á tali við gamla grannkonu sína utan úr dalnum. Varla
mundi það fara fram hjá henni.
„Þú mátt ekki álíta“, sagði hún innilega, „að ég trúi ykkur
ekki fyrir barninu. Þvert á móti vildi ég hvergi eiga börnin mín
annars staðar en hérna. En það hefði orðið þung ganga fyrir mig
heim, ef hann hefði ekki verið með“.
Hann þrýsti lófanum fastar að hönd hennar og sagði:
„Ég skil þig, vinkona. Ég held, að ég hafi aldrei séð það fyrr
en í dag, hversu sterk og mikil kona þú ert“.
Hún var allt í einu orðin eitthvað svo meyr og viðkvæm.
Líklega var það þetta hlýja handaband, sem kom henni til að
segja það, sem hana iðraði.
„Já, ég vona, að þú skiljir mig. Börnin eru mér allt“, sagði
hún. „En ef svo færi, að ég yrði tekin frá þeim, ætla ég að biðja
þig að reynast þeim vel. Þá verða þau algerlega munaðarlaus“.
„Auðvitað tek ég þau öll, því að varla verða þau orðin svo
mörg, að þau komist ekki fyrir í bænum“, sagði hann og var nú
orðinn kátur og gáskafullur eins og hann var vanur. „En mér
þykir ólíklegt, að þú verðir á undan. Trúlegra þætti mér, að ég
yrði búinn að hálsbrjóta mig áður af einhverri ótemjunni, þegar
ég hef fengið mér heldur mikið „neðan í því“.“
„Það verður nú aldrei, að þú sitjir ekki hest“, sagði hún
hressari og sleit handabandið.
Krakkarnir kvöddu og Þóra hraðaði sér á eftir manni sínum,
sem var kominn spölkorn út fyrir túnið. Þá sá hún fljótlega, hvað
sér hafði orðið á. Hún hafði óviljandi flett ofan af því, sem hún
hafði alltaf reynt að hylja. Játað það, að maður sinn væri börnun-
um ekkert. Það var ekki laust við, að henni fyndist hún hafa gert
honum rangt til. Hver gat vitað það, hvernig honum færist við
börnin, ef hennar vissti við?
Björn vakti hana af þessu hugsanagrufli.
„Ætlar hann að taka okkur öll til sín?“ spurði hann áfjáður.
„Ætl^r hann að taka okkur öll til sín?“ bergmálaði Friðirk.
„Betra er belgur en barn“, hugsaði Þóra.
„Nei, nei, hann var bara að segja það að gamni sínu. Þið
skuluð ekkert tala um það, svo að pabbi ykkar heyri“.
„Ég heyrði hann segja það“, sagði Björn.
„Ég heyrði hann líka segja það“, staglaði Friðrik.
Þau náðu Sigurði við merkjalækinn. Þóra bauð Sigurði að
bera drenginn ögn, en hann neitaði því stuttlega. Eftir það var
ekkert talað nema það, sem bræðurnir töluðu um sín á milli.
Þeir höfðu séð margt þennan dag, og þurftu að fá útskýringar á
því hjá mÖmmu sinni.
Sigurður lagði drenginn hálf hranalega frá sér í rúmið, þegar
heim kom.
„Það er skárra hlassið hann er orðinn, þessi strákur“, sagði
hann og blés hálf þreytulega.
„Ójá, hann sígur þó nokkuð í“, sagði móðir hans dálítið
hreykin.
„Það hefði sparað okkur að taka kaupakonu í sumar, ef þú
hefðir þegið það, að hann yrði eftir“, sagði hann eftir að hafa
ranglað aftur og fram um gólfið dágóða stund.
„Við erum ekki svo fátæk ennþá, að við getum ekki borgað
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 11. NÓVEMBER 1954
kaupakonu“7 sagði Þóra. Hún hafði átt von á þessu. „Það þarf nú
líka að gera fleira í bænum en hugsa um hann“.
„Það man ég, að fátækar konur þarna úti á Ströndinni komu
yngsta krakkanum fyrir um sláttinn, svo að þær gætu gengið út“,
nöldraði Sigurður.
„Það kemur mér ekkert við, hvað þær hafa orðið að gera“,
sagði hún. „Ég veit bara, að ég geri það ekki á meðan ég hef
önnur ráð. Mér hefði sjálfsagt ekki orðið svefnsamt í nótt, með
brjóstin full af mjólk, en hugsa til hans grátandi hjá ókunnugum,
alltaf að leita að brjóstinu“.
„O, ég held hann hefði ekki skælt mikið“, sagði Sigurður.
„Ég held, að Önnu hafi bara mislíkað það“, bætti hann við.
„Það getur verið^, sagði Þóra. „En hitt veit ég líka, að hún
hefði fljótlega orðið leið á að hugsa um hann, ef hann hefði orðið
óspakur“.
Svo bætti hún við, og talaði talsvert hærra: „Ég sé ekki,
að það sé mín skylda, að láta hana hafa barn. Svo þykir líklegt, að
hjón, sem eru búin að eiga þrjú börn, geti bætt við því fjórða
og fimmta“.
„Það er nú búið að sýna sig, hvernig það gengur“, sagði
Sigurður og var nú orðinn ánægður á svipinn. „Þau fæðast veik
og fara strax í gröfina. Það er sjálfsagt henni að kenna, þessum
pappírsbúk. Þetta er engin manneskja. Ég get ekki láð Jóni það,
þó að hann skrölti eitthvað utan hjá“.
„Hann gerir það víst ekki, býst ég við“, sagði Þóra alveg
hissa. Svona var Sigurður óvanur að tala. Nú hló hann bara:
„Þú ættir að heyra hvað sjómennirnir segja. En ég hef ekki
viljað segja þér það. Þig tekur alltaf svo sárt til hans“.
„Því hefur lengi verið við brugðið, sjómannaskrafinu. Jón
hefur heldur aldrei farið varhluta af slúðrinu“, sagði Þóra og fór
að klæða sig úr sparifötunum, og sneri sér undan birtunni, svo
að Sigurður sæi ekki hvað hún var rauð í framan. Hún fann það,
þó að hún sæi það ekki.
„Nú, jæja“, sagði Sigurður, og var nú allur kominn að sínum
venjulega verkahring. „Gott væri að fá eitthvað að borða. Ég þarf
að fara að bunka torfinu senni partinn.
„Geturðu nú ekki unnt þér hvíldar einn dag?“ sagði Þóra
ánægð yfir því, að hætt var að minnast á sjómannaskrafið. „Þú
getur aldrei verið öðruvísi en þrælandi“.
„Ojæja, lífið heimtar þetta“, sagði hann. „Þær eru víst ekki
margar, hvíldarstundirnar þínar heldur, og samt tímirðu ekki að
sjá af einum krakkanna; það hefði þó verið léttir fyrir þig“.
„Það munar ekki mikið um hann, elsku stúfinn minn“, sagði
hún í gæluróm. Þeir foreldrar, sem telja eftir sér að hugsa um
börnin sín, þurfa ekki að vonast eftir miklu af þeim, þegar þau eru
sjálf orðin vesalingar“.
„Það er bezt, að vera ekki að hugsa svo langt fram í tímann“,
sagði hann og fór að klæða sig úr sparifötunum.
Næsta sunnudag reið Þóra fram að Nautaflötum. Hún hafði
verið hálfeyðilögð yfir því alla vikuna, að hugsa til þess, að Anna
væri óánægð við sig.
En nú lá prýðilega á Önnu. Hún minntist ekki á drenginn.
Allur hugur hennar var bundinn við ákaflega fallegt slifsi, sem
maður hennar hafði gefið henni kvöldið áður. Slíkur dýrgripur
var fáséður. En hún trúði Þóru fyrir því, að hann hefði verið
óskemmtilega mikið kenndur, en hún hefði mátt til með að fyrir-
gefa honum það, fyrst að hann hefði komið með þetta slifsi. Þóra
reið heim í ágætu skapi.
I seinustu viku af Þorra fór að snjóa enn á ný. Það hlóð niður
nótt og dag. Alltaf kom nýr snjór áður en hinn gat sigið. Enginn
maður sást á ferð öðruvísi en á skíðum. Það voru byggð löng snjó-
göng frá öllum dyrum, sem um þurfti að ganga, og upp úr göng-
unum voru margar tröppur. Stórir flekar voru lagðir yfir vatns-
bólin og fötunum rennt niður í þau með kaðalspotta eða snæri,
sem bundið var um hölduna.
Jakob og Dí^ voru allan daginn úti á skíðum. Jakob sagði,
að Dísa yrði aldrei skíðakona, hún væri alltaf á rassinum, ef ein-
hver halli yrði á veginum. Sjálfur gat hann rennt sér hæst ofan
úr fjalli og niður að á. Dísa sagði, að það væri bara af því að hann
ætti svo góð skíði.
Svo kom allt í einu hlákubloti, svo að snjórinn seig saman, og
eftir eina frostnótt var skíðafærið horfið, en komin glerhál skán
ofan á fönnina. En þá voru teknir út dálitlir sleðar. Á þeim var
gaman að renna sér. Rétt á eftir þiðnaði aftur og gerði logndrífu.
Þá var eiginlega ekkert hægt að gera sér til gamans, kvartaði
Jakob.
Þórður var svo kátur um þessar mundir, að hann tók þátt í
leikjum krakkanna, þó að nóg væri annað að gera. Hann sýndi
þeim hvernig hægt væri að hnoða snjóbolta, og sagði þeim til við
að hlaða kerlingu. Jakobi fannst skemmtilegra að eiga við boltana.
Hann fór kippkorn upp í fjallið og lét snjóbolta velta niður á jafn-
sléttu. Þá voru þeir orðnir að stærðar snjóstykki. Þetta var reglu-
lega gaman. Grundirnar fyrir utan túnið voru orðnar þéttsettar
af snjókúlum.
Eitt kvöldið kom Björn litli í Hvammi. Hann varð hissa á
þessu. „Hver hefur kennt þér þetta?“ spurði hann.
„Þórður gerði það“, svaraði Jakob.
„Ég skal svei mér gera þetta, þegar ég kem heim“, sagði
Björn. Hann afhenti Jakobi bréf til föður hans og hélt svo heim-
leiðis. Hann mátti aldrei vera að því að stanza, þó að hann langaði
til þess, því að margt átti Jakob, sem gaman var að sjá og hand-
leika. Hann átti skauta, og hann átti sltíði. Það voru óþekktir
gripir í eigu Hvammsbræðra. Jakob hafði einu sinni gefið þeim
lítinn sleða. Það var það eina, sem þeir gátu skempit sér við. En
að búa til svona snjóbolta það var vel hægt, enda voru nokkrir
komnir á mýrina fyrir neðan túnið næsta morgun.
„Hvaða uppátæki er nú þetta?“ sagði Sigurður við syni sína.
„Þið verðið víst þokkalegir úr þessu. Hvaða börn, nema þið,
skyldu leika sér svona?“
Björn var fljótur til svars: „ Jakob á Nautaflötum gerir
svona“. Það var ólíklegt, að hann væri að finna að því, sem
Jakob gerði.
„Nú, einmitt það“, sagði Sigurður. „Ég hélt, að mamma ykkar
hefði annað að gera en þurrka fötin ykkar, þegar þið atist svona í
snjónum. En það er sjálfsagt ágætt, fyrst það er þaðan upprunnið“.
Hann gat ekki losnað við þá þykkju, sem hann fann til yfir
þeirri aðdáun, sem kona hans hafði á ölld, er tilheyrði því heimili.
Sífellt var verið að áminna drengina um, að líkjast Jakobi, því
að hann væri svo góður. Ef drengurinn kom, sem sjaldan var, tók
hún honum eins og hann væri kóngssonur.
Björn litli hafði fáar frístundir. Hann varð að vinna það, sem
litlu kraftarnir leyfðu, bæði utan bæjar og innan; en samt fjölgaði
snjóboltunum í mýrinni. Eitt kvöldið í rökkrinu komu synir
Erlendar á Hóli í forvitnisferð. Þeir höfðu séð, að eitthvað nýstár-
legt var við .mýrina; og þeir ráðgerðu að koma svona löguðu i
framkvæmd hjá sér. En Sigurður var alltaf úrillur út í þennan
þarflausa leik sona sinna.
„Geturðu ekki látið þá hjálpa þér eitthvað, heldur en að þeir
láti svona með þessa snjódrymbi?“ spurði hann konu sína. Hann
þóttist vita, að nóg væri til að gera, enginn kvenmaður á heimilinu,
utan hún, sem var alveg komin að því að leggjast á sæng að
fimmta barninu.
„Þær eru ekki margar frístundirnar þeirra. Þeir mega eiga
þessa“, svaraði hún venjulega.
Nokkrum dögum seinna var Björn sendur fram á merki eftir
ánum. Þeim hafði verið leyft að hlaupa fram grundirnar til að
viðra sig. En nú langaði Björn óumræðilega mikið til að sjá hvað
boltarnir væru orðnir margir hjá Jakobi. Hann hvatti því sporið.
Það var ekki sérlega langt fram á grundirnar. Hann hljóp fram
eftir, og gleymdi því alveg, að annað hnéð var út úr buxunum,
þar til hann sá, hvað Jakob var vel uppábúinn, í kápu og háum
snjósokkum. En boltarnir voru orðnir fjölda margir. Allt var svo
margt og stórt á Nautaflötum, hugsaði drengurinn. Það voru fleirf
en þau Jakob og Dísa þarna frammi á grundinni. Jón hreppstjori
var þar sjálfur. Hann hafði látið það eftir syni sínum, að velta
tveim snjóboltum alla leið niður að á. Þar sátu þeir eins og
stærðar heysátur, hvítar að lit. Jakob var himinlifandi yfir þessu.
Björn var alveg hissa. Hvað skyldi faðir hans segja, ef hann færi
að biðja hann að velta snjóboltum? hugsaði hann. Jakob átti víst
miklu betri pabba en hann. Hann hafði líka tvo vinnumenn, og
þurfti því ekki að vinna eins mikið og pabbi hans. Jakob þurfti
heldur aldrei að gefa kúnum og moka flórinn, en það var vanaverk
Björns litla. Hann átti miklu betra en hann, það hafði hann séð
fyrir löngu síðan.
Björn var að snúa heim á leið, þegar Jón kom til þeirra.
„Þú hlýtur að geta sagt okkur einhverjar fréttir fyrst þu
komst?“ sagði Jón.
„Ég átti ekkert erindi“, sagði Björn hálf vandræðalegur yfir
því, hvernig hnéð leit út. „Mig langaði bara’ til að sjá, hvað
boltarnir væru orðnir margir. En ég segi engar fréttir, nema nú er
kominn lítill bróðir hjá okkur“.
„Það eru nú góðar fréttir. Þótti þér ekki vænt um það?“
„O-nei, mamma er í rúminu. Hún er víst eitthvað lasin.
Jóhanna yfirsetukona er hjá okkur núna. Hún veit ekkert og
finnur ekkert, er alltaf að kalla á mig og spyrja mig eftir, hvar
hlutir séu. Hún getur ekki einu sinni fundið saltið“, sagði dreng-
urinn dapurlega.
„En er ekki litli bróðir ákaflega fallegur og skemmtilegur?1
spurði Jón.
„Nei, mér finnst hann of lítill. Guð hefði átt að hafa hann
stærri og fallegri, fyrst hann fór að gefa mömmu hann. En hún
segir að hann fríkki“.
Þá fór Jón að hlæja svo mikið, að drengurinn hélt, að hann
hefði sagt einhverja vitleysu, og kvaddi því og hljóp heim á leið.
Það var engin skepna sjáanleg á merkjaholtinu, þar sem hann
hafði skilið við þær. Þær voru víst allar komnar heim. Nú matti
hann eiga von á ákúrum hjá föður sínum. Hann hljóp enn meira.
En ærnar voru víst allar komnar inn í hús. Faðir hans var við
ærhúsin. Björn fór nefsneiðing fyrir húsin, svo að hann sæi sig
síður, og hraðaði sér heim í skjólið til mömmu sinnar.
„Það var gott að þú komst“, sagði hún, þegar hann kom inn
úr dyrunum. „Bogi er alltaf að skæla. Friðrik getur ekki fundið
pelann hans, og hann er orðinn syfjaður“.
Bogi var nú orðinn tvævetur kútur, sem stóð volandi við rúm-
stokk móður sinnar. ann hafði þvegið sér í framan úr tárum
sínum með hálfóhreinum höndunum, og andlitið leit ekki sem
bezt út. Björn var fljótur að finna pelann og setja mjólk á hann.
Þar næst var að finna vatn og þurrku og þvo andlitið. Ekki jókst
ánægjan við það. En pelinn bætti það allt. Björn settist á koffort
við rúmstokkinn hjá mömmu sinni og raulaði við bróður sinn
þangað til hann var sofnaður. Hann var alvanur því að svæfa
hann. Þá fór Björn að segja mömmu sinni frá því, sem hann hafði
séð frammi á grundinni. Hann talaði samt ekkert um, að Jón hefði
hlegið að sér. Hann var hálfhræddur um, að það hefðu verið'
buxurnar, sem hann hló að, og ímyndaði sér, að mömmu sinni
leiddist það, að hann skyldi fara svona illa útlítandi á aðra bæi-
„Heldurðu að pabbi gerði þetta fyrir okkur, ef hann hefði
vinnumenn, sem gerðu í húsunum fyrir hann, að velta snjo-
boltum, eins og Jón gerir fyrir Jakob?“ spurði hann að lokinni
frásögn sinni.
„Ekki get ég nú ímyndað mér það?í‘ sagði móðir hans. „Ég er
ákaflega hrædd um, að hann gerði eitthvað annað áður“.
„Jón er víst barngóður“, hélt drengurinn áfram. „Hann var
að tala um litla bróður minn“.
„Hvað var hann að tala um hann?“ spurði Þóra, hálfkvíðandi
því, að þau færu enn á ný að tala um, að hún léti þeim eftir
barn til uppeldis.
„Hann var bara að spyrja eftir því, hvort hann væri ekki
fallegur, og hvort að mér þætti ekki vænt um hann“.
„Það er mikið, að þú ert kominn“, sagði Sigurður við son sinn,
þegar hann kom inn úr húsunum. „Hvað átti það að þýða að
svíkjast fram að Nautaflötum, þegar þú áttir að ná ánum. Reyndar
komu þær sjálfar heim, en það er sjálfsagt nóg til handa þér að
gera annað en að strjúka á bæi“.
Þóra svaraði fyrir son sinn: „Hann langaði til að sjá, hvað
Jakob væri búinn að hnoða marga snjóbolta“.
„Jú, það er ekki verið að telja eftir krókana, þegar það er að
fara fyrir sjálft sig, þetta dót. Hann lætur allt vitið í þessa
fjandans vitleysu. Gaztu þá ekki látið hann sækja fötin um leið?
„Því var nú ver, að ég vissi ekkert um ferðalag hans ,
sagði Þóra.
„Nei, það var ekki einu sinni hægt að hafa svo mikið gagn af
rápinu í honum“, sagði Sigurður ergilegur.
Anna Friðriksdóttir var vön að sauma smábarnafötin fyrir
Þóru. En í þetta sinn hafði hún ekki komið þeim til hennar nogn
snemma.
„Ég veit bara ekki hvernig við förum með litla manninn ,
sagði ljósmóðirin. „Nú þarf bráðum að fara að skipta á honum •
„Ég get hlaupið aftur“, sagði Björn litli.
„Þú ætlaðir að fara að þvo gólfið“, sagði mamma hans.
„Ætli ég verði þá ekki að skreppa fram eftir, þegar ég er
búinn að éta“, sagði Sigurður.