Lögberg - 30.12.1954, Page 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 30. DESEMBER 1954
J-- - V,
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
v- ----------r
„Nei, hann er farinn framhjá“.
Það var nú eins og vant var, gasprið í þessum krökkum,
hugsaði Þóra og leit til Línu. Hún kepptist við að tvinna það
seinasta af peysubandinu, þangað til mjaltatíminn var kominn, þá
fór hún út í fjósið.
Þóra leit á klukkuna. Eftir nokkrar mínútur fór hún sjálf að
búa sig til ferðar, lét sjal um höfuðið á sér, og bað mann sinn að
sitja fyrir framari hvítvoðunginn, svo að krakkarnir hentust ekki
upp í rúmið.
„Hvert ætlarðu, kona?“ spurði hann.
„Ég ætla út í fjós“.
„Láttu hann Björn fara með þér. Það er hált við fjósdyrnar“.
„Nei, nei, þess gerist engin þörf. Ég er orðin stálhraust, fór
ofan á tún í dag“. •
Lína var búin að mjóika kúna, þegar Þóra kom út í fjósið, og
byrjuð að brynna. Hún hafði áreiðanlega alltaf verið að verki.
„Lá þér svona mikið á mjólkinni?“ spurði hún, þegar hún sá
húsmóðurina birtast í dyrunum allt í einu.
Ónei, ég ætlaði bara að sjá kýrnar mínar, það er orðið svo langt
síðan ég hef komið til þeirra“, sagði Þóra og strauk kýrnar og
þuklaði þær, einkanlega þá, sem komin var að burði. „Skyldi hún
ekki fara að bera, svo að ég fái mjólk og smjör? Hún er alltaf
nokkuð langstæð, en það munar um hana, þegar hún ber. Finnst
þér hún ekki falleg, Lína? Heldurðu að það sé ekki gaman, að
eiga svona fallega kú?“
„Jú, það er áreiðanlega gaman. En þér má standa á sama, þó
að hún sé geld. Ketilríður sér um að þú hafir nóg smjör“, sagði
Lína og brosti þessu skrítna brosi.
„En ég er nú svoleiðis gerð, Lína mín, að ég vil heldur eiga
hvað eina sjálf, heldur en láta gefa mér það“.
„Máltækið segir, að allt sé gott gefins, þó að eitthvað verði
venjulega að þægjast fólki fyrir það“.
„Þú ert alltaf svo háðsk út í Ketilríði og smjörgjafirnar. Hvað
heldurðu að komi á eftir þeim, Lína mín?“
„Þú veizt það ósköp vel sjálf. Þú hefur víst ekki komið út í
fjósið til þess að sjá kýrnar, heldur til þess að gæta að því, hvort
ég væri einhvers staðar annars staðar en hérna. Ég fer nærri um
það, hvað Ketilríður var að hvíslast á við þig frammi í gær“,
sagði Lína.
„Jæja, það er þá bezt að tala saman í einlægni, fyrst þig
grunar sannleikann. Hreinir reikningar eru alltaf beztir. Hvað var
það, sem kom fyrir á Nautaflötum í vetur og orsakaði það, að þú
varðst að fara í burtu á miðju ári?“
„Kom fyrir?“ sagði Lína og kafroðnaði. „Mamma veiktist, og
ég varð að fara heim og hugsa um hana. Hverju laug Ketilríður
að hefði komið fyrir?“
„Hún sagði bara, að það hefði komið dálítið fyrir. Annað
sagði hún ekki. En ég þykist vita, að það hafi verið eitthvað, fyrst
þú fórst að ganga í burtu af öðru eins heimili“.
„Ég sagði þér það áðan, að mamma hefði veikzt“.
„Já, ég heyrði það. En vegna hvers fórstu þá ekki frameftir
aftur, þegar hún var orðin frísk, og þú vilt ekki vera þar næsta ár,
hjá kærastanum?“
Það varð dálítil þögn. Svo sagði Þóra: „Náttúrlega er þetta
eitthvað, sem mér kemur ekki við“.
„Ég gekk ekki í burtu“, sagði Lína og lét sem hún hefði ekki
heyrt það sem Þóra sagði, „heldur bað ég húsmóðurina að gefa
mér upp vistina, því að mér væri ómögulegt að vera lengur á
heimilinu vegna Ketilríðar. Hún laug upp á mig, og hún svívirti
mig í orðum. Ég gleymi víst aldrei orðbragðinu, sem hún hafði
við mig seinasta morguninn, sem ég var á Nautaflötum; og meira
að segja gat hún ekki í gær stillt sig um að sletta til mín, um leið
og hún kyssti mig þennan líka litla koss. Hún er svo voðaleg
manneskja, hún Ketilríður, að því getur enginn trúað, sem ekki
hefur verið henni samtíða. En ég átti góðan vin, sem ekki kærði
sig um, að ég lægi undir lyginni úr henni. Það var hann, sem
flutti mig burtu. Og þess vegna fer ég ekki aftur þangað, því að
Ketilríði verður aldrei hægt að koma í burtu, þó að allir á heimil-
inu þrái það, að hún fari“.
„Hún hefur alltaf fengið heldur bágan vitnisburð þar sem hún
hefur verið, konan sú“, sagði Þóra, en samt var hún jafn tor-
tryggin og áður. Það var ekkert að marka, þó að Lína hlypi ekki í
snöruna, fyrst hana grunaði, að búið væri að egna hana fyrir sig.
Hún gat verið jafnsek fyrir þessari varnarræðu.
Já“, sagði hún, „hún er víst vandræða manneskja. En mál-
tækið segir, að oft ratist kjöftugum satt á munn“.
„Já, það er líka máltæki sem segif, að það sé sjaldan svo lakur
að ljúga, að hinum leiðist að trúa. Ég hélt nú reyndar, að þú værir
ekki alveg eins auðtrúa og Anna, en það lætur vel í eyrum, sem er
einhverjum til vanheiðurs. Ketilríður hefur alltaf, frá því fyrst
hún kom að Nautaflötum, reynt að ljúga upp á Jón við Önnu, og
það svo, að hjónaband þeirra er orðið ólíkt því sem það var. En
við vinnufólkið hlustuðum ekki á það. Svo ætlar hún nú að fara
að reyna fyrir sér í nágrenninu11.
„Það þýðir nú lítið að fara að lýsa Jóni fyrir mér“, sagði Þóra.
„Ég er of kunnug honum til þess . . . .“
„Samt trúirðu“, greip Lína fram í.
„Ég sagði þér, að ég væri kunnug honum, og ég þekki bæði
það góða í fari hans, og einnig það, sem hinu tilheyrir. Þess vegna
datt mér í hug, að það kynni að leynast einhver sannleikur í rugli
hennar. En nú skulum við hætta þessu þrefi, Lína mín. Þú verður
ekki reið við mig, þó að ég færi að sletta mér fram í þetta“, sagði
Þóra brosandi.
Þær fylgdust að heim.
„Ég lofaði Önnu því, að þú skyldir fara það fyrsta, svo að
hún þurfi ekki að vera óróleg mín vegna“, sagði Þóra þegar þær
voru komnar heim að bæjardyrunum.
Lína hló köldum hæðnishlátri.
„Er hún ósköp óróleg? Neytir kannske hvorki svefns né matar?
Það væri átakanlegt, af hún vaknaði fyrir allar aldir á morgnana,
vegna þess að ég er á næsta bæ við hana. Ég held, að hún ætti að
reyna að loka bænum og standa við bæjarhurðina, svo að hún
missti hann ekki út í rökkrinu“.
Þóra greip seinasta orðið um leið og það var talað. „Því segirðu
„í rökkrinu?“ spurði hún.
„Er ekki venjulegt að nota myrkrið til „stefnumóta?“ sagði
Lína. „Gerðir þú það ekki, þegar þú varst á þeim árum?“
„Þú ferð héðan í fyrramálið“, sagði Þóra, ekki laus við þykkju.
Hún þoldi ekki þetta grálynda gaman. Þó að afbrýðisemi sé
venjulega lítið vorkennd, fannst henni eitthvað óviðfelldið við
tal Línu.
„Ég þvæ sjálfsagt þvottinn áður en ég fer. Varla fer ég að
skilja svo við þig, að þú þurfir að standa í stórþvotti næstu daga,
fyrir rækallans kjánaskapinn úr henni og ímyndunarveikina“,
sagði Lína.
Morguninn eftir tók Lína hverja spjör, sem óhrein var á
heimilinu, og bar hana fram í eldhús. Nú átti að þvo stóran þvott,
síðasta þvottinn á þessu heimili. Veðrið var kyrrt, en mikið frost.
„Það lítur ekki veltit með þurrkinn“, sagði Lína, „en ég fer
ekki fyrr en ég er búin að þurrka þvottinn, hvað sem tautar og
raular“. Það lá afar vel á henni.
Þóra hugsaði enn um það, hvað hún hefði verið alsæl, ef hún
hefði haft svona duglega vinnukonu állt árið. En nú þýddi ekki
að láta sér detta slíkt í hug, vegna Önnu. Það var ekki það fyrsta,
sem hún hafði orðið að láta ganga úr höndum sér fyrir þá konu.
Ef hún hefði ekki komið í leiksystkinahópinn, þá hefði hún sjálf
verið ríkasta kona sveitarinnar, og börnin hennar átt þann bezta
föður, sem hægt var að hugsa sér. En henni datt ekki í hug, hvorki
nú eða fyrr, að láta ekki að vilja hennar. Henni þótti vænt um
hana eins og systur, sem væri tíu árum yngri en hún. í hennar
augum var hún alltaf sígrátandi, munaðarlausa barnið, sem sjálf-
sagt var að láta allt eftir, svo að hún yrði ánægð. Þó*að það kæmi
fyrir, að hún öfundaði hana af hennar góðu ástæðum, og liti hana
smáum augum fyrir ódugnað og lítilmennsku, þá hvarf það alltaf
eins og dögg fyrir sólu, þegar hún sá hana og heyrði hennar sak-
lausu, barnslegu umræður og hugsunarhátt. Og hún hlakkaði til
þess, að geta fært henni þær fréttir, að grunur Jiennar væri
ástæðulaus. Hún vorkenndi einnig Línu, að hafa orðið fyrir þessari
rangsleitni.
Lína stóð við balann og þvoði ákaft, þegar Friðirk kom inn
til hennar og sagði, að nú kæmi Ketilríður hjá húsunum. „Hún er
alltaf svo lík myndunum af henni Grýlu í stafrófskverinu", bætti
hann við.
„Hún má koma“, sagði Lína. „Hún ríður varla feitum hesti
héðan í þetta sinn“. Hún var óvenju róleg. Nú var hún á förum
frá þessu öllu. Vonandi næði Ketilríður ekki til hennar oftar.
Ketilríður var komin í eldhúsdyrnar.
„Ójá, ekki kannske alveg iðjulaus, stúlkán sú. Skárri er það
nú þvotturinn, sem þú ert með. Þú hefur ekki sofið öll augun úr
höfði þér í morgun, og ætlar kannske ekki að fara frá öllu grút-
skítugu. Það er enginn einn, sem hefur þig. Sæl og blessuð heillin!“
Hún smellkyssti Línu. Svo hélt hún áfram: „Þú ert kannske að
hugsa um að ílengjast hérna? Mér skildist það á henni Þóru um
daginn, að hún gæti vel notað verkin þín, enda þakka ég henni
það ekki. Ég býst við, að sumum karlmönnunum hérna þætti
ekkert að því, að hafa þig hérna í nágrenninu“. Svo kleip hún
Línu svo fast í kinnina, að hana sárverkjaði.
„Ég ætla nú samt ekki að veita þeim þá ánægju“, sagði Lína
hlæjandi.
„Jæja, ekki það. Þitt var vitið meira, því að þú hefðir verið
drepin með þrældómi. Það er ekki fyrir jafnviljuga manneskju og
þig, að vera hjá þessum „klakaklárum“,“ sagði Ketilríður. „Mér
sýnist auk heldur drengja-peðlingarnir fá að játa sig, hvað þá
vandalausar hræður, enda vill engin manneskja vinna á þessu
heimili. Er maddaman sjálf sinni?“
„Já, hún er inni“, sagði Lína og brosti glettnislega, þegar
Ketilríður þrammaði til baðstofu. í þetta sinn færi hún hálfgerða
fýluför, það var hún viss um.
Hjónin og yngri börnin voru inni í baðstofu. Þóra var að
skipta á hvítvoðungnum. Ketilríður vermdi sig við eldavélina og
talaði um, að hann væri anzi kaldur, eftir að hafa heilsað með
sínum venjulega formála.
Sigurður þurfti að brjóta upp á einhverju umtalsefni við
gestinn, því að Þóra var öll í barninu. Hann byrjaði með því
að segja: »
„Ég hef frétt, að Siggi færi frá Nautaflötum í vor. Það er
kannske vitleysa?“
„Ég hef heyrt það líka, og ég er hrædd um, að það sé satt.
Kristján kaupmaður vill fá hann fyrir vinnumann. Strákurinn
vill heldur vera við sjó; það á við hann, að atast í slorinu og
óþverranum. Þetta er svoddan jarðvöðull. Þórdís mín þarf ekki
að sjá eftir honum af heimilinu og líklega fáir, nema Borghildur.
Það er nú eitt af hennar höldum. Þórður segir líka, að hann verði
aldrei fjármaður. Hann má nú trútt um tala, greyið, þó að hann
sé skítsokkur í aðra röndina, þá lætur honum vel fjármennskan'*.
„Já, Jón er lánsmaður meðan hann hefur Þórð við féð“,
sagði Sigurður.
„Ætli það sé ekki óþarfi, að hafa nokkurt „meðan“ við það.
Ég get ekki ímyndað mér, að þeir geti skilið, frekar en skarnið og
bleytan. Það er líkast því, að þeir séu saumaðir saman á bjórnum.
Það færi betur, að það yrði alltaf svo. Það hefur nú stundum farið
svo, að þessi mikli vinskapur endar dálítið snubbótt“, sagði Ketil-
ríður og hló kindarlega.
„En ef Þórður skyldi nú taka upp á því, að fara að gifta sig?“
greip Þóra fram í samtalið.
„O, blessuð vertu. Það er líklega engin hætta á því, að þeir
komi sér ekki saman um konuna eins og allt annað. Þær hafa þá
eitthvað að tala um, skrafskjóðurnar hérna í dalnum. Ég segi svo
ekki meira um það. Undirhyggjuskapurinn og hundstryggðin getur
gengið nokkuð langt“.
„Hverslags svo sem bölvað rósamálsþvaður er þetta?“ hugsaði
Sigurður og hafði sig í burtu. Hann var óvanur því, að hlusta á
bæjarslúður, maðurinn sá. „Hún hefur ekki mikið að gera, þessi
kerlingarálka“, sagði hann við Línu, „alltaf getur hún verið að
rápa á bæina með allslags vitleysisþvaður, sem enginn botnar
neitt í“.
„Hún er að reka erindi húsmóður sinnar“, sagði Lína.
Ekki skildi hann það betur, enda var það líklega eitthvað, sem
hann varðaði lítið um.
Ketilríður færði sig nær Þóru, þegar þær voru orðnar tvær
einar, og spurði hvort hún hefði orðið nokkurs vísari.
„Nei, það var eins og ég vissi ekkert annað en hugarburður
og hræðsla“, sagði Þóra hálf fálega. „Hann reið í einum spretti
hér fyrir neðan, eins og hann er vanur. Hún sat inni allt kvöldið
og spann eins og hún er vön. Ég vissi, að þetta gæti ekki átt sér
stað; hún er trúlofuð. Þetta stafar af veiklun Önnu, að henni
skuli detta þetta í hug“.
„Ég veit þó ekki betur en að hún sæi með sínum eigin al-
skyggnu augum eitthvað, sem hefur líklega ekki verið við-
kunnanlegt fyrir hana að horfa á. Hún heíur aldrei sagt mér hvað
það var. En ég talaði við Sigurlínu morguninn eftir. Ég býst við
að hún hafi skilið það, að það var mál en ekki matur, sem ég rétti
að henni. Þann dag fór hún í burtu, og hún kvaddi mig ekki einu
sinni, skepnan sú arna. En hvað hann snertir, þá vita það nú allir,
að hann hefur alla tíð verið bölvað „flæsi“, og er það líklega enn,
ef honum dettur það í hug“.
„Þó að honum hafi orðið eitthvað á í æsku, þá er það nú
gleymt. Og ekki er víst, að það hafi verið heilagur sannleikur“,
sagði Þóra fálega.
„Það ungur nemur gamall fremur“, sagði Ketilríður. „Hún er
líka svo óskaplega meinlaus og sáttfús við hann, aumingja konan.
Ég er nú stundum að segja við hana, að hún eigi að vera eins
„staffírug" og hún maddama Helga í Hraundölum. Hún vandi sinn
mann alveg af drykkjuskapnum með því einu, að vera nógu köld
við hann, þegar hann kom drukkinn heim“.
„Mér þykir ólíklegt, að Anna hlusti á svoleiðis ráðleggingar,
eða láti sér detta í hug, að hún geti beygt þann mann, sem aldrei
hefur þekkt annan vilja en sinn eiginn, og aldrei hefur látið
undan nokkrum manni“, sagði Þóra. „Ég held, að hún gæti alveg
eins sagt ánni, að rénna fram til heiða“.
„Ekki er ég nú á því“, sagði Ketilríður. „En hún þorir sig ekki
að hreyfa fyrir Borghildi. Þetta er eintómt samsæri á móti henni,
en með honum. Það er ómögulegt að hjálpa henni, þó maður vildi“.
„Það er þá nýtilkomið, ef hún er orðin hjálparþurfi á sínu
eigin heimili. Ég hef að minnsta kosti engan heyrt nefna það“,
sagði Þóra svo þurrlega, að Ketilríður hætti algerlega. Kaffið var
líka komið inn á borðið. Og Þóra kallaði til Línu, að koma inn
og fá sér kaffisopa.
Lína kom inn með hálfflösku í hendinni, nærri fulla af víni.
„Mig langar til að fá mér út í kaffið, þegar ég er að þvo“, sagði
hún brosleit. „Þið ráðið hvað þið gerið“. Hún setti flöskuna
á borðið.
„Nú þykir mér vera búkonubragð að þér, Sigurlína litla“,
sagði Ketilríður. „Ekki nema það þó! Kemur hún ekki með vfn!“
Þær fengu sér út í bollana.
„Hvenær heldurðu að þú farir nú að hugsa til heimferðar,
heillin mín?“ sagði Ketilríður blíðmálg.
„Þegar ég hef þurrkað þvottinn. Fyrr yfirgef ég ekki Þóru.
En ég er að vona, að það verði kominn þerrir á morgun“.
„O, sei, sei, hún veit kannske hvernig ástatt er fyrir sér,
stúlkan, og að piltarnir muni hugsa til sín. Þú þarft heldur ekki
að efa það“.
Ketilríður drakk þrjá bolla af kaffi og fékk sér vel út í. Svo
margkyssti hún Línu og þakkaði henni fyrir hressinguna og allt
gott ævinlega. Svo bað hún hana fyrir kveðju til mömmu hennar,
og svo fór hún. Lína óskaði þess, að hún ætti ekki eftir að sjá
hana aftur.
Veðrið hafði breytzt meðan hún stanzaði. Nú var kominn
kuldastormur svo napur, að hún var að hugsa um að snúa við,
þegar hún var komin suður hjá fjárhúsunum, og fá lánaða ein-
hverja flík utan yfir sig. En hún hætti við það.
„Ég verð að reyna að hlaupa, svo að ég drepist ekki úr kulda“,
tautaði hún við sjálfa sig.
Hún kom heim, helblá og skjálfandi. Borghildur greip ofan
pottinn, sem var á eldavélinni og lét kaffikönnuna ofan í glóðina,
svo að það hitnaði fljótt á henni. Henni fannst ekki álitlegt að
sjá manneskjuna. En Anna hljóp fram í stofu og hnuplaði víni
frá manni sínum, í fyrsta sinn á ævinni. Hún hafði aldrei fyrr en
nú séð, hvað hornskápurinn hafði að geyma. Hún tók eina flösk-
una og gaf Ketilríði vel út í bollann, flýtti sér svo með hana fram
aftur, og lét hana á sinn stað. Ketilríður hresstist svo, að hún gat
sagt Önnu erindislokin, og það með, að Lína færi alfarin á morgun.
„Ég mátti vita þetta“, sagði Anna. „Það var ljótt af mér, að
hugsa svona um hann, þennan góða mann“.
Hana iðraði þess, að hafa látið Ketilríði telja sér trú um þessa
vitleysu. Og stundum datt henni í hug, að segja honum frá því,
hvað hún hefði tortryggt hann og látið njósna um hann, og biðja
hann fyrirgefningar; en hún kom sér ekki að því.
Ketilríður háttaði fljótlega. Hún var altekin af kölduflogum.
Borghildur raðaði kringum hana heitum vatnsflöskum. Morguninn
eftir var hún alvarlega veik af lungnabólgu.
„Það verður að sækja lækni“, sagði Anna sorgmædd. „Ef eitt-
hvað kemur fyrir, þá er það mér að kenna“.
Borghildur skildi það $kki, hvernig hún gæti kennt sér um það.
„Hún fór út eftir fyrir mig“, sagði hún.
Borghildur reyndi að hughreysta hana og sagði: „Hún hefur
nú víst einhvern tíma komið út í verra veður en var í gær“.
Læknirinn kom. Hann gaf vonir um, að Ketilríður mundi hafa
það af, hún væri hraust kona. Við það varð Anna rólegri.
Lína var snemma á fótum morguninn sem læknirinn var sóttur
til Ketilríðar. Hana langaði til að þurrka þvottinn, áður en hún
færi. Veðrið hafði breytzt, það var komin hæg sunnangola og
frostleysa. Þurrkurinn gat ekki verið ákjósanlegri. Hún hengdi
út það sem snúrurnar tóku, en þó var mikið eftir inni.
„Ég kvíði fyrir því, þegar þú ferð, Lína mín“, sagði Þóra.
„En það getur ekkert orðið af vistarráðunum fyrst Önnu datt
þetta í hug“.
„Nei, það getur ekkert orðið af því“, sagði Lína. „Mig langar
ekki til að hafa Ketilríði á hælum mér eins og snuðrandi hund,
þó að ég hefði gjarnan viljað vera hérna vegna þín og barnanna,
því að mér hefur fallið svo vel við ykkur“.
Hún tók saman fötin sín og gerði sér nýja skó milli þess sem
hún tók inn það, sem þornaði af þvottinum, og hengdi annað út í
staðinn. Dagurinn leið að myrkri. Nú var að mestu hætt að
sofa í rökkrinu. Sigurður hallaði sér samt út af þegar hann kom
inn frá gegningunum. — Lína raulaði við Boga litla; hann sofnaði
alltaf í rökkrinu.