Lögberg - 17.03.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 17.03.1955, Blaðsíða 6
6 s • ..... V. GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DA LALÍF . -^r „Þórður, hvar ertu, vinur. Ég heyri einhverja suðu. Við erum þó líklega ekki komnir fram að ánni. Ég sé ekkert í þessu myrkri“. Þá kippti Þórður í taumana og hvatti hestinn áfram. Áburðar- hestarnir voru að leggja út í ána. Fálki hringsnerist á háum bakka fyrir framan vaðið. Þar undir rann áin í stríðum streng. „Láttu þá steypast!“ hrópaði rödd freistarans. En nú hlýddi Þórður ekki. Hann var kominn úr hnakknum á svipstundu, og hljóp fram á bakkann, greip sterklega í taumana á Fálka og teymdi hann að vaðinu. „Ég sé ekkert í þessu myrkri“, sagði Jón. „Erum við virkilega komnir fram á Hálseyrar?“ „Já, við erum að leggja út í ána. Reyndu nú að halda jafn- væginu í hnakknum; áin er mikil“, sagði Þórður og flýtti sér að komast á bak aftur, svo að þeir gætu riðið samsíða yfir um. „Þér dettur þó ekki í hug, að ég fari að kaffæra sjálfan mig í ánni. Við erum víst of kunnug til þess. Ef folinn hangir á fótunum, þá hangi ég vonandi í hnakknum, þó að hausinn á mér sé rækalli þungur“. Fálki öslaði glannalega út í straumharða ána meðan Þórður var að ná í Skjóna og komast í hnakkinn. Honum sýndist Jón hallast ískyggilega mikið til annarar hliðar. Þegar hann var sjálfur aðeins að leggja út í ána, voru þeir komnir út í miðjan strauminn. Og enn hvíslaði freistarinn: „Jafnaðu reikninginn, hugleysingi. Enginn veit, hvað í myrkrinu gerist. Það verður aðeins kallað slys, og stór, svartur kross verður settur í dag- blöðin“. En Þórður sveiflaði svipunni kringum sig, eins og til þess að hrekja þennan ósýnilega óvin í burtu, og Skjóni geystist fram að hlið Fálka. Þórður greip í handlegg húsbónda síns og kallaði óþarflega hátt til hans: „Reyndu að reisa þig í sæti. Þú ert að síga út í aðra hliðina". „Engin hætta, þegar þú ert hjá mér, Tóti minn. Bráðum erum við komnir heim. En hvernig heldurðu að heimkoman verði? Vonandi verður konan safnuð“. Heimkoman gat ekki verið ákjósanlegri en hún var. Anna og Gróa voru frammi í gamla eldhúsi að búa til kæfu. Henni hafði allt í einu dottið í hug, að það hlyti að vera gaman að hnoða kæfu. Og Gróa var óþreytandi á sögunum úr kaupstaðnum. Þær heyrðu ekki, þegar félagarnir fóru inn göngin. Jakob og Dísa höfðu farið út í fjós með Möngu til að sjá einhvern sérstakan kálf, sem fæddur var á þeim degi. Borghildur var því ein í eldhúsinú, þegar Þórður studdi húsbónda sinn inn á gólfið. „Ja, Guð komi til!“ sagði Borghildur. „Því í ósköpunum kemurðu með hann heim svona drukkinn?“ „Nú, hann vildi það sjálfur“, sagði Þórður stuttlega. „Þetta er ekki mikið, Borga mín“, sagði Jón loðmæltur. „Mig langar mest til að fara að syngja“. „En nú verðurðu að hafa lágt um þig, því að Anna er frammi. Þú verður að hjálpa mér til að koma honum sem fljótast í rúmið, Þórður minn“. Þórður fór að draga reiðstígvélin af húsbónda sínum, en Borghildur klæddi hann úr jakkanum. „Þú ætlar víst að slíta af mér fæturna, Þórður. Rækalli tekurðu hastarlega á mér“, tautaði Jón hálf sofandi. „Við verðum að reyna að koma honum inn, áður en hún kemur að framan“, sagði Borghildur áhyggjufull. „Það er um að gera að klóra yfir skammirnar hans. Það hefur lengi verið siðurinn hérna“, sagði hann vonzkulega. Borghildur horfði hissa á Þórð. Hann var í óvenjulega vondu skapi. Sjálfsagt hafði það verið talsvert erfitt fyrir hann, að koma Jóni heim í þetta sinn. „Þú ert líklega ekki drukkinn?“ sagði hún stuttlega og aðgætti hann með vandlætingarsvip. „Mér þykir það ólíklegt, að þú eigir eftir að sjá mig koma þannig útlítandi heim“, sagði hann. „Reyndar er bezt, að taka ekki fyrir neitt. Það getur vel komið fyrir“, bætti hann við. Þau komu hreppstjóranum í rúmið, og eftir fáar mínútur var hann sofnaður. Borghildur fór fram og sagði Önnu, að hann hefði alveg verið út úr af svefnleysi. Uppboðið hefði staðið yfir fram á rauða nótt. En samt hefði hann ætlað sér að vaka yfir henni, en nú væri hann sofnaður. „Hann hefur líklega heldur verið út úr af víndrykkju“, sagði Anna. Hún þóttist skilja hvað Borghildur var að reyna að breiða yfir. „Það var víst ekki mjög mikið“. „Eitthvað hafa þeir haft með sér, til að halda sér vakandi11. „Auðvitað“, samsinnti Gróa. „Annars hefðu þeir steinsofnað, aumingja mennirnir. Var Þórður minn nokkuð kenndur?“ „Ég er hálf hrædd um, að svo hafi samt verið“, sagði Borghildur. Anna fékk aldrei minnstu vitneskju um það, hvað Lína veitti manni hennar rausnarlega, þegar hún var bæði húsbóndinn og húsfreyjan í læknishúsinu og vissi, hvar lyklarnir að vínskápnum voru geymdir. Þórður var sá eini, sem hefði getað sagt frá því. En hann þagði. FRAM A SELI Þórður hafði látið það sitja fyrir öðru að koma húsbónda sínum inn í bæinn og hjálpa Borghildi við að koma honum í rúmið. Um hestana gat hann ekki hugsað fyrr en því var lokið. Þeir voru horfnir út í myrkrið. Hann var lengi að leita að þeim. Jakob rakst á Fálka, þegar hann var á heimleið úr fjósinu. Hann spretti hnakknum af honum og tók beizlið út úr honum. En Þórð fann hann hvergi. Gróa fór út og leitaði um allt túnið, en fann hann ekki heldur. „Hvað svo sem getur maðurinn verið að gera úti í nátt- myrkrinu“, fjasaði hún. „Mér finnst ég ekki geta háttað fyrr en hann kemur inn“. „Það er nú svo sem ekki eins og þetta sé krakki“, sagði Borghildur fálega. „Hann hefur sjálfsagt verið búinn að tapa hestunum eitthvað“. LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 17. MARZ 1955 En Gróa sagðist hafa séð alla hestana, og að þeir hefðu verið reiðverslausir. Borghildur setti mat á eldhúsborðið og lét ljósið loga á lampanum. Svo fóru allir að hátta. Þegar allir voru háttaðir nema Gróa, heyrði hún, að gengið var um frammi. Borghildur hafði sett lampa á borð, sem stóð við rúmið hennar, svo að Þórður sæi til að hátta. Einhvern tíma um nóttina vaknaði hún, og þá var ljósið nærri dáið, því að lampinn var þurr. Hún slökkti það, og var hissa á heimskunni í Þórði, að slökkva ekki ljósið, þegar hann háttaði. Klukkan sjö um morguninn reis hún upp til að hita morgunkaffið. Hún kveikti á týru meðan hún klæddi sig, og varð þá um leið litið inn á rúmið hans Þórðar. Það var óhreyft. Hann hafði aldrei háttað. Hvað gat hafa komið fyrir manninn? hugsaði hún og brá illa við. Ekki vakti hún þó hinar stúlkurnar, heldur fór fram í eldhúsið. Hún var bæði stillt og kjarkgóð kona. Á einum stólnum við borðið sat Þórður og hallaðist fram á það, stein- sofandi. Matnum hafði hann ýtt ósnertum til hliðar. Henni létti talsvert við að sjá hann heilan á húfi. En því í ósköpunum hafði maðurinn ekki haft sig í rúmið? Eðlilegasta skýringin á því var sú, að hann hefði verið fullur, eins og henni hafði sýzt, en samt var það óvenjulegt. Hún fór að hita kaffið og lét hann sofa. En hann losaði svefninn fljótlega og geispaði óánægjulega. „Hvers vegna situðurðu þarna, maður? Er þér ekki ónotalegt?“ spurði hún. „Jú, mér er ónotalegt. En það batnar, þegar kaffið kemur“. „Hvers vegna háttaðirðu ekki?“ „Ég var að bíða eftir því að það birti. Ég er að fara vestur í Hauksdal, en kunni ekki við að fara, án þess að láta einhvern vita um það. Þú segir Jóni frá því“. „Gaztu ekki beðið eftir birtunni i rúminu, eins og vanalegt er?“ „Eða ert þú svona ruglaður í kollinum ennþá, að þú haldir, að þú haldir, að dagsbirtan komi ekki til þín, nema að þú sitjir hér alklæddur“. „Ég hef aldrei verið neitt ruglaður í kollinum, það ég veit“, svaraði hann fálega. Borghildur færði sig nær honum og aðgætti útlit hans. Andlitið var rautt, eins og hann hefði sótthita, og augun blóðlituð. Náttúr- lega af því að sofa svona á grúfu fram á borðið, hugsaði hún. „Þú hefur ekki snert matinn. Ertu kannske eitthvað lasinn? Eða hefurðu fengið slæmar fréttir frá Ameríku nýlega?“ „Hvorki slæmar eða góðar. Ég hef ekki fenglö bréf síðan snemma í sumar. Ég hef ekki lyst á mat, en kaffi ætla ég að drekka áður en ég fer“. Hann kveikti á týrunni og fór fram í skála. Eftir dágóða stund kom hann aftur í ferðafötum, þykkum utanyfirfrakka og glansandi buxum úr „brúneli“. Hann lagði svipu Jóns á borðið. Hún var mesti dýrgripur; alltaf fægð, eins og hún væri ný, og gat aldrei týnzt, á hverju sem gekk á ferðalögum hans. „Þarna er svipan hans“, sagði hann. „Þú lætur hana þar sem hún er vön að vera“. Hann settist niður hjá rjúkandi kaffibollanum, sem Borg- hildur var búin að hella í, og fór að hlýja sér á hans góða innihaldi. Borghildur spurði hann, hvort hann vildi ekki fá sér „út í“ til að hressa sig. En hann neitaði því, en fékk sér aftur í bollann. „Þú skilar til Möngu, að ég biðji hana að hirða hrútana fyrir mig þangað til ég kem aftur. Ef ég kem þá nokkurn tíma aftur“, sagði hann, þegar hann var búinn að setja upp húfuna. Svo rétti hann Borghildi hendina. „Vertu blessuð, Borghildur. Ég bið að heilsa í bæinn“. Hún læddist á eftir honum og horfði á hann meðan hann steig á bak og reið úr hlaði. „Ósköp kemur maðurinn mér einkennilega fyrir sjónir. Skyldi hann vera feigur, eða hvað? Ég skil ekkert í þessu. Sjálfsagt hefur hann drukkið í gær og orðið svo lasinn, vegna óvanans". Hún gekk eins og í einhverju hugsunarleysi upp fyrir skemmuna, þar sem fiskur og hausar voru hertir á rám. Þar lágu fiskpokarnir í kássu saman við reiðverin. Gjörðunum hafði aðeins verið sprett. Hitt hafði verið látið síga sjálft. Og þarna lá það allt í einni hrúgu. En sá frágangur! Og þetta er Þórður Hjálmarsson, sem skilur svona við það, sem hann á að hirða um. „Hann er ekki almenni- legur, maðurinn“, tautaði Borghildur við sjálfa sig og gekk heim hlaðið aftur. „Sem betur fer er það sjaldan, að hann fær sér í staupinu, enda er það heppilegast, fyrst honum verður svona mikið um það“. Hauksdalur lá að vestanverðu við Hrútadal. Hár fjallgarður var á milli dalanna, sem var fær á einum stað fram á móti Seli. Fremsti bærinn í Hauksdal hét Bjarnastaðir. Þar bjó móður- bróðir Þórðar. Hann hét Þórður. Það var eina skyldmennið, sem Þórður átti nálægt sér, og hafði alltaf verið mikil vinátta milli þeirra. Á hverju sumri fór hann að finna frænda sinn og gisti hjá honum eina nótt. Þetta sumar hafði það farizt fyrir. Nú ætlaði hann sér víst að bæta sér það upp. Borghildur fór með morgynkaffið inn í hjónahúsið aldrei þessu vant. Þau sváfu bæði, þegar hún kom inn. Jón vaknaði, þegar hún tók nátttjaldið frá glugganum. „Mér finnst þú koma svo snemma með kaffið, Borghildur mín“, sagði hann sifjulega. „Það er nú samt farið að birta talsvert“, sagði hún. „Ég kem með kveðju og skilaboð frá Þórði. Hann 'er farinn vestur að Bjarnastöðum“. „Nú, hvað á það að þýða?“ sagði hann. „Það veit ég ekki“, sagði Borghildur. „Hann hagar sér svo undarlega, maðurinn. Hann hefur aldrei háttað í nótt, heldur setið frammi í eldhúsi. Reiðverin og slorpokarnir liggja í einni kös hvað innan um annað. Ég þekki ekki svona lagað til hans. Hann hlýtur að hafa verið út úr drukkinn. Það er ómögulegt annað“. Jón hrærði hugsandi í bollanum sínum. „Ég man ekki eftir því í gærkvöldi, að hann væri neitt öðruvísi en hann er vanur að vera“. „En ætli að þú hafir ekki verið of drukkinn sjálfur til þess að geta greint, hvernig hann leit út“, sagði Anna ólundarleg á svip. „Mér sýndist það á útliti þínu, og svo hefurðu skammast þín fyrir að láta mig sjá þig“, bætti hún við. „Náttúrlega hefur fokið í þig yfir því, góða. En það var ekki svo mikið í kollinum á mér, að það væri ástæða til þess að skammast sín fyrir það. Ég var bara svo þreyttur“. „Þú þarft líklega ekkert að segja mér um það. Ég fann líklega vínstækjuna í húsinu, þegar ég kom inn, og svo háhrauztu eins og argasti neftóbakskarl. Ef ég ætti eina ósk, þá skyldi ég óska þess, að þú hefðir eins mikla skömm á víninu og ég. Það er það eina, sem skyggir á sambúð okkar, og hefur alltaf gert“, sagði hún. „En ef ég ætti ósk, þá held ég að ég notaði hana til þess að óska, að þér þætti eins gaman að fá þér í staupinu eins og mér. Þá riðir þú með mér í kaupstaðinn, og við yrðum samferða heim, bæði dálítið groggug, sæl og syngjandi. Þá þætti mér reglulega vænt um þig“, sagði hann í stríðnistón. „Þá fengirðu reglulega skömm á mér, það er ég viss um. Enginn maður, hversu mikill drykkjumaður, sem hann er sjálfur, getur annað en skammazt sín fyrir konuna sína, ef hann sér hana drukkna, það er ég alveg viss um. Ellegar blessaður drengurinn. Það væri ekki óskemmtilegt fyrir hann, að bíða eftir heinikomu foreldranna, og sjá þau koma ósjálfbjarga heim. Þvílíkur við- bjóður. Eins og honum leiðist, að sjá þig drukkinn“. „Það er bara vegna þess, að hann sér og heyrir þessa andúð, sem þú hefur á því, að ég bragði vín“. „Ég skal reyna að forða honum frá því að bragða vín. Og ég vona, að mér takist það með Guðs hjálp. Ég er að vona, að einhver góður maður komi og setji hér á stofn bindindisfélag. Þá gengur þú í það með Jakobi“. „Ekki held ég, að ég yrði ánægður með það, að fá mér ekki hressingu, þegar ég fer í kaupstaðínn. Sambúðin er sæmileg milli okkar, þó að ég bragði ofurlítið svona öðru hverju. En í gær hefur það víst orðið helzt til mikið. Mig rámar eitthvað í það, að Fálki væri að snúast með mig uppi á háum bakka, og að Þórður kæmi svo allt í einu og gripi í taumana. Það getur vel verið, að mig hafi dreymt það. En það var engin ástæða fyrir Þórð að hætta að sofa, þó að ég hafi verið eitthvað óþjáll við hann á heimleiðinni“. „Og svo færðu skalla, eins og séra Hallgrímur, og verður ljótur, með rautt drykkjumannsnef“, hélt Anna áfram í ásökunar- tón. „Heldurðu, að mér geti þá þótt vænt um þig lengur?“ „Hann verður aldrei sköllóttur eða ljótur“, sagði Borghildur brosandi. „Hann er of fallegur til þess“. „Þetta er fallega sagt, Borghildur mín“, sagði Jón hlæjandi. „En svo þykir Önnu alveg eins vænt um mig, þó að ég fái skalla. Hún er bara svona ergileg núna, af því að ég heilsaði henni ekki í gærkvöldi. Hún verður orðin ágæt, þegar ég hef gert að fiskinum. Manga getur hjálpað mér. Hún er alvön að fletja og rífa upp hausa. Það getur verið heppilegt að hafa svoleiðis vinnukonur. Svo er nú ekki ómögulegt, að ég hafi haft eitthvað meðferðis, sem glysgjörnum konum þykir skemmtilegt að eiga, ef taskan mín hefir ekki týnzt á leiðinni, sem mér þykir ólíklegt“. Anna brosti kankvíslega til Borghildar, en forðaðist að láta mann sinn sjá það. „Þá getur verið, að þér verði fyrirgefið, slæmi maður“, sagði hún alvarleg á svip. Næsti dagur var smölunardagur. Húsbóndinn sagði, að það væri ekkert vit, að hafa féð fram um alla afrétt. Ekki væri tíðin lengi að breytast. En Þórð vantaði, sem hafði þó verið búinn að fastákveða, að nú skyldi smala. Hann hlyti að koma. 1 þeirri von var lagt af stað í smalamennskuna, þótt fáliðað væri. Borghildur vildi láta það bíða til morguns. En það vildi Jón ekki. Verst var, að hafa ekki hundinn, en hann fór með Þórði. Smalamennskan gekk seint. Heim var þó komið fyrir myrkur, og féð rekið í stekkinn. Þar átti það líka að bíða þess, að Þórður gæti athugað, hvort margt vantaði. En Þórður kom ekki, og því var hleypt út aftur, þegar komið var myrkur. Kvöldið leið, án þess að Þórður kæmi. Enginn var neitt hissa á því, nema Borghildur. Hún gat ekki gleymt því, hvernig hann hafði komið henni fyrir sjónir um morguninn, þegar hann var að fara, — og frágangurinn á fiskpokunum. Og svo hafði hann sagt: „Ef ég kem þá nokkurn tíma aftur“. Svo heimskaði hún sjálfa sig fyrir þetta ímyndunargrufl. Hvað ætti svo sem að geta orðið að fullorðnum karlmanni í öðru eins veðri. Þetta var svo ólíkt henni sjálfri, að hún skildi ekkert í því, að sér skyldi ekki takast að losna við þennan óhug. Hún sat frammi í eldhúsi klukkutíma lengur en hún var vön. Skeð gæti, að hann væri á ferðinni í myrkrinu. Það var óviðkunnanlegt, að hafa bæinn ólokaðan yfir nóttina. Loks setti hún mat á borðið og háttaði frá ólokuðum bænum. Hún vaknaði með seinna móti morguninn eftir. Það var farið að lýsa í gluggann. Hún kveikti á eldspýtu til þess að sjá, hvort Þórður væri kominn. En svo var ekki. Hún hafði reyndar aldrei búizt við því. Hún klæddist og kveikti upp eldinn, eins og vana- lega, bar matinn inn í búrið, og settist svo við borðið og tók prjónana, sem hún hafði lagt frá sér kvöldið áður, og hlustaði á ánægjulegt hitahljóðið í katlinum. Eitthvert þrusk frammi kom henni til þess að leggja prjónana frá sér, ganga fram og opna bæinn. Það var talsvert farið að birta. Hún virti fyrir sér þennan sjóndeildarhring, sem hún hafði haft fyrir augunum í þrjátíu og fimm ár. Fitina fyrir neðan túnið. Eyrarnar með fram ánni. Háa fjallið, beint á móti bænum, sem kallað var Ásólfsstaðahyrna. Grundirnar fram að Ásólfsstöðum og bæina, sem farið var að rjúka á. Allt var þetta svo innilega venjulegt. En þó var þarna dökkleitt hross, sem athyglin beindist að. Það kom labbandi framan eyrarnar og þræddi veginn. Nú sá það víst grænan topp við götuna. Það stanzaði og fór að bíta. Sjálfsagt var þetta eitthvert af áburðarhrossunum. Þau voru sífellt að stelast heim í hána. En þetta hross var eitt, og fór svo varlega. Hún fór inn og malaði á könnuna og hellti á. Hún minntist þess, að einu sinni hafði hún óskað þess í áheyrn Lísibetar heitinnar, að hún ætti eins margar krónur og hún væri oft búin að hella á könnuna. „Þá yrðurðu að muna eftir fátæklingunum, Borga mín, annars hefðirðu litla ánægju af þeim“, hafði hún sagt. Svona voru hennar hugsanir, — alltaf að hugsa um að hlynna að þeim, sem höfðu orðið afskiptir gæðum lífsins. Á meðan hún var að hella á könnuna, átti framliðna húsmóðirin allan huga hennar. Hún hafði verið henni góð systir, enda var hún öllum góð, sem hún kynntist. Hún vissi það vel, að hún hafði verið systir hennar fyrir Guðs augliti. Séra Helgi hafði verið henni góður faðir, þótt hann mætti ekki, stöðu sinnar vegna, viðurkenna skyldleikann. Það eina leiðinlega við minningu þess manns, voru leynilegar heimsóknir, þegar faðir hennar var einhvers staðar fjarverandi. Af þeim stafaði andúð sú, sem hún hafði á öllu óleyfilegu ástalífi og lausung hjá fólki. Sjálf hafði hún þó einu sinni látið laglegan kaupamann hafa þau áhrif á sig, að hún hét honum eiginorði, og hún hafði verið sæl í nokkrar vikur. En þá hafði hún allt í einu komizt að því, að önnur kaupa- konan var honum jafnkær og hún sjálf. Þvílíkt þó rothögg. Hún hafði slitið trúlofuninni næsta morgun með vel útilátnum kinn- hesti. Það var líka í fyrsta og síðasta sinn, sem hún hafði gefið manneskju utan undir, og líka í fyrsta og síðasta sinn, sem hún hafði elskað karlmann. Hún þurfti ekki að kvarta yfir einlífinu, þó að hún hefði kosið sér það, því að enginn sonur gat verið betri við móður sína en Jón var henni og kona hans líka.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.