Lögberg - 23.06.1955, Blaðsíða 6

Lögberg - 23.06.1955, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 23. JÚNl 1955 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: DALALÍF „Ó-já, þú ert nú alltaf eins, ekkert nema viljinn og dugnaðurinn. En mér finnst nú, að strákskepnan hefði getað borið af túninu, svo að þú hefðir ekki þurft að norpa yfir því um há- nótt“, sagði Silla í sama tón og áður. „Ég er ráðin þar vinnukona og þetta er al- vanalegt verk handa kvenfólki", sagði Lína. „Jæja, jæja“, sagði Silla þá. „Bara að þér gæti batnað aftur, Lína mín, þá yrði allt gott. Haldið þér, frú Svanfríður, að þér getið ekki látið hana hafa eitthvað, sem bætir heilsu hennar, fyrst læknirinn er ekki heima?“ Frúin anzaði því engu. Hún sagði aðeins við Línu um leið og hún stóð upp af stólnum og gerði sig líklega til að fara inn í stofuna: „Þér hafið farið óvarlega með yður, Lína mín, það hefnir sín alltaf að vera óvarkár. Nú skuluð þér koma inn og leggja yður fyrir dálitla stund. Mér ofbýður hvað þér eruð aumingjalegar“. Augnaráð frúarinnar staðfesti þann hræði- lega grun, sem Lína hafði barizt við síðustu dagana. Það var kominn háttatími, þegar Lína kom heim. Hildur stóð á hlaðinu og beið hennar, eins og á krossmessudaginn. „Ósköp ríðurðu hægt, góða mín“, sagði Hildur, „hesturinn er þó svo þægilegur“. Lína hristi höfuðið. „Þú hefur víst aldrei komið honum á bak, fyrst þú álítur hann góðan. Ég hef aldrei komið á bak hastari skepnu“, sagði Lína þreytulega. „Þér finnst þetta bara af því þú ert svo lasin, og svo ertu nú vön við þessa góðu hesta þarna á Nautaflötum. Ég ríð nú alltaf þeim gráa, þegar ég fer til kirkjunnar og þá sjaldan ég hef mig upp í að fara ofan á Ósinn; hann er nú alltaf þægilegur, meðan hann getur hreyft fæturna“, sagði Hildur og byrjaði að spretta söðulgjörðunum. Lína hallaði sér upp að eldhúsveggnum. Hún var svo þreytt, að hún gat varla staðið á fótunum. Hún undraðist nægjusemi húsmóður sinnar að geta næstum dáðst að þessum hestaskepnum, sem var illmögulegt að sitja á hægum lestagangi, hvað þá ef þeir færu svolítið hraðara. Það var undravert, hvað fátæktin gat látið fólkið sætta sig við sitt eigið hlutskipti. Hildur flutti hestinn út með ánni til gráa gæðingsins, meðan Lína dró sig til baðstofu og háttaði. Doddi var steinsofnað- ur fyrir löngu. „Gat hann nokkuð látið þig hafa, læknirinn?“ spurði Hildur áhyggjufull, þegar hún kom inn. „Hann var ekki heima, en frúin lét mig hafa dropa og þessar litlu flöskur, og sagði hún, að svo mörgum batnaði af þessum meðulum og þau ættu eiginlega við öllu“, sagði Lína og sýndi Hildi tvær flöskur með einkennilegri mynd af manni á rauðröndóttri skikkju ofan á fætur. Hildur virti þetta einkennilega meðalaglas fyrir sér og las bogadregna stafi yfir höfði þessarar skrítnu mannsmyndar: „Kína lífselixír“. „Hvað skyldi þessi ófreskja eiginlega tákna — ætli það sé einhver læknir? Hvort heldurðu að það sé kona með skegg eða karlmaður með hár- fléttur í dragsíðum pilsum? Mér finnst þetta vera hálfgerð ófreskja“. Lína sagðist halda, að það væri mynd af Kín- verja. „Ja, hvað er nú þetta. Líta þeir þá svona út. Ósköp er að hugsa sér annað eins“, sagði Hildur vantrúuð á gildi þess, sem svona manneskja fram- leiddi. „Hefurðu vitað nokkra manneskju taka þetta inn?“ spurði hún. „Já, Steinka á Efri-Hól hefur notað svona meðul, hún er svo brjóstveik, og hún hefur sagt, að sér batni svo vel af því“. „Það er nú dálítið annað", sagði Hildur, alltaf jafn tortryggin. „En frúin sagði mér, að ég mætti vera viss um að það ætti við mig“, sagði Lína og setti báðar flöskurnar upp á hilluna fyrir ofan rúmið sitt. „Ég held ég þyrði ekki að smakka það“, sagði Hildur. FUNDUR Á EINBÚA Lína var óhrædd við að nota meðalið og hresstist með hverjum degi, en hún var jafn út- litsdauf og áður, en sjaldan varð þó Hildur vör við, að hún kastaði upp. „Góða, reyndu að borða, svo að þú fitnir agnarögn. Mér leiðist að sjá þig svona gráa og guggna“, sagði Hildur næstum við hverja máltíð. En Lína hafði litla lyst. Hrossin voru að mestu hætt að sækja í túnið, en Hildur fór samt á fætur á hverri nóttu til að siga frá. Hún aftók að Lína hreyfði sig úr rúminu og sagði, að það væri nógu illt búið að hljótast af þessum vökum. Einn seinni part dags sá Lína að Jón hrepp- stjóri reið út fyrir neðan. Nú var hann að ríða í kaupstaðinn og færi heim aftur í nótt, og yrði hún þá að reyna að ná fundi hans með einhverj- um ráðum. Bara að hún Hildur gæti fallið í sömu svefnværðina og hann Doddi — þá þyrfti hún ekki að kvíða. En það var nú eitthvað annað. Helzt leit út fyrir, að hún gæti vaknað hvenær sem var. En Jón varð hún að finna. Samt kveið hún nú í annað sinn fyrir samfundum þeirra. Hvernig skyldi honum verða við, þegar hann heyrði, í hvert óefni var komið? Skyldi hann kenna henni um að slys hefði komið fyrir? Nú var ekki nema vika, þangað til Ameríkuskipið kæmi á Ósinn. Skyldi hann skipa henni að fara með því? En hún ætlaði ekki að láta fara svoleiðis með sig. Hún gat ekki hugsað til þess að fara á sjóinn, hvað sem fram undan væri. Hún var búin að eygja svolitla sólskinsglætu, sem kannske gæti lýst henni út úr ógöngunum. Það var Þórður enn einu sinni. Gæti það ekki skeð, að hann bæri ennþá þann vinarhug til hennar, að hann vildi hjálpa henni? Hann hafði þó boðið henni hjálp til þess að komast áfram í Ameríku, og það óbeðinn. Hún rifjaði upp það, sem hann talaði við hana á eyrunum fyrir neðan Hrafnsstaði. Það var ekki kali í einu orði, sem hann hafði sagt. Hún ætlaði að stinga upp á því við Jón. Nei, hún gat ekki sagt honum frá því, að hún hefði verið trúlofuð Þórði. Henni var það ómögulegt. Um þetta hugsaði hún fram og aftur, þangað til hún loks fann ráðið. Hún ætlaði að skrifa Jóni og fá honum bréfið, en hlaupa svo heim, bera við las- leika. Hún sagði því Hildi, að hún þyrfti að skrifa bréf, þegar hún átti að fara að hátta. „Eins og þú getir ekki skrifað það í fyrra- málið, missvefninn er svo óhollur“, sagði þessi hugulsama kona. „Ég verð fljót að því. Kannske fáe ég ferð frá Hjalla á morgun ofan á Ós. Mamma veit að ég var lasin og Hún er áhyggjufull þess vegna. Ég þarf að láta hana vita, að mér sé að skána“. „Jæja, góða mín, það er rétt að láta hana vita það“. „Svo siga ég öllum skepnunum frá túninu, áður en ég hátta, svo að þú mátt sofa róleg til morguns“. „Mundu þá að búa þig vel, ef þú ferð út“, var það síðasta, sem Hildur sagði. Hún var sofnuð eftir ótrúlega stutta stund, Línu til mikillar ánægju. Lína tók upp skriffærin, en henni fannst nær- vera mæðgininna trufla sig, þótt þau væru sof- andi. Samt byrjaði hún að skrifa: „Ég get ekki horft framan í þig, meðan ég segi þér það, sem ég hef þó ekki ætlað að láta þig fá vitneskju um“. Hún las þetta yfir, áður en hún skrifaði meira, og fannst það vera hálfklaufalegt. Auðvitað yrði það hræðilega barnalegt og vitlaust skrifað. Það var hörmung að þurfa að láta hann sjá það, sem skrifaði svo vel og rétt. lEn það dugði ekki að hugsa um það. Hún hélt áfram og sagði honum frá trúlofun Þórðar og sín, hvernig hún hefði svikið hann vegna þess, að sig hefði vantað kjark til að segja sannleikann, hvorki honum sjálfum og því síður Þórði. Hún sagði honum líka, hvernig Þórður hefði látið hann sjálfan segja sér frá þessu öllu, dauðadrukkinn á heimleið úr kaup- staðnum haustið áður. Svo sagði hún honum frá væntanlegri mannveru, sem þau ættu í félagi, og bað hann að ráða fram úr, hvað gera skyldi. Það eina, sem sér dytti í hug, væri að hann reyndi að tala við Þórð og vita, hvort hann vildi ekki fyrirgefa sér enn einu sinni og giftast sér hið fyrsta. Hún las bréfið yfir. Það var hvorki heilsun eða kveðja í því. Hún fann engin orð, sem því tilheyrðu. Hún hafði aldrei nefnt hann neinu ástar- eða gælunafni, til þess var hann of hátt yfir hana hafinn. Hún hreinskrifaði þetta svo og skrifaði „Lína“ neðan undir, setti það síðan innan í umslag, klóraði utan á það og límdi það aftur. Lína fór síðan ofan á eyrarnar og settist á þúfu og beið eftir Jóni. Hann bar fljótt yfir að vanda. „Sæl vertu, Lína mín“, sagði Jón, þegar hann var kominn fast að henni. „Svo að þú ætlar þó ekki að láta mig bíða hálftíma eins og seinast“, bætti hann við og rómur hans var ekki eins hlýlegur og vant var. Hún stóð upp og rétti honum bréfið. „Ég hef verið lasin lengi“, sagði hún hálfvandræðaleg. „Nú, hefurðu verið lasin? Ég man það núna, að læknisfrúin var eitthvað að tala um það, að þú hefðir komið ofan eftir og verið lasin, og svo leit hún svo hörkulega til mín, eins og ég hefði barið þig til óbóta eða hún hafi búizt við, að ég færi að roðna af því að heyra hana minnast á þig. En ég gat hreint ekki verið að gera henni það til geðs. Hvaðan kemurðu með þetta bréf?“ sagði hann. „Það er frá mér“, sagði Lína. „Frá þér! Ég hélt, að við sæumst ekki svo sjaldan, að óþarfi væri að vera að skrifa mér. En það er sjálfsagt uppsagnarbréf, fyrst þú heilsar mér ekki einu sinni og lætur mig bíða í hálftíma, án þess að koma til fundar við mig“. „Ég hef verið lasin og í rúminu. Ég er búin að segja þér það“, sagði hún. Jón fór af baki og tók við bréfinu. Lína vafði handleggjunum um háls honum og fól andlitið undir vanga hans. „Elsku, vertu ekki reiður við mig. Þú veizt, að ég hefði komið, ef ég hefði getað“. Hann hló. „Ég er ekkert reiður. Ég vissi, að það var eitthvað að þér, fyrst þú komst ekki“, sagði Jón í sínum vanalega, hlýja málrómi. „En það er ósköp að sjá, hvað þú lítur vesaldarlega út. Hvað kom fyrir þig?“ „Mér varð bara kalt eina nóttina, og svo hef ég alltaf verið að sálast síðan“. „Þú hefur ekki verið hjá mér þá nótt, fyrst þér varð svona kalt“, sagði hann glettinn. Hann var talsvert hreifur af víni. Það þótti henni leiðin- legt, hann hefði helzt átt að vera alls gáður á þessum alvörutíma. „Nei, ég var að bera af túninu og það fór að rigna og kólna“. „Þurftu þau endilega að láta þig bera af í rigningu? Ekki lét ég þig gera það“. „Það var ekki þeim að kenna, bara mér sjálfri“, sagði hún. „En nú ætla ég að kveðja og fara heim“, bætti hún við. „Bréfið talar mínu máli“. „Kveðja — ekki nema það þó! Klæddirðu þig upp úr rúminu til þess að færa mér þetta bréf?“ „Nei, nei, ég hef verið á fótum í marga daga“, sagði Lína. „Þá geturðu gengið með mér hérna fram eyrarnar. Þar get ég lesið bréfið og séð, hvar þar stendur". „Þú mátt ekki lesa það fyrr en ég er farinn heim“, sagði hún í bænarrómi, þegar hún sá, að hann gerði sig líklegan til að taka bréfið úr jakkavasanum. „Jæja, en mér finnst það dálítið grunsamlegt, þetta bréf“, sagði Jón brosleitur. „Geturðu ekki alveg eins sagt mér efni þess, fyrst þú ert hér til viðtals. Þú hefur náttúrlega gert þetta til dægra- styttingar að fara að skrifa mér, þegar þú varst í rúminu. En það getur verið hættulegt að skrifa, betra að tala máli sínu beint upp í eyrað á þeim, sem bréfið á að fá. Það hefur komið fyrir að bréf lenda ekki á réttum stað“. „Þú verður að brenna það strax og þú hefur lesið það“, flýtti hún sér að segja.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.