Lögberg - 18.08.1955, Page 6

Lögberg - 18.08.1955, Page 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 18. ÁGÚST 1955 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Það má nú segja“, sagði Hildur, „hún er dæmalaus stúlka. Mér hefur fallið hverjum deg- inum betur við hana síðan hún kom hingað. Hún vildi víst helzt láta mig liggja í leti og snúast í öllu sjálf. Hún vildi meira að segja endilega vaka yfir túninu, svo að ég þyrfti ekki að fara ofan á nóttunni“. „Það er líka vel sprottið, túnið þitt. Auðséð að það hefur verið varið af trú og dyggð“. „Og svo er hún svo þrifin og geðgóð. Bara að hún fái heilsuna aftur“, sagði Hildur. „Heilsuna?" spurði Jón hissa. „Hún var heilsu- góð öll þessi ár, sem hún var hjá okkur. Það er þá kaupstaðarlífið, sem hefur gert hana heilsu- litla. Hefur hún verið eitthvað lasin?“ „Já, ég hefði nú haldið það. En líklega er það nú frekar mér að kenna en kaupstaðarlífinu. Allt hafðist það af því, að hún vakti yfir túninu, en klæddi sig ekki nógu vel. Ég var þó margsinnis búin að áminna hana um að klæða sig betur en hún gerði“. , „Það er ekki von að vel fari fyrir þessum ungu stúlkum“, sagði Jón, „það má heita, að þær séu farnar að stríplast. Það er kaupstaðarsiðurinn. Mér sýnist þetta líka, að hún sé eitthvað veiklu- legri en hún hefur verið. En við skulum nú vona, að það skáni. Hefur hún ekki leítað læknis?“ „Jú, það gerði hún nú eftir langt nudd úr mér, en hann var þá ekki heima. Læknisfrúin lét hana hafa þessi meðul“. Hún tók litlu flöskurnar ofan af hillu og sýndi honum þær. Hann athugaði þær vandlega. „Þú mátt vera viss um að henni batnar af þessu meðali. Konan mín hefur notað þetta mikið og haft fjarska gott af því. Það er eiginlega við öllum mannlegum meinum“, sagði Jón alvarlegur. „Hvað hefur verið að konu þinni?“ spurði Hildur innilega. „Hún var ákaflega veikluð og blóðlítil". „Aumingja konan“, andvarpaði Hildur alveg hissa á því, að nokkuð skyldi geta amað að konu í annarri eins stöðu. „Ég þarf þá líklega ekki að efa, að Lína hressist af þeim, enda er hún ólíkt hressari en hún var. Hún, sem ekki gat í marga daga haldið nokkrum mat niðri“. „Ja, hvað er að heyra þetta. Hún var lánsöm að vera hjá þér, Hildur mín. Finnst þér nú ekki, að Lína sé nógu álitleg tengdadóttir“, sagði Jón og brosti fallega. Hildur roðnaði og lét flöskurnar upp á hilluna, þar sem þær voru áður. „Jú, það er hún áreiðanlega“, sagði hún, „og ekkert væri mér kærara en að hún færi aldrei aftur af mínu heimili. En við höfum nú lítið fram að bjóða eins og þú veizt, Jón minn“. Hún varð hálffeimnisleg á svip og neri þumalfingrunum óþarflega fast saman. „Hún Lína getur nú valið um staði, svona myndarleg og góð stúlka“, bætti hún við. „Ef hún kærir sig þá nokkuð um það, Hildur mín. Hún segir að sér hafi liðið sérlega vel hérna, og hún vill hvergi annars staðar búa en hérna í dalnum. Hvernig heldurðu að Dodda þínum lítist á hana?“ Hildur roðnaði og var búin að svara áður en hún vissi eiginlega af því: „Ég er viss um, að hann elskar hana bara“. Það var ómögulegt annað en að segja þessum manni allt, sem manni bjó í brjósti. Jón brosti ánægjulega framan í hana: „Við sjáum nú til, Hildur mín, hvort ekki verður hægt að koma þessu í kring og það fljótlega". Doddi kom brosandi inn og heilsaði gestinum virðulega og settist á rúmið hjá móður sinni. „Þú varst að líta eftir slægjum, Doddi minn“, sagði Jón. „Já, og svo skrapp ég heim a*ð Hóli um leið. Erlendur ætlar að lána mér hest í ’fyrramálið, því að þótt ullin sé ekki mikil, þykir mér það samt allt of þungir baggar á einn hest“, sagði Doddi, og svo bætti hann við: „Það er nú kannske dálítið annað en hjá þér“. „Já, það eru líka færri, sem heyja fyrir bú- stofninum hjá þér. En nú fer þetta að lagast. Nú ertu búinn að fá vinnukonu og hana duglega, það þekki ég, og svo geturðu sett margt á í haust. Ekki kalla skuldirnar að, ef ég þekki rétt. Þá fer fljótlega að fjölga hjá þér“. „Ég fóðra fyrir Línu“, sagði Ðoddi. „Já, auðvitað gerirðu það“, sagði Jón, „en þú nýtur þess ekki nema þú komir því í sameign við þig, og það ættirðu nú að gera. Þú ert kominn á þann aldur að fara að svipast um eftir konu- efninu“. Doddi hló ánægjulega: „Þú segir eins og Erlendur“. „Já, við erum búnir að sjá, hvers virði konan er heimilinu“, sagði Jón. „Ekki þykir mér mikið koma til Helgu“, sagði Doddi. „Hvaða vitleysa“, sagði Hildur. „Hún er víst góð að mörgu leyti, aumingja konan“. „Það er húA nú kannske“, sagði Jón dræmt, „en ég hef aldrei verið ánægður með hana handa Ella“. Lína kom nú inn kafrjóð frá eldinum og fór að breiða dúk á borðið og raða fínu postulíns- pörunum á það. Svo komu brauðföt með kleinum, jólabrauði og heitum lummum, og ekki var vín- flöskunni gleymt. Svo kom súkkulaði og kaffi. „Þú hefur allt of mikið fyrir mér, Lína mín“, sagði Jón og klappaði á hönd hennar, þegar hún lét flöskuna hjá pörunum hans. Svo lagði Jón af stað og Doddi fylgdi honum til dyra. Hildur varð eftir inni. „Hvar skyldi Lína vera?“ sagði Jón, þegar hann hafði leyst hestinn frá steininum. „Líklega er hún í eldhúsinu“, sagði Doddi. Jon rétti honum taumana á Fálka. „Viltu gera svo vel og halda í hestinn — það má ekki minna vera en ég kveðji hana“. Jón bograði inn í eldhúsið, þótt það væri allt annað en þægilegt, því að dyrnar voru lágar. Lína var þar. „Ég kom til að kveðja þig ,góða“, sagði hann. Hún var samstundis komin í faðm hans og fann enn einu sinni kossa hans brenna á vörum sér. „Hefur þér kannske dottið eitthvað nýtt í hug?“ hvíslaði hann milli kossanna. „Ég er á sömu skoðun og síðast“, hvíslaði hún á móti, en nú var hún hvorki hrygg né kvíðandi. „Þú gengur með mér hérna fram á eyrarnar, Doddi minn“, sagði Jón, þegar hann kom út aftur. „Þú ferð ekki að slá í kvöld hvort eð er“. „Eins og þú vilt“, sagði Doddi uppveðraður. Þeir gengu fram að Einbúa. Þar settust þeir. Hildur stóð fyrir sunnan bæinn og horfði brosleit á eftir þeim. Daginn eftir fór Doddi að slá suður í breiðinni. Hann var ánægjulegur á svip, þegar hann sá Línu koma með hrífuna. Hann bjóst við, að hún myndi koma til hans og tala um það, sem Jón hafði minnzt á við hana kvöldið áður, en hún gerði það ekki, heldur fór að raka þar, sem lengst var á milli þeirra. En dugleg var hún að raka — það þóttist hann fljótlega sjá. Það hafði Jón líka sagt, að þær færu ekki aðrar fram úr henni á spildunni, þótt hún væri grönn og veikluleg. Þegar Hildur kallaði til þeirra um miðjan daginn, bauðst Lína til þess að ná hestinum að Hóli. Doddi ætlaði að flytja ullina seinni part dagsins. Lína var alltaf jafn snúningaviljug. „Nei, ég skal fara eftir hestinum“, sagði Doddi. „Þú verður að hlífa þér, Lína, fyrst þú ert svona — svona lasin. Hann talaði um það“. Þá kafroðnaði Lína upp í hársrætur. „Ég verð nú sjálfsagt að reyna að puða eitthvað, ef þú ætlar að taka af mér allar ærnar, og það er þá heldur ekki ómögulegt að mig langi til að láta eina eða tvær gimbrar lifa — og þá er ég nú orðin þó nokkuð dýr vinnukona“, sagði hún, og var samstundis hlaupin af stað. Doddi kallaði á eftir henni: „Ég fóðra eins margt og þú vilt. Þetta fer nú allt að verða öðru- vísi en það hefur verið“. Lína hljóp bara burtu og lét sem hún heyrði ekki til hans. Næstu viku var þurrkur á hverjum degi- Doddi gerði ekki annað en að slá, því að kven- fólkið þurrkaði og sætti. Honum gafst aldrei tími til að tala við Línu einslega, þótt hann langaði mikið til þess. Lína var búin að taka gleði sína aftur, þótt hún syngi aldrei framar. Hildur minntist einu sinni á það við hana, hvað það hefði verið leiðinlegt að sjá, hve legið hefði illa á henni um kvöldið út við lækinn. Þá hló Lína bara og sagði, að það hefði gripið sig eitthvert volæðis- kast; hún hefði líka verið svo rækalli lasin og sér hefði dottið í hug, hversu hræðilegt það væri, ef hún ætti það fyrir höndum að vera heilsulaus alla ævina. En núna, þegar hún væri svona frísk, gæti hún hlegið að þessu hugleysi. Hildur gat líka ósköp vel skilið það, að ekkert væri hryggilegra fyrir tvítuga manneskju en slíkar hugsanir — og ekki sízt fyrir aðra eins dugnaðarstúlku og Línu. Á laugardagskvöldið var breiðin krökk af sí- grænum sætum — og þá lá líka vel á öllum. Hildur fór ekki heim fyrr en búið var að sæta allt upp. Hún vildi láta Línu koma heim með sér og hirða ekki um ljáarhornið — hún væri víst orðin nógu þreytt. En Lína sagðist ekki hafa ljána um hálsinn yfir helgina. „Ég get rakað með henni, svo að það gangi fyrr“, sagði Doddi. En ekki vildi Lína það. Doddi fór því að slá suður við merki, en hún rakaði þó nokkuð neðar. Eftir stutta stund kom Hildur suður fyrir túnið með böggul. Hún veifaði honum til þeirra og skildi hann þar eftir. Þetta var kaffi. Lína sótti það. Þau settust síðan vestan undir eitt sætið, meðan þau drukku kaffið. „Finnst þér þú ekki hressast við að fá kaffið?“ spurði hann broshýr. „Jú, það var ágætt“, sagði hún og hallaði sér upp að sætinu og lagði aftur augun, því að sólin skein beint framan í hana. Þá færði Doddi sig nær henni. Nú ætlaði hann að tala við hana — það dugði ekki þetta hangs lengur. Nú var tækifærið. „Lína“, sagði hann, „veiztu hvað Jón hrepp- stjóri var að tala um við mig á þriðjudagskvöldið, þegar ég gekk með honum fram eyrarnar?“ Lína lagði handlegginn yfir andlitið. „Ætli ég fari ekki nærri um það“, svaraði hún. „Hann vill að við giftum okkur — og setjum upp hringana bráðlega“. Hún leit til hans út undan handleggnum. „Var það ekki eitthvað meira?“ spurði hún. „Jú, ójú, það gerði hann nú, sá góði maður. Hann sagði að þú — þú værir til með það“. „Já, það var ég, sem stakk upp á því. Ég treysti þér til að þegja yfir vandræðum mínum og lítilsvirða mig ekki þeirra vegna“. „Það væri nú skárra, ef ég gæti ekki þagað. Hverjum svo sem kemur þetta við? Nei, nú þarf engu að kvíða með það. Ég er vel ánægður og meira en það, að fá aðra eins konu og þú ert. Þær eru ekki á hverju strái, eins og hann sagði- Hvað svo sem kemur mér hitt við? Þú ert líklega jafngóð fyrir það, eins og hann sagði, blessaður. En ég er bara hissa á því, að þetta skyldi koma fyrir hann — giftan manninn“. Lína færði handlegginn enn betur yfir and- litið til þess að hylja blygðunarroðann. „Það gengur nú svona, Doddi minn. Það getur öllum yfirsézt“, sagði hún lágt. „Já, ójá, ég fer nú að hugsa það. En það er ekki von, að hann geti neitt átt við það meira vegna konunnar. Hann sagði það líka, að það væri vegna hennar“. „Ég reyni að verða þér góð kona“, greip hún fram í fyrir honum. „Ég er nú svo sem ekkert hræddur við það, að sambúðin verði ekki góð“, sagði hann kátur. „Ég hikaði ekki lengi — ekki eitt augnablik. Mér var búið að detta þetta í hug fyrir löngu — já, strax í vetur. En ég hikaði við að nefna það. Heldurðu að mömmu þyki ekki vænt um?“ „Það breytist nú sjálfsagt, þegar hún heyrir, hvernig ástatt er fyrir mér“, sagði hún dauflega.

x

Lögberg

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.