Lögberg - 19.01.1956, Blaðsíða 6

Lögberg - 19.01.1956, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 19. JANÚAR 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Eina nóttina, þegar hún vakti, datt henni það allt í einu í hug, sem hún hafði reyndar hugsað um áður, að fara til Ameríku með drenginn. Þar gæti hún átt hann ein, en Jón yrði að sakna hans. Það yrði mátulegt handa honum. Hún var búin að líða nóg á þessu heimili. Maður hennar var búinn að ræna hana því dýrmætasta, sem hún hafði átt: ást hans — og hana eignaðist hún aldrei aftur. Um morguninn fór hún að taka frá fötin, sem hún ætlaði að hafa með í ferðinni vestur. Það veitti ekki af að hafa hraðan á, því að það var orðið áliðið. Hún þurfti að sauma mikið áður — vera dugleg. Hún opnaði hverja kommóðu- skúffuna af annarri, tók ýmislegt úr þeim og lagði það á stól nálægt sér. Neðsta skúffan, sem hafði alltaf geymt það helgasta, smábarnafötin, var nú svo átakanlega tómleg, þegar hún opnaði hana, að henni hnykkti við.Var það ekki alveg dæma- laust, að henni skyldi detta í hug að gefa Línu fötin handa barninu hans? Henni hafði aldrei fyrr dottið í hug að farga fötunum. Ó, þetta var allt svo grátlega undarlegt. Hún lokaði skúffunni, fór fram úr húsinu og skildi fötin eftir á stólnum. í stofunni var mikið til að athuga, bæði í kommóð- unni hennar fóstru hennar og skattholinu. Þetta yrði nú meira umstangið og fyrirhöfnin. Hver myndi svo hjálpa henni við að koma þessu öllu til skips, því að líklega yrði maðurinn hennar ekki svo ánægður yfir þessu, að hann legði þar hönd að verki? En hún var viss um, að Þórður hjálpaði sér. Ef enginn á heimilinu vildi skipta sér af því, færi hún út að Hjalla og fengi Sigþrúði í lið með sér. Auðvitað fyndist henni það ganga næst glæpi að yfirgefa Nautaflatir. Og það yrði líka hart að- göngu, en hún ætlaði nú samt að drífa sig, hvað sem hver segði. En svo var það margt, sem athuga þurfti. Þegar hún kæmi vestur til allra ókunnugra, þá yrði hún alveg ráðalaus. Hún ætlaði að reyna að fá Þórð með sér vestur. Það hlaut að vera ein- manalegt líf, sem hann lifði hér heima, þegar þetta eina skyldmenni hans var dáið. Hún var næstum viss um, að Þórður kæmi með sér til Ameríku. Svo ætlaði hún ekki að láta neinn vita fyrr en svona rétt áður en hún færi. Líklega yrði fólkið heldur hissa. Ekki var ólíklegt að því fyndist heimilið niðursett. Borghildur var að fá sér aukasopa, þegar Anna kom í eldhúsið. „Viltu ekki fá þér svolítinn dropa mér til samlætis, Anna mín?“ sagði hún með móðurlegri blíðu. Anna gerði það. „Aumingja Borghildur“, hugsaði hún á leið- inni fram í stofuna, „sárt verður að skilja við hana. Hver skyldi verða mér eins og hún?“ Svarið kom eins fljótt og bergmál: „Enginn!“ Þar yrði hún einmana svona fyrst í stað. Anna færði stól að kommóðu Lísibetar hús- freyju. Hún var alltaf kölluð dragkista. Hún dró út efri miðskúffuna. Þarna var hátíðabúnaðurinn framliðnu konunnar, stokkabelti, koffur og slæða, allt vafið í fínan pappír. Hér talaði allt til hennar á máli endurminninganna. Hvað skyldi mamma hafa sagt? Hún sneri sér við í stólnum, svo að hún gæti séð framan í stækkuðu myndina á veggnum. En hvað hún var falleg og tilkomumikil með skautið, hún elsku mamma. „Hvað á ég eð gera? Hvernig á ég að lifa?“ spurði hún í hálfum hljóðum kalda myndina. Og henni fannst hún myndi segja það, sem hún hafði svo oft sagt áður: „Reyndu að vera stillt og kjarkgóð. Það er það, sem þig vantar mest“. Hún þurfti þess áreiðan- lega með í þessu byltingastríði, sem var fyrir hendi. Hún leit sem snöggvast á mynd fóstra síns. Hann bar sinn vanalega prúðmennskusvip og hefði sjálfsagt gefið henni sitt venjulega hollráð, hefði hún leitað til hans í raunum sínum: „Lestu í biblíunni, góða mín“. En nú var það svo undar- legt, að biblían gat ekki veitt henni nokkra huggun framar. Hugurinn var svo bundinn við sorgina og vonleysið, að hann gat ekki festst við ritninguna eða notið þessarar huggunarríku lærdóma. Hún fór að athuga innihald skúffunnar, sem eiginlega tilheyrði mest íslenzkri konu. Hvað svo sem átti að gera við þetta? Hér eftir skartaði engin kona í þessum búningi, hvorki við brúðkaup, skírnir eða fermingu. Það var sjálfsagt að láta það verða eftir í skúffunni. Sonur Lísibetar skyldi ráða, hvað hann gerði við hátíðabúning móður sinnar. Henni hafði allra snöggvast dottið í hug, að gefa Borghildi hann, en hún átti þetta víst ekki. Það var móðir hans, sem bar þennan búning. En hún hafði nú reyndar alltaf álitið, að hún væri móðir sín líka. Hún horfði á skínandi gulldjásnið og andvarpaði. Hún hafði fellt mörg tár yfir þessu, fyrst eftir að fóstra hennar var kölluð burt. Nú var það sár gróið og öll önnur, en nýtt sár komið, sem aldrei greri. Síðan lét hún allt í sömu skorður og það var áður. Fór síðan inn í hjónahúsið, tók fötin, sem voru á stólnum, og lét þau niður aftur. Hún gat ekki hugsað um þetta meira í dag. Samt endurtók þetta sig aftur og aftur. Hún fór fram í stofuna á ný, tók upp úr skúffunum og raðaði svo snyrtilega í þær aftur. Það yrði hart aðgöngu að slíta sig frá þessu heimili, svo margar viðkvæmar taugar bundu hana við það. Loks ranglaði hún niður í kirkjugarðinn og settist hjá leiði litla drengsins síns. Hér voru þó áreiðanlega sterkustu ræturnar, hingað var stytzti og fyrirhafnarminnsti flutningurinn, hugsaði hún örvingluð. Borghildur fylgdist með aðförum hennar. Hún horfði á það út um skálagluggann, að Jón kom neðan frá fjár- húsunum og gekk skammt frá kirkjugarðinum án þess að fara til Önnu eða yrða á hana. Borghildur var heldur ströng á svipinn, þegar hún kom fram í bæjardyrnar um leið og hann kom að utan. „Hvers konar ráðslag er þetta, maður, því reyndirðu ekki að hafa hana heim með þér?“ Það kom hálfgert fát á hann. „Það þýðir ekkert að ég tali við hana. Hún setur bara í sig ofsa, og það væri óviðeigandi þarna út við kirkju- garðinn“, sagði hann. „Þú reynir að tala við hana — hún er betri við þig“. „Mér heyrist þú lítið gera að því að tala við hana“, sagði hún og snaraðist út úr dyrunum og niður í garðinn. „Komdu heim, góða mín, þér verður kalt“, sagði hún og tók undir handlegg Önnu. „Það er ágætt kaffi á könnunni, sem hressir Þig“- „Mér er alveg sama, þótt mér verði kalt“, svaraði Anna. Það var svo átakanlegt vonleysi í málrómnum, að Borghildur mátti harka af sér að klökkna ekki. „Mannstu eftir litla drengnum mínum, Borghildur?“ spurði Anna á leiðinni heim. „Já, auðvitað munum við öll eftir honum“, „Manstu hvað hann var veikur og lítill?“ „Þótt hann væri of veikburða til að geta lifað hjá okkur, er hann jafndýrlegur og aðrir englar hjá drottni“, sagði Borghildur. Jón stóð í bæjardyrunum, en hvarf þaðan, þegar þær komu heim á hlaðið. Það var funheitt í eldhúsinu. Anna settist í vanasætið sitt við fremri borðsendann. Hún studdi olnbogunum á borðið og fól andlitið í höndum sér og kveinaði: „Ég er svo hrygg, Borghildur, hrygg og einmana. Það talar enginn við mig, nema þú og Jakob. Það eru víst allir hræddir við mig, halda víst að ég sé að verða brjáluð eins og hann faðir minn heitinn“. „Hvaða óttaleg vitleysa er þetta, góða mín“, greip Borghildur fram í. „Hver hefur sagt þér þessa vitleysu? Hann varð aldrei brjálaður. Þú mátt ekki setja þetta fyrir þig“. „Varð hann það ekki?“ spurði Anna áköf og tók hendurnar frá andlitinu. „Nei, þú mátt trúa því“, sagði Borghildur. „Mér finnst þetta endilega, síðan ég varð svona — svona óánægð og á svona bágt með að sofa. Og það, sem verra er — mér heyrist hann vera að hvísla að mér í myrkrinu. Það er voða- legt“. „Lestu nokkurn tíma í biblíunni, góða mín?“ spurði Borghildur. „Mér finnst ég ómögulega geta það. Ég man ekki um hvað ég er að lesa, enda dreymir mig pabba og mömmu aldrei eða litlu börnin mín. Það eru allir búnir að gleyma mér, nema þú og Jakob“. „Þér finnst þetta, góða mín, af því þú ert svo lasin. Hérna kemur nú kaffið. Við skulum hressa okkur á blessuðum sopanum. Svo skaltu bara fara að hátta og hvíla þig“. „Náttin verður nógu löng fyrir mig, þótt ég fari ekki að hátta strax“, sagði Anna mæðulega. Þegar þær voru nýbúnar að drekka úr bollun- um, kom Steini inn með gest utan af Strönd. Anna flýtti sér inn áður en hann hafði heilsað henni. STÓRHRÍÐ Það var liðinn hálfur mánuður frá því Þórður fór að heiman. Á hverjum degi töluðu krakkarnir um það, að Þórður myndi koma í kvöld, og Gróa tók vanalega undir það. Hún skildi nú bara ekkert í því, hvað maðurinn gæti alltaf verið að gera allan þennan tíma. „Það er orðið svo vanalegt að sjá hann setjast við borðið og hátta í rúmið sitt, að ég er næstum farin að þrá að hann komi“, sagði Borghildur brosandi eitt kvöldið, þegar allt heimilisfólkið var að drekka kaffið við eldhúsborðið. Anna sat í sæti sínu aldrei þessu vön. Þær höfðu verið að koma framan úr fjalli, Borghildur og hún. Heimilis- fólkinu virtist hún vera talsvert að hressast í útliti, en aldrei heyrði það húsbóndann tala við hana eða hana yrða á hann. Það var meira en nokkur gat skilið, jafngóð og hjónasambúðin hafði verið áður fyrr. Líklegasta skýringin var sú, að Jón óttaðist að Anna segði eitthvað, sem hann gæti ekki þolað að vinnufólkið heyrði. Nú leit út fyrir, að Jón væri með hressasta móti, hann sat með Kristján litla og lét hann hafa yfir þulu, sem Manga var nýbúin að kenna honum. „Heldurðu að Þórður komi í kvöld, pabbi?“ spurði Jakob. „Mér er farið að leiðast eftir honum“. „Ég hefði viljað láta hann koma heim í kvöld“, sagði faðir hans um leið og hann rétti bollann í áttina til Borghildar, svo að hún gæti hellt í hann aftur. „Það eru veðrabrigði í aðsigi — mikill veðurhvinur í fjallinu og „glasið“ hrapar niður. Það verður komið annað veður í fyrramálið“. „Kötturinn reif líka stoðirnar í fjósinu í morgun“, sagði Manga. „Og sauðirnir börðust eins og þeir væru vit- lausir“, sagði Steini. „Allt boðar þetta stórhríð. Líklega hafa pott- arnir verið hvítir að neðan hjá Borghildi“, sagði Jón gleðlega. Það var nú orðið óvanalegt að hann gerði að gamni sínu. Gróa ræskti sig lítið eitt. Hún hafði ekki séð neitt fyrirbæri, en hún hafði annað í huga, sem var henni kærkomið umtalsefní og hafði brunnið á vörum hennar á hverjum degi. En þessi drungi, sem alltaf var yfir heimilinu, hafði aftrað henni frá að láta það uppskátt. Nú ætlaði hún að nota tækifærið. „Hvað heldur þú, húsbóndi góður, að Þórður geri við þessa jörð í vor — Bjarnastaði meina ég?“ spurði hún dálítið hikandi. „Það verða víst engin vandræði með að byggja hana, þó aðseint sé. Þetta er ágætisjörð“, svaraði Jón. Jakob brosti dularfullu brosi. Hann átti dá- lítið leyndarmál, sem var tengt við Bjarnastaði. Krökkunum þykir alltaf gaman að leyndarmál- um. Það vissi enginn nema' pabbi og Borghildur, að hann hefði komið á ókunnan bæ í ókunnri sveit, en hann ætlaði aldrei 'að segja nokkrum frá því, þar sem Borghildur hafði beðið hans að geta þess ekki. ,Mér þykir líklegt að hann fari að búa þar sjálfur. Ég ætlaði einmitt að bjóða honum að rázka fyrir hann“, sagði Gróa og hló ,svo að skjannhvítar tennurnar komu í ljós. „Ég yrði víst ekkert sérlega ánægður yfir því, ef þið færuð bæði frá mér núna, þegar komið er undir sumarmál, enda dettur Þórði það ekki í hug. Hann á Selið víst, ef honum dettur búskapur í hug. Við erum búnir að vera hvor við hliðina á öðrum alla ævina, svo að ég get ekki hugsað til að hann fari langt í burtu. Og svo vil ég hafa hann nálægt mér í kirkjugarðinum, þegar þar að kemur“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.