Lögberg - 05.04.1956, Blaðsíða 6

Lögberg - 05.04.1956, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 5. APRÍL 1956 GUÐRON FRA LUNDIs DALALÍF „Vertu bara róleg, Borghildur mín. Það verða varla margar sólir af lofti, þegar hún verður komin heim aftur. Hvar heldurðu að hún uni sér annars staðar en þar, sem þú ert til að stjana við hana, og sízt í þessu húsi. Þó að ég þekki þar ekki mikið til, er það víst heldur hávært fyrir hana eins og hún er núna. „Ég fer að halda að Sigga gamla hafi ekki verið svo glámskyggn yfir spilunum. Hún talaði stundum um, að Jón ætti mæðulegt hjónaband fyrir höndum“. „Nei, það var áreiðanlegt að Sigga fór ekki með neina vitleysu“, sagði Þórður. „Það er bezt að vera ekki að álpast út í neitt hjónaband. Það höfum við bæði séð, Borghildur. Svo skulum við fá okkur kaffi og vera ánægð með okkar einlífi. — Þetta lagast allt með tímanum fyrir önnu. Hún er ólíkt hressari núna en fyrst þegar þessi ósköp komu yfir hana“. „Jóni verður ekki vel við, þegar hann kemur heim“, sagði Borghildur, þegar þau voru að drekka kaffið. „Þú segir bæði honum og öðrum að hún hafi farið ofan á Ós að kaupa „kram“ og ætlað að gista“, lagði Þórður til málanna. „Ég segi honum nú allt, sem mér dettur í hug“. Önnu var léttara um andardráttinn en vant var, þar sem hún reið út dalinn. Henni fannst hún vera að flytja úr fangelsi út í víða og fagra veröld. Steini var sífellt að glamra um hitt og þetta, sem fyrir augun bar, en hún svaraði því fáu, en fannst bara dalurinn óvanalega langur. Það var líka talsvert lengra að fara að austan- verðu heldur en yfir ána, sagði Steini spekings- lega, þegar hún lét í ljós, að sér fyndist þeim ganga ferðin seint. Loksins var hún þó komin alla leið. Hún studdi sig við Steina, meðan hún var að komast af baki. Svo tiplaði hún heim að kaupmannshúsinu bakdyramegin. Helga kom út í dyrnar, og Önnu fannst hún horfa svo skrítilega ú sig — ekki ólíkt því, að hún væri hálfhrædd við hana. Anna spurði eftir Matthildi og Helga var fljót að hverfa inn. Svo kom hún fram aftur og bauð Önnu að fá sér sæti í eldhúsinu, hún væri náttúrlega þreytt að fara svona langt, frúin væri vant við látin sem stæði og svo eitthvað meira, sem Anna veitti ekki athygli. Hún settist, því að hún var orðin þreytt, en það fann hún reyndar ekki fyrr en þessi nærgætna stúlka minntist á það. Loksins kom frúin fram. Hún rétti báðar hendurnar móti gestinum og brosti fallega: „Nú er ég alveg hissa. Ég hélt að þú ætlaðir ekkert að hafa fyrir því að koma, og reyndar var ég ekkert undrandi yfir því, eftir að Gróa var búin að lýsa heilsufari þínu. En hvað það er ánægjulegt að þú ert að hressast. Ég býst við, að það sé eitthvað eftir af „kraminu“, þó að þú komir seint“. „En ég er nú ekki komin til þess að verzla, heldur til þess að vera lengi hjá þér“, sagði Anna barnslega glöð. „Ó, hvað það var gaman“, sagði frúin. „Þú hefðir átt að. hafa drenginn með þér. Hann er kúldaður allt of mikið heima. Hann ætti að koma oftar ofan eftir. Harald langar til að hafa hann fyrir leikfélaga. Góða, komdu nú inn í stofuna". Steini kom nú með ferðatöskuna hennar Gróu. Hann heilsaði frúnni og vinnukonunni með handabandi að gömlum og góðum sveitasið. Síðan spurði hann Önnu, hvort hann ætti að taka nokkuð til baka. „Ekki nema góða kveðju til allra“, sagði hún. Svo kvaddi hann og fór. Anna sá að frúin gaf töskunni forvitnislegt hornauga, en Steina virti hún ekki viðlits. „Nú skil ég, hvað þú ert að fara, Anna mín. Þú ert náttúrlega að leggja af stað suður þér til lækn- inga, en þú ferð þó ekki ein. Jón hlýtur að fara með þér“. „Ég er bara að koma til þín, og ætla að vera hérna lengi — það er að segja, ef þú getur lofað mér að vera einhvers staðar út af fyrir mig“, sagði Anna, en stanzaði svo. Það yrði dálítið óþægilegt að útskýra það fyrir frúnni, hvers vegna hún væri að breyta svona til. Frúin spurði hana ekki fleiri spurninga, en leiddi Önnu inn í borðstofuna og bauð henni sæti. Sjálf stóð hún við gluggann og horfði út, eins og hún væri að hugsa um eitthvað, sem vandráðið væri fram úr. Önnu fannst hún svo allt öðruvísi en hún var vön, að hún var komin að því að spyrja hana, hvort hún væri ekki vel frísk, en þá tók frúin til máls: „Þú varst eitthvað lasin um daginn, áttir bágt með svefn og eitthvað meira. Þú ættir bara að drífa þig suður. Hér er enga bót hægt að fá við svoleiðis. Hann gerir nú minna, hann Halldór læknir“. „Ég hef ekki verið vel frísk, en nú er það allt orðið gott“, flýtti Anna sðt að segja. „Mig langar til að biðja þig að lofa mér að vera hérna nokkra daga, svo að ég geti jafnað Tnig til fulls“. „Þér er það velkomið. Það er náttúrlega ekki mikið húsrúm, en samt hlýt ég að geta rýmt til nokkrar nætur. Það er frú Svanfríður, sem gæti lánað húsnæði sér að meinalausu“. „Er ekki herbergið hérna í vesturendanum ónotað eins og vanalega?“ spurði Anna með meiri ákafa en hún hefði viljað láta á bera. Það var einmitt það, sem hún hafði augastað á — svefn- herbergi foreldra hennar. Við það voru bundnar hlýjar minningar barnæskunnar. „Ja, ég læt gesti sofa í því, en það er lítið um þá núna“, anzaði frúin tómlega. Svo fór hún fram. Anna hugsaði margt. Því var hún eitthvað öðruvísi en hún var vön? Kannske hafði Gróa rausað eitthvað, sem helzt hefði átt að vera ósagt, en það kom víst Matthildi lítið við. Hún fann til ónotalegra þreytuverkja eftir reiðtúrinn. Náttúr- lega fengi hún strengi af óvananum. Þarna sat Steini á hestbaki og talaði við Rósu, kærustuna hans Sigga. Anna færði sig út að glugganum, þegar hún sá að þau kvöddust. Hún varð að sjá Stjarna sinn, þegar hann kæmi í ljósmál næst hinum megin árinnar. Lílega yrði langt þangað til hún kæmi á bak honum, þessum indæla hesti. Villa kom nú inn og fór að breiða dúk á borðið. Hún heilsaði Önnu með höfuðbey^ingu: „Sælar! Þér hafið verið að ríða út í góða veðrinu. Var það ekki indælt?" Hún talaði í þeim tón, sem vanalega er notaður við smábörn. „Jú, það var gaman að koma á hestbak", svaraði Anna. Henni fannst bæði stúlkurnar og frúin mæla sig og vega með augunum, eins og þær sæju sig í fyrsta sinn. Nokkru seinna settist fjölskyldan að mið- degisverði. Kristján kaupmaður var tuttugu og fimm árum eldri en kona hans, skinhoraður og visinn, með úlfgrátt hár og skegg, kaldur á svip og óþýður í máli. Flibbinn og handstúkurnar voru harðar og hólkuðust utan um beinabera úlnliðina og mjóan hálsinn. Frúin var hreinasta mótsögn við mann sinn í útliti, spikfeit með undirhöku, brún augu og hrafnsvart hár. Svipurinn og hreyf- ingarnar voru fyrirmannlegar. Önnu fannst hún alltaf verða lítil, þegar hún var nálægt henni — aldrei þó eins og núna, þegar hún var svo hræði- lega föl og mögur. Kaupmaðurinn var úfinn í skapi og byrjaði á því að finna að matnum, sagði að kjötifi væri illa soðið. Frúin svaraði í sama tón, að ekki fyndi hún að það væri seigt. Þó reyndi hún að tala þægilega til Önnu og spurði hana, hvort færið væri ekki hálfslæmt framan að. / „Jú, líklega er það hálfslæmt“, anzaði hún, en reyndar hafði hún ltíið tekið eftir því, hvort Stjarni slapp í öðru hvoru. Hugur hennar hafði verið svo bundinn við þessa breytingu, sem fram undan var, að hún gætti einskis annars. Samtalið gekk stirt þangað til talið barst að Gróu. „Hvernig fellur þér við hana?“ spurði Matt- hildur. „Hún þótti nú hálfgerð málaskjóða hérna, skinnið. En hún þvoði vel. Nú, mér féll svo sem ekkert illa masið í henni“. „Hún er prýðishjú“, sagði Anna. öðruvísi vitnisburð gáfu þau hjónin engu hjúi sínu. „Svo-o-o. Þér fellur nú við allar þínar stúlkur. Ég vildi að ég væri eins heppin með vinnukon- urnar og þú“, sagði frúin brosandi. „En það eru nú kannske dálítið öðruvísi verk, sem þarf að vinna í kaupstað eða sveit. Allar manneskjur geta þó lært að mjólka kýr og raka hey og spinna skammlaust band. Og svo held ég að þið sveita- konurnar séuð ákaflega mikið óvandlátari við stúlkurnar en við. Það fannst mér móðir mín vera“. „Kannske þú álítir að það sé ekkert, sem þarf að gera í sveitinni, annað en að raka á sumrin og spinna á veturna“, gégndi kaupmaðurinn konu sinni. „Það er heldur ekki sama, hvernig þau verk eru unnin“. „Ég er víst ekki ókunnug sveitastörfum, sem er alin upp í sveit“, anzaði frúin stuttlega. „Það þarf mikið fleira að gera“, sagði Anna brosandi, „sífelldir þvottar og svo þjónustu- brögðin á karlmönnunum, sem eru mikið meiri í sveitinni en hérna í kaupstaðnum“. „Jæja, það er nú svona, Anna mín, ég hef nú tvær vinnukonur. Þær þykjast alltaf vera slit- uppgefnar. það væri víst óhugsandi, að þær hefðu tíma til að spinna eina einustu snældu, hvað þá meira. Nú er heimilisfólkið mikið færra hér en hjá þér, svo að eitthvað hlýtur að vera minna að gera eða fleira sett til hliðar í sveitinni". „Ég hef þrjár stúlkur og bæti stundum þeirri fjórðu við að vetrinum, þegar mikið liggur á að koma upp vef, og svo vinnur Borghildur á við tvær“. „Einmitt það, þá breytist nú dæmið þó nokkuð. Þú hefur þá fjórar vinnukonur og stund- um þá fimmtu. Það er hægt að gera anzi mikið með þeim hóp. Annars þarf ég að minnast á Borg- hildi við þig seinna. Hún hefur oftast verið með þér, þegar þú hefur komið, og gætt þín eins og smábarns, svo að ég hef ekki komizt að með eitt orð nema við ykkur báðar“. „Hvað skyldi það nú svo sem vera?“ hugsaði Anna. Matthildur var undarlega íbyggin á svip- inn núna. Líklega var hún í slæmu skapi •— kannske eitthvað milli hjónanna. Gróa sagði, að hjónabandið væri hálfkaldranalegt. Kaupmaðurinn stóð upp frá borðinu og fór burt, án þess að þakka konu sinni með einu orði fyrir matinn — því síður með kossi .Reyndar var það sjálfsagt ekki eftirsóknarvert að kyssa svona gamlan og kaldlyndan mann. Það hlaut að vera óskemmtilegt fyrir svona unga og fallega konu. Litlu bræðurnir höfðu ekkert fyrir því heldur að þakka móður sinni fyrir sig, heldur fóru þeir út að glugganum og aðgættu, hvað úti fyrir væri að gerast meðal leikfélaganna, sem þeir höfðu skilið við fyrir stundu síðan. „Þarna bíður Bjössi eftir þér til að geta rifist við þig. aftur“, sagði yngrL bróðirinn, Hákon. Þá tók Haraldur rauðan, nýjan blýant úr vasa sínum og hélt honum á milli fingranna fast við rúðuna, sigri hrósandi á svipirpi. „Svínið þitt!“ var þá orgað úr strákahópnum- „Þarna ertu með blýantinn minn — fáðu mér hann undir eins“. Dálítill snáði nálgaðist glugg' ann, auðsjáanlega hamslaus af bræði. Þá stakk Haraldur blýantinum í vasann og hló framan í félaga sinn. „Haraldur, reyndu að fá Bjössa blýantinn eða ég tala við hann pabba þinn“, var þá allt í einU sagt með rödd, sem Anna kannaðist við Það var Siggi Daníels. Haraldur opnaði gluggann til hálfs og kallaði út: „Haltu kjafti, Siggi! Þér kemur þetta ekkert við, slettirekuræfillinn þinn“. Anna andvarpaði: Drottinn minn, hvað börnin læra ljótt orðbragð hér í kaupstaðnum“. „Ó-já, það eru nógu margir kennarar í þeirri námsgrein“, sagði frúin. „Mér finnst nú að svona lagað komi Sigurði lítið við. Það er bezt að láta þá tvo eina um það. En hann hagar sér nú alltaf eins og götustrákur, og er það líka að upplagi • „Siggi er ágætur“, sagði Anna. „Ég var næst- um búin að gleyma því, að ég ætti þar kunningja hér í kaupstaðnum“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.