Lögberg - 30.08.1956, Side 6
6
LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 30. ÁGÚST 1956
GUÐRÚN FRÁ LUNDI:
DALALÍF
„Nú, einmitt það! Ekki er nú tekið grunnt í
árinni“, sagði hann háðslega. „Svo það er þá satt,
sem sveitungar þínir segja, að Jón sé ekki frjáls
að því að drekka vín heima eða veita gestum
sínum það. Hvernig myndi þér íalla það, ef hann
bannaði þér að drekka kaffi eða veita það gestum
þínum? Á ég að segja þér, hvernig ég hef það,
þegar ég er aflögufær. Þá býð ég heim kunningj-
unum, drekk og spila fram á nætur. Og þó að
mín kona hafi alltaf þótt stórlynd og ráðrík, dettur
henni ekki í hug að rífast út af því, enda væri það
þýðingarlítið. Því er ég hissa á Jóni að líða þér
svona lagaða frekju, liggur mér við að segja,
þeirri konu, sem hann tók að sér allslausa. Allt
hér er því hans eign. Dálítill munur þó með Gunn-
hildi — hún átti þó jörðina og talsverðar eignir,
en ég ekki neitt,- sem ekki var heldur von til,
búinn að kosta mig til náms í mörg ár. Það er svo
sem nógu ánægjulegt að láta hlúa svoleiðis að sér,
en lakara að láta telja það eftir, eins og þú máske
þekkir“.
Anna komst nú loksins að. „Nei, það þekki
ég ekki“, sagði hún. „Þú ert fyrsti maðurinn, sem
minnist á það, svo að ég heyri, að ég hafi verið
allslaus, þegar ég giftist“.
„Jæja, er það svo?“ sagði hann með uppgerð-
arundrun. „Ég hélt nú kannske að Jóni mínum
yrði það á í gremju sinni, þegar þú bannar honum
að opna vínskápinn, að minna þig á,umkomuleysi
þitt áður fyrr. En það sýnir barna, að hann er
gull að manni. Þú hefur talað rétt og satt, þegar
þú sagðir mér það fyrir tólf árum að það væru
engir gallar í hans fari. En samt virðist mér eitt-
hvað vera að hjónabandinu“, sagði hann og brosti
háðslega.
„Ég hef aldrei bannað honum að veita gestum
sínum vín. Hann veit bara að ég vil það ekki, og
þess vegna gerir hann það aldrei í stórum stíl“,
sagði Anna.
„Einmitt það! Hætti hann þá algerlega að
gera sér glaðan dag með kunningjunum, þegar
þ>ú komst til sögunnar?"
„Hann hefur aldrei gert sér glaðan dag með
vinum sínum hér heima — það er að segja eins og
þú meinar. Það hefur alltaf verið dansað og leikið
sér úti og inni, en vín var aldrei haft um hönd,
vegna þess að pabbi sálugi gat ekki liðið slíkt“,
sagði Anna og var gröm yfir hæðnisglottinu á
vörum hans.
Séra Hallgrímur horfði á hana hálfhissa og
tók upp eftir henni orðið „pabbi“. Svo rankaði
hann við sér. „Nú fer ég að skilja, við hvern þú
átt. Það er Jakob hreppstjóri. Þetta er líkt hans
sérvizku og smásálarskap. Þessu hefði ég aldrei
trúað, að Lísibet hefði látið drenginn vera þræl
duttlunga föðursins og ekki lofað honum að gleðja
sig með vinum sínum, þegar nóg var ríkidæmið“.
„Þér skjátlast þar algerlega. Jón var mikið
eftirlætisbarn, sem mátti lifa og leika sér eins og
honum þóknaðist. En honum leiðst aldrei að gera
pabba á móti skapi. Mamma var alveg einstök
kona við mann sinn. Ég vissi aldrei til þess að þau
yrðu ósátt“, sagði Anna.
„Já, náttúrlega eins og allar eiginkonur eiga
að vera“, sagði hann jafnháðslega og áður. „Þetta
fylgir jörðinni. Lísibet var valkvendi. Það sýndi
hún með því að geta búið með þessum manni, sem
var svo langt fyrir neðan hana að öllu leyti. Það
var bara auðurinn, sem þar var gengizt fyrir.
Faðir hennar vildi endilega að hún færi hingað.
Hún var trúlofuð þessum mikla myndar- og gáfu-
manni, sem hún hefur líklega elskað alla
ævina----------“.
„Nei, hættu nú alveg greip Anna fram í fyrir
honum. „Ég get sagt þér það, að bæði mér og
öllum öðrum þótti eins vænt um pabba og
mömmu, þó að hann væri ekki jafnglæsilegur í
sjón og hún. Hann var svo guðhræddur og góður.
Ég man, hvað hann huggaði mig vel, þegar ég
missti litlu stúlkuna mína“.
„Jú-jú, ekki vantaði það að hann handléki
biblíuna nógu oft, en það hefur nú oft verið siður
hræsnaranna. Þið kallið alla dyggðuga hér í daln-
um, sem í honum hafa fæðzt. En líklega hefur sú
góða kona Lísibet ekki alltaf verið ánægð í Nauta-
flataauðnum. Það verður enginn, hvorki þú eða
aðrir“.
„Það hefur hún nú samt áreiðanlega verið.
Henni þótti vænt um pabba sem eðlilegt var“, tók
Anna fram í fyrir honum aftur. „Hún hefur víst
ekki þurft að syrgja hann, þennan sem þú minntist
á áðan. Hversu gáfaður sem hann hefur verið, tók
hann þó aðra konu fram yfir mömmu sálugu, bara
til þess að hafa út úr henni peninga. Mamma var
nú of stórlát til þess að láta bjóða sér annað eins
og það“. Anna titraði af geðshræringu yfir ókur-
teisi sinni, en hún gat ekki annað en reynt með
einhverjum ráðum að ná þessu háðsglotti af vörum
prestsins. Það hvarf líka fljótt.
Hnn sló hnefanum í borðið um leið og hann
stóð á fætur: „Þetta hefur engin manneskja sagt
þér önnur en skassið hún Borghildur Jóakims-
dóttir. Ég ætti að þekkja skeytin hennar. Þú hefðir
átt að heyra, hvernig hún úthúðaði mér hérna
fram í bæjardyrunum í morgun. Hún kallaði mig
flækingshund og fleiri nöfnum, sem ég kæri mig
ekki um að hafa eftir, en ég ætla mér að segja
Jóni það. Hann sjálfsagt kærir sig ekki um slíkt
orðbragð við mig. Það getur þá skeð, að það fari
að styttast í verunni hennar hérna. En það þykir
mér einkennilegt, að þið skuluð vera jafn hjúsæl
og þið eruð, því að það hefur mér verið sagt, að
vinnuhjúin fari sjaldan burtu fyrr en þau gifti
sig og fara að eiga með sig sjálf. Það er þá lán
fyrir ykkur, að það skuli liggja í landi að pipra á
þessu heimili“.
Enn greip Anna fram í: „Það þykir öllum
vænt um Borghildi og þeim má það líka. Hún er
einstök kona við hjúin. Mér finnst hún halda
heimilinu í sama horfi og mamma“.
„Gerðu ekki henni fóstru þinni þá óvirðingu
í gröfinni að líkja þessari manneskju við hana.
Það getur verið Borghildi að þakkarlausu, að þið
eruð hjúasæl. Ég hef vitað mörg dæmi þess, að
vinnukonur vilja vinna fyrir laégra kaup hjá þeim
húsbónda, sem er laglegur og skemmtilegur, en
hjá öðrum, sem eru ljótir og fúllyndir“.
„En það hugmyndaflúg“, sagði hún. ..Kannske
þú ætlir að reyna að telja mér trú um, að þannig
sé það hér á heimilinu?"
„Því ekki það! Þú hefur þó sjálf gaman af að
horfa á hann“, sagði hann, og nú var háðsglottið
komið aftur á varir hans.
„Er það ekki annað — ég, konan hans?“
„Nei, það er alveg það sama. Það hafa allir
yndi af að horfa á það, sem er fallegt. Eins er það
með Þórð. Hann tilbiður þig og dáist að þér —
þess vegna er hann hér alltaf. Þannig eru sumir
menn — þrælar ástarinnar“.
„En sú ósvífni að tala þannig um Þórð, þennan
heiðarlega mann“, sagði Anna. Hún var meira
undrandi en reið yfir því/sem þessi maður talaði.
Jón skyldi fá eitthvað að heyra fyrir að hafa hann
hér á heimilinu.
„Þú mátt ekki skilja þetta þanáig, að ég álíti
að Þórður hafi eitthvað óheiðarlegt í huga. Þetta
er vesalings rola ■— réttnefndur þræll ástarinnar".
. „Þeir geta sjálfsagt heitið því nafni, sem
hlaupa eftir kröfum ástarinnar, hvort sem það er
leyfilegt eða ekki“, anzaði hún og hnykkti til höfð-
inu eins og Borghildur, þegar eitthvað gekk á
hóti henni.
„Nú, svpna gaztu komið orðum að því. Alltaf
eruð þið konurnar svipaðar hver annarri — sár-
beittar netlur, þegar eitthvað kemur fyrir. Það
hefur víst verið heldur orðum aukið, að hér ríkti
eintóm ró og prúðmennska, dans og gleðskapur.
Ég er ekki farinn að sjá það ennþá“.
„Nei, það hefur alls ekki verið ofsagt. Það
hefur alltaf verið mikið um gleðskap hér — nátt-
úrlega ekki um sláttinn — þangað til mín heilsa
fór að verða svona bágborin, að ég gat ekki fylgzt
með“.
„Nú, hvað er það, sem þjáir þig, kona góð?“
spurði hann í óviðfelldnum smeðjutón.
„Þú ert víst ekki neinn læknir, svo að það
þýðir litið að lýsa því fyrir þér“', sagði hún
stuttlega.
„Ég get nú samt sagt þér, hvað heilsusam-
legast er fyrir þig. Þú þarft að hafa nokkra smá-
krakka til að snúast við. Og svo ættirðu að láta
Borghildi fara, svo að þú hefðir nóg að gera. Þá
myndir þú geta sofið eins og hver önnur mann-
eskja, en fólkið þyrfti ekki að læðast á sokkaleist-
unum fram undir hádegi. En hendurnar á þér
yrðu ekki eins hvítar og fallegar“. Hann hló ertnis-
lega. „Svona stríði ég kvenfólkinu, þegar það vill
ekki gefa mér út í morgunkaffið“.
„En ég er ekki vön því að heimilisfólk mitt
geri það sér til gamans að stríða mér“, sagði Anna
og stóð upp og gekk inn í hjónahúsið. Þar gekk
hún fram og aftur um gólfið og tók saman langa
ræðu, sem hún ætlaði að halda yfir manni sínum,
þegar hann kæmi heim.
Þegar Anna var farin settist presturinn og
tók tóbaksdósirnar upp úr vasa sínum, velti þeim
brosleitur í lófa sér dálitla stund áður en hann
hressti sig á innihaldi þeirra. Þá tók hann eftir
því að Dísa stóð í dyrunum og horfði á hann. „Þu
stendur þarna eins og vant er glápandi“, sagði
hann og var höstugur í máli. „Geturðu sótt annan
hestinn minn? Þeir eru víst ekki langt í burtu.
Það þurfti endilega að láta blessaðan drenginn
fara á engjarnar til að þræla þar“.
„Hann er ekki á engjunum, hann er að leita
að hrossunum. Það á að binda á morgun“, leiðrétti
Dísa.
„Nú, á að binda á morgun? Hver bindur?“
„Þórður og Gróa og hinar stúlkurnar. Pabbi
lætur í hlöðuna“.
„Svo að hann verður þá heima á morgun.
Það verður hátíðlegt“, tautaði hann. „Svona,
farðu nú að fara eftir hestinum, stelpa!“
Þegar Anna kom fram löngu seinna var Borg-
hildur ein í eldhúsinu.
„Mér finnst nú bara“, byrjaði Anna, „að mér
sé ómögulegt að vera á heimilinu, ef þessi maður
verður hér“. Borghildur brosti bara. Anna hélt
áfram: „Ekki skil ég, hvernig þessi kona hans
hefur getað búið saman við hann öll þessi ár. Sú
hefur einhvern tíma ekki átt sjö dagana sæla,
býst ég við“.
„O, það kemst allt í vana, Anna mín, og eins
það að rífast dagsdaglega“.
Þá kom Dísa inn og sagði hlæjandi: „Jæja,
nú er hann farinn, en ekki vildi hann segja mér,
hvert hann ætlaði. Hann þakkaði mér ekki einu
sinni fyrir að ég sótti hestinn hans, og þegar ég
bauð honum að leggja hnakkinn á fyrir hann,
kallaði hann mig erkibjána. Ég klaga hann fyrir
pabba í kvöld“.
„Hann fær nú víst að heyra nóg klögumál i
kvöld“, sagði Borghildur og glotti. „Ég gæti nú
trúað því að Hallgrímur klagaði mig, hann gerir
það víst á hverju kvöldi. Það fer að verða vand-
lifað fyrir aumingja Jón, ef hann ætti að taka það
allt til greina“.
Anna hristi bara höfuðið. „Hvert ætli hann
hafi eiginlega farið?“ spurði hún.
„Eitthvað til að fá sér vín. Öll ósköpin stöfuðu
af því, að hann missti niður vínleka, sem hann
átti að hafa út í kaffið. Hann er þreyjulaus, ef
hann hefur ekki vínbragð. Þess vegna er hann
svona niðurdreginn seinni partinn, en á morgnana
liggur svo vel á honum, vegna þess að Jón lætur
hann alltaf hafa vel út í kaffið“, sagði Borghildur.
Dísa hafði gætur á því, hvert presturinn færi-
„Hann fer að Hóli“, sagði hún, þegar hún kom
næst inn.
„Skyldi hann halda að þar sé til vín?“ sagði
Anna. „Almáttugur hjálpi manni, ef hann ílengist
hér, svona hræðilega vínhneigður“.
Það var komið myrkur, þegar engjafólkið
kom heim. Anna var að láta kvöldmatinn á borðið,
þegar Jón kom inn og heilsaði henni með kossi.
„Hvar er Hallgrímur vinur?“ spurði hann. „Hann
kom ekki á móti mér á hlaðinu eins og hann er
vanur“.