Lögberg - 27.09.1956, Blaðsíða 6

Lögberg - 27.09.1956, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 27. SEPTEMBER 1956 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF Þórður lá hálfsofandi uppi í rúmi, þreyttur eftir leitina. Anna settist fyrir framan hann. „Þú sefur, Þórður minn“, sagði hún og stundi mæðu- lega. „Náttúrlega dauðuppgefinn af að snúast við þessar skepnur. Það væri betra að eiga þær engar. Og svo allt þetta sláturstúss. Það eru undur, að þær skuli ekki leggjast í rúmið af þreytu, stúlk- urnar, af þessari sífelldu slátursuðu viku eftir viku“. t „Það er víst engin hætta á því — það á betur við þær en svo. Ég sofnaði við suðuna úr henni Gróu og prímusnum, en ekki af því að ég væri svo þreyttur“, sagði Þórður. „Svoria geturðu verið gamansamur. Bara að ég væri eins létt í lund. Það liggur eitthvert farg á mér í dag. Ég held að það komi eitthvað leiðin- legt fyrir í dag. Bara að einhver gæti spáð í bollann minn eins og Sigga sáluga — það var nógu gaman. Það er allt komið fram, sem hún sagði: Eitt barn hjá mér, en mörg hjá Þóru, og svo margt fleira. Hvað sagði hún um þig, Þórður?“ „Ég tók svo lítið mark á því, þess vegna man ég það ekki“, sagði Þórður. „Hvernig stendur á því að piltarnir skuli ekki fara að koma? Ég er hrædd um, að eitthvað hafi orðið að þeim. Nú er komið þreifandi myrkur“. „Það eru margir snúningarnir í kaupstaðnum og birtan stutt“, sagði Þórður. „Er áin ekki fjarska vatnsmikil? Jú, ég sé að hún flæðir upp á eyrar eins og í vorleysingu“, kveinaði Anna. „Vertu alveg óhrædd. Jón hefur sjálfsagt riðið hana dýpri en hún er núna“, sagði Þórður hughreystandi. Borghildur fór inn fyrir með Önnu, þegar hún hafði drukkið kaffið. Hún var orðin hálfóróleg sjálf og vildi helzt að Anna háttaði sem fyrst. „Heldurðu að þú getir nú ekki sofnað?“ spurði Borghildur. „Ég ætla bara að vita, hvað ég kem fyrst auga á í biblíunni minni. Mér finnst eins og hún svari mér stundum, þegar ég er kvíðin og óróleg“, sagði Anna, tók biblíuna og lét hana opnast sjálfkrafa. Það fyrsta, sem hún kom auga á, var þetta: „Hann er eigi fjarlægur neinum oss, því að í honum lifum, hrærumst og erum vér“. — „Sjáðu nú bara, hún fullvissar mig um að drottinn sé nálæg- ur piltunum, sem ég er svo óróleg út af. Ég ætla að reyna að sofna og vera róleg“. Borghildur fór fram og Anna heyrði að hún bað Gróu að hafa nú ekki hátt, því að Anna ætlaði að reyna að sofna. Gróa lækkaði róminn svolitla stund, en hækkaði hann svo aftur fljótlega. Allt í einu kom einhver inn, sem hafði ennþá hærra en Gróa. Það var Steini. Anna reis upp og hlustaði. „Þú verður að koma strax og reyna að koma honum heim“, var það fyrsta, sem hún heyrði. „Komstu með hestinn?“ spurði Borghildur. „Nei, ég missti hann eitthvað út í myrkrið. Fjandans karlinn hann Erlendur þóttist svo sem gera góðverk með því að fylgja okkur yfir ána, og svo var hann alltaf með flöskuna á lofti, þangað til Jón var orðinn alveg útúrfullur. Svo lét hann klárinn álpast upp með síkinu og þar datt hann af baki. Ég gat ekki hreyft hann — hann var svo þungur. Hann bað mig að sækja þig“. „Skildirðu hann eftir á síkisbakkanum — ertu orðinn alveg vitlaus, drengur?“ heyrði hún Þórð segja óvenju hraðmæltan. „í öllum bænum hafið þið ekki hátt“, heyrðist í Borghildi. „Hún er víst sofnuð“. „Viltu að ég komi með þér, Þórður?“ bauð Gróa. „Reyndu heldur að finna hestana og taka ofan af þeim“, sagði Þórður. Svo varð allt hljótt, líkt og baðstofan hefði tæmzt á sama augnábliki. Anna hafði líka heyrt nóg. Þetta var einmitt það, sem hún hafði fundið á sér. Eitthvað hræðilegt átti að koma fyrir. Ósjálfbjarga lá maður hennar einn í myrkrinu á síkisbakkanum, eftir því sem Steina sagðist frá. Hann þurfti ekki annað en að velta sér ofurlítið til — þá var ævi hans lokið. Það voru heldur ekki liðnar margar vikur síðan hún hafði beðið himnaföðurinn að láta hann deyja. Kannske ætlaði hann að heyra þessa einfeldnislegu bæn hennar. Hún svitnaði af hræðslu og langaði að kalla fram fyrir og vita, hvort enginn gæti náð í Borghildi til að vera hjá henni, en óttaðist að Jakob myndi þá vakna. Hvar skyldu allar stúlkurnar vera? Líklega væru þær að ráfa út í náttmyrkrinu og leita að áburðarhestunum. Hvað skyldi pabbi sálugi hafa sagt yfir þessu og öðru eins? Þetta hefði ekki komið fyrir, ef Þórður hefði farið með Jóni. Þórður var alveg dæmalaus dyggðamaður að geta verið vinur mannsins, sem kærastan tók fram yfir hann sjálfan. Það er víst fáheyrt. En hún hafði engan frið til að hugsa um þetta núna. Hræðslan um að Jón yrði dáinn, áður en Þórður kæmi út eftir, fyllti svo huga hennar, að annað komst ekki að. Hann mátti ekki deyja svona hraustur og ungur. Hún varð að reyna að biðja guð að varðveita hann vegna Jakobs. Henni var hann ekki annað en vandalaus maður, sem aldrei myndi framar reyna að fá fyrirgefningu hennar. Og hún hafði líka hikað við að rétta fram höndina til sátta, eins og séra Hallgrímur hafði þó ráðlegt henni, meðan enn væri ekki of seint, hafði hann sagt. Sjálfsagt yrði hún jafnvansæl eins og hann, ef maður hennar yrði fluttur heim til hennar sem andvana lík. Hún spennti greipar og bað: „Góði guð, gefðu mér hann lifandi!“ Anna varð hissa, þegar klukkan sló hálftólf. Það var eftir allt saman ekki nema hálftími síðan Steini kom heim. Hún hefði getað trúað því, að það væru margir klukkutímar. Nú heyrði hún að stúlkurnar voru að koma inn í baðstofuna. „Eigum við ekki að fara að taka upp ristlana?" spurði Gróa. „Mér finnst ég nú bara ekki geta fest hugann við nokkurt verk fyrr en Þórður kemur heim“. „Góða Gróa, hafðu ekki svona hátt. Við skul- um vona, að allt gangi vel og að hún sé sofandi“, heyrðist til Borghildar. Þá byrjaði Gróa að fjasa: „Hún er nú bara alveg að fara eins og í hittiðfyrra eða hvenær það var. Þvílík hörmung! Alveg eins og hann faðir hennar. Hvað svo sem skyldi það verða annað!“ „Blessuð talaðu ekki svona. Farðu heldur út í dymar og hlustaðu, hvort þú heyrir nokkuð“, sagði Borghildur. Það leyndi sér ekki, að hún var líka óróleg. Hún opnaði hurðina og hlustaði, hvort hún heyrði nokkuð til Önnu. Svo lét hún hana síga aftur og skóhljóð hennar fjarlægðist og dó loks út. Anna var orðin ein í myrkrinu. Hún óskaði eftir að komið væri ljós til sín, svo að hún gæti leitað huggunnar hjá biblíunni. „Hann er eigi fjarlægur neinum oss“, hafði hún lesið áðan. skyldi hann hafa verið nálægur manninum, sem efaði kenningar biblíunnar og drakk frá sér vitið — og sem þar að auki hafði brotið sjötta boðorðið? Kannske líka fleiri — hún vissi það ekki. En fjórða boðorðið hafði hann þó haldið. Eða hafði drottinn sleppt algerlega af honum hendinni og hann endað líf sitt í drykkjuvímu, án þess að geta ákallað góðan guð á síðustu stundu? Það myndu næstu'Stundir leiða í ljós, en þær voru lengi að líða. Svo heyrði hún mannamál framan úr eld- húsinu, en engin orðaskil. Svo komu einhverjir inn í boðstofuna. Hún heyrði Þórð og Borghildi tala, en ekki þó svo hátt, að hún skildi það. Því talaði ekki einhver svo hátt, að hún gæti heyrt, hvað um væri að vera? Hún héldi þetta ekki út öllu lengur. Þá heyrðist drafandi rödd, sem hún hafði fyrirlitið hingað til, en kom nú hjarta henn- ar til að slá hraðara af feginleik: „Ég vil ekki sofa annars staðar en í mínu eigin rúmi í hjónahúsinú1- Þetta var málrómurinn hans. Hann var þá lifandi. „Anna er sofnuð. Þú verður að sofa hérna í rúminu hans Þórðar. Hún var ósköp lasin. Vertu nú þægur. Það er svo kalt fram í herberginú1, sagði Borghildur. * Ég sef hvergi nema í mínu rúmi, hvað sem þu segir, Borga mín. Ég skal hafa lágt, svo að hún vakni ekki. Það hefur sjálfsagt verið lagt í ofri- inn — mér er ónotalegt. Ég sef hvergi nema i mínu rúmi, skuluð þið vita“, sagði drafandi röddin. „Þú getur fengið kaffi, þá hlýnar þér“, sagði Þórður. Þá ýtti Anna ofan af sér sænginni og settist a rúmstokkinn. Hún þreifaði eftir skónum sínum, smeygði þeim á bera fæturna og fór fram í dyrnar. „Verið þið ekki að þrátta þetta við hann“, sagði hún. „Ég er ekki sofandi. Hann getur háttað í sínu rúmi — bara að hann hafi ekki svo hátt, að Jakob vakni“. Borghildur horfði á húsmóður sína orðlaus af undrun, en Anna lét hana ekki sjá sig nema i svip. Hún hraðaði sér inn fyrir og upp í rúmið, en skildi eftir hálfopna hurðina. „Hvað var þetta, sem hér heyrðist?“ spurði drykkjumannsröddin. „Var það ekki Anna Frið- riksdóttir, sem einu sinni var konan mín, sem var að tala um að ég mætti hátta fyrir innan? Skyldi hún hafa endurfæðzt í dag?“ „En þú mátt ekki hafa hátt, svo að Jakob vakni ekki“, sagði Borghildur. Rétt á eftir komu þeir inn í hjónahúsið, hann og Þórður. Jón gat þó gengið óstuddur, sem betur fór.. Hann kom að rúminu hennar og sagði: „Ssel, góða mín! Þetta vissi ég, að þú myndir vaka eftir mér. Þau voru að segja, að þú værir sofnuð. Varst það ekki þú, sem talaðir áðan? Varst það ekki þú, sem varst góð kona?“ „Hún er víst steinsofandi“, sagði Þórður. „Komdu nú og farðu að hátta“. Það var myrkur inni, aðeins ljósrák lá á ská úr opnum dyrunum yfir gólfið á rúmið hans. Samt sá hún nóg af útliti hans til að fyllast við- bjóði. Hann fálmaði eitthvað í yfirsængina. Lík- lega hefði hún það fyrir þetta hjartagæzkuflan, að hann færi að rausa og þvæla hér við rúmið hennar fram á nótt. „Anna mín!“ hikstaði hann. „Varst það ekki þú, sem varst að tala áðan — eða var það bara fallegur draumur?" „Það var ég, sem talaði“, sagði hún hvíslandi. „En nú máttu ekki hafa hátt, svo að Jakob vakni ekki. Hann má ekki sjá þig í þessu ástandi“. „Já, auðvitað fer ég að hátta. Ég ætla bara að kyssa þig fyrir, hvað þú varst góð“, sagði hann og fálmaði enn á yfirsænginni. „Þú veizt að ég get ekki kysst þig, þegar þd ert drukkinn“. Svo bætti hún við ásakandi: bara skil ekkert í þér að haga þér svona — drekka það mikið, að þú liggur út um hagann eins og skepna“. „Ó, þetta er nú ekki vanalegt, að ég taki það svona hressilega", drafaði í honum. „Svona, Jón“, sagði Þórður, „vertu nú ekki að þessu kossaþvaðri. Farðu að hátta. Þú skalt geyma kossana til morguns“. Hann tók undir handlegg hans og leiddi hann yfir að hinu rúminu og fór að hjálpa honum úr fötunum. Anna byrgði sig í sænginni, svo að hún sæi þá ekki. „Sjálfsagt verður það seint, sem Anna min fer eins mjúkum höndum um Línu og þú um mig, þó að líkt standi sakir“, heyrði hún mann sinn segja í drafandi málrómi. „Og þó hefur hún mjúk- ar og fallegar hendur“. Þórður hallaði aftur hurðinni og settist á stól fyrir framan rúmið hans Jóns. Þar sat hann þangað til Jón var sofnaður.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.