Lögberg - 17.01.1957, Blaðsíða 6

Lögberg - 17.01.1957, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 17. JANÚAR 1957 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Hvað ætli þeim hafi nú borið á milli?“ spurði Þórður. „Hún komst víst í einhver Ameríkubréf hjá honum, þar sá hún að hann ætti hálffullorðinn son í Ameríku“, svaraði hún. Það hnussaði í Þórði: „Gat hann nú ekki passað bréfin fyrir henni? Það er meiri hrakfalla- bálkurinn, sem hann Jón er“. „Ég veit ekkert, hvernig hún hefur komizt yfir þessi bréf, en hún var hér frammi í nótt svo lengi, að ég fór um síðir að vitja um hana. Þá var hún að pukra með eitthvað sem ég mátti ekki sjá, því að hún slökkti ljósið. Það hafa sjálfsagt verið bréfin“. „Blessuð vertu róleg, hann sækir hana víst fljótlega vestur, ef hún kemst þá alla leið, sem mér þykir ólíklegt. Manstu þegar hún fór til vin- konu sinnar hérna um vorið og ætlaði að setjast að hjá henni og komst af tvær nætur?" „Jú, ég man það. Það er ótrúlegt að ég gleymi því stríði. Ég var nú farin að vona að það væri búið“, sagði Borghildur andvarpandi. „Hver skyldi nú hafa trúað að þetta hamingjusama hjónaband hefði þennan endi?“ „Það er nú svona, þegar óhreint mjöl er íj pokahorninu, þá vill það komast upp á endanum“, sagði Þórður. „Það getur nú satt verið, en vægara mætti kannske taka á göllunum en hún gerir, aumingja konan“. „Það eru fáir, sem geta umborið ótryggðina, þó að þeir hafi heilbrigða skapsmuni, en það hefur hún ekki. En þetta lagast fljótlega. Við segjum bara að hún hafi farið þetta að gamni sínu“. „Ónei, það kemst á loft. Hún hefur sagt Dísu eitthvað. Hún er með einhverjar dylgjur og merkilegheit. Ég hef ekki getað fengið mig til að spyrja hana neins“. „Það var það hyggilegasta að segja henni það, þessu flóni, sem aldrei getur þagað“. „Nú, jæja, þarna er þá Þórður kominn“, sagði Gróa um leið og hún kom fram úr baðstofunni æði fasmikil. Borghildur fór fram um leið og hún sá Gróu. „Hvár skildurðu við húsmóðurina?“ bætti hún við hálf hikandi. „Fram í skipi“, var hans stutta svar. „Heldurðu að hún hafi verið að fara alfarin í burtu?“ spurði hún ennfremur. „Hvernig dettur þér það í hug?“ „Hún segir það hún Dísa og það með, að hún eigi að koma til hennar í vor“. „Alltaf getið þið trúað því, sem þessi stelpa þvaðrar, þó að þið rekið ykkur á það daglega að hún fer með eintóma endaleysu“, sagði Þórður. „Ó, læt ég það vera. Það er vanalega eitthvert vit í því, sem hún segir, greyið. Og svo er það hún Borghildur — hún er ekki vön að vera svona niðurbrotin eins og hún er í dag“, rausaði Gróa. „Mér skildist á Önnu, að hún ætlaði sér að koma með næstu skipsferð, ef tíðin yrði góð. Mér þykir líklegt, að hún hefði haft eitthvað með sér annað en eina tösku, ef hún hefði verið að fara alfarin“. „Satt er það“, sagði Gróa og efaðist um hverju hún ætti að trúa. En það var nú alltaf svona, þegar Þórður talaði, að það var ekki gott að hafa á móti því. „Þetta hefur nú verið þessi blessuð ánægja svo lengi, en þessi veiklun getur gripið fólk allt í einu. Ég á bágt með að trúa öðru en eitthvað sé bogið við þetta allt. Borghildur er mér ráðgáta. Það er þó kona, sem ekki er vön að láta bugast“. Það var komið fram að háttatíma, þegar hreppstjórinn kom heim. Þórður tók við Fálka eins og hann var vanur. Borghildur setti heitan mat fyrir húsbórida sinn, en hún spurði hann einskis eins og vanalegt er þó þar, sem fáferðugt er, heldur var á sífelldu rölti inn 1 búrið og fram úr því aftur. Hún kveið fyrir spurningunni, sem bráðlega yrði lögð fyrir hana. Það stóð heldur ekki á henni. „Hvernig hefur blessuð konan það í dag? Hún leit út fyrir að vera ekki vel hress í morgun. Hún er kannske háttuð?“ Það var svo heppilegt, að Þórður var kominn inn, því að Borghildur var sein til svars. „Ég vildi helzt vera laus við að svara þér í þetta sinn, Jón minn, kannske Þórður vilji vera svo góður að tala fyrir mig“, sagði Borghildur. Jón lagði frá sér hníf og gaffal og horfði á þau til skiptis með kvíðandi spurnaraugum: „Hefur eitthvað komið fyrir?“ „Ja, nei, nei, það er engin ástæða til að missa matarlystina, þó að konan taki sér lystitúr eigin- lega í fyrsta sinn á ævinni“, sagði Þórður. „Hún brá sér um borð í skipið, sem lá á Ósnum, og ætlaði vestur á Breiðasand að finna frú Matthildi vinkonu sína. Annað hefur ekki komið fyrir“. „Hvað átti það að þýða — að fara án þess að minnast á það við mig? Gerði hún þettá að gamni sínu til að láta það koma mér á óvart — eða hvað, Borghildur?“ spurði Jón. Borghildur svaraði seinlega innan úr búrinu: „Mér sýndist hún ákaflega ólík því að hún væri að gara að gamni sínu. Hún gat svo lítið talað við mig, en ég reyndi það sem ég gat til að telja henni hughvarf. Það er ekki álitlegt að takast ferðalag á hendur um hávetur, en það var þýðingarlaust að fá hana til að breyta um skoðun. Þau máttu víst ekki seinna koma — skipið var alveg að fara“. „Bara það hefði verið farið. Óttaleg fljótfærni er þetta. Hún hefur aldrei komið á sjó á ævi sinni, og nú er kominn hríðarjagandi og lítur út fyrir storm í nótt“, sagði Jón þreytulega, en hélt þó áfram að matast. Hann bjóst við að inni í húsinu biði skýringin á þessu öllu. Hún hafði sagt það, þegar hann kvaddi hana. Dísa kom nú innan úr baðstofunni, sæl og brosandi, eins og hún hafði verið allan þennan dag. Nú bjóst hún við að verða spurð úr spjörunum, því að hún var fróðaSta manneskjan á heimilinu. En Þórður gaf henni bara óhýrt hornauga og Borghildur skipaði henni með augunum að hafa sig inn aftur. Þegar hún hlýddi ekki, ýtti Borg- hildur henni inn fyrir hurðina. Hún ímyndaði sér að þessi hlálega kátína gæti gert fleirum en sér gramt í geði. Þórður spurði frétta utan af Ströndinni. Jón svaraði því fáu. Ef hann hafði heyrt eitthvað, var það alveg gleymt. Hann þóttist sjá það á Borghildi, að hér væri eitthvað nýtt áhyggjuefni á ferðinni. Hann fór inn í hjónahúsið, þegar hann hafði lokið við matinn, kaffið ætlaði hann sér að drekka seinna. Hann heyrði Gróu segja á bakið á sér: „Ójá, líklega finnst honum héldur tómleg heimkoman, aumingja manninum“. Það var hlýtt inni í húsinu, en næstum al- dimmt. Hann kveikti og litaðist um. Allt var eins og vant var. Lísibet litla svaf róleg í rúmi sínu, sem Borghildur hafði fært að rúmstokknum hans. Þarna lá dagatalið á gólfinu — hann tók það upp og kastaði því á skrifborðið. Skyldi hvergi vera bréf til hans? Það hlaut að vera, því að skriffærin hennar voru á kommóðunni, lítil blekbytta og rauð pennastöng. Til einhvers hlaut hún að hafa tekið þetta upp. Hann leitaði í bókum, sem lágu á skrifborðinu, en þar var ekkert. Hvernig .gat staðið á þessu — hvað hafði hún verið að gera með skriffærin sín og gleymt að láta þau niður aftur? Kannske Borghildur væri með bréf, til hans. Hann fór fram aftur. „Bað Anna þig fyrir bréf eða skilaboð til mín, Borghildur?“ spurði Jón. Hún svaraði því neitandi: „Ég held að hún hafi ekki haft neinn tíma til að skrifa“. „Hefur kannske einhver málaskjóða komið undanfarna daga, sem hefði getað fært henni ein- hverjar fréttir, sem hefðu getað gert hana svona angurværa? Hún er nú alltaf svo trúgjörn. Eða heldurðu að þetta hafi aðeins verið gaman hjá henni til að gera mig rothissa, þegar ég kæmi heim?“ „Nei, áreiðanlega ekki. Hún var ekki glöð og sagðist vera farin frá þér alfarin — hefði átt að vera farin fyrir löngu. Hún var að tala um eitt- hvert bréf, sem hún hefur víst komizt í hjá þér“, sagði Borghildur. „Bréf hjá mér? Það getur ekki verið. Kannske hún hafi fengið bréf frá frú Matthildi?“ „Ekki veit ég til þess að hún hafi skrifað henni síðan hún fluttist héðan, þó að einkennilegt sé, eins og Anna áleit hana mikla vinkonu sína. Ég hef nú ekki mikla trú á því, að hún reynist henni nein sérstök hjálparhella, þegar hún knýr á hennar náðardyr", sagði Borghildur fálega. Jón gekk um gólf, þögull og þungbúinn, nokkra stund, svo sagði hann: „Hún þarf varla lengi að knýja á hennar náðardyr. En ég er hissa á því, að hún skyldi ekki skrifa mér línu“. „Spurðu Dísu — hún þykist vita einhver ósköp“, sagði Borghildur. Jón fór inn aftur og bað Dísu að finna sig inn í hjónahúsið. Hún kom inn brosleit, en íbyggin á svip. En þegar hún leit framan í fóstra sinn, hvarf brosið. Hún var alltaf hálf hikandi og feimin við hann, þegar hann var svona alvarlegur á svipinn. „Bað Anna þig fyrir nokkuð til mín — bréf eða skilaboð?“ spurði hann. „Nei, það gerði hún nú ekki. Hún var að hugsa um að skrifa, en svo brenndi hún bréfið. Ég sé það inn um gluggann —: ég var úti“, vældi hún. „Sagði hún þér, hvað hún ætlaði að verða lengi í burtu?“ „Hún ætlar aldrei að koma aftur. Hún ætlar að fara að búa — eiga heima þarna fyrir vestan — og ég fer líka til hennar í vor og Jakob líka — kannske Borghildur einnig“, stamaði hún kafrjóð. „Ertu að búa þetta allt saman til eða sagði hún þér þetta?“ spurði hann höstugur. „Hún sagði mér þetta allt og margt fleira“, svaraði hún og glotti meinfýsin um leið og hún benti á þilið yfir skrifborðinu: „Þarna lét hún hringinn sinn“. Jón hafði ekki tekið eftir honum fyrr. Spurn- ingin, sem komin var fram á varir hans um það, hvað hún hefði meira að segja, var aldrei lögð fram. Hann opnaði hurðina og ýtti henni hrana- lega fram úr dyrunum. Helzt hefði hann haft skap til að sparka í hana, svo mjög minnti hún á foreldra sína — undirleit og illkvittin yfir ósigri hans. Hann skoðaði hringinn vandlega eins og hann tryði ekki að þetta væru stafirnir sínir, sem innan í honum voru. Svo lét hann hringinn á sama stað og hann hafði verið. Það var enginn efi á því lengur, að konan var farin frá honum án þess að skilja eftir eitt einasta hlýtt kveðjuorð til hans eftir nítján ára hjónaband —nítján ára sælu og sorgir, duttlunga og dekur, stríð o gsigra. Þannig átti það að enda. Honum var ætlað að verða einum. Einkasonurinn átti að fara á eftir. Jón var svo eigingjarn, að honum fannst hann eiga betri skilið. Nokkru seinna opnaði Borghildur hurðina. Það var dimmt inni. Hún spurði hvort hann vildi ekki reyna að hressa sig á kaffi. „Nei, ég vil ekkert nema að vera einn“, svar- aði hann innan úr myrkrinu. Borghildur lét hurðina síga aftur og fór fram í eldhúsið. Vinnufólkið var að hátta í baðstofunni. Hún gat ekki farið að hátta. Hún vildi helzt vera ein eins og húsbóndi hennar. Þetta var í annað sinn, sem húsfreyjusætið á þessu heimili var autt. Og bæði fundu þau, að þó að Anna hefði verið afkastaminni en fóstra hennar, var jafn átakanlega tómlegt við burtför hennar, og söknuðurinn nísti hjörtu þeirra jafn sárt eins og í fyrra skiptið. Hún settist við eldhúsborðið og grét með þungum ekka.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.