Lögberg - 20.03.1958, Síða 6

Lögberg - 20.03.1958, Síða 6
0 LÖGBERtí, FIMMTUDAGINN 20. MARZ 1958 OUÐRON FRA LUNDI: DALALÍF ÖMURLEG NÓTT I þessu hljóðlausa, tilbreytingarlausa myrkri kom Anna Friðriksdóttir til meðvitundar. Hún mundi fyrst ekkert eftir því, sem gerzt hafði, spurði aðeins sjálfa sig, hvar í ósköpunum hún væri stödd. Var hún kannske dáin? Hún hafði oft hugsað um, hvernig það myndi verða, þegar hún kæmi yfir á eilífðarlandið. Hún átti von á að mæta þar fósturforeldrum sínum og börnum í björtu ljósi, ekki í myrkri, eins og núna. Þau gátu ekki átt heima í myrkri. En hvar var hún þá? Hugsunin fór að skýrast. Hún mundi eftir fallegri stúlkumynd, sem hafði angrað hana að sjá. Og hún minntist þess, að hafa séð börnin hennar Línu, þrjú lagleg börn. Henni hafði gramizt það, að hun, þessi fallna kona, skyldi fá að hafa börnin sín hjá sér, en hún sjálf varð að láta sér nægja fóstur- barn — eitt fósturbarn. Og hún hafði verið svo hræðilega þreytt. Nú mundi hún það. Orðasenna inni í hjónahúsinu. Hún hafði komizt út og ofan að ánni. Svo hafði hún dottið og ekki getað staðið upp aftur. Hún hafði horfið inn í myrkrið og kyrrð- ina og henni hafði liðið vel- Bara að hún hefði ekki þurft að vakna aftur. En ekki lá hún á svell- inu. Það var svo hræðilega kalt, en hér var henni notalegt. Það hafði sjálfsagt einhver fundið hana og borið hana heim heim í rúmið hennar. Hún var þá lifandi eftir allt, sem á hafði gengið. Eða var hún horfin úr heiminum? Jú, hún hlaut að vera dáin. Þetta myrkur væri ekki kringum hana, ef hún væri heima í húsinu sínu. Borghildur væri búin að kveikja. Borghildur væri hérna hjá henni og Jakobi. Elsku drengurinn hennar, sem nú var orðinn móðurlaus. Þetta var líklega bara lífvana líkami hennar, sem hún var nálæg. En því var hún í þessu myrkri? Átti hún að búa í myrkri vegna þess, að hún hafði ásett sér að binda sjálf enda á sitt mæðusama líf? En hún hafði ekki gert það. Hún hafði heyrt það eins og aðrar kristnar manneskjur, að það var hegning á þá, sem gerðu slíkt, að sitja í myrkri lengi. Hana hryllti við þeirri hugsun. Hvar skyldi þá maður hennar lenda, þegar hann kæmi yfir um? Hvernig skyldi honum verða búinn staður, fyrst hún ætti að sitja í myrkri? Hann sem var búinn að syndga svo óskaplega, bæði með drykkjuskap og fleiru. En þessi kyrrð — hún var einkennileg. Nú skaut nýrri hugsun upp í heila hennar. Hún var líklega búin að liggja lengi í dauðadái og það var búið að jarða hana. Hún var komin þrjár álnir ofan í kirkjugarðinn. Þar átti hún að deyja fyrir alvöru. Kviksett. Það var það voðalegasta, sem hún gat ímyndað sér- Sigga gamla hafði sagt henni svo margar sögur af fólki, sem hafði verið kviksett. Angistin gaf henni krafta til að hreyfa aðra hönd- ina ofurlítið. Hún var innan í sængurfötum. Hafði Borghildur kannske látið rúmfötin í lík- kistuna. Það var svo sem eftir hennar gæðum. Það væri ofboðslegt að hafa ekki Borghlidi hjá sér í þessu myrkri. Það hefði verið betra að vera heima og gráta, en að fara að leita að þessari náðarvök, sem röddin hafði vísað henni á. Hana langaði til að heyra hana aftur, þessa hlýju, rauna- mæddu rödd. En nú heyrði hún allt í einu, að hún var ekki ein. Það var einhver að gráta nálægt henni. Átti þá einhver bágt hérna, þar sem hún var? Kannske sá, sem átti röddina? En þá gat hún heldur ekki verið í gröfinni. Þetta var allt svo dularfullt. Hver var þarna nærri henni? Hún fékk bráðlega skýringu á því. Einhver tók í hönd hennar og óviðkunnanlega vínlykt lagði að vitum hennar. Það var hennar örgeðja, syndugi eigin- maður. Hann talaði til hennar grátklökkum rómi. Bað hana að vakna og tala við sig. Hún mætti ekki deyja. Hann gæti ekki hugsað sér lífið án hennar. Hún hefði alltaf verið sinn góði engill. Hann sagði svo mörg falleg orð, sem hún hafði ekki heyrt í mörg ár- Þau höfðu öll týnzt í Línu- málinu. En nú mundi hann þau. Hann bað hana að fyrirgefa sér allt, sem hann hefði gert henni á móti. Hér eftir skyldi enginn skuggi komast á milli þeirra, ef hún bara fengi að vakna og vera hjá sér og fyrirgefa sér. Náttúrlega var samvizkan að kvelja hann, eins og röddin hafði sagt henni. Það var gaman að heyra, hvað hún var honum míkils virði, þegar hún var dáin, því að sjálfsagt var hún dáin, fyrst hún gat hvorki hreyft hönd eða tungu.--------Eftir dálitla stund gat hún þó stunið upp nafni Jakobs og litlu síðar sagði hún: „Drottinn minn, sendu mér ljós!“ Hún heyrði, að það var kveikt á eldspýtu og svo kom ljósglampi frá skrifborðinu og hún sá, að hún var hvorki dáin eða lifandi niðri í jörðinni, heldur í blessuðu rúminu sínu. En hvar var allt fólkið? Borghildur kom inn rétt í þessu, eins og hún hefði fengið hug- skeyti frá henni. „Ertu nú vöknuð, elsku Anna mín?“ sagði hún skjálfrödduð af gleði. „Ég var svo hrædd í þeessu myrkri, en svo gaf mér einhver ljós“, sagði Anna svo lágt, að það heyrðist varla. „Er Jakob ekki hérna?“ „Hann fer víst að koma úr afmælisveizlunni á Ásólfsstöðum. Líður þér ósköp illa, góða mín?“ „Ég er svo máttlaus. Ég get hreint ekki hreyft mig“. „Á ég ekki að kveikja á lampanum?" „Nei, það er gott að hafa þetta litla ljós“. Borghildur sléttaði koddann og sængina með lófunum og hagræddi sjúklingnum. Svo flýtti hún sér fram fyrir til að segja vinnufólkinu þessi góðu tíðindi. „Það var þó gott að Jakob kom ekki fyrr heim“, sagði Dísa. „Það var víst alveg óþarfi að fara að þjóta yfir að Ásólfsstöðum eftir honum, eins og þú varst að hugsa um“, sagði Borghildur. „O, ætli það hefði samt ekki verið viðkunnan- legra að hann hefði verið heima, ef hún hefði dáið, heldur en að sitja þar við glaum og gleði. Hann er víst búinn að sitja þar nógu lengi“. Borghildur fór fram í eldhúsið, því að henni heyrðist einhver umgangur frammi- Þar stóð Jakob og heilsaði brosandi. „Ég er búinn að vera nokkuð lengi“, sagði hann og sléttaði hárið með vasagreiðu framan við spegilinn, sem alltaf hékk yfir borðinu. „Bárður vildi endilega spila, en mér fannst alltaf einhver vera að reka á eftir mér með að hafa mig heim“. „Fannst þér þetta virkilega?“ spurði hún. „Þú ætlar að hafa sömu gáfuna og mamma þín, finna á þér, ef eitthvað leiðinlegt er í aðsigi. Því miður er ekki skemmtileg heimkoma fyrir þig, vinur, í þetta sinn. Mamma þín er mikið veik, en vonandi hressist hún eins og vant er“. „Veiktist hún yfir á Jarðbrú?“ greip hann fram í fyrir henni. „Hún var nýkomin heim. Hún var ákaflega þreytt að ganga þetta. Það eru mikil vonbrigði fyrir hana, sem aldrei hreyfir sig neitt“. „Við hefðum aldrei átt að láta hana fara þetta. Er ekki læknirinn kominn? Fór pabbi eftir honum?“ „Læknirinn er ekki heima, kemur ekki heim fyrr en á morgun“. Dísa kom nú fram. Hún hafði heyrt manna- mál og þóttist vita, að það væri Jakob. „Komdu sæll, Jakob minn!“ sagði hún spekingsleg á svip. „Ég ætlaði mér að verða fyrst til að segja þér sorgarfregnina. Nú verðurðu að vera stilltur. Mamma er hættulega veik“. „Ég er búinn að heyra það“, svaraði hann. „Það hefði víst ekkert látið betur í eyrunum á mér, þó að þú hefðir sagt mér það, frekar en Borghildur“. „Ég hefði kannske getað komið öðruvísi orðum að því“, sagði Dísa og horfði ásakandi til Borg- hildar- „Honum hefði kannske orðið minna um það“. „Hann er nú heldur stilltari en þú, býst ég við. Þú hefðir víst ekki þurft að ráðleggja honum að vera stilltur, ekki hefur svo lítið gengið á fyrir þér sjálfri“, sagði Borghildur rólega. „Ég hef nú líka séð og heýrt meira af því, sem hér hefur gengið á í dag, en hann. En það er bezt að tala sem fæst um það. Það er ekki óvana- legt, að það líði yfir hana og henni batni jafnfljótt aftur, eins og verður núna. Ef þú hefðir kaffi á könnunni, skal ég þiggja það. Jakob drekkur með mér og segir mér eitthvað úr afmælishófinu. Var ekki Ella fín? Ég trúi hún hefði ætlað að bjóða mér, ef ég hefði verið heima“, masaði Dísa ánægju- lega. Jakob hafði ekkert fyrir því að svara henni, en fór inn. Dísa fór að gæta að því, hvort nokkuð væri á könnunni. „Það er bara einhver seytill, hálfkaldur. Þú ert búin að gleyma eldhúsverkun- um“, sagði Dísa. „Mér datt ekki í hug að nokkur hefði lyst á kaffi í kvöld“, sagði Borghildur kuldalega. „Það hefði verið meira á könnunni, ef Kristín hefði verið heima“, hélt Dísa áfram og gaf Borg- hildi hornauga. „Þið hefðuð sjálfsagt ekki misst lystina, þó að öðrum hafi fundizt hálfóviðkunnanlegt ástandið á heimilinu núna. Báðar nógu tilfinningasnauðar", rausaði Borghildur. „Það er eitthvað vandlifað hjá þér núna, þykir mér“, sagði Dísa. „Ég hélt þú hefðir þó séð það, að mér hefur ekki liðið neitt sérlega vel í dag“. „Það lítur út fyrir, að það hafi ekki gengið mjög nærri þér“. Dísa ranglaði inn í búr, fýluleg á svip. Borg- hildur var orðin henni fjarlæg, næstum óvinveitt kona- Það voru líka flestir á þessu heimili. Hún hafði vonað, að það yrði dálítið meira tekið eftir sér bæði í sveitinni og á heimilinu, þegar hún vær búin að vera á skóla, en henni mætti sama fálætið og lítilsvirðingin. Jakob gekk inn í húsið. Hann sá föður sinn sitja á stólnum við ofninn, niðurbeygðan, eins og hann væri að hníga út af í svefni. Hann klappaði honum á öxlina: „Sæll vertu, pabbi minn!“ „Þú ert þá kominn, góði minn. Ósköp ertu búinn að vera lengi“, sagði faðir hans loðmæltur. „Já, ég var lengi, enda vissi ég ekki, hvernig stóð á heima“. Svo gekk hann inn að rúminu. Honum sýndist það vera liðið lík, sem lá þar. Jafnvel varirnar voru hvítar. „Mamma, mamma mín!“ hvíslaði hann fast við andlit hennar. Skyldi hún ekki heyra lengur til hans, hugsaði hann kvíðandi. Hún hreyfði aðra höndina. Hann tók hana varlega í lófa sinn. Hún var máttlaus og hálfköld. „Jakob minn, elsku drengurinn", sagði hún lágt. Svo bætti hún við eftir nokkra þögn: „Reyndu að koma honum burtu. Ég þoli ekki þessa vín- sterkju". Jakob skildi, hvernig ástatt var fyrir föður hans. Hann stundi mæðulega og gekk yfir að ofninum. „Ertu svona drukkinn, pabbi?“ sagði hann næstum ásakandi. „Og mamma er svo veik“. „Já, ég er svona, já, og mamma svona veik- Ég var svo einmana, þegar þú varst ekki heima. En hún ætlar að lifa. Þá verður allt gott aftur. Við sættumst enn einu sinni og þá verður allt gott aftur, eins og vant er. Ég vildi helzt fara að sofa“, drafaði í föður hans. „Þú kemur með mér fram og háttar í rúmið mitt. Ég vaki yfir mömmu í nótt“, sagði Jakob. „Ég skal fara með þér, en þú verður að vera hjá mér. Ég er svo einmana11. Það gekk betur en Jakob hafði búizt við að koma honum fram. Hann var ekki óvanur að flýja í þetta litla herbergi, þegar hann var ekki alls gáður. Borghildur var búin að kveikja á borð- lampa, sem hún lét standa fram við dyr, svo að nú var ekki eins ömurleg birtan og áður, þegar Jakob kom inn aftur. Hann settist við rúmstokkinn hjá móður sinni. Hún mókti öðru hvoru, hrökk svo við og horfði hræðslulega kringum sig, stundi og bað fyrir sér, en féll svo í sama mókið aftur. Jakob horfði á Borghildi kvíðandi augnaráði. Hún reyndi að hughreysta hann, þó að henni væri órótt sjálfri: „Við skulum vona það bezta, ég verð hérna hjá þér“.

x

Lögberg

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.