Lögberg - 09.10.1958, Blaðsíða 6

Lögberg - 09.10.1958, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 9. OKTÓBER 1958 GUÐRÚN FRA LUNDI: DALALÍF „Það eru aldrei teknir vandalausir krakkar hingað, nema hann Jakob litli hans Sigga. Hann er búinn að vera hér mörg sumur til að snúast við kýrnar“, segir Gróa og hellir á tvær kaffikönnur samtímis. „Mér finnst ég hafa sama rétt til þess að mínir krakkar séu hér eins og Siggi. Við eigum bæði hér foreldrahús, en ég þó mikið frekar“. „Það er nú sjálfsagt engin skylda að taka af ykkur krakkana, þó að þið væruð hér tökubörn“, segir Gróa. „Fósturbörn“, leiðréttir Dísa. Nú komu konurnar fram, sem ætluðu að bera inn kaffið. Þær eru Sigurlína í Seli og unga konan á Hjalla, tengdadóttir Þóru. Hún er lagleg kona og Dísu finnst hún horfa á sig með sama háðslega ertnisglampanum í augunum eins og þegar þær voru samtíða. Hún færir sig inn í stofuna, þar sem á að drekka, en hún kann illa við sig innan um þetta fólk. Hún er búin að vera of lengi fjarvist- um við það til þess að geta talað við það sem kunningja sína. Gremjan vex yfir því að sjá það sællegt og vel klætt. Auðséð að það hafði lifað við lán og búsæld eins og fyrr í þessari sveit. Hún er staðráðin í að flytja heim í blessaðan dalinn aftur. Úr honum hefði hún aldrei átt að flytja — þá hefði hún litið út eins og þessar hraustlegu konur, sem hún hefur hér allt í kringum sig. Sigþrúður frá Hjalla situr á aðra hlið henni. Hún snýr sér að Dísu og segir lágt: „Ég tók það nærri mér að skrökva að honum föður þínum um verustað þinn. Ég vissi, hvar þú varst. Hann lang- aði til að setjast að hjá þér og hefur sjálfsagt verið búinn að gylla það fyrir sér í huganum. En ég bjóst við að það yrði ykkur báðum til hörmungar. Þess vegna þagði ég. Kannske hefur það verið rangt af mér“. „Ég hefði aldrei getað liðið hann í mínum hús- um. Hann leiddi nóga smán yfir mig hér í þessari sveit, þótt hann færi ekki að elta mig í ókunnuga sveit mér til kvalar, þetta greppitrýni“, svarar Dísa sótrauð af gremju. Hvað þurfti kerlingar- álkan eiginlega að fara að minnast á hann? „Þetta var nú faðir þinn samt, sem bar þig á höndum sér, þegar þú varst barn, og tók nærri sér að skilja við þig. Ekkert hefði verið eins ánægju- legt og þú hefðir getað hlynnt að honum í ellinni, þessum dauðans lánleysingja. En ég sá, hvern hug þú barst til hans, þegar hann fann þig eftir öll þessi ár. Þess vegna duldi ég hann sannleikanum", heldur Sigþrúður áfram mæðuleg á svip. „Helzt vildi ég, að þú minntist ekki á hann í mín eyru. Ég á við nóga armæðu að stríða, þó að ég sé ekki minnt á hann“. En samt getur hún ekki hrundið þessu samtali úr huga sér. Seinna um kvöldið, þegar allir gestirnir eru farnir, sá hún að unga húsmóðirin er inni í her- berginu, þar sem líkkistan var borin út úr. Hún er komin úr peysufötunum og er nú í ljósleitum léreftskjól. Dísa notar tækifærið og gengur inn til hennar. Elín er að bera sængurföt inn í rúmstæði, sem þangað hafa verið borin. Dísa setur upp guð- ræknissvip og segir: „Hver á nú að sofa hér, þegar blessuð Borghildur mín er horfin?“ „Lísibet svaf hérna í þessu rúmi. Líklega læt ég Sigþrúði sofa í rúminu, sem Borghildur svaf í“, svarar Elín án þess að stanza við það, sem hún er að gera. „Hver tekur nú við verkunum hennar? Þau verða vandunnin, svo að ekki sjáist munur til hins lakara“, segir Dísa. „Lísibet hjálpar mér við málaverkin. Hitt reyn- um við að gera. Sigþrúður hjálpar okkur ótrú- lega mikið“. „Hver gefur með henni?“ spyr Dísa. „Hún vinnur fyrir því, sem hún borðar. Það er ekki svo mikið“. „Á ég ekki að lána þér vinnufólk, Elín mín?“ segir Dísa í sínum saetasta tón. „Nei, ég þarf þess ekki. Hef alltaf meir en nóg vinnufólk", segir Elín. Hún hefur lokið við að búa um rúmin. En hvað hún sléttar vel sængurnar, hugsar Dísa, alveg eins og mamma. „Býrðu um vinnukonurnar þínar?“ „Nei, svo góð er ég ekki — var bara að flytja sængurfötin þau arna inn fyrir. Lísibet er að rnjólka", segir Elín og býst til að ganga burtu. „Er hún í fjósinu, sjálf fósturdóttirin og heima- sætan?“ segir Dísa og brosir háðslega. „Já, hún gerir það og þykir engin skömm að því“. Elín gengur fram, hún hefur ekki gefizt upp við það, sem hún er að vinna, til að skrafa við gestinn. Ekki er nú kurteisin of mikil. Dísa er sárgröm yfir því, hvað sér sé lítill gaumur gefinn eins og fyrri. Hún fer inn í svefnherbergi fóstru sinnar. Hún er þar með litlu Önnu Jakobsdóttur, greiðir og fléttar hár hennar mikið og fallegt. „Þér þykir líklega svolítið vænt um þessa dúkku“, segir Dísa í gæluróm. „Það er nú eðlilegt, svona elskulegt barn“, svarar Anna Friðriksdóttir. „Hún ætlar nú að fara að hátta og bjóða góða nótt. Ég læt þau kalla mig „góðu mömmu“ — ömmu-nafnið gerir mann svo hræðilega gamlan. Ekki vantar hégómaskap- inn ennþá, Dísa mín“, bætir hún við og brosir. „Ég er hrædd um, að ömmubörnin þín í Stapa- vík séu ekki að hugsa um að fara að hátta strax. Þau segja alltaf „amma á Nautaflötum“. Það verður seint, sem þú kemur að sjá þau“. „Ég er nú jafnónýt og fyrr að ferðast". Litla stúlkan býður svo góða nótt með tveim kossum og fer fram. Dísa er farin að finna til óvildar til þessara fínu eftirlætisbarna. „Ég var að bjóða tengdadóttur þinni að lána henni vinnu- fólk, en hún bara snéri upp á sig og sagðist hafa nóg fólk, en sjálfsagt þarf nú einhver að taka við verkunum hennar Borghildar“, segir Dísa. „Já, það sést að hún er horfin að öllu leyti“, segir Anna. Hún er ekki óviðbúin að heyra þetta tilboð. Gróa hefur sagt henni, hvað Dísa hefur í huga. „Mig langar til að koma heim til þín aftur með börnin mín, svo að þau geti notið sama ástríkis og ég naut í æskunni. Þau eru lagleg og vel siðuð og ég efast ekki um, að þér þyki þau skemmtileg, ekki síður en hin barnabörnin þín“, segir Dísa sárfegin að vera búin að stynja þessu upp. „Þau börn eru nú ekkert skyld mér og ég vil helzt vera laus við að þau kalli mig ömmu, þar sem mér er líka svo illa við nafnið það“, segir Anna. „Svo höfum við aldrei tekið vandalaus börn á heimilið". „Ég skal vera í eldhúsinu í stað Borghildar og hugsa um heimilið að þínum parti og hlúa vel að ykkur í ellinni“. „Almáttugur hjálpi mér“, andvarpar Anna, „mér finnst hvorugt okkar vera orðið gamalmenni. Það er líklega vegna þess, að ég er svo heilsugóð. En hvað aðhlynningu viðvíkur, gerir það enginn betur en Elín. Heimilisverkin eru öll unnin í fé- lagi utan húss og innan. Það borða allir við sama borð. Allt í einingu og ánægju“. „Ég skil ekkert í því, að þið skulið geta unað við það“, segir Dísa. „Það er fyrirhafnarminnst. Tvíbýli er alltaf leiðinlegt. Jakob á þetta allt. Borghildur heitin var hæst ánægð með þetta fyrirkomulag". „Hvað verður um skepnurnar, sem hún Borg- hildur átti, og allar hennar eigur? Hún hefur hlotið að eiga mikið á vöxtum eftir öll þessi ár“, segir Dísa og fær nú allt í einu nýtt áhugaefni. „Auðvitað fær Siggi það, þykist ég vita“. „Skyldi hún ekkert hafa munað eftir mér?“ segir Dísa og kingir munnvatninu af ákafa. Það hafði Anna ekki heyrt nefnt. „Líklega hugsar þó pabbi eitthvað um okkur fósturbörnin sín. Ekki lætur hann Jakob hafa allar eignirnar. Mig minn- ir, að þú hafir sagt mér, að fósturforeldrar hans hafi gefið sínum fósturbörnum". „Það var nú ekki nema Siggi — og svo ég að nokkru leyti. Ég fékk víst minn hluta vel útilát- inn“, segir Anna og brosir ánægjulega. Það kemur unglingsstúlka inn til þeirra og segir þeim að koma ofan og borða. Anna verður fegin að losna við óþægilega samræður. „Þetta er nú Borghildur litla Sigurðardóttir“, segir hún við Dísu. „Þið alið upp alla krakkana hans Sigga fyrir ekki neitt“, segir Dísa sárgröm. „Þau eru bara hérna yfir sumarið", segir Anna. Dísa er orðin uppþembd of öfund og gremju yfir velgengni allra, sem minnzt var á, meðan setið var að snæðingi. Siggi var búinn að byggja nýtt hús. Hann yrði ekki í vandræðum með það, þegar hann fengi allt eftir hana Borghildi. Ótrú- legt að hún hefði ekki gefið henni neitt. Dísa svaf illa um nóttina. Næsta dag yrði hún að stynja því upp við feðgana, sem henni lá mest á hjarta. Það var líka önnur kona, sem vakti þessa nótt. Það var Anna Friðriksdóttir. Hún hafði eins og áður áhyggjur út af Dísu. Eins og oft áður gerði hún hana órólega. Hún gat ekki hugsað til þess að taka hana á heimilið, enda engin þörf fyrir vinnu hennar. En óneitanlega var leiðinlegt að neita henni um hjálp. Hún átti víst örðugt upp- dráttar. En það var engin skylda, að þau sæju fyrir henni. Hún varð að láta Jón ráða fram úr þessu, eins og öllu öðru, ef Dísa væri þá ekki alveg hætt að hugsa um þetta. Næsta morgun sýndi Anna Dísu allt íveruhúsið. Ekki batnaði gremjan og öfundsýkin við það. Stássstofan gekk næst henni. Þar voru gömlu hirzlurnar málaðar á ný og litu ótrúlega vel út — dragkistan og skattholið. Þetta var allt orðið sama sem eign Elínar, þessarar köldu, merkilegu stelpu, sem lét eins og hún sæi.hana ekki. Það var ekki laust við, að hún færi að iðrast eftir játninguna, sem hún hafði gert í sorg sinni daginn áður. Og þarna lá fallega gullhjartað, sem séra Hallgrímur hafði gefið fóstru hennar einu sinni. Nú var það í læstum glerkassa í dragkistunni. Hana langaði svo hræðilega mikið til að eiga það — hefði verið búin að stela því, ef hún hefði þorað. „Þarna áttu fallega hjartað þitt ennþá, mamma. Læturðu það nokkurn tíma á þig?“ vælir hún. „Lísibet á það núna. Ég gaf henni það, þegar hún var fermd“. „Þú gazt nú alveg eins gefið mér það. Mig lang- aði svo mikið til að eiga það“. „Það var gefið með því skilyrði, að það yrði hengt um hálsinn á stúlku, sem héti Lísibet“, segir Anna. „Þú lætur þær sjúga allt, sem þú átt fallegt, út úr þér, Elínu og Lísibetu", segir Dísa sárgröm. „Ég á svo mikið af þessu“, segir Anna. Dísa ætlar að fara að stynja upp bón um að hún fengi eitthvað, en þá er Jón kominn inn í stofuna. Nú varð hún að herða upp hugann. Hann hjálpar henni að komast að efninu með því að spyrja hana, hvernig hún hafi það þarna í Stapa- víkinni. „Ég hef það nú svoleiðis, að ég er að hugsa um að skilja við manninn og fara í vinnu- mennsku með krakkana. Ég var að bjóða mömmu að fara hingað og taka að mér verkin hennar Borghildar okkar“, segir hún með erfiðismunum. „Hvað finnurðu að honum allt í einu?“ spyr hann. „Hann er svoddan drykkjusvoli og svo er hann allt annað en góður við börnin“. „Ég get nú svo sem ekki talið það skilnaðarsök, þó að hann fái sér ofurlítið í staupinu við og við“, segir hann glettinn. „Kannske mamma skilji það betur“, segir Dísa. Anna dundar við að lagfæra eitthvað í skatt- holinu og anzar engu. „Drekkur hann meira núna en fyrst, þegar þú kynntist honum? Þú varst fljót á þér að trúlofast honum og giftast. Þér hefur víst ekki þótt neitt ábótavant í fari hans þá“. „Hann drakk ekki svona þá. Ég hef séð margt síðan, sem mér fellur ekki við hann“. „En heldurðu að hann hafi þá ekki fundið ein- hverja galla hjá þér, sem hann fann ekki strax — og ef hann er farinn að drekka meira, er það þá ekki eitthvað þér eða heimilinu að kenna?“ „Nei, það er áreiðanlega ekki mér að kenna á neinn hátt“, segir Dísa og svo bætir hún við hróðug: „Sjálfsagt hefur það ekki verið mömmu að kenna að þú fórst að drekka“.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.