Lögberg


Lögberg - 04.12.1958, Qupperneq 6

Lögberg - 04.12.1958, Qupperneq 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 4. DESEMBER 1958 GUÐRÚN F R A LUNDI: ÞAR SEM BRIMALDAN BROTNAR Una saug upp í nefið. — Sá ætlaði svei því að fara batnandi. Hann var ekki vanur að spyrja vinnufólkið, hvort það væri þreytt, þótt það legði saman nótt og dag, hugsaði hún, en upphátt sagði hún: „Ég var að hugsa um að hafa verka- skipti við hana. Ég býst við, að verða heldur skarpari á grindinni, enda vön því frá barnæsku. Hún getur eldað graut og soðið egg og sel. Það er algeng vinna“. Þórey dreyrroðnaði og sagði stuttlega: „Ég var ráðin til að hreinsa dún, en ekki til að sjóða graut og sel“. „Náttúrlega fæst ekki eins hátt kaup fyrir grautarsuðuna, býst ég við“, svaraði Una, „eða hvað segir þú um það, Jóhann. Villtu kannske borga henni sama kaup fyrir að vera inni í bæn- um og úti í skemmunni?“ „Hún vinnur það ,sem hún var ráðin til“, svar- aði hann kaldranalega. „Ef þú getur ekki fengið einhverja kerlingu í bæinn, er bezt að þú snúist utan um þína grautardalla sjálf. Það er kannske eins og það hefur verið, að þér finnst ekkert unnið nema þú sért í verki með“, bætti hann við. „Þú getur nú heldur ekki borið á móti því, að enginn vinnur þínu heimili eins vel og ég“, sagði Una skjálfrödduð af reiði. Hann svaraði engu nema þreföldum blóts- yrðum. Lilja var farin heim til sín og heyrði því ekki sennuna, en eldri dúnstúlkan sagði henni, hvað hefði verið rætt yfir kvöldmatnum. „Ég verð að reyna að útvega einhverja til að vera í bænum, annars fer allt í bál og brand“, sagði Lilja. Um kvöldið var Valdimar gamli sendur inn að Vogum með bréf frá Lilju, þar sem hún minnti Guðnýju húsfreyju á því heimili á, að Una hefði bjargað kúnni hennar síðastliðinn vetur, og nú skyldi hún launa henni með því að lána henni hjálp í nokkra daga. Það þurfti ekki að bíða lengi eftir svari. — Unglingur á tólfta ári kom til baka og sagðist eiga að vera hjá Unu, meðan hún þyrfti þess. — Nú fór að komast skriður á í skemmunni, en húsbóndinn kom þar talsvert sjaldnar en undanfarna daga. Una at- hugaði dúnbynginn á hverju kvöldi. Það leit út fyrir, að hann ætlaði aldrei að minnka. Áður hafði henni þótt vænt um, hvað dúnninn var mikill. Nú hefði hún gjarnan viljað, að hann væri hálfu minni til að losna við Þóreyju. Á kvöldin, þegar þau voru komin inn í „það allra helgasta“, hjónahúsið, byrjuðu þau að senna. Alltaf var hægt að finna eitthvað til, en þó var farið í kring- um það, sem úlfúðin stafaði af. — Loksins var svo búið að hreinsa dúninn og stúlkurnar riðnar úr hlaði. Þá gat Una ekki stillt sig lengur: „Það held ég þú saknir vinar í stað, þegar þessi blóma- rós er farin. Þú lítur líklega heldur sjaldnar inn í skemmugreyið en áður“, sagði hún háðslega. „Já, það máttu vera viss um“, sagði hann. „En það verður ekki lengi, sem ég sakna. Hún kemur aftur að Látravík þessi stúlka, því að ég hef fast- ráðið það við mig, að hún skuli verða húsmóðir hér á þessu heimili“. Unu brá illilega við þessa hreinskilnislegu yfir- lýsingu. „Einmitt það“, sagði hún. „Heldurðu kannske að þú stríðir mér með þessu og öðru eins“. Hún þvingaði sig til að hlæja óviðfelldnum hlátri. „Ég er ekkert að reyna að stríða þér“, sagði hann og svipur hans var hræðilega dimmur. „Heldur er ég að segja þér sannleikann og reyna að láta þig skilja mig, en þú ert svo andskoti vitlaus, að þú skilur ekki mælt mál“. „Ég þakka hólið“, sagði hún óstyrkri röddu. „Þér finnst það líklega ekki mikið, þótt þú lítir svolítið fram hjá öðrum eins heimskingja, en samt hef ég séð þig út. Þú hefur haft fram hjá mér með Halldóru í Selinu, það er ég alveg viss um, og svo kórónarðu allt saman með því að glápa á þessa stelpugæs eins og naut á belju, rétt fyrir augunum á mér. Hvað skyldurðu bjóða mér næst. Líklega að verða vinnukona hjá þér og henni. Þú getur líklega þegið það í lengstu lög, að hafa vinnuna mína“. „Það er það eina, sem af þér er hægt að þiggja, djeskotans herfan þín“, sagði hann og svipur hans var enn skuggalegri en áður. „En aldrei dytti mér í hug að hafa þig hérna á heimilinu með henni. Þú værir vís til að drepa hana. Heldur ferð þú alfarin burtu héðan og það strax í dag. Hér eftir erum við skilin fyrir fullt og fast“. Hún sá, að hann var að basla við að ná af sér trúlofunarhringnum, en hnúfinn var fyrirferðar- mikill, og hún gladdist í hjarta sínu yfir því, að þetta tækist ekki. „Þú sleppur ekki svo auðveldlega', sagði hún. „Meðan þú ert með hringinn minn, á ég þig þó, hvort sem þú villt eða ekki“. „Þú skalt sjá, hvort hann verður lengi á hönd minni hér eftir“, sagði hann og streyttist enn meira við að ná hringnum af sér. — Þá hafði Una algerlega hamaskipti og varð bljúg og biðjandi á svipstundu. „í guðs bænum, Jóhann, gerðu þetta ekki. Ég get ekki lifað annars staðar en hjá þér — hérna í Látravík“. „Það er ótrúlegt", sagði hann. „Þú kveldir mig þá varla með bölvuðu reksinu og tortryggninni. Það yrði svo sem ekki óskemmtilegt að fylgjast með öðru eins skari alla æivna — og mega ekki líta á nokkurn kvenmann annan en þig. Annað hef ég ekki gert, og þó geturðu alltaf verið að brigsla mér“. „Hættu þessu“, bað hún. „Þú sérð, að þú getur aldrei náð hringnum af þér. Ég skal aldrei tor- tryggja þig framar“. „Fyrr skal ég mölva hring fjandann eða höggva af mér fingurinn, en bera hann á móti öðrum eins skapvargi og þér. Ég er orðinn dauðþreyttur á því fyrir löngu síðan. Skil eiginlega ekkert í því, að ég skyldi nokkurn tíma láta þig hafa mig til þess að setja hann upp“, sagði hann um leið og hann greip handsápustykki á borðinu og rauk fram. Una stóð úrræðalaus á eldhúsgólfinu. Átti þetta að verða endirinn á öllum hennar framtíðar- vonum. Það þótti henni ólíklegt; það hafði fyrr fokið í hann við hana. — Jóhann kom inn aftur með sama manndrápssvipinn og henti hringnum á borðið rétt hjá henni: „Þarna er hann“, sagði hann, „taktu við honum, þú átt hann, — hefur sjálfsagt narrað efnið í hann út úr karlinum eða stolið því. Til þess væri þér trúandi. — Skammastu svo í burtu og láttu aldrei sjá þig framar“. Una gat tæplega komið upp orði. Samt tókst það með erfiðismunum: „Þú borgar mér þá lík- lega kaup þessi ár, sem ég hef þrælað hjá þér, ómennið þitt, ef þú ert staðráðinn í því að reka mig burtu. Hver skyldi hafa trúað því, að þér færist svona við mig eftir allt, sem ég hef gert fyrir þig. Síðast og ekki sízt, að hafa karlinn til að gefa þér jörðina. En ég veit, að þér er ekki alvara, þú getur ekki verið orðinn svo staurblind- ur af hrifningu, eða hvað ég á að kalla það. Hún er engin manneskja til að standa þér við hlið. Bráðónýtur unglingsgapi, sem ekkert kann nema að punta sig og er alin upp í eftirlæti og aðdáun“. „Þú færð aldrei krónuvirði frá mér, ómyndin þín“, greip hann fram í fyrir henni. „Þá fer ég ekki fet. Ég verð hér hvort sem þú vilt eða ekki“, sagði hún með þrózkusvip, þó að röddin væri klökk af gráti. „Þó að ekki sé til annars en að gera henni lífið svo leitt, að hún haldist ekki við á heimilinj^“. „Taktu eftir því, sem ég segi“, sagði hann æfur. „Ég er að fara á sjóinn. Ef þú verður ekki farin burtu, þgear ég kem í land, þá . . .“ Hann greip búrhnífinn, sem lá á eldhúsborðinu og gerði hræðilega táknmynd um, hvað þá myndi koma fyrir. Hún hrökk svo langt sem hún gat frá hon- um. Hann rauk fram, kom von bráðar inn í dyrnar og hrópaði: „Kannske þú viljir koma með mér á sjóinn, það er þægilegra að losna við þig þar en á landi“. „Fjandinn fylgi þér“, sagði hún á milli læstra tannanna. „Láttu hann leiða þig“, var svarað framan úr göngunum. Þannig urðu kveðjurnar með kærustuparinu í Látravík. Una sat eins og lömuð dágóða stund. Hún bað til guðs með vörunum, en formælti í hjartá sínu. Allt í einu birtist Valdimar gamli í eldhúsdyr- unum. Einhvers staðar hafði hann getað komið mjóslegnum líkama sínum þar fyrir, sem hann hafði heyrt hvað fram fór. „Mikið er nú búið að ganga á fyrir honum, blessuðum", sagði hann klökkum rómi. „Og þú átt bara að fara allslaus. Hvað svo sem hefur komið honum í þennan ofsa?“ „Já, þetta á ég að hafa fyrir allt bjástrið við að koma undir hann fótunum, bölvað ómennið það. En sannaðu til, það skulu koma þeir dagar, að hann verði einstæðingur og vinafár eins og ég er nú. Kannske verður það ekki strax, en ein- hvern tíma“. Svo tíndi hún saman fötin sín, batt sumt í böggul, sem hún ætlaði að halda á í hendinni, annað fór ofan í rósmáluðu fatakistuna hennar. „Þetta verður sótt einhvern tíma ásamt rúm- fötunum mínum. Varla fer ég að gefa henni það, bölvaðri tófunni þeirri, sem sezt í sætið mitt“, sagði hún. Svo kvaddi hún gamla manninn með kossi og strauk yfir vanga hans eins og hún væri að skilja vði smákrakka. Síðan gekk hún reikulum skrefum inn að Grænastekk, blinduð söltum tárum. NÝ KONA KEMUR AÐ LÁTRAVÍK Þegar húsbóndinn kom af sjónum og hafði sett bátinn, gekk hann til bæjar. Þar sást ekki nokkur maður, og eldurinn var steindauður. Hún var þá vonandi farin. Hvar skyldi karlræfillinn halda sig? Og kýrnar sjálfsagt vestur í heiði. Hver skyldi svo sem geta mjólkað? Já, hver átti eigin- lega að gera alla hluti? Sem snöggvast datt honum í hug, að líklega hefði hann verið nokkuð fljót- ráður. Ekki átti hann það víst, að Þórey vildi fara til hans, og hvernig væri hann þá staddur? Þá sá hann, hvar Valdimar var að koma kúnum í fjósið. Hann fór út að fjósinu til hans. „Þú skalt láta þær eiga sig“, sagði hann óvanalega hlýlegur. „Á ég ekki að biðja hana Lilju að skreppa út eftir? Hún er ekki sporlöt“. „Nei, það skaltu ekki gera“, sagði húsbóndinn. Hann þóttist vita, að Una hefði ranglað þangað. Þá kom húskonan, sem alltaf hafði verið þar öðru hvoru, en hafði nú verið svo illa haldin af gigt um tíma, eins og af himnum send utan túnið. Það var engin hætta á því, að ekki legðist eitthvað til. Hún var öldungis forviða, þegar henni var sagt, að Una hefði brugðið sér inn í kaupstað. Hún tók náttúrlega við matarverkunum. Tveim dögum seinna var vinnupilturinn sendur inn á Nes einhverra erinda. Jóhann sagði honum að grennslast eftir því, hvort Una hefði ekki verið þar á ferð undanfarna daga. Hann var ekki alls kosta rólegur. Það var ekki gott að vita, hvað þessir vargar tækju til bragðs. Pilturinn kom með þær fréttir, að hún hefði farið gangandi inn allt Nes, en í dalnum hefði hún fengið hest inn yfir heiðina. „Það er ágætt“, sagði Jóhann, „vonandi á hún ekki eftir að sjást hér út frá aftur“.

x

Lögberg

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.