Lögberg - 01.01.1959, Blaðsíða 6

Lögberg - 01.01.1959, Blaðsíða 6
6 LÖGBERG, FIMMTUDAGINN 1. JANÚAR 1959 GUÐRÚN FRÁ LUNDI: ÞAR SEM BRIMALDAN BROTNAR Þórey flýtti sér að grípa litlu ljóshærðu dóttur sína og fara með hana inn fyrir. Jóhann ranglaði út í síðsumarnóttina til að láta skapsmunina róast ofurlítið. Helzt hefði hann langað til að lemja tengdamóður sína, en slíkt bauð hann ekki konu sinni að horfa á. Þegar hann kom inn aftur, var búið að slökkva ljósið í baðstofunni, en Þórey vakti ein í myrkrinu fyrir innan og grét. Hann reyndi að hugga hana, en það var ekki hægt. Henni fannst faðmur hans kaldur, rödd hans hræðilega hörð og hótandi. Hún snéri sér til veggj- ar og grét beiskjulegar en áður. Drengurinn fór að láta betur í svefninum eftir að hann kom til ömmu sinnar, en hann var jafnan í einu svitabaði og titraði eins og strá í vindi, þegar hann var að vakna. En sagan, sem höfð var eftir telpukrakkanum og vinnukonunni, gekk út og suður um sveitina í mörgum útgáfum. Lilja á Grænastekk sagði Ingveldi hana einu sinni, þegar hún ranglaði inn eftir til hennar sér til ánægju. Drengurinn hafði farið með Valdimar gamla til berja þennan dag. „Ekki get ég borið á móti því, að dálítill sannleikur felist í þessum sögum, en mikið er þó lygi“, sagði Ingveldur. En þegar hún kom heim, fór hún beina leið inn í hjónahúsið og sagði tengdasyni sínum, hvað hún hefði frétt í ferðinni, þótt hún hefði ekki verið löng. Og hún bætti því við, að sér þætti nú líklegt, að hann reyndi að fara til læknis með drenginn og reyna að fá einhverja meinabót handa honum, ef hægt væri að kveða þennan ósóma niður. Að minnsta kosti að koma því inn hjá fólki, að hann væri ekki umskiptingur. „Eins og mér sé ekki sama, hvað það kjaftar um mig hérna á Nesinu“, sagði hann, en samt mátti sjá, að honum brá illa við þessar fréttir. „Þú um það“, sagði Ingveldur. „En hitt veit ég, að Þóreyju er ekki sama, að fólk álíti þig slíkt illmenni“. Hún gekk í burtu, án þess að segja meira. Hún vissi, að hún hafði þó slegið á viðkvæmasta streng- inn í brjósti þessa járnkalls, þar sem ást hans til eiginkonunnar var. Daginn eftir riðu hjónin inn Breiðasand til að finna lækni. Drengurinn átti ekki nógu góð föt til að fara í þetta skiptið. Það yrði að hugsa fyrir því, ef honum batnaði ekki af meðölum, sem læknirinn hlyti að láta hann hafa. Þau komu aftur um nóttina. Þórey var mikið hressari en áður. Læknirinn hafði gefið henni svo góðar vonir. Hann var víst ákaflega lærður maður og sagði, og sagði að drengurinn hefði orðið svo yfir sig hræddur nóttina, sem hann var í básnum, að sálin hefði orðið veik. Hún gæti veikst eins og líkaminn. Svo sæi hann þessar ógnir í svefninum. Af því stafaði þessi óróleiki hans á nóttunni. Þetta var náttúr- lega það sama og Ingveldur amma hans var búin að segja, en enginn hafði lagt eyrun við því. Annað var, þegar læknirinn sagði það. Það duldist engum, að drengnum batnaði mikið af meðclunum. Hann fór að sofa rólegar, skapið var ekki eins óskaplegt. En þegar nóttin fór að sitja við völd meginið af sólarhringnum, leit út fyrir að hann ætlaði að verða órólegri. Hann forðaðist að koma nærri sjónum. Helzt vildi hann fylgjast með Valdimar í húsum og tóftum eða hlýða á sögur hjá ömmu sinni, en þá mátti systir hans helzt ekki koma svo nærri, að hún heyrði söguna. Þá hljóp hún til mömmu sinnar og klagaði undan ráðríki hans. Svona leið hver dagurinn af öðrum, alltaf sama stríðið og erfiðleikarnir. Þorvaldi á Hvanná datt það allt í einu í hug, hvort það myndi ekki heillaráð að koma drengnum eitthvað í burtu, þar sem hann sæi ekki sjóinn. „Ég skal taka hann af ykkur í vetur, ef hann kann við sig, litli anginn“, sagði hann. „Hvað segirðu um það, Gunnar minn? Heldurðu að þú vildir koma með mér vestur að Hvanná og vera þar í vetur?“ spurði hann litla þrjózkunælið með stóra og skuggalega svipinn. „Mér er alveg sama, hvort ég er hjá þér eða hérna, bara ég þurfi ekki að fara ofan í fjöruna", sagði drengurinn. Þórey varð sárfegin að losna við drenginn. Hann kunni líka vel við sig og lét enga ódælsku þar í ljós. Þar voru tvær heimasætur, stilltar og orð- varar. Ef minnzt var á, að hann færi heim að Látravík, þegar vorið kæmi, óskaði hann, að alltaf yrði vetur og aldrei kæmi vor. UNA FLYTUR ÚT Á NESIÐ Valdimar gamla langaði alltaf til að vita, hvernig Una hefði það. Lilja á Grænastekk gat sagt honum það vanalega. Hún væri alltaf kaupakona á hverju sumri einhvers staðar inni á Nesinu, þar sem hún gæti séð til Látravíkur, þótt það væri ekki nema í fjarska. „Hún hefur unnað þeirri jörð mikið og eiganda hennar, sú góða og trygga kona“, and- varpaði hún vanalega í endi fréttanna. „Það er mikið lán, ef aldrei kemur að skuldadögunum fyrir Jóhanni. Það er eins og sumum mönnum líðist allt, bæði fyrir augliti guðs og manna", En svo bar til á slætti það sumar, sem Gunnar litli bóndasonur týndist, að Una var allt í einu komin alla leið út að Minni-Vogum, sem var næsti bær innan við Grænastekk, en löng leið á milli bæjanna. Hún var orðin þar ráðskona hjá bræðr- um, sem þar höfðu búið með móður sinni, en hún var nú orðin rúmföst. Lilja á Stekknum var því orðin nágrannakona hennar í annað sinn. Una var nærfærin við þá, sem veikir voru eins og áður, og gamla konan var fljótlega farin að hafa ferli- vist og hugsa um matarverkin ,meðan ráðskonan var við heyvinnuna. Hún hafði gaman að spyrja frétta frá Látravík, einkanlega eftir að umskipt- ingssagan komst á kreik. Þá hló hún ánægjulega, en augun voru í algerðri andstæðu við varirnar, köld og hörð. „Það er orðið langt síðan maður hefur heyrt talað um umskiptinga. En þetta er allt svo frum- legt hjá Jóhanni í Látravík. Þú verður að fá góðan kaffisopa fyrir þessar fréttir“, sagði hún við sögu- konuna, hver sem hún var. En Lilju á Stekknum fannst þessi grágletta svo átakanlega grimmúðug, að hún vildi ekki tala mikið um þessa ógæfu, sem hent hafði þau Látravíkur-hjón. Hún sagði aðeins, að það væri áreiðanlegt, að drengurinn væri með fullu viti, hvað sem hver þvætti aftur á bak og áfram. „Það var svei mér fallega gert af Þorvaldi „elsku vini“, að taka hálfvitann með sér vestur í heiðina, það er svo fáferðugt þar“, sagði Una. „Maddaman í Látravík losnar þá við að bera kinn- roða fyrir þennan fákæna son sinn. Henni hætti svo mikið til að roðna“. „Það kom fyrir oftar en einu sinni þetta haust, þegar húsbóndinn í Látravík var á sjónum, að Valdimar gamli tölti inn með sjónum, alla leið að Vogum, með nokkrar krónur í vettilngum sínum, ef vasarnir voru í svo slæmu legi, að þeim var ekki treystandi. Hann læddist svo heim í myrkri um kvöldið. Enginn undraðist um hann, því að það var svo vanalegt, að hann væri eitthvað að gaufa úti við í myrkrinu. En næsta dag sáust kannske nýir, vel tættir sokkar eða vettlingar undir kodd- anum hans. Það kom sér vel, því að þjónustubrögð- unum var talsvert ábótavant á því heimili. „Það er varla von á því betra, Valdimar minn, þar sem húsmóðirin þekkir ekki oddinn á nálinni frá auganu“, sagði Una, þegar karlinn kvartaði fyrir henni. „Skyldi hún geta þjónað manninum almennilega?“ Það vissi gamli maðurinn ekki, enda varðaði hann ekkert um það. En mæðgurnar í Látravík skoðuðu þessa vel tættu sokka og dáðust að þeim. „Hvar skyldi karlgreyið hafa sníkt sér þetta út“, sagði Þórey. „Líklega hjá Lilju á Stekknum. Ég sá hann fara suður eftir í fyrradag“. „Það getur líka verið, að hann eigi þetta niðri í kistun.ni frammi á loftinu, sem enginn fær að sjá ofan í. Það vantar ekki, að hann sé múraður af flestu“, sagði Ingveldur ekki laus við öfund. Vogabræður höfðu alltaf verið hásetar á stóra skipinu í Látravík, en þetta haust keyptu þeir sér fjögra manna far og ætluðu að halda því út úr heimavognum, sem var sæmileg lending. Þor- björn á Stekknum sagði Jóhanni, að þeir ætluðu ekki að róa hjá honum þessa vertíð, hvað sem seinna yrði. „Hver fjandinn gengur að þeim?“ spurði Jóhann. „Þeir eru búnir að kaupa bát, og ráðskonan heldur að það verði alveg eins gott að halda honum út úr heimavör eins og að láta þig skammta þeim skitinn hlut“, sagði Þorbjörn glett- inn og hló kuldahlátur. Jóhann leit sem snöggvast til hans: „Eru þeir búnir að taka ráðskonu? Hvað er orðið af kerl- ingarbrenglunni? Er hún dauð eða hvað?“ spurði hann. „Nei, hún er lifandi, en hún var orðin svo lasin í sumar, að þeir urðu að fá sér ráðskonu, sem ekki var lengi að koma þeirri gömlu á fætur aftur og umbreyta heimilinu, bæði utan og innan húss. Það er varla hægt að þekkja það fyrir sama stað og áður. Þeir verða ekki lengi að rétta úr kútnum með henni“, sagði Þorbjörn. Hann heyrði, að Jó- hann bölvaði í hálfum hljóðum. „Finnst þér þú kannast við orðalagið“, bætti hann við hlæjandi. „Fari hún grábölvuð, ef það er sú, sem mér datt í hug, en fleiri en hún geta verið ráðríkar og ill- málgar. Það væri nú allt lakara, ef hún ætti að fara að setjast að hér á Nesinu“, tautaði Jóhann í hálfum hljóðum. Svo hækkaði hann röddina: „En hvar á ég að reyna að fá háseta í þeirra stað. Þú verður að vera mér hjálplegur eins og fyrr, Þor- björn minn“. „Það verða einhver ráð með það“, sagði Þor- björn. Hann var aldrei spurður að því, hver væri ráðskonan í Vogum. En stundum kom það fyrir, þegar þeir voru á sjó og sáu Vogabræður nærri sér, að Jóhann sagði: „Þeir standa þarna í vit- lausum fiski, strákskrattarnir. Þeir geta fært henni eitthvað í soðið í kvöld, helvítis gribbunni þeirri“. Hann vissi það víst, þó að enginn hefði sagt honum það, að gamla unnustan hans hefði komið í nágrennið. Það heyrðist fyrir jólin, að það væri farið að lýsa með Unu og yngri bróðurnum, sem hét Haraldur. Lilja á Stekknum sagði þeim mæðgunum í Látravík það í óspurðum fréttum. Um kvöldið sagði Þórey manni sínum þetta, þegar þau voru orðin tvö ein inni í hjónahúsinu. Það hnusaði í honum: „Hvern fjandann skyldi mér koma það við“, sagði hann geðvonzkulega, „hún verður ekki lengi að gera hann að vesalingi, strákskinnið, þessi bölvuð nornin“. Eftir það var nafn Unu aldrei nefnt í hans áheyrn. Una náði fljótt sömu vinsældum og áður. Hún var sótt til allra sængurkvenna þar á útnesinu, því að lærða ljósmóðirin var innst inni í dalnum, og var ekkert vel látin. Eins þótti þægilegra að leita til hennar í veikindaforföllum. Hún var fús að verða við bón allra. En heldur fannst tengda- móður hennar svipurinn harðna, þegar Pétur í Seli kom og bað hana að koma til Halldóru konu hans. — En með honum fór hún samt og innti af höndum líknarstarfið jafn samvizkusamlega og annars staðar. Óvildin, sem hún hafði borið til þeirrar konu, tilheyrði þeim tíma ævinnar, sem hún vildi helzt gleyma, en mundi þó ekkert eins vel og það, en hún gat ekki neitað, ef hún var beðin að hjálpa þeim, sem þjáðust, hvort sem það var maður eða skepna.------En að hún yrði beðin að koma út að Látravík, hafði henni aldrei dottið í hug. Samt var það svo, að eina vornótt var drepið á gluggann hennar og skræk rödd bauð góðan dag. Henni fannst hún kannast við þennan róm og flýtti sér fram. Úti fyrir dyrum stóð Valdimar gamli, kófsveittur og vandræðalegur. „Hvað gengur að þér, gamla stráið?“ spurði hún með samúð.

x

Lögberg

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögberg
https://timarit.is/publication/132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.