Dagur - 05.01.1999, Blaðsíða 4
20-ÞRIÐJUDAGUR 5. JANÚAR 1999
XfcS^MT'
BRÉF TIL KOLLU
Elsku Kolla.
Hvað hefðir þú gert í
mínum sporum? Hefðir
þú hafnað boði um að
fara í óperuna, að sitja
pn uppáklædd í stúku í
UiMS Kennedy Center, hlusta
á tónlist Mozarts og
snæða síðan kvöldverð á
dýrasta veitingastað
Washington? Hefði það
nokkru sinni hvarflað að þér að hafna
slíku boði? Það hvarflaði ekki að mér,
ekki eitt augnablik.
Klukkan sjö á annan í jólum settumst
við hjónin upp í bílinn, hann í íslenzka
þjóðbúningnum og ég í rauða flauels-
kjólnum, sem ég keypti forðum daga í
Kína. Skórnir voru líka antique, gylltir
með bláum semelíusteinum, ættaðir frá
Spáni. Jafnvel smábörnin á heimilinu
höfðu orð á því, hve við værum glæsileg.
Þetta minnti mig á gamla daga heima í
Reykjavík, þegar paSbi og mamma voru
að búa sig í leikhúsið á annan í jólum. Eg
var stolt af því að eiga svona fallega og
fína foreldra. Þá klæddi fólk sig miklu
sjaldnar upp á heldur en núna.
Eg settist undir stýri, og skömmu
seinna vorum við mætt við hús gestgjaf-
anna. Það stendur við virðulegustu götu
borgarinnar, byggt í byrjun aldar í keis-
aralegum stíl. Þá óðu menn í peningum
og vildu endurreisa Evrópu f nýja land-
inu. Hjónin stóðu við dyrnar og biðu þess
að vera leidd út í bflinn. Hún var á háum
hælum og hann slæmur til hnésins.
Við þekktum þau ekki neitt. Höfðum
séð þeim bregða fyrir í samkvæmum vetr-
arins. Vissum, að þau voru forrík og sátu
í stjórnum flestra menningarstofnana
borgarinnar. En þetta var líka allt og
sumt. Við höfðum ekki hugmynd um, af
hverju þau höfðu valið okkur sér til sam-
lætis þetta jólakvöld. Hvað bjó að baki?
Hvað gat Island gert fyrir þau?
Að missa af Kennedy Center
Þetta eru mjög sérstök hjón, eiginlega
öðru vísi en allir aðrir, sem ég hef séð. A
vissan hátt svipar þeim til hússins, sem
þau búa í. Síðbúnir fulltrúar hinna keis-
aralegu hirða gömlu Evrópu. Já, það er
einmitt það sem þau eru. Hallirnar í Pét-
ursborg voru þeirra heimili í bernsku.
Svo að nú geturðu reiknað út, hvað þau
eru gömul. Bæði afskaplega fíngerð og
smávaxin. Hún dregur hárið upp frá enn-
inu og bindur það í hnút eins og baller-
ína. Há kinnbeinin fela hugsanleg elli-
mörk. Grár augnskuggi ber sama Iit og
kjóllinn, sem hún klæðist. Sérhannaður í
París, með síðum ermum og knipplingum
í hálsinn. Perlufestin er erfðagripur.
Hann er í svörtum kjólfötum með barða-
stóran hatt á höfðinu. Það horfa allir á
þau. Ég hlakka til að eiga með þeim
kvöldstund.
Ég verð að skjóta því hér inn í, að mér
urðu á alveg hroðaleg mistök strax í upp-
hafi kvöldsins. Ég fann ekki Kennedy
Center. Eða það er að segja, ég missti af
Kennedy Center. Ég veit þú skilur þetta
ekki, Kolla mín, en vegakerfið hér í Am-
eríku er ekkert einfalt, og ef maður gerir
ein lítil mistök, þá getur maður bara
misst af heilli óperusýningu. Og það lá
við þetta kvöld. Ég undir stýri, með þessi
keisaralegu hjón í baksætinu, tók vitlausa
beygju. Eg sá bara Kennedy Center í fjar-
lægð hinum megin við hraðbrautina. Og
áður en ég vissi af, var ég komin yfir ána
inn í annað fylki á Ieið út í sveit. Það var
hvergi hægt að snúa við. - Ég svitna enn
við tilhugsunina. - Konan í baksætinu
sagði ekki orð, en ég heyrði manninn
hennar fussa. „Nú gerðirðu mistök.
Hvernig ætlarðu að komast til baka?“
„Ég veit það ekki, svaraði ég, geturðu
vísað mér leiðina?"
„Nei, það geri ég ekki. Þú verður að
ráða ffam úr þessu sjálf.“ Það var greini-
lega farið að þykkna í honum. Jón Bald-
vin var orðlaus. Sé ég slæm að rata, þá er
hann verri.
Loksins, loksins, fann ég útgönguleið,
gat snúið við. Náði í leikhúsið þremur
mínútum fyrir sýningu. Gamli maðurinn
sagði ekki orð. Konan brosti og var búin
að fyrirgefa mér.
Ógleymanlcgt fólk
Tónlistin var svo yndisleg, að mér tókst
að gleyma þessu leiðindaatviki - alla vega
fram að hléi. Brottnámið úr kvennabúr-
inu er reyndar fáránleg saga, en var ekld
kvöldið okkar að verða enn fáránlegra?
I hléinu kom sjálfur óperustjórinn,
Placido Domingo, til að heilsa upp á
tigna gesti. Hann kyssti hjónin okkar bak
og fyrir. Alþýðlegur maður og kurteis. Það
var boðið upp á kaffi og kex. Gamli mað-
urinn tók handfylli af kexi og hámaði það
í sig. Var enn ekki farinn að segja neitt.
Skyldi hann vera Iangrækinn?
I öðrum þætti sofnaði hann og umlaði
mikið í svefninum. Skyldi honum leiðast
óperur? Það hlýtur að vera, því að í
seinna hléi tók hann frakka sinn og hatt
og vildi fara. Konan fékk hann til að
fresta brottför, þar til soldáninn hefði
gefið brezka hefðarfólkinu frelsi.
„Heldurðu, að þú ratir á veitingahús-
ið?“ Svei mér þá, ef hann var ekki glott-
andi. - Jú, hann var svo sannarlega lang-
rækinn. Skyldu þeir hafa verið svona við
hina keisaralegu hirð? Hann meinti auð-
vitað að sendiherrar eiga að hafa bílstjóra
- jafnvel á sjálfum jólunum. Nú vissi ég,
af hveiju hann var fúll.
Við fengum bezta borðið á staðnum, og
þjónarnir voru á hjólum í kringum okkur.
Þessir nýju vinir okkar voru greinilega
aufúsugesdr. Gamli maðurinn pantaði
kartöflu og spínat, hún bað um fiskiboll-
ur. Þau eru bæði mjög lítil, eins og ég
sagði þér áður. Rauðvínið var himneskt
og upplífgandi eftir hremmingar kvölds-
ins. Ég hafði hugsað mér að spyrja þau
spjörunum úr, heyra ævisöguna yfir
kvöldmatnum. En mér tókst ekki að toga
orð út úr gamla manninum.
„Hefur þú verið lengi þátttakandi í við-
skiptalífi borgarinnar?" vogaði ég mér að
spyrja. „Erá því að ég man eftir mér“,
svaraði hann stuttur í spuna. - Löng
þögn. - „Pabbi verzlaði með loðfeldi í
Pétursborg." Hún sat hinum megin við
borðið og talaði bara við Jón Baldvin. Ég
heyrði, að hún var að segja honum frá
kettinum, sem þau áttu í sautján ár. Ynd-
islegur og gáfaður köttur, sem dó að lok-
um í fanginu á henni.
Þegar hann var búinn með kartöfluna
og spínatið, bað hann um reikninginn.
Bragðaði ekki á rauðvíninu. Dró þykkt
umslag upp úr bijóstvasanum og taldi úr
því dollaraseðla. Þetta minnti mig á
pabba í gamla daga. Alltaf beinharðir
peningar. Traustvekjandi. „Allir tilbúnir?"
Hann var staðinn upp. Ég hafði rétt tíma
til að Ijúka úr glasinu mínu.
Ég rambaði á höllina þeirra aftur. Það
var ekki laust við, að ég fyndi til samúðar,
þegar ég horfði á hann staulast inn um
þessar stóru dyr. Gamall maður með
mikla fortíð. Hún sneri sér við í
dyragættinni og veifaði keisaralegri
kveðju. Mjög sérstakt fólk, ógleym-
anlegt.
En viti menn, Kolla. Hann
hringdi í dag, þessi elska. Þakkaði
fyrir blómin og sagðist vera búinn
að fyrirgefa mér. Hlakkaði til að sjá
okkur aftur. Hvað segirðu um það?
Eða eru þér farnar að ofbjóða sög-
urnar úr samkvæmislífinu?
Skal bæta úr því næst.
Þín Bryndís
„Ihléinu kom sjálfur óperustjórinn, Placido Domingo, til að heilsa upp á tigna gesti. Hann kyssti hjónin
okkar bak og fyrir. Alþýðlegur maður og kurteis. Það var boðið upp á kaffi og kex. Gamli maðurinn tók
handfylli af kexi og hámaði það í sig. Var enn ekki farinn að segja neitt. Skyldi hann vera langrækinn?"
Svör
Fréttagetraun í
áramótablaði
Hér eru birt svör við fréttaget-
rauninni sem birtist í blaðinu
á gamlársdag á bls. 39. Birt er
númer spurningarinnar og
síðan sá bókstafur sem stend-
ur fyrir rétt svar l.)a 2.)b
3.)b 4.)b 5.)b 6.)b 7.)a
8.)b 9.)b 10.)c 11.)a 12.)a
13.)a 14.)b 15.)a 16.)c
17.)b 18.)a 19.)a 20.)c 21.)c
22.)c 23.)a 24.)a 25)a.
Poppgetraim í
áramótablaði
1. Anna Hildur Hildibrands-
dóttir.
2. Sheryl Crow.
3. Rafnjónsson.
4. Ginger Spice.
5. RúnarJúlíusson.
6. Depeche Mode.
7. Boyzone.
8. Leikkonunni frægu
Marlyn Monroe og
fjöldamorðingjanum
Charles Manson.
9. Geirfuglarnir.
10. Charlie Watts.
11. Helgi Björnsson í
söngvaleikritinu Meiri
Gauragangur eftir Olaf
Hauk Símonarson.
12. ElIen Kristjánsdóttir.
13. Ensími.
14. Manic Street Preachers.
15. Casino.
ló.Akranesi.
17. Aerosmith.
18. Silt.
19. Jón Olafsson.
20. Þorvaldur Bjarni Þorvalds-
son og Selma Björnsdóttir.
Jólakrossgátan
Leiðrétting
Röng skýring er í reit sem er
hinn sjötti reitur frá hægri í
níundu röð að neðan. Rétt
skýring er ögun.
Bent skal á að nægilegt er
að senda málsháttinn sem
bókstafirnir í tölusettu reitun-
um mynda sem lausn á gát-
unni.