Dagur - 09.10.1999, Síða 7
'°gpr.
LAUGARDAGUR 9. OKTÓBER 1999 -VH
fluttur til Hafnarfjarðar, en hafði
búið framundir þetta á Dröngum
svo til frá aldamótum. I mikið var
ráðizt, og Guðmundur, sonur
Ólafs, hafði gaman af að rifja það
upp, þegar hann kornungur mað-
ur var sendur suður til Thors
Jensens, útgerðarmanns, til þess
að útvega Ián til kaupanna, en
Margrét Þorbjörg, kona Thors,
var náskyld bæði Ólafi og Krist-
ínu. Kristján, hreppstjóri í
Hraunhöfn, faðir Margrétar Þor-
bjargar, var einn Elliðabræðra,
bróðir Jóhannesar og Guðmund-
ar frá Elliða. Mjög vel var tekið á
móti Guðmundi á Fríkirkjuvegi
11, og þar gisti hann um nóttina.
Thor spurði margs um búskapinn
fyrir vestan, - sjálfur átti hann
jarðir á Snæfellsnesi, - og svo
sagði hann snögglega, að enginn
færi á hausinn, sem keypti
Drangana, og skrifaði uppá víxil
fyrir því, sem þurfti. Ólafur
komst að góðum kaupum á
Drangajörðinni, og ekki þurfti
Thor Jensen að óttast lánið. Það
var greitt skilvíslega. Dranga á
Skógarströnd hafði áður setið
Iangalangafi Ólafs og nafni,
Ólafur Snóksdalín, og um hríð
Jón Vigfússon, langafi Ólafs
einnig í föðurætt eins og áður var
sagt frá. Seinna, þegar Gjarðeyj-
ar fóru í eyði árið 1927, keypti
Ólafur þær einnig og lagði undir
Drangajörð. Árið 1936 tók Guð-
mundur, sonur Ólafs, við jörð-
inni, þá orðinn búfræðingur frá
Hvanneyri. Ólafur og Kristín
fluttu í Stykkishólm, að vísu ekki
í gamla húsið. A eftir því höfðu
krakkarnir, einkum dætur Svein-
bjarnar, orðið að sjá með sökn-
uði, þegar Ólafur reif það um
það leyti, sem hann flutti til
Dranga, og Iét flytja það uppá
Klungubrekku til bezta vinar sfns
og frænda, Hermanns Ólafsson-
ar, sem þá bjó þar eftir föður
sinn, en Ölafur Jóhannsson, fað-
ir Hermanns á Klungubrekku, og
Ólafur á Dröngum voru systkina-
börn. Gamla Viðvíkurhúsið
stendur á Klungubrekku enn.
Ólafur fékkst við trésmíðar í
Stykkishólmi, en þar rak Siggeir,
sonur hans, sem einnig var tré-
smíðameistari, verkstæði. Nú var
Sveinbjörn, bróðir Ólafs, látinn
og þölskylda hans flutt suður til
Reykjavíkur. Árið 1946 fluttu
Ólafur og Kristín einnig suður,
og sama gerðu börn þeirra þrjú,
og var flutt í Kópavog, sem þá var
að byrja að byggjast. Og enn var
byggt, því að á öllum stöðum,
þar sem Ólafur bjó, hýsti hann
upp staðinn, einn og með öðrum.
Þannig hafði það verið í Jóns-
nesi, á Borg, í Drápuhlíð, á
Dröngum, í Stykkishólmi tvíveg-
is, á Jarðlangsstöðum í Borgar-
hreppi, þar sem um tíma var
búið, og einnig tvisvar í Kópa-
vogi, því þangað var flutt tvisvar.
Á Dröngum bjó Guðmundur, nú
giftur vestfirzkri konu frá Þing-
hóli í Tálknafirði, Valborgu Vest-
fjörð Emilsdóttur, glaðværum
dugnaðarforki og lærðri ljósmóð-
ur. Þau höfðu kynnzt í Tálkna-
firði, þegar Guðmundur plægði
þar á vegum Ræktunarsam-
bandsins. Bjössi, strákur úr þorp-
inu, sagði frá því, að ung stúlka
færði Guðmundi dagalega kaffi
út í flag, og Bjössi fékk stundum
að fara með henni þangað. Og þá
sá hann, að Guðmundur kyssti
alltaf stúlkuna, áður en að hann
drakk kaffið, og það þótti Bjössa
skrýtið. Á Dröngum bjuggu Guð-
mundur og Valborg bæði fjárbúi
og kúabúi. Mýrar voru ræstar,
landið ræktað, heyskapur stund-
aður í eyjum og önnur hlunnindi
þar nýtt í eggjum, dúni og beit að
breiðfirzkum hætti. Guðmundur
hélt uppi póstferðum, en nú var
ekki farið lengra en í Búðardal.
Þótt ferðirnar væru oft erfiðar á
vetrum, var orðið stutt að
skreppa þetta í góðri færð á jeppa
eða stórum Dodge weaponbíl,
sem Guðmundur hélt mikið upp
á og ekki veitti af, því póstferð-
irnar voru orðnar fólksflutninga-
ferðir líka.
Á Dröngum var gestkvæmt,
enda bæði hjónin félagslynd og
félagsstörfin mörg. Drangar voru
þingstaður, og þar var um tíma
verzlun og sláturhús og sam-
komuhús sveitarinnar. Dranga-
böllin voru fræg á 4. og 5. ára-
tugnum og stóðu lengi nætur.
Þar spiluðu stundum landsfrægir
harmonikuleikarar svo sem Svav-
ar Benediktsson. Fólk kom úr
eyjum, frá Stykkishólmi, ofan af
Fellsströnd og úr Dölum. Og
þegar messað var í Breiðabóls-
staðarkirkju, lentu kirkjugestir úr
eyjunum við Dranga. Á Dröngum
var búið bæði stórt og vel, bú-
skapurinn var til fyrirmyndar í
sveitinni. En börnin vildu ekki
búa, heldur hneigðust þau til
annarra starfa, sem einnig er
ríkt, að fólk leiti til í ættinni;
kennslu, trésmíði, sjómennsku
og útgerð og margskonar annars
handverks. Á miðjum aldri fór
Guðmundur að finna fyrir slit-
gikt bæði í baki og mjöðmum, og
varð hann að gangast undir
skurðaðgerðir þess vegna. Það
stefndi í, að hann yrði að gefa frá
sér jörðina af þessum sökum, en
þá sló Jón H. Sigurðsson,
tengdasonur hans til og Emilía,
elzta dóttir, og þau hófu félags-
búskap með Guðmundi og Val-
borgu á Dröngum. Ekki hafði Jón
sinnt búskap áður. Hann hafði
unnið við járnsmíði, en ekki gat
Guðmundur fengið þarna betri
samstarfsmann. I vinnukergju
gaf hann Guðmundi ekkert eftir í
búskapnum og tók við af honum
í auknum mæli, eftir því sem
veikindi háðu Guðmundi meira
við bústörfin. Viðreisnarstjórn 7.
áratugarins var ekki viðreisnar-
stjórn bænda, bændur uppskáru
ekki laun síns erfiðis, og að lok-
um ákváðu þau öll að bregða búi.
Jón og Emilía höfðu fyrir stórri
Ijölskyldu að sjá. Drangajörðin
ásamt öllum eyjunum (Snæfoks-
ey, Gjarðeyjum, Stafey, Húsey,
Hrútey, Hryggjum, Flettu, Skel-
ey, Mávshólma, Sigríðarhólma og
Drangahólmum) var seld, og fyr-
ir hana fékkst lítil íbúð í Kópa-
vogi. Jón gerðist starfsmaður Is-
lenzka Álfélagsins og starfar þar
enn og nýtur nú vel síns dugnað-
ar og mildllar ósérhlífni. Guð-
mundur mat hann mikils, enginn
hafði meira fyrir hann gert, ekki
af þeim sem að utan komu í fjöl-
skyldunni. Sjálfur gerðist Guð-
mundur bensínafgreiðslumaður
og Iagermaður hjá Essó, fyrst eft-
ir að hann kom suður og undi því
vel. Hann lærði bókband eins og
Ólafur frá Dröngum, faðir hans,
hafði gert og tók við bókbands-
tækjum af honum, og þegar dró
að lokum hins venjubundna
starfsaldurs, gerði hann bók-
bandið að aðalstarfi og varð bók-
bindari Bókasafns Kópavogs. Því
starfi undi hann mjög vel. Ekki
vanrækti hann heldur eigið bóka-
safn, og nú minntist hann bóka-
safns afa síns, Guðmundar í
Jónsnesi, sem erfðist til Keflavík-
ur, og Guðmundur taldi, að farið
hefði þar forgörðum.
Ljúfmennska og þrek ein-
kenndi hann bezt, þrek, sem ekki
ætlaði sér um of, en ætlaði sér
samt mikið, ljúfmennska og hóg-
værð, sem aldrei brást, þótt á
miklu gengi. Þannig minnist sá,
sem þetta skrifar, Guðmundar.
Um þetta má tilfæra litla sögu,
sem góður vinur Guðmundar
sagði, og endursegist hér orðrétt:
„Það var á útmánuðum árið
1944, að við strákarnir vorum
rétt einu sinni enn við jakahlaup
og jakasiglingar á Maðkavíkinni í
Stykkishólmi. Eina hjálpartækið,
sem við höfðum, voru kústsköft
til að stjaka okkur áfram, og gekk
það yfirleitt vel, á meðan sköftin
náðu til botns og farið var með
gát. Þennan dag fór ég þó heldur
óvarlega og varaði mig ekki á út-
fallinu. Allt í einu náði skaftið
ekki niður og komið var fljúgandi
útfall. Þá var fátt til ráða fyrir 7
ára polla annað en að hanga á
jakanum, sem stefndi til hafs.
Það varð mér til láns og lífs, að
Gummi á Dröngum var hjá okk-
ur gestkomandi í póstferð og sá
af tilviljun, hvað verða vildi. Eng-
inn bátur var til taks þarna í vík-
inni, og tók hann því það ráð að
skella sér til sunds, og tókst hon-
um að ná tökum á jakanum og
synda með hann upp í Gull-
hóimannj sem er þarna í miðri
víkinni. Eg komst þurrum fótum
upp í hólmann reynslunni ríkari,
þangað sem við vorum sóttir á
báti. Fólki mínu þótti ég úr helju
heimtur og engar voru skamm-
irnar. Svo mikið var lítillæti
Gumma, að aldrei minntist hann
á þetta afreksverk sitt svo ég vissi
til, og var því ekki flíkað, en Óli
frændi, þá 8 ára, var nærstaddur
og var vitni að þessum atburði."
Um sjálfan sig sagði Guð-
mundur, að systkinum sínum
látnum, að hann hefði í mörgu
verið þeim ólíkur. Gunnar, bróðir
hans, hefði til dæmis verið fá-
skiptinn um stjórnmál; - báðir
voru þeir bræður þó áhugasamir
um glímu og góðir glímumenn
fyrir vestan; - Gunnar var vöru-
bílsstjóri, og nú hefur dótturson-
ur hans og nafni einmitt valið sér
þá starfsgrein og rekur þar af
krafti myndarlega útgerð. Um tvö
yngri systkini sín sagði Guð-
mundur aftur á móti, að þau
hefðu verið fæddir vinstrisinnar
og ekki tilviljun, að þau fluttu í
Kópavog (en ekki til Keflavíkur) á
fyrstu árum eftir seinna stríð og
gerðust frumbyggjar í þeim bæ.
Sjálfur sagðist Guðmundur vera
fæddur bóndi og sjálfstæðismað-
ur, og það hefði hann verið alla
ævi af Iífi og sál (þegar hann
flutti í Kópavoginn, var þar farið
mjög um að hægjast).
Barnalán Guðmundar og Val-
borgar varð mikið, bömin urðu 5,
barnabörn 18 og barnabarna-
börnin eru nú 29 a. m. k., og þar
hafa ekki orðið slys eða langvar-
andi veikindi. Ekki áttu systkini
Guðmundar á Dröngum slíku
barna- eða fjölskylduláni að
fagna. Og enn skiptast á nöfnin
Guðmundur og Ólafur í ættinni
eins og gerzt hefur frá dögum
Guðmundar Pálssonar, bónda á
Hnjúki á Skarðsströnd, sem
fæddur var snemma á 18. öld (f.
1731). Og 200 ár eru nú liðin
síðan Snóksdalínsætt tengdist
Dröngum á Skógarströnd, þegar
Ólafur Snóksdalín fluttist þang-
að árið 1798, og enn haldast
Drangar á vissan hátt í ættinni,
því að í Drangaskógi eiga börn
Guðmundar sitt sumarbústaða-
land. Það orð fer af sumum þjóð-
um, að þar rækti fólk með sér
hefðir öðrum þjóðum fremur,
hefðir, sem ganga kynslóð fram
af kynslóð, öld eftir öld. Ekki eru
íslendingar beinlínis þekktir fyrir
þetta, en í ættfróðri Snóksdalíns-
ætt hefur samt gilt viss festa.
Hvort sú festa nær fram á fjórðu
öld er ekki á færi undirritaðs að
segja, en vænt þykir honum sjálf-
um að vera af ættinni og að hafa
fengið að bera Ólafs nafnið.
Ólafur Grtmur Bjömsson
Heimildir: Ársritið Gestur
Vestfirðingur, 5. ár, Kbh. 1855. -
Blanda, VIII, útg. Sögufélag.
Rvk. 1944 - 1948. - Borgftrzkar
æviskrár, V, VII, VIII, Akranes,
1978, 1979, 1991. - Söguþættir
Landpóstanna, III. Rvk. 1951.
Heimildarmenn: Emilía Guð-
mundsdóttir, Magnús Á. Bjarna-
son, Guðjón Snóksdalín Svein-
björnsson, Kristín Margrét Svein-
bjömsdóttir, Elín Þórðardóttir.
Frá þjóðhátíðinni á Þingvöllum árið 1974. Fyrir miðri mynd er Guðmundur Ólafsson; lengst til vinstri með sólgler-
augu er Valborg eiginkona hans. Á myndinni sést einnig dóttir þeirra, Kristín Björk, með son sinn Ragnar, árs-
gamlan. Frænkur þeirra, Ásta Rósa og Berglind Guðríður, eru fremst á myndinni fyrir miðju, og þar ofar er móðir
þeirra, Aðalheiður, við hlið Valborgar og Guðmundar.
íslendingaþættir birtast í Degi alla laugardaga.
Skilafrestur vegna minningagreina er til þriðjudagskvölds.
Reynt er að birta allar greinar eins fljótt sem verða má, en ákveðnum birtingardögum er ekki lofað.
Æskilegt er að minningargreinum sé skilað á tölvutæku formi.
^ ________ Ðamir
ISLENDINGAÞÆTTIR