Dagur - Tíminn - 24.12.1996, Side 5

Dagur - Tíminn - 24.12.1996, Side 5
|Dagur-®mrimt Þriðjudagur 24. desember 1996 - 5 Lesandi góður. ú hefur líklega heyrt, ekki síður en ég, þau tíðindi sem hæst fara nú um heimsbyggðina. Ég veit þó ekki hversu hrein og tær þessi frétt hefur borist til þín, því alltaf hefur stór frétt og mikil tilhneigingu til að safna á sig alls kyns kámi og klístri, þegar hún gengur manna í milli. Þess vegna langar mig til að segja þér fréttina eins og hún barst heimsbyggðinni fyrst, þegar engillinn vitjaði hirðanna úti á Betlehemsvöllum og kunngjörði boðskap fagnaðar og friðar: „Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum; því yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ (Lúkasarguðspjall 2:10-13) Þetta er gömul frétt, tæpra tvöþúsund ára, en ólík öllum öðrum fréttum þá verða þessi tíðindi ný og fersk um hver ein- ustu jól. Aldrei má ryk setjast á þessi tíðindi né nokkur mann- leg hugsun bæta við hana orðum eða fella úr. Þessi frétt er heilög og boðar okkur grunn hinna kristnu jóla, og ekkert sem viðkemur boðskap jólanna verður nokkurn tímann nýrra eða nútímalegra. Þetta er í raun allt sem segja þarf. En þrátt fyrir að þessi tíðindi frá englinum á Betlehemsvöll- um forðum séu enn þann dag í dag hinn helgi boðskapur jól- anna, þá verður því ekki neitað að ýmislegt aukreitis hefur okkur tekist í gegnum árin að hengja utan á og allt í kringum þennan fagnaðarboðskap. Og við íslendingar höfum ekki ver- ið neinir eftirbátar annarra vestrænna þjóða að bera skraut og prjál að þessum boðskap —jafnvel svo yfirgengilega að við liggur að sjálfur jólaboðskapurinn hverfi í allt saman. En svo langt má jólaundirbúningur okkar ekki ganga. Við verðum að kunna okkur hóf! Þar sem ég sit á skrifstofu minni í Laufási og skrifa til þín þessar línur, þá blasir við mér, er ég horfi út um gluggann, gamli torfbærinn sem staðið hefur hér á hlaðinu í Laufási á aðra öld. í þessum bæ voru jól hald- in hátíðleg ekki síður en við gerum nú. Við getum séð fyrir okkur grút- arlampana og tólgarkertin kasta fölri birtu á torfveggina í göngunum eða þiljurnar í baðstofunni. Hið ytra skraut er lítið sem ekkert, en augu barnanna jafnt sem hinna fullorðnu sjá í loga kertanna þann atburð sem varð í Betlehem hina fyrstu jólanótt. Barnið í jötunni, Jósep og María og vitringarnir komast vel fyrir í hrifnæmum hugum þeirra, sem í baðstofunni sitja og hlusta á lestur úr 2. kafla Lúkasarguð- spjalls. Og gleðin sem vaknar í brjóstum fólksins er hrein og fölskvalaus, því hún á rætur sínar í boðskap engilsins. Mér finnst að sumu leyti öfundsverð sú jólagleði sem rúm- aðist innan veggja í Gamlabænum, og var ekki skekkt og skorðuð af nútímans veraldarglingri. Umbúnaðurinn var allur fremur fátæklegur á okkar mælikvarða, en gleðin var inni- haldsrík og sprottin af orðunum: „Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, yður er í dag frelsari fæddur.“ Okkar gleði á líka að vera sönn og sprottin af þeim sama brunni og forðum. Þrátt fyrir betri aðbúnað og breyttan hugs- anagang og kröfur, þá verðum við að láta myndina frá Bet- lehem vera ljóslifandi fyrir augum okkar og hugsun. Ramm- inn, sem við smíðum utan um þessa heilögu mynd, má vera skrautlegur og vandlega unninn, en hann má ekki hylja sjálfa myndina. Látum ekki allt okkar umstang og allan ysinn draga athygli okkar frá þeim boðskap sem leggur grunn að öllu okk- ar jólahaldi: „Sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, yður er í dag frelsari fæddur.“ Við skulum taka undir með hinum himnesku hersveitum og segja af sannri gleði og innri fögnuði: „Dýrð sé Guði í upp- hæðum og friður á jörðu.“ Guð gefi þér gleðileg jól.

x

Dagur - Tíminn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagur - Tíminn
https://timarit.is/publication/254

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.