Dagur - 06.09.1985, Blaðsíða 6

Dagur - 06.09.1985, Blaðsíða 6
6 - DAGUR - 6. september 1985 ,,Tek eitt ár fyrir í einu“ - og sé svo til, segir Helga Bjamadóttir skólastjóri í Hrísey í haust verður tekið í notkun nýtt skólahús- nœði í Hrísey. Verður helmingur húsnœðisins tekinn í notkun og er það þó stœrra en allt gamla skólahúsið. Skólastjóri í Hrísey er Helga Bjarnadóttir, sem starfað hefur við skólann í 3 ár. Helga var fengin til að segja frá sjálfri sér og skól- anum. Hún var nýflutt frá Svíþjóð er hún hóf störf við skólann og var hún fyrst spurð um dvöl sína þar. „Ég flutti til Svíþjóðar 1970 með fjölskylduna, svona eins og gengur og gerist. Við bjuggum fyrst í Varberg, þar bjó ég í 5 ár en flutti síðan til Vásterás sem er nokkuð stór borg. Þegar við flutt- um út var meiningin að búa þar í 2 ár, en þau urðu 12 og ég hefði gjarnan viljað vera lengur.“ - En þú fluttir heim? „Já, ég var með tvíbura á við- kvæmum aldri og það eru svo miklar hættur þarna. Það eru hvers kyns eiturlyf, bjór, sniff og allt mögulegt sem unglingar glepjast af. I Vásterás búa um 150.000 manns og þar þrífst því öll stórborgarmenning.“ - Við hvað starfaðirðu í Svíþjóð? „Ég vann á heimili fyrir van- gefin börn. Það gekk mjög vel og ég hafði gaman af því. Én börnin manns verða að ganga fyrir, mað- ur er lítið frjáls ef illa fer fyrir þeim. Það er ekki svo að skilja að ég vilji ráða yfir börnunum mínum, síður en svo. Ég stjórna þeim meðan þau eru hjá mér, en þegar þau eru búin að mennta sig eða fá einhverja vinnu þá eru þau orðin fullorðin og eiga að taka ábyrgð á eigin lífi. Þá sleppi ég af þeim hendinni og læt þau stjórna sínu lífi sjálf.“ - Hvernig líkaði þér við Svía? „Til að byrja með er mjög erf- itt að komast í samband við þá, en svo eru þeir ágætir þegar mað- ur er kominn inn í hópinn. Ég byrjaði á því að fara á námskeið til að læra sænsku, svo auðveld- ara yrði fyrir mig að kynnast þeim. Ég fór meira að segja að selja snyrtivörur, gekk í hús með Avon snyrtivörur svo þeir yrðu að tala við mig. Ég fór líka á lýð- háskóla, bæði til að læra sænsku og einnig til að komast inn í at- vinnulífið þar. Svíar taka ekkert mark á útlendingum sem koma með próf frá sínu heimalandi, nema það séu læknar. Þeir eru ekkert betri en íslendingar með það, þó íslendingar geri senni- lega heldur meiri kröfur. Svíar eru mjög stoltir af sínu mennta- kerfi.“ Helga á 7 börn og 7 barnabörn. 4 dætur hennar eru búsettar í Svíþjóð, ein í Keflavík og síðan eru það tvíburarnir, strákur og stelpa, sem búa hjá henni í Hrís- ey. „Þrjár dætra minna búa í Varberg. Ég fór þangað í stutta ferð í sumar og mér fannst ég vera komin heim. Hins vegar finnst mér Vásterás kuldaleg borg og myndi ekki vilja flytja þangað aftur. Varberg er sumar- paradís. Bærinn þrefaldast að stærð á sumrin, en síðan er kyrrt og rólegt yfir veturinn. Mér finnst Vásterás of stór borg. Hún er byggð upp af hverfum og það er miðbær í hverju hverfi. Það er mikill iðnaður þarna og flest allt fólkið vinnur í verksmiðjum." - Ertu Hríseyingur? „Nei, nei, ég er frá Húsavík. Þaðan flutti ég mjög ung og ólst upp á Patreksfirði, þaðan lá leið- in í Kópavog og síðan til Svíþjóð- ar. Það má því segja að ég sé byrjuð á nýjum hring núna.“ - Hvernig datt þér í hug að flytja til Hríseyjar? „Það var bara tilviljun. Ég kom til Reykjavíkur í sumarfrí og var búin að ákveða að flytja heim. Ég spurðist fyrir um hvort ég væri búin að missa réttindi mín sem kennari, en svo reyndist ekki vera. Ég gat fengið stöður hingað og þangað um landið og það var því bara að velja og hafna og Hrísey varð fyrir val- inu.“ - Voru þetta ekki mikil við- brigði? „Jú, þetta voru geysileg við- brigði, en krakkarnir kunnu svo til strax vel við sig og ég var fljót að aðlagast. Ég kann ágætlega við mig í Hrísey, ég er búin að ganga um eyna þvera og endi- langa og kanna þar hverja þúfu.“ - Nú ætlið þið að fara að flytja í nýja húsnæðið, verður það ekki mikil breyting? „Jú, það verður það. Það er óhætt að segja að það hafi gengið mjög vel að koma húsnæðinu upp. Það er auðvitað margt eftir ennþá og kennsla mun sennilega ekki hefjast fyrr en í kringum 20. september. Én við viljum alls ekki byrja í gamla skólanum. Bæði er búið að fylla hann af alls kyns dóti og ef við byrjum þar fengjum við trúlega að vera þar fram að áramótum. Það er betra að flytja í nýja húsið þó eitthvað kunni kannski að vanta. Við fáum þar 4 kennslustofur og kennarastofu.“ - Hvað eru mörg börn í skól- anum? „Þau eru 40, frá 6 til 14 ára. Þegar þau þurfa að fara í 9. bekk verða þau að fara eitthvað burt. Þau voru á Dalvík í vetur og Hrafnagilsskóla veturinn þar á undan. Þau kunnu mjög vel við sig á Dalvík. Það eru fá börn sem fara í 9. bekk í vetur, það voru ekki nema tvö börn sem útskrif- uðust frá okkur í vor. Næsta vor útskrifast hins vegar stór hópur, á okkar mælikvarða. Það er mín skoðun að krakkarnir hafi gott af því að þurfa að fara burt í 9. bekk. Þegar þau búa svona af- skekkt eins og við gerum, þurfa þau að komast burt og kynnast því að það er eitthvað annað til.“ - Er þetta einangrað samfé- lag? „Ekki svo mjög. Við höfum góðar samgöngur með ferjunni, en þetta verður samt aldrei eins og að búa í landi. Þetta er lítið samfélag út af fyrir sig. Mér finnst að vísu bindandi að þurfa að nota ferjuna, en flestir Hrísey- ingar eru himinlifandi með hana. Ef ég vil fara inn á Akureyri að kvöldi, t.d. í bíó, þá kemst ég ekki til baka fyrr en daginn eftir. Það þýðir gistingu á Akureyri." 4 kennarar eru við skólann í Hrísey og kennir Helga 21 tíma á viku, auk þess að vera skóla- stjóri. „Einhverra hluta vegna hefur það æxlast svo að ég hef kennt 5. og 6. bekk. í vetur verð ég að vísu bara með 6. bekk, sem er óvenju fjölmennur að þessu sinni. Þar sem ekki eru fleiri börn í skólanum þá kennum við tveim- ur og tveimur aldurshópum saman. í vetur er það þannig að 6 ára börnin eru sér, þau fá það litla kennslu, aðeins 3 tíma á viku. Síðan eru 1. og 2. bekkur saman, en það er enginn 3. bekkur. Það er svo furðulegt að það eru engin 9 ára börn í Hrísey þetta árið. 4. og 5. bekkur eru saman og 6 bekkur sér. Að lok- um eru svo 7. og 8 bekkur saman.“ Helga var að lokum spurð hvort Hríseyingar gætu vænst þess að hafa hana áfram. Hún hlær. „Ég er alltaf á ferðinni og alltaf á leiðinni frá Hrísey. Það er ekki vegna þess að ég kunni illa við mig þar. Ég tek bara eitt ár í einu og sé svo til. Kannski verð ég þarna í 12 ár eins og í Svíþjóð, þetta er nú 4. árið, en ég ætlaði að vera 1 eða 2 ár. Mig langar að flytjast til Svíþjóðar aftur, þar á ég bæði börn og barnabörn og því margt sem dregur mig út. Það er að mörgu leyti þægilegra að lifa í Svíþjóð. Maður hefur kannski ekki meiri peninga í höndunum, en það er meira ör- yggi. Maður borgar skattana jafnóðum, en ekki árið eftir eins og hér. Ef maður hefur góðar tekjur hér eitt árið verður maður að hafa góðar tekjur það næsta líka, til að geta borgað skattana. Mér finnst líka vera svo óhemju mikið lífsgæðakapphlaup hér, meira en mér fannst ég verða vör við í Svíþjóð, þó auðvitað sé það þar líka. Það tala allir um það hér hvað þeir hafi lítil laun, en ég held að það sé frekar það að allir vilja eignast alla hluti, það þarf að kaupa videó, stereogræjur og guð má vita hvað.“ - Fannst þér það hafa breyst mikið hér á landi eftir dvöl þína í Svíþjóð? „Já, ég held það. Ég bjó í Kópavogi áður en ég flutti út. Ég bjó í götu þar sem allar fjölskyld- urnar voru á svipuðu reki, með hóp af börnum og allir að byggja. Við höfðum ekki efni á að kaupa alla þessa hluti sem fólk þarf nú að eignast, en lifðum góðu lífi samt. Ég hef ekki áhuga á þess- um efnislegu hlutum, ég er ánægð ef ég hef peninga til að ferðast. Ég hef meiri áhuga á að auðga andann.“ - HJS

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.