Dagur - 13.07.1991, Blaðsíða 9

Dagur - 13.07.1991, Blaðsíða 9
Laugardagur 13. júlí 1991 - DAGUR - 9 Heiðarbær í Reykjahverfi: „Fólk er ekki nógu bjartsýnt,“ - segja Pórdís Linda og Sigurður Páll en þau reka ferðaþjónustu sem gengur vel Heiðarbær í Reykjahverfi er viðkunnariegur viðkomu- og gisti- staður fyrir ferðamenn. Þar er sundlaug, veitingasala, gisting í svefnpokaplássum og tjaldstæði. Tvö ungmenni úr Reykjahverf- inu leigja aðstöðuna af sveitarfélaginu, og er þetta annað sumarið sem þau reka þar ferðamannaþjónustu. Þetta eru Þórdís Linda Guðmundsdóttir frá Víðiholti, en hún er 19 ára, og Sigurður Páll Tryggvason frá Þverá, sem er rétt rúmlega tvítugur. Þau hafa þegar getið sér gott orð fyrir góða og lipra þjónustu við sína við- skiptavini og sérstaka snyrtimennsku við rekstur staðarins. Aðspurð hvort ekki sé mikil vinna við rekstur Heiðarbæjar segjast þau njóta góðrar hjálpar fjölskyldu og vina, en oft sé mikið að gera og vinnan bindandi. Sundlaugin er opin frá kl 13:30 til 22:00 alla daga nema laugar- daga en þá er opið kl 10-19. Hægt er að fá léttar veitingar alla daga og sveitakaffi, sannkallað veislu- kaffi með 12 sortum á hlaðborði, er framreitt á sunnudögum. Hóp- ar sem panta, geta fengið morg- unverð, kvöldverð, hlaðborð eða sund utan venjulegs opnunar- tíma. Við Heiðarbæ er tjaldstæði og íþróttavöllur. Rúm fyrir 20, en rými fyrir mun fleiri Gistiaðstöðunni í sal félags- heimilisins var breytt í vor. Salur- inn var hólfaður niður í sex her- bergi, auk senunnar sem hægt er að draga fyrir. Þegar stærri hópar koma er setustofan einnig nýtt til gistingar. Lítið eldhús var inn- réttað við salinn til afnota fyrir gistigesti. Alls eru 20 rúm í Heið- arbæ, auk þess sem hægt er að gera rúm úr aukadýnum. Það var faðir Sigurðar, Tryggvi Óskars- son, sem hannaði skilveggina í salinn og smíðaði ásamt syni sín- um og föður, Óskari Sigtryggs- syni. Veggina má síðan taka nið- ur í haust og geyma til næsta sumars. Þórdís Linda segir að furðu margir komi til að gista miðað við hve stutt var síðan gistiaðstaða var opnuð í Heiðarbæ, og telur hún að þetta eigi eftir að byggja sig upp í framtíðinni. Mest er um að hópar komi til gistingar í miðri viku en fáir hafa nýtt sér þann möguleika sem Heiðarbær býður upp á um helgar, t.d. fyrir þá sem vilja halda ættarmót eða aðra hópa sem kjósa helgardvöl á sama stað, við sundlaug, og með alla aðstöðu við hendina. Fatlaðir komast í laugina Sigurður Páll segir að þeir sem gist hafi á tjaldstöðunum séu mjög ánægðir með að geta nýtt sér snyrtiaðstöðuna inni í húsinu, eða bara með að geta skroppið inn í húsið. „Mér finnst mikið unt að sömu Húsvíkingarnir komi hér aftur og aftur í sund. Fólk úr Aðaldal kemur líka í sund og síðan við opnuðum í vor eru um 2000 búnir að koma í sundlaugina,“ sagði Þórdís Linda. Sundlaugin í Heiðarbæ er óvenju aðgengileg fyrir fatlaða. Óskar Sigtryggsson hannaði og setti upp búnað við sundlaugina og annan heita pottinn fyrir nokkrum árum, þannig að auð- velt er að láta mann í sérstökum stól síga niður í laugina og lyfta honum síðan upp. „Þetta er ein- faldur krani sem er knúinn með handafli. Stólinn er hægt að keyra innan úr sturtunni og út á stétt. Þetta er ódýr og einföld lausn,“ sagði Sigurður um þessa uppfinningu afa síns. Snyrting fyrir fatlaða er í húsinu og ská- braut er upp að útidyrum, en inni í húsinu finnst þó einn eða tveir þröskuldar á leið í laugina. Búnaðurinn við laugina er lítið notaður, hvort sem því er um að kenna að fólk viti ekki af honum eða reikni ekki með að fatlað fólk komist með þokkalegu móti í sundlaug úti á landsbyggðinni. „Það er umtalað hvað laugin sjálf sé þægileg. Það er sandur undir dúknum sem hún er gerð úr og hann gefur eftir við högg. Vatnið er einnig mjúkt og þægi- legt til að baða sig í,“ sagði Sigurður Páll. Tveir heitir pottar eru við laugina og er annar hafð- ur með þægilegu hitastigi fyrir Sigurður Páll og Þórdís Linda. yngstu kynslóðina en hinn heit- ari. Hitinn í honum er svolítið breytilegur, og fer eftir óskum þeirra sem eru að nota hann hverju sinni. Gestum Heiðarbæj- ar er nefnilega ýmislegt gert til geðs. Reksturinn gengur vel Þórdís Linda og Sigurður Páll eru gamlir vinir, þó ung séu að árum. Aðeins er um kílómeter á milli bæjanna Þverár og Víðiholts, svo segja má að þau hafi alist upp á sömu þúfunni. Þau segjast vera ólík en bæta hvort annað upp. Hvað kom til að þau tóku sig sam- an um rekstur Heiðarbæjar? „Við höfðum hugsað um það sitt í hvoru lagi að það væri gam- an að vinna við eitthvað svona og síðan fórum við að ræða málin," sagði Sigurður. „Við vorum örugglega á leið til Akureyrar þegar við byrjuðum að tala um þetta fyrst," sagði Þórdís Linda. Þau segja samkomulagið gott og samstarfið ganga með ágætum. Flestir sem gista í Heiðarbæ eru erlendir ferðamenn sem koma í hópum og mest er að gera þegar hópar koma í kvöldverð eða hlaðborð. Um helgar og þegar hópar koma í kvöldverð eru því 5-6 manns að störfum í Heiðarbæ. „Það eru ótrúlega mikil þrif á ekki stærri stað,“ sagði Þórdís Linda og Sigurður Páll tekur í sama streng. Enda er greinilega tekið til hendinni í sambandi við þrifnaðinn, Heiðarbær hefur fengið á sig orð fyrir hreinlæti og snyrtimennsku í hvívetna. Þórdís Linda hefur unnið í gróðurhús- unum á Hveravöllum á yngri árum, og blómin í Heiðarbæ bera þess merki að hún kann eitthvað til verka á því sviði. Húsvískir listamenn hafa sent Þórdísi og Sigurði myndir á veggi salanna. Myndir eftir Sísí prýða borðsal- inn en myndir eftir Goða, svefn- salinn. „Þetta gengur vel,“ segir Þór- dís Linda, aðspurð urn rekstur- inn. „Annars hefðum við ekki þorað út í þetta aftur. Við vorum mjög bjartsýn fyrir sumarið í sumar.“ Mikið talað um byggðamál - en minna framkvæmt Ekki er ákveðið með reksturinn í framtíðinni. Sigurður Páll var með ferðaþjónustu sem valgrein í Bændaskólanum á Hvanneyri í fyrravetur og Þórdís Linda stund- aði nám í Menntaskólanum á Akureyri: „Mér fyndist sárt ef reksturinn hérna legðist niður þegar við hættum, því mér finnst að það eigi að byggja upp og nýta svona staði þar sem þeir eru í sveitum. Það má gera svo margt og nýta svo miklu meira af aðstöðu sem fyrir hendi er.“ - Hvað með ykkur, eruð þið tilbúin að koma út í sveit og taka til höndunum að loknu námi? „Já, ég er að hugsa um að fara á sérstakt landnýtingarsvið næsta vetur. Ég hef mikinn áhuga á byggðamálum og ég tel að upp- bygging eins og hér er sé einn þáttur í þeim. Þetta er þó nokkur lyftistöng fyrir sveitina og næsta nágrenni," sagði Sigurður og Þórdís Linda sagði þvert nei við því að þéttbýlið togaði þau til sín. „Mér finnst svo margir tala um það á vetrum hvernig eigi að bjarga landsbyggðinni og hvernig skuli nýta þau gæði sem fyrir eru í sveitunum, en mér finnst ótrú- lega fáir vera að gera eitthvað í því annað en að tala um það. Ég vona að þróunin eigi eftir að snúast við en ég sé það reyndar ekki fyrir mér.“ „Þeir krakkar úr sveitum, sem eru í skólum núna, sjá enga atvinnu heima og verða bara eftir í þéttbýlinu,“ sagði Sigurður Páll. „Fólk er ekki nógu bjartsýnt. í fyrra, þegar við vor- um að starta þessu, var ýmislegt sagt við okkur og mér fannst eins og fólki þætti þetta fáránlegt. Rétt eins og það væri búið að ákveða að þetta gæti ekki gengið, en þetta gengur vel,“ sagði Þór- dís Linda. Það er gott að koma í Heiðar- bæ og gaman að sjá unga fólkið takast á við reksturinn af áhuga og dugnaði, og þjóna gestum sín- um með vakandi auga um að þá vanhagi ekki neitt og að þeir fari sér ekki að voða í sundlauginni. Og það er yndisleg tilbreyting að heyra rödd úr dreifbýlinu sem segir hikstalaust að rekstur gangi vel. IM í anddyrinu. Við sundlaugina.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.