Dagur - 24.08.1991, Blaðsíða 9

Dagur - 24.08.1991, Blaðsíða 9
8 - DAGUR - Laugardagur 24. ágúst 1991 - Björn Þórleifsson deildarstjóri öldrunardeildar Akureyrarbœjar í helgarviðtali Framfarir í heilsugæslu og læknavísindum gera að verkum að meðalaldur Islendinga hækkar stöðugt. Um leið eykst þörfín fyrir stuðning og marg- víslega hjálp sem sveitarfélögum ber skylda til að veita þeim sem á þurfa að halda. Aldraðir eru fjölmennur hópur í sveitarfélagi á borð við Akur- eyri en einnig búa allmargir fatlaðir í bænum. Öldrunardeild Akureyrar- bæjar rekur umfangsmikla heimilisþjónustu bæði fyrir aldraða og fatlaða. Öldrunardeild Akureyrarbæjar heyrir undir félags- og fræðslusvið bæjarins. Öldr- unardeildin sjálf skiptist aftur í sex undir- deildir, stofnanir og þjónustusvið. Fyrst ber að nefna hjúkrunardeild Hlíðar, sem skipt- ist í A,- B- og C hluta eða deildir. Um átta- tíu manns búa á þessari hjúkrunardeild. Þjónustukjarninn í Hlíð samanstendur af þrjátíu íbúðum þar sem þrjátíu og sex íbúar búa. Dvalarheimilið Skjaldarvík er sérdeild með sérstökum forstöðumanni, þar búa rúmlega sextíu manns. í sambýli fyrir aldr- aða, sem stofnað var sl. vetur búa átta manns. Ekki má gleyma félagsstarfi fyrir aldraða, en það er sérsvið innan öldrunar- deildar. Þar vinna tíu starfsmenn að félags- legum þáttum. Meðal þess sem boðið er upp á er handavinna, bókband og ýmislegt föndur, spilamennska, skemmtanir og ferðalög, hárgreiðsla, fótsnyrting, akstur fyrir þá sem á þurfa að halda, leikfimi o.fl. Að lokum skal nefna heimilisþjónustuna, sem er mjög viðamikill þáttur öldrunarþjón- ustunnar. 329 einstaklingar nutu heimilisþjónustu í fyrra Á árinu 1990 nutu 263 heimili með 329 ein- staklingum þjónustu heimilisþjónustunnar. 233 einstaklingar höfðu stöðuga þjónustu allt árið. í janúar 1990 voru 268 einstakling- ar með fasta þjónustu, en þeir voru 272 í desember sama ár. Þar af voru 252 aldraðir en 20 öryrkjar. 57 einstaklingar höfðu þjón- ustu til skemmri tíma, en henni var hætt fyr- ir árslok. Ástæður fyrir þjónustunni skiptust þannig í fyrra: 298 einstaklingar nutu aðstoðar vegna elli og sjúkleika, 22 einstaklingar vegna langvarandi veikinda eða örorku, 6 einstaklingar vegna tímabundinna veikinda og þrjár konur vegna tvíburafæðinga. Heimsending matar er mikilvægur þáttur fyrir ýmsa. í fyrra fengu 80 einstaklingar mat sendan heim, en þeir voru 38 í árslok. 27 einstaklingar fengu heimsendan mat allt árið, þar af voru þrír öryrkjar. í janúar voru 33 starfsmenn í 19,5 stöðu- gildum en í desember voru þeir 35 í samtals 20,7 stöðugildum. Sérstakir forstöðumenn stjórna þessum sex undirdeildum öldrunardeildar bæjarins, og sjá þeir um daglegan rekstur hver á sínu sviði. í lögum er gert ráð fyrir að sveitarfélög veiti öldruðum aðstoð til að dvelja sem lengst í heimahúsum. Heimilisþjónusta öldrunardeildar er því mikilvægt tæki til að starfa eftir anda laganna hvað þetta snertir. Björn var beðinn að segja frá sögu heimilis- þjónustunnar á Akureyri. „Heimilisþjónustan hófst árið 1975. Þá hafði verið gerð könnun á högum aldraðra, en í henni komu fram mjög eindregnar óskir um heimilisþjónustu. Bæjarstjórn tók ákvörðun um að hefja slíka þjónustu og Félagsmálastofnun undirbjó stofnunina með námskeiðahaldi og skipulagningu þjón- ustu í heimahúsum. í fyrstunni voru þrjár konur ráðnar til að sinna þjónustu við tíu heimili. Starfsemin óx mjög hratt. Fljótlega varð þörf fyrir forstöðumann, en núverandi forstöðumaður, Edda Bolladóttir, hefur gegnt starfinu nánast frá upphafi," segir Björn. Markmið Iaganna Samkvæmt lögum frá 1983 og 1989 um málefni aldraðra segir að markmið laganna sé að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðis- og félagsþjónustu sem þeir þurfi á að halda, og að hún sé veitt á því þjónustustigi sem eðli- legast og hagkvæmast sé hverju sinni, miðað við þörf og ástand hins aldraða. Markmiðið er einmitt eins og áður sagði að aldraðir geti búið sem lengst við eðlilegt heimilislíf. Jafn- framt skal tryggja nauðsynlega stofnana- þjónustu þegar hennar gerist þörf. Virða skal sjálfsákvörðunarrétt hinna öldruðu eft- ir því sem kostur er. Um heimaþjónustu segir að hana skuli reka í hverju sveitarfélagi. Björn segir að þjónusta við aldraða skiptist í opna þjón- ustu og stofnanaþjónustu. Heimaþjónusta fellur auðvitað undir fyrrgreinda flokkinn. Fyrir utan þá stefnu að aldraðir skuli búa sem lengst f heimahúsum felst ákveðið hag- kvæmnissjónarmið í lögunum, því á meðan heimaþjónusta verður til að hindra stofn- anadvöl sparar sú ráðstöfun fé og er ódýr- asta og heppilegasta leiðin fyrir alla aðila. Björn segir að spurningin sem menn standi frammi fyrir varðandi heimilisþjón- ustu sé hvenær heimilislíf hætti að vera eðli- legt og stofnanavist hljóti að taka við. Þjón- ustuhópur aldraðra metur þetta atriði ásamt öðru sem máli skiptir, þegar ákvörðun þarf að taka um framtíð aldraðra. „Ég er þeirrar skoðunar að fyrirkomulag og starf þjónustu- hóps aldraðra hafi tekist ákaflega vel í alla staði, og að Akureyri sé komin einna lengst á landsvísu í vistunarmati og ákvarðanatöku um hvernig staðið skuli að mati á þörfum aldraðra fyrir stofnanavist,“ segir Björn. Heimilisþjónusta og heimahjúkrun Þjónustuhópur aldraðra tók til starfa árið 1985 en hann var skipaður samkvæmt lögunum frá 1983. Tveir starfsmenn samein- ast í einni stöðu, sem vinnur fyrir þjónustu- hópinn. Allir sem óska eftir vistun verða að fara í vistunarmat. Fyrir kemur að aldraðir óski eftir dvalarheimilisvist þegar aðrir kost- ir leysa vanda þeirra miklu betur. Heima- hjúkrun ásamt heimilisþjónustu og hugsan- lega dagvistun getur leyst margan vandann í bili án þess að fólkið þurfi að flytja að heim- an. Einnig kemur til greina að fólk fari í svonefndar hvíldarinnlagnir á dvalar- eða hjúkrunardeildir. Heimaþjónusta er að sögn Björns að langmestu leyti fólgin í almennri heimilisað- stoð. Um er að ræða atriði eins og dagleg þrif og tiltekt sem þeir öldruðu ráða ekki lengur við. Tvær konur sinna eftirlitsstarfi, þær fara í stuttar heimsóknir og aðstoða fólk við smáviðvik. Þá er um að ræða að hjálpa hinum öldruðu til læknis, aðstoða við innkaup o.s.frv. „Bara það að líta inn dag- lega gefur aukið öryggi. Heimilishjálpin kemur kannski ekki nema einu sinni eða tvisvar í viku,“ segir Björn. Aldraðir geta fengið heimsendan mat, heita máltíð í hádeginu alla virka daga. Einnig er hægt að fá frosinn mat um helgar. Á sumrin er aðstoðað við lóðahirðingu og við snjómokstur á vetrum. Um tímabundna aðstoð er stundum að ræða þegar sérstakar aðstæður skapast, t.d. svonefnd yfirseta í veikindum, sem getur verið allt að því dag- lega. Ýmsir valkostir í stað dvalarheimila Þeirri mcginreglu hefur verið fylgt að veita heimilisþjónustu hálfan daginn, alla virka Laugardagur 24. ágúst 1991 - DAGUR - 9 daga. Ef þörf er á meiri þjónustu er málið endurskoðað og kemur þá stofnanavist til greina eða jafnvel dagvistun. Síðarnefnda úrlausnin er að dómi Björns nokkuð van- nýttur kostur á Akureyri en það má að hluta útskýra með því að heimilisþjónustan leysir vanda margra allt þar til hjúkrunarheimili tekur við. Björn segir að með bættri þjón- ustu muni dvalarheimilin smám saman hverfa út úr myndinni. Þjónustuíbúðir geta hentað mörgum en þegar það gengur ekki lengur hljóti hjúkrunardeildir að taka við. Björn segir að alltaf sé verið að velta fyrir sér einhverjum úrbótum í öldrunarþjón- ustu. Hvað heimilisþjónustu snertir er eink- um tvennt á dagskrá. I fyrsta lagi á að auka samvinnuna við heimahjúkrun. Eins og stendur eru sam- ráðsfundir vikulega milli heimahjúkrunar og heimilisþjónustu en með haustinu gæti hugsast að unnt verði að koma upp tveimur heimaþjónustumiðstöðvum. Þar myndu þessar tvær greinar vinna beinlínis saman en það er nýjung því ríkið stendur straum af heimahjúkrun en sveitarfélög af heimilis- þjónustu. Þetta er gert þar sem þörfin fyrir meiri samvinnu hefur ótvírætt komið greini- legar fram undanfarin ár. Akureyrarbær fékk styrk til að standa að þessari tilraun úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Ætlunin er að í þjónustumiðstöðinni í Víðilundi verði sam- eiginleg miðstöð eða skrifstofa þessara starfsdeilda en önnur á Oddeyri. í framhaldi af þessu munu samráðsfundir verða haldnir daglega, þar sem ákveðið verður hvaða þjónusta á best við fyrir hvern og einn ein- stakling. Hitt atriðið sem stendur til að bæta úr er að hefja kvöldþjónustu. Það mál er ekki komið eins langt í undirbúningi en þó er ákveðið að reyna á hvort þetta sé fram- kvæmanlegt á Ákureyri. Björn segir að hér verði ekki um fastaþjónustu að ræða nema í einstökum tilvikum, þar sem ákveðið verð- ur að líta inn hjá fólki í öryggisskyni. Starfs- menn yrðu þá e.k. eftirlitsmenn sem unnt yrði að ná til með farsíma eða á annan fljót- legan hátt í neyðartilvikum. „Draumurinn var sá að heimahjúkrun, heimilisþjónustan og Svæðisstjórn málefna fatlaðra yrðu inni í þessu saman. Heimahjúkrun er reyndar með þjónustu um helgar en ekki á kvöldin. Þeir sem þurfa á öryggi að halda sækja gjarnan um öryggishnappa frá Securitas og hafa þá öryggi í þá veru að geta kallað til aðstoðar á nóttunni," segir Björn. Reynslan af heimilisþjónustunni En hver hefur reynslan verið af heimilis- þjónustunni? Björn segir að fólkið sem hennar nýtur sé yfirleitt ánægt. Auðvitað finnst einum og einum alltaf að hitt og ann- að mætti betur fara, eins og gengur. Óánægja kemur helst fram ef einhver breyt- ing verður varðandi starfsfólk heimilisþjón- ustunnar. Þegar fólk fór að flytja í nýbyggð- ar þjónustuíbúðir við Víðilund spurðist það mikið fyrir um hvort það gæti ekki áfram orðið aðnjótandi sömu heimilisþjónustu, þ.e. að sama starfsfólkið kæmi áfram. Á Akureyri búa allmargir fatlaðir ein- staklingar. Mikið fatlaðir einstaklingar þurfa margir bæði á heimilisþjónustu og heimahjúkrun að halda. Þjónusta við fatl- aða kemur frá öldrunardeildinni sem Björn stjórnar. Hann var spurður að því hvernig þetta hefði atvikast. „Ég tel að þarna hafi verið um hagræð- ingarsjónarmið að ræða. Þegar öldrunar- deildin var stofnuð kom fljótlega í ljós að yfir 90 prósent af þeim sem nutu heimilis- þjónustu voru aldraðir einstaklingar, en afgangurinn var fatlað fólk. Á þeim tíma var álitið að heimaþjónusta við fatlaða ætti betur heima hjá öldrunardeild en sem sér- stök deild. Upplýsingar sem heimilisþjón- ustan sendir frá sér koma til þjónustuhóps aldraðra og því er einnig náið samstarf þarna á milli, eins og ég sagði áðan,“ segir Björn. í lögum um félagsþjónustu sem samþykkt voru seint sl. vetur er kafli um aðstoð sveit- arfélaga við fatlaða sent búa í heimahúsum. Lögin segja að tryggja skuli fötluðum sam- bærileg lífskjör og jafnrétti á við aðra þjóð- félagsþegna og þeim útvegað íbúðarhús- næði. Skapa skal fötluðum skilyrði til að lifa sem eðlilegustu lífi miðað við gctu hvers og eins. Kjarni laganna er að fatlaðir eigi rétt á nauðsynlegri þjónustu í sínu sveitarfélagi, allt eftir þörfum hvers og eins. Jafnframt skal stuðla sem mest að því að fatlað fólk reyni að bjarga sér sjálft svo sem frekast er unnt og lifa sjálfstæðu lífi utan stofnana sem lengst. Að efla einstaklinga til sjálfsbjargar Björn segir að þar sem megináhersla lag- anna sé á að efla fólk til sjálfsbjargar hljóti ýmsar spurningar að koma upp í einstökum tilvikum. Meðal þess sem gera þurfi grein- armun á sé almenn aðstoð og aðhlynning annarsvegar og bein hjúkrun hinsvegar. Sveitarfélög hafi skyldu til að hjálpa fólki að búa sem lengst heima við sem eðlilegastar aðstæður. Matið á því hvenær aðstæður hætti að vera eðlilegar hljóti að vera erfið- leikum bundið. Þjónustuhópur aldraðra meti þessi mál fyrir hina öldruðu en hvað fatlaða áhrærir komi svæðisstjórn málefna fatlaðra inn í myndina. í lögum segir að læknisvottorð skuli liggja fyrir þegar sótt er um aðhlynningu vegna heilsufarsástæðna. Sveitarfélög eiga að setja reglur um fram- kvæmd félagslegrar heimaþjónustu. Björn segir að þrátt fyrir að engar skrifaðar reglur séu til urn þetta hjá Akureyrarbæ frá nýrri tíð hafi verið unnið út frá því sjónarmiði að heimaþjónusta sé ekki veitt á sama stað nema hálfan daginn alla virka daga. „Sú hugsun er á bak við að heintilishjálp sé veitt eftir bestu föngum. En fólkið sem sinnir henni er ekki faglært hjúkrunarfólk. Þegar einstök tilvik þróast þannig að hjúkrunar er þörf fremur en heimilisaðstoðar þá fer starfsfólk heimilisþjónustunnar að veigra sér við að sinna því,“ segir Björn. - En þýðir þetta ekki að sveitarfélög eins og Akureyrarbær eru komin nokkuð upp að vegg, eða geta komist það í ákveðnum til- vikum? Ef mikið fatlað fólk vísar til laganna og segir að það eigi rétt á þjónustu við hæfi, hvort sem er á stofnun eða heima, þá er ekki starfandi nein stofnun hér á Norður- landi sem sambærileg er við það sem þekkist í Reykjavík, t.d. Hátún 12. Álitamál koma stundum upp Björn segir um þetta að sér virðist sem þessu ástandi sé einna helst hægt að líkja við grátt svæði á milli heilbrigðisþjónustunnar, félagslegu þjónustunnar sem Félagsmála- stofnun sér um, heimilisþjónustu öldrunar- deildar og svæðisstjórnar. Tilvik geti komið upp þar sem menn lenda mitt á milli allra þessara aðila og þá getur orðið álitamál hver eigi að sinna viðkomandi tilfelli. „Ef málið snýst um að einstaklingur þurfi meiri hjúkr- un en heimilisaðstoð þá þarf að endurskoða stöðuna. Yfirleitt er samstarfið við heima- hjúkrun gott en ég tel að það þurfi að efla, eins og ég sagði áðan. En spurningin er ekki svona einföld því hún snýst líka um hversu lengi heimahjúkrun endist. Ef við ætlum að teygja þetta svo langt að fólk þurfi aldrei að fara á stofnun er það orðið spurning um fjórar til fimm stöður kringum hvern ein- stakling, þ.e. ef þörf er á að sinna honum allan sólarhringinn í heimahúsi. En ég tek fram að erfitt er að meta málin í mörgum til- vikum og ákveða hvenær á að segja við ein- staklinga: Nú getur sveitarfélagið og heil- brigðisþjónustan ekki lengur sinnt þér heimavið, þú verður að fara á stofnun. Ef menn neyðast til að fara þessa leið verður auðvitað að vera hægt að bjóða upp á ein- hverja slíka stofnun sem hægt er að vísa á,“ segir Björn. Hinn félagslegi geiri Akureyrarbæjar setti sér ákveðin mörk varðandi heimilisþjónustu eins og lögin kveða á um en Björn bendir á að auðvitað sé umdeilanlegt hvar þessi mörk eigi að liggja. Framtíðin - Hverju þarf að breyta á Akureyri til að koma til móts við lagabókstafinn um heima- þjónustu sveitarfélaga frá síðasta vetri? Björn segir að þróunin á Akureyri hafi verið nokkuð á undan því sem almennt gerist á landinu með tilliti til heimilisþjónustu og heimahjúkrunar. „Ég get ekki séð að við þurfum að breyta neinu í okkar rekstri vegna þessara laga og ákvæða þeirra. Allt sem er nefnt í lögunum um félagslega heimaþjónustu er þegar fyrir hendi í bænum. Spurningin er eingöngu sú hvort auka þurfi þjónustuna eða bæta hana. Við erum sífellt að þróa þessi mál og reynum ýmsar nýjungar sem taldar eru til bóta. Við verðum vör við að þörfin fyrir þessa þjón- ustu eykst. En ég tel að alla hluti verði að framkvæma á sem hagkvæmastan hátt,“ segir Björn. EHB Texti og myndir: Egill H. Bragason. Heimilisþjónustan tekur til margra þátta aðstoðar við aldraða. Einn þcirra er aðstoð við innkaup. Á myndinni eru þær Ásrún Jónsdóttir og Margrét Emilsdóttir, starfsmaður heimilisþjónustunnar, cn Margrét aðstoðar Ásrúnu vikulega við innkaup og ferðir í banka. Myndin er tekin í Vcrslunarmið- stöðinni Sunnulilíð.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.