Þjóðviljinn - 17.02.1985, Blaðsíða 2

Þjóðviljinn - 17.02.1985, Blaðsíða 2
FLOSI af „túninu minu heima“ Skrítið er það, hvað undurvænt manni getur þótt um „túnið sitt heirna". Ef til vill er ég óvenju jákvæður í dag, jákvæðari en lög gera ráð fyrir, en það verður þá bara að hafa það. Mér finnst ég vera mikill gæfumaður. Hér sit ég í birtu og hlýju, í gömlu timburhúsi niðurvið Tjörn í Kvosinni í Reykjavík á hvellbjörtum febrúarmorgni í svo fullkomnu jafnvægi hugans að jaðrar við „nirvana", en „nirvana" er að sögn Gunnars Dal, sérfræðings míns í sálarástöndum, indversk alsæla og lausn frá hringrás endurholdgunarinnar. Það eina sem gæti á þessari stundu raskað sál- arró minni er það hvaö oft ég er búinn að nota forsetninguna „í“ í þessum fáum línum, en það verð- ur líka bara að hafa það. Hérna í Kvosinni og í gamla bænum ólu afar mínir og ömmur allan sinn aldur, foreldrar mínir og síðast en ekki síst ég, sem alla mína tíð hef átt heima niðurvið Tjörn. Á þessari hálfu öld, sem ég er búinn að þreyja þorrann og góuna hef ég fjórum sinnum verið dreg- inn úr Kvosinni til bráðabirgðabúsetu um stundar- sakirog í neyð. Það lehgsta sem forlögunum tókst að hrekja mig frá Tjörninni var vestur á Framnesveg, en í hin skiptin vestur á Öldugötu, Vesturgötu og Tún- götu. Ég er semsagt Reykvíkingur og nánar tiltekið mið- bæingur. Og þess vegna er það að mér leyfist að kalla Arnarhólinn „túnið mitt heima". Kvosin finnst mér áþreifanlegur hluti af sjálfum mér, bara eins og fingurnir eða tærnar. Þetta eru átthagar mínir og heimabyggð. Þegar góðir menn og vitrir eru að krukka í miðbæ- inn, finnst mér stundum eins og verið sé að aflima mig. Þetta hefði nú amma kallað óhemjuskap. Stundum, þegar ekki liggur jafn vel á mér og núna, jaðrar við að mér finnist aðkomumenn gera sig full heimakomna í „túninu mínu“, en þá hugsa ég í leiðinni: - Láttu nú ekki eins og heimaríkur hundur. Og þó get ég ekki varist þeirri hugsun að ef til vill hafi það fólk, sem varla hefur nokkurn tímann búið í Reykjavík, hvað þá í miðbænum, litla tilfinningu fyrir því, hvað er hér „aðlaðandi", en „aðlaðandi" er orðið sem notað er um flestar lausnir arkítekta á umfangs- miklum stórspjöllum, sem ráðgerð eru á Arnarhóli til viðbótar þeim sem þegar hafa verið unnin. En nú er ég, einsog ég sagði áðan, í svo undur góðu skapi að ég ætla að reyna að sjá björtu hliðarn- ar á öllu því sem stendur til að gera hér í „miðborg- inni“, eins og Kvosin og gamli bærinn er nú kallaður. Maður getur varla verið annað en hugfanginn af þeim tillögum sem komnar eru fram um áframhald- andi gagngerar „lagfæringar" á gamla góða Arnar- hólnum. Fyrstu verðlaun, og númer eitt, fær Erling nokkur Grosen Pedersen, arkítekt, sennilega kom- inn frá því landi þar sem ekkert landslag er til nema af mannavöldum. Það sem er mest „aðlaðandi" við hugmynd hans er mikið útileikhús sem horfir mót norðri og er því í skjóli fyrir sunnanátt og sólskini. Þetta er á íslensku kallað að vera áveðurs og er hugmyndin vafalaust fengin frá Grikklandi, þar sem loftræstingavandamál útileikhúsa eru leyst með þeim hætti að hafa þau áveðurs. í þessari hugmynd skiptast á runnar, trjágöng, hekk og rjóður og svo fimmtán eða tuttugu öndvegissúlur, svona einsog til að minna á þá staðreynd að „allir erum vér (slend- ingar". Um þessa tillögu segir dómnefndin orðrétt: „Öndvegissúlnaröðin er ómarkviss. Tillagan er nokkuð ofhlaðin en einstaka hugmyndir mjög aðlað- andi“. Semsagt dælí, dælí. Eitt er víst að tillaga Pedersens gerir ekki ráð fyrir því að ungir smáborgarar renni sér á rassinum, sleða eða skíðum, niður hólinn, eins og gert hefur verið í ellefuhundruð ár. Umsögn dómnefndar um tillögu númer átján er heillandi, en hún er svona: „Tillagan er óvenjuleg og listræn í framsetningu. Hugmyndir höfundar um samspil heimspeki, sögu og forma eru sett fram á skýran og Ijóðrænan hátt“. Líklega er þetta lausnin, að hafa Arnarhólinn list- rænt samspil heimspeki, sögu og forma á Ijóðrænan hátt. Og ekki skal ég láta þetta raska sálarró minni. Þó ég vilji leyfa Arnarhólnum að vera eins og hann er og þó mér finnist að Arnarhóllinn eigi að vera eins og íslenskir hólar en ekki einsog útlenskir hólar, þá ætla ég að beita gamla góða æðruleysinu og hugsa sem svo: - Æ, ég á nú svo stutt eftir og þegar ég er dauður verður öllum orðið sama um Kvosina, því líklegá verð ég síðasti barnfæddi Reykvíkingurinn, sem búið hefur alla ævi niður við Tjörn. Þeir sem eftir lifa eiga sér Arnarhólinn ekki að „túninu heirna". Flosi _______í fótspor Ólafs Ragnars? Fréttabréf Háskóla íslands er nýlega komið út. Þar er að finna fyrirsögnina: „í fótspor Ólafs Grímssonar" og grein- irfrá í frétt að nýmáladeild há- skólans í Delhi efni til ráð- stefnu um heimsbókmenntir um mánaðamótin febrúar/ mars. Þeir sem hafa áhuga geta snúið sér til Sigurðar Bjarnasonar fyrrverandi Morgunblaðsritstjóra og sendiherra, sem nú um stund- ir hefur aðsetur í utanríkis- ráðuneytinu.B Kolbeinsey Blaðið Víkurfréttir á Húsavík hefurtenni saman umræðuna um að bjórdrykkja leysi efna- hagsvanda þjóðarinnar og þann háska sem vofir yfir bænum, að togarinn Kol- beinsey verði seldur á upp- boði. Blaðið segir: „í framhaldi af bjórumræð- unum hafa vísir menn og töl- fróðir eygt lausn í togaramál- inu. Ef reiknað er með að ríkið fái 90 krónur af hverjum seld- um bjórlítra í framtíðinni þá ættu sveitarfélög að taka sama toll af þeim bjór sem þar er þambaður. Og ef af þessu yrði þyrftu Húsvíkingar ekki að drekka nema rúma tvo lítra á bjór á dag í aðeins ár og þar með væri hægt að greiða allar skuldir Kolbeinseyjar. Einfalt og snjallt.“B Fatafellur í andaglasi Eins og kunnugt er hefur Á- mundi framkvæmdastjóri Al- þýðuflokksins lýst þeirri tækni Jóns Baldvins og hans á fund- um um landið sem fatafellu- tækni, en úr þeim geira við- skiptalífsins hefur Ámundi töluverða reynslu. Á dögunum var boðaður fundur á Dalvík með nokkru brambolti og mættu á fjórða tug manna á tilskildum tíma. Hins vegar brá svo við að for- maður Alþýðuflokksins lét ekki sjá sig á staðnum en vatnsglös voru á borðum. Höfðu menn í flimtingum að fatafellur væru í andaglasi.B Mikilvirkur leikritahöfundur. Land míns föður næst á fjölun- um. Leikrit Kjartans um stríðið Mjög stórt og viðamikið nýtt leikrit eftir Kjartan Ragnars- son er nú tilbúið og verður það fyrsta verkefni Leikfélags Reykjavíkur á næsta leikári. Nefnist það á þessu stigi Land míns föður og fjallar um stríös- árin á íslandi. Það gerist í Reykjavík og er mikið af söngvum í þvi sem Kjartan hefur samið. Hann mun hafa verið í mörg ár með þetta verk í smíðum og verður sannar- lega spennandi að sjá það.B Hringurinn Ný kvikmynd verður f rumsýnd á næstunni um hringveginn. Myndin heitir Hringurinn og er eftir Friðrik Þór Friðriksson kvikmyndagerðarmann. Efni hennar er ferðalag eftir hring- veginum kringum landið og er sýningartími hennar um einn og hálfur klukkutími. Lárus Grímsson gerði hljómlistina við þessa kvikmynd og Grammið mun á næstunni gefa hana út á hljómplötu. Mynd Friðriks Eldsmiðurinn hefur verið valin til sýningar á viðurkenndri alþjóðlegri kvik- myndahátíð í Evrópu.B Aljona til Gautaborgar í vor verður haldið festival allra leiklistarskóla á Norður- löndum í Gautaborg í Svíaríki og er það í fyrsta skipti sem svo stórt festival verður hald- ið. Nú mun afráðið að Leik- listarskóli íslands fari þangað og sýni sovéska leikritið Alj- onu og ívan sem undanfarið hefur verið á fjölum Lindar- bæjar. Það er Þórunn Sigurð- ardóttir sem er leikstjóri.B Fleiri ráð eru til Það er reyndar ekki nýmæli að skattlagning af syndum mannfólksins sé notuð til að standa straum af meiriháttar framkvæmdum og leysa efnahagsvanda. Til dæmis er það haft fyrir satt, að aldrei hefði tekist að reisa hinar miklu miðaldakirkjur í Evrópu ef ekki hefði komið til skattur á vændiskonur. Það gjald brást aldrei í byggingarsjóði, hvern- ig sem annars áraði. Þessum ónýtta tekjumögu- leika er hér með skotið til Steingríms og Alberts í þegn- legri vinsemd.B 2 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Sunnudagur 17. febrúar 1984

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.