Þjóðviljinn - 09.12.1989, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 09.12.1989, Blaðsíða 5
JÓLABLAÐ I Orti Jónas betur á dönsku? Dönskum lj óðum Jónasar Hallgrímssonar var nánast haldið leyndum í heila öld. Skömmuðust íslendingar sín fyrir þessi „óhreinu börn “, sem komu nú fyrir almenningssj ónir í sumar og rey nast mörg hver í úrvalsfiokki ljóða hans? Ólafur H.Torfason skrifar Jónas Hallgrímsson var í augum margra samtíðarmanna sinna fyrst og fremst smellinn dægurlagatextahöfundur - og afraksturinn á því sviði er ekki lítill. Margt af þessum skáldskap er á dönsku. Fjöldamörg ljóðin orti hann vegna beiðni fólks um léttan söngtexta til nota á ákveðnum dans- leik, jólaskemmtun, íslendingafundi eða af öðru léttvægu tilefni. Framan af aldri var Jónas afkastamestur á þessu sviði. En „listaskáldið góða“ orti líka alvarleg ljóð á dönsku. Þessi ljóð hafa verið fáum kunn þangað til þau birtust öll með tölu sl. sumar í nýju 4 binda heildarritsafni Jónasar Hallgrímssonar á vegum bókaútgáfunnar Svart á hvítu. Sumir ganga svo langt að halda því fram að í þessum hópi séu nokkur bestu ljóð Jónasar Hallgrímsonar. Um þau svífur ákveðin dul og þau krefjast skýringa. Hvers vegna leyndarmál? Því virðist næstum hafa verið haldið leyndu af ásettu ráði, að Jónas Hallgrímsson barðist ekki einvörðungu fyrir þjóðlegri reisn og hreinleika íslenskrar tungu, heldur orti líka feimnislaust á dönsku. Hugsanlega rímaði það ekki nógu vel í sjálfstæðisbaráttunni og þjóðrembunni sem fylgdi í kjölfarið að listaskáldið skildi eftir sig lofkvæði um danska kónga og stiftamtmenn, danslagatexta og jóla- söngva. En dönsk ljóðagerð Jónasar var engin ómerkileg auka- geta. Ef við teljum til dæmis öll ljóð hans sem varðveist hafa frá árunum 1829-1832 kemur í ljós að þriðjungur þeirra er á dönsku, 6 af 18 ljóðum. í fyrsta heildarritsafni Jónasar Hallgrímssonar sem Svart á hvítu gaf út í júní 1989 kemur í ljós að Jónasi eru eignuð alls 23 ljóð á tungu Kim Larsen og Mogens Glistrups, og eru mörg þeirra býsna löng og viðamikil. Til þess að kom- ast að því hvers konar dönskurímandi ljóðskáld Jónas var duga ýmsar aðferðir. Dönsk Ijóð: Óhrein Ijóð? Hannes Pétursson skáld fjallar talsvert um þennan kveð- skap Jónasar í bók sinni Kvæðafylgsnum frá 1979 og kemst að þeirri niðurstöðu að sumt sé mjög vandaður skáld- skapur, óvenju persónulegur og þrunginn merkingu. Hannes tekur meðal annars reyndar svo djúpt í árinni að segja að hvergi orði Jónas Hallgrímsson guðshugmyndir sínar dýpra en í dönsku minningarljóði. Það er því með nokkrum ólíkindum, að lesendum skuli nánast hafa verið meinað að kynnast þessari hlið á skáld- skap Jónasar Hallgrímssonar í hartnær 100 ár. Dönsku ljóðin hafa yfirleitt verið falin, þeim sleppt, í útgáfum á verkum Jónasar fyrir almenning. Um þetta framferði segir Hannes Pétursson hneykslaður í Kvæðafylgsnum: „Ætli þeim hafi fundist, útgefendum, að kvæði Jónasar á dönsku væru ekki til sýnis, best geymd í felum eins og óþvegnu krakkarnir Adams og Evu?“ Stuðlar og höfuðstafir Við skulum líta á danska Jónasarkvæðið „Julesang for börn ved bal 1829“. Þetta orti Jónas 22 ára gamall í upphafi þriggja ára ferils síns sem skrifari bæjar- og landfógeta í Reykjavík og bjó hann þá á heimili fógetans. Svona orti Jónas fyrir jólaskemmtun barna: Men julens stille stjerne den stár i delte sky og smiler fra det fjerne henover land og by langt udi österlande den söger pá bjerg og skov og vil over hytten stande hvor julebarnet sov. Lesendur sjá eflaust í þessu dæmi að Jónas styðst þarna ögn við stuðla og höfuðstafi eins og hann gerði oft í danska kveðskapnum. Enn betur heyrist stuðlanna þrískipta grein í þessari vísu úr kvæði sem hann orti vorið 1829 þegar Krieger stiftamtmaður kom til starfa. í vísunni eru aðal- hetjurnar Ingólfur Arnarson og Krieger amtmaður: Gammel ö med isbesatte kroner Ingolfs kolde, bölgeskyldte strand fjernet langt fra hine hede zoner hilser da sin nye stiftamtmand. Þetta er dæmigert Jónsar-léttmeti, og margt af dönsku kvæðunum er nú beinlínis háð og spott. Sum tækifæris- kvæði Jónasar á íslensku bera þess líka augljós merki að hann tók þau ekkert of alvarlega sjálfur. Sykurmolar á dönsku? Þegar við skoðum Jónas af þessum sjónarhóli leiðir það hugann að málverndarátökum sumra nútíma íslendinga. Fara þeir kannski að einhverju leyti offari í þeim efnum? Beina þeir athyglinni að smáatriðum, en sjá ekki raunveru- legu hætturnar? Sumir hafa t.d. talið það ósvífinn skort á þjóðrækni hjá íslenskum rokkhljómsveitum að semja og syngja texta á ensku. Sjónvarpið vill ekki sýna nýjasta og vandaðasta myndband Sykurmolanna á þeirri forsendu að söngtextinn er enskur. Væri ekki tilvalið í tilrauna- og mótmælaskyni fyrir „Sugar Cubes“ að kalla sig um stund „Stödt Melis“, gera tónlistarmyndband með dönskum texta Jónasar Hallgrímssonar og bjóða Ríkisútvarpi íslendinga? Kunni Jónas næga dönsku? Er hægt að sjá á dönskum ljóðum Jónasar að þetta er eftir útlending eða hafði hann næg tök á danskri tungu til að beita henni sem tjáningarformi á eðlilegan hátt? Danskir fræðimenn svara aðspurðir að Jónas valdi 19. aldar dönskunni fullkomlega. Ekki má gleyma því, að kennsla í Bessastaðaskóla fór að nokkru leyti fram á dönsku og að Jónas var þar í 6 ár. Að því loknu starfaði hann í 3 ár sem skrifari bæjar- og landfógeta í Reykjavík. Bjó hann allan tímann á heimili Ulstrups fógeta. Jónas hefur þannig talað og skrifað dönsku daglega í hartnær áratug, áður en hann fór utan til Danmerkur. Eru íslendingar of viðkvæmir fyrir ætluðum erlendum áhrifum á íslenskt mál? Ættu íslensk nútímaskáld að kapp- kosta að yrkja smávegis á ensku, þýsku og frönsku? Yrðu þau hugsanlega betri ljóðskáld á íslensku fyrir bragðið? Kaupmannahöfn á þeim tíma sem Jónas bjó þar. Frægasta danska Ijóöið Athugum nú það kvæði á dönsku eftir Jónas Hallgríms- son, sem frægast hefur orðið, en lá alveg í þagnargildi eins og önnur kvæði hans á dönsku í næstum 100 ár. Heiti þess er „Efter Assembléen" eða „Eftir samkomuna“ og er ort í Sórey 1844. Hannes Pétursson skáld birtir um þetta kvæði heila grein í bók sinni Kvæðafylgsni. Hann bendir á að þetta merkilega ljóð, sem hann telur einn af hápunktunum á skáldskap listaskáldsins góða, var ekki prentað nokkurs staðar nema einu sinni árið 1929. Síðan hefur það hvergi verið tekið með í útgáfur á ljóðum Jónasar, frekar en önnur dönsk ljóðmæli hans, fyrr en loks í heildarritsafninu 1989. Ljóðið er til í fleiri en einni gerð, en sú sem Jónas valdi á endanum hljómar svona: Ja vidste min moder hvor mangefold man pröves i fremmede lande! „Han kastede med en gylden bold og traf min glödende pande". Og nu jeg ved hverken ud eller ind, og styrter igennem skoven, og söger min hvide, min dejlige hind - stjernerne blinker foroven. O. guder! saa skuer jeg jagtens mö i söen bag dunkle lunde. Hallo! det er ude - ak, jeg maa dö! Nu jage mig nymfenes hunde. Þetta er eitt af örfáum ljóðum á dönsku sem Jónas tekur formlega upp í ljóðasafn sitt eða syrpu og hreinritar með sama hætti og mörg þekktustu ljóða sinna. Hann endur- bætti ljóðið og lagfærði. Að efni til lýsir það veiðigyðjunni Artemis sem fer með skógardísum sínum um fjöllin, en veiðimaðurinn á eftir þeim er dauðadæmdur. Hannes Pétursson túlkar þetta á þann hátt að Jónasi verði hugsað til móður sinnar, þegar hann gerir sér grein fyrir því að ferðum hans og fögnuði sé að ljúka. í táknmáli kvæðisins notar Jónas hvíta hind, veiðigyðjuna, gylltan knött og skógardísir. Málfríður Einarsdóttir birti þýðingu á „Efter Assemb- léen“ í ritinu Rásir dægranna 1986 og í hausthefti Skímis 1989 er það endurprentað með athugasemdum. Teikning Helga Sigurðssonar af Jónasi Hallgrímssyni á líkfjölunum 1845. Kvæðiö handa H.C. Andersen Eitt dönsku ljóðanna hans Jónasar er kveðja til vinar hans H.C. Andersen og heitir „Tak for Snedronningen“ og er þakkarkveðja fyrir ævintýrið Snædrottninguna sem Andersen lauk í desember 1844, hálfu ári áður en Jónas lést. Jónas Hallgrímsson og nokkrir aðrir íslendingar voru einna fyrstir til að viðurkenna H.C. Andersen og taka hann alvarlega. Tak for Snedronningen (Til H.C. Andersen) Til dig, o elskelige! hvis gyldne harpe klang i min sjæl, jeg gerne gav en sang. Du stolte mand, du rige! Jeg fulgte tro din gang. Far vel! Ak! thi du er for lang! „Kun en" pige. Hápunktur trúarljóðanna? Hannes Pétursson hefur sagt að hvergi orði Jónas Hall- grímsson guðshugmynd sína dýpra en í erfiljóði eftir gras- afræðinginn Salomon T. N. Drejer, kennara við dýra- læknaskólann í Kaupmannahöfn, en þeim Jónasi hafði orðið mjög vel til vina. Hann var sjálfmenntaður og ein- lægur vísindamaður sem sífellt leitaði sannleikans og virð- ist hafa haft áhrif á lífsskoðanir Jónasar og sérstaklega hvernig hann sameinaði guðstrú og náttúruvísindalega af- stöðu til umhverfisins. Kvæðið birtist í heild í ritsafni Svarts á hvítu en Hannes bendir í bók sinni Kvæðafylgsn- um sérstaklega á þetta erindi: Og dog, - hvis nu i Livets lyse Hjem dit frelste Blik mod Strömmen du ej vendte, den Livets Ström, som evigt iler frem og saa den selv og dig og den erkendte, da, - hvorfor tale Ordet ikke ud? (min tro forkaster det, min Sjæl det hader), da var ej Livets Herre Livets Fader, da var, o Drejer, ikke Gud vor Gud. Popparinn Jónas Ég nefndi hér í upphafi að Jónas hefði oft mátt kallast dægurlagatextahöfundur með réttu. Hann hefði ekki móðgast yfir þeirri nafngift. Við skulum því til sanninda grípa niður í bréf sem hann sendi félögum sínum ásamt með kvæðinu Dalvísu, sem hefst svona: Fífilbrekka! gróin grund! grösug hlíð með berjalautum! í bréfinu, sem Jónas skrifar Fjölnismönnum til Hafnar, biður hann þá sérstaklega að „.. .láta búa til fallegt lag, ekki of dýrt, við vísuna mína“. Ekki of dýrt, segir Jónas, og á þá ekki við peninga, heldur vill hann létt sönglag sem allir geta tekið þátt í. Svo bætir hann við þessari athyglisverðu klausu: „Það er annars ógjörningur að eiga sér ekki lög til að kveða þess konar vísur undir, svona komast þær aldrei inn hjá alþýðu". Páll Valsson ritstjóri ljóðabindisins í útgáfu Svarts á hvítu segir í skýringum: „Þessi orð sýna hversu hugleikið það var Jónasi að kvæði hans kæmust á framfæri við alþýðu landsins.“ Þetta stutta yfirlit yfir danskan kveðskap Jónasar Hall- grfmssonar gefur aðeins hugmynd um allan þann aragrúa nýrra upplýsinga um þjóðskáldið sem fá má í heildarrit- safninu sem út kom í sumarbyrjun. Bréf, dagbækur og vísindaritgerðir Jónasar, auk stórfróðlegra skýringa rit- stjóranna opna nýjan heim, sýna á margan hátt nýjan mann. ÞJÓÐVILJINN — SlÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.