Vísbending


Vísbending - 24.08.1988, Blaðsíða 3

Vísbending - 24.08.1988, Blaðsíða 3
VÍSBENDING SJALFS- ABYRGÐI' ATVINNU- LIFI Dr. PorvaldurGylfason Útlán bankakerfisins hafa aukizt miklu hraðar en þjóðarframleiðsla að undanförnu þrátt fyrir mjög háa raun- vexti. Fyrstu sex mánuði ársins nam útlánaaukningin um 43-44% á ári. Nafnvirði þjóðarframleiðslunnar er hins vegar talið munu aukast um rösk- lega fjórðung á árinu samkvæmt nýrri spá Þjóðhagsstofnunar. Útlánaþenslan að undanförnu er eftirtektarverð meðal annars vegna þess, að útlán bankakerfisins eru stjórnstærð í höndum ríkisvaldsins. Stjórnvöld geta ákveðið framboð inn- lends lánsfjár upp á eigin spýtur og bera því fulla ábyrgð á útlánaaukningu banka og sparisjóða. Það er merkilegt, að ríkisstjórnin og Seðlabankinn skuli ekki hafa haft betra taumhald á útlán- um bankakerfisins að undanförnu, enda hlýtur útlánaþenslan í ár að kynda enn frekar undir verðbólgunni í landinu eins og í fyrra. Minni útlána- þensla hefði að vísu hækkað vexti að öðru jöfnu, en það er haldlítil röksemd gegn öflugra aðhaldi í peningamálum nú vegna þess, að aukið aðhald í ríkis- fjármálum hefði getað lækkað vexti til mótvægis og getur það enn. Það er ekki síður merkilegt, að eftir- spurn fyrirtækja og einstaklinga eftir dýru lánsfé skuli hafa verið jafnmikil upp á síðkastið og raun ber vitni. Eng- inn veit með vissu, hvernig á því stend- ur. Flestir lántakendur hljóta að gera sér grein fyrir þeim vaxtakostnaði, sem fjárskuldbindingar þeirra fela í sér fram í tímann. Sumir lántakendur eygja kannski von til þess, að þeir geti einhvern veginn komið fjármagns- kostnaðinum yfir á aðra, annað hvort á eigin viðskiptavini með því að hækka verð á vöru, þjónustu eða vinnu á inn- lendum markaði eftir föngum eða þá á almenning með því að fá ríkisstjórnina til að fella gengi krónunnar, útvega ný lán eða prenta peninga. Aukin verð- bólga er lántakendum yfirleitt í hag vegna þess, að raunvextir á frjálsum markaði lækka venjulega með vax- andi verðbólgu að öðru jöfnu, hvort sem full verðtrygging fjárskuldbind- inga er við lýði eða ekki. Óraunhæfir kaupsamningar Fyrirhyggjuleysi í fjárfestingu og rekstri margra fyrirtækja að undan- förnu hefur ekki einskorðazt við óhóf- lega ásókn í lánsfé. Reynslan hefur sýnt vinnuveitendum það með árun- um, að þeim er yfirleitt óhætt að skrifa undir næstum hvaða kaupsamning sem er, því að ríkisvaldið grípur í taumana með gengisfellingu eða öðr- um ráðum til að koma í veg fyrir gjald- þrot fyrirtækja, ef boginn er spenntur of hátt við samningaborðið. Launþeg- ar hafa líka komizt að raun um það, að þeim er sömuleiðis nokkurn veginn óhætt að fara fram á næstum hvaða kaup sem er. Verklýðsfélög og samtök vinnuveitenda hafa í reynd verið leyst undan eigin ábyrgð á afleiðingum kjarasamninga. Launþegar og vinnu- veitendur hafa næstum aldrei þurft að súpa seyðið af óraunhæfum kjara- samningum, heldur hefur ríkisvaldið axlað ábyrgðina og veitt fjárhags- vanda fyrirtækjanna út í verðlagið með peningaprentun og gengisfell- ingu. Verklýðsfélögin hafa þá iðulega heimtað kauphækkun í skaðabætur og þannig koll af kolli. Þannig hefur ríkis- valdið átt mikinn þátt í víxlhækkun kauplags og verðlags gegnum tímann. Fyrrverandi ríkisstjórn reyndi að vísu að komast hjá þessum vanda 1983 með þvf að lýsa því yfir, að launþegar og vinnuveitendur yrðu sjálfir að bera ábyrgð á afleiðingum kjarasamninga eftirleiðis og una þeim. Skilaboðin voru skýr. Ef kauplagi væri engu að síður hleypt fram úr greiðslugetu fyrir- tækjanna, gætu einhver þeirra neyðzt til að hætta rekstri. Starfsmenn þess- ara fyrirtækja myndu þá þurfa að flytj- ast í önnur störf. Og þeir bæru sjálfir ábyrgð á raskinu, að svo miklu leyti sem kaupkröfur þeirra sjálfra hefðu riðið baggamuninn. Vitneskju laun- þega og vinnuveitenda um sjálfs- ábyrgð þeirra við kjarasamninga var þannig ætlað að tryggja það, að launa- kostnaði og þar með verðbólgu væri haldið í skefjum. Hotunogrefsing____________________ Þessi stefna var skynsamleg, svo langt sem hún náði. Henni fylgdi samt sá vandi, að atvinna hefði getað brugð- izt, hefði launakostnaður hækkað of mikið þrátt fyrir yfirlýsingu ríkis- stjórnarinnar. Ef ríkisstjórnin hefði reynt að halda kaupkostnaði innan hóflegra marka með því að hóta refs- ingu (til dæmis með því að lýsa því yfir, að gengisfelling kæmi alls ekki til greina að loknum samningum), hefði hún þá átt að beita refsingunni, ef hót- unin hefði ekki hrifið? Því er ekki auð- velt að svara, sérstaklega þegar kaup- hækkun eins hóps launþega er í þann veginn að kosta aðra hópa vinnuna, eins og hæglega getur gerzt við núver- andi skipan mála á íslenzkum vinnu- markaði, þar sem samið er um kaup og kjör í hverri atvinnugrein og ekki í hverju fyrirtæki. Við þau skilyrði get- ur það verið erfitt fyrir stjórnvöld að halda að sér höndum og vísa ábyrgð- inni á launþega. Hingað til hafa íslenzk stjórnvöld alltaf látið undan launþegum og vinnuveitendum, þegar á hefur reynt, enda er verðbólguvandinn óleystur enn. Ríkisstjórnir ýmissa annarra Evr- ópuríkja hafa hins vegar látið sverfa til stáls á vinnumarkaði á þessum áratug með þeim árangri, að verðbólga hefur rénað mjög í Evrópulöndum, en at- vinnuleysi hefur jafnframt vaxið mjög verulega. Það er að vísu álitamál, hversu góð býti það hafa verið og hvort ríkisstjórnir þessara landa áttu raunverulega annarra kosta völ, en það er önnur saga. Hér á landi ríkir þó allt annað atvinnuástand en í flestum Evrópulöndum að því leyti, að þrálát- ur vinnuaflsskortur er landlægur hér og er nú talinn munu nema um 3% af mannafla. Það er þess vegna ólíklegt, að aukið aðhald í efnahagsmálum hér hefði nokkurt atvinnuleysi í för með sér. Hverer ábyrgur?____________________ Tökum að endingu hliðstætt dæmi úr daglegu lífi. Hugsum okkur, að stjórnvöld lýsi því yfir, að húsbygging- ar undir tilteknu fjalli séu óheimilar vegna hættu á eldgosi og þeir, sem byggi hús í hlíðinni í leyfisleysi, geri það á eigin ábyrgð. Lóðaverð undir fjallinu hrapar. Fjöldi fólks freistast til að byggja þrátt fyrir bannið. Öll húsin eru ótryggð. Tíminn líður. Fjallið gýs. Hraunstraumurinn stefnir á húsin. Fólkið biður um hjálp. Hvað á ríkisstjórnin að gera? Á hún að reyna að stöðva strauminn eða bæta skaðann á kostnað almennings? Ef hún gerir það, hvaða von er þá til þess, að fólk taki mark á sams konar byggingarbanni síðar? 3

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.