Lesbók Morgunblaðsins - 15.06.1985, Blaðsíða 3
sisiniöiiöitiiHbiiÁinnimiais
Útgefandi: Hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvstj.:
Haraldur Sveinsson. Ritstjórar: Matthías Jo-
hannessen, Styrmir Gunnarsson. Ritstjórnar-
fulltr.: Gisli Sigurósson. Auglýsingar: Baidvin
Jónsson. Ritstjórn: Aðalstræti 6. Sími 10100.
Draumar
halda áfram að vera óþrjótandi rannsóknarefni.
Ásgeir R. Helgason sálfræðingur rekur ýmsar kenn-
ingar, allt frá Freud og Jung til nútíma vísinda-
manna, en niðurstöðurnar virðast ekki á einn veg.
Hvað sem því líður halda íslendingar áfram að taka
mark á draumum og 71% þjóðarinnar trúir á for-
boðagildi drauma.
Karlmenn
eiga yfirleitt beztu vini sína í röðum karla og þykir víst
betra að svo sé eftir að þeir eru kvæntir. Hér er fjallað
um það fyrirbæri, sem stundum veldur óróleika hjá
eiginkonunni, þegar bezti vinur mannsins er önnur
kona.
Forsíðan
er málverk eftir Miriam Bat Yosef, sem raunar
heitir María Jósefsdóttir á íslenzku. Hún er íslenzk-
ur ríkisborgari, en býr í París og heldur nú sýningu
á Kjarvalsstöðum, en þar er meðal annars myndin á
forsíðunni.
Stórfætla
er nafnið á leyndardómsfullri veru, sem menn þykjast
hafa séð á fáförnum slóðum í Ameríku og jafnvel náð
myndum af. Þessi vera er líkust risavöxnum apa og spor
hennar hafa víða sést.
ÓLAFUR JÓHANN SIGURÐSSON
Brekkusniglar
Mig bar eitt síðkvöld á samkundu heldri manna:
Svartklæddir ráðherrar, þingmenn og oddvitar lýðsins
á ýmsum sviðum, helzt til feitlagnir flestir,
fund þennan prýddu og höfðu til hans stofnað
í heiðursskyni við listir í löndum sínum,
lifandi menningu granna, frænda og vina.
Þýðum og mjúkum rómi hver ræða var flutt
og rakinn í stórum dráttum sá bræðralagsandi
sem oss hefði tengt og orðið hvati til dáða.
Ýmsum varð jafnframt litið til hliðarsalar,
að opnum dyrum, því innan þeirra í bjarma
örfárra Ijósa, sem brátt yrðu fleiri og stærri,
Ijúffengar sneiðar á borðum og blikandi glös
biðu þess ásamt þjónum að ræðunum lyki.
En ég var drengur austanfjalls sem oftar,
utan við mig og hættur að fylgjast með vizku
menningarfrömuða, staddur í bröttum brekkum
hjá Borgarhólslæknum ogfarinn að skoða snigla.
Svartir oggljáandi, alsettir örsmáum rákum
um endilangt bakið, en gráir og Ijósir á kviðnum,
feitir, linir ogmjúkir mjökuðust þeir
um mosann oggrasið í rekju að áliðnu sumri,
teygðust ísundur og voru að maula og muðla
ímiðjum brekkunum, ellegar hvíldust við blað,
lágu á meltunni makráðir, ef til vill sljóir
af miklu áti, fengu sér kannski blund,
eða hlustuðu á tónlist, á lækjarins lágværa nið,
í Ijóðrænni vímu, rétt eins og bókmenntamenn.
Við hvin af Ijá éða vængjum hvekktustþeir skjótt,
hnipruðust saman og bærðu ekki vitund á sér,
slíðruðu ískyndi útstæða augnstilka sína
andspænis nálægum háska af risaveldi,
hurfu inn ígljúpa ogrökkvaða silakeppssæld
sjálfra sín — og biðu þar kyrrðar og næðis:
Hvað skyldu jötnar eiga sökótt við oss,
auðmjúka friðsemdarsnigla á grösugum hnjótum!
Og hvað ætli hvinur og blístur boði að vér
verðum brytjaðir sundur ellegar gleyptir og meltir!
Svo kipptist ég snögglega burt frá Borgarhólslæknum
og brekkusniglunum mínum digru og svörtu,
því síðustu ræðunni um ljóðrænan arf var lokið
ogljósum fjölgaði á svipstund í hinum salnum:
Menn stóðu á fætur, en fóru að öllu með gát,
og færðust þó hægt og hægt nær sama marki,
þokuðust áfram með mildum menningarsvip
til matar og drykkjar, inn í sæld og rekju.
Meira en allt
Þetta er ótrúlegt. Þið hafið meira en
allt!, sagði Júgóslavi sem hafði viku
viðdvöl hér á landi ásamt konu sinni í
vor. Þau dvöldu hjá íslensku fólki sem
þau kynntust í heimalandi sínu þar
sem þau reka lítið fyrirtæki. Þessi
júgóslavnesku hjón eru vel stæð og
hafa aðstæður til að ferðast til út-
landa í sumarleyfum sínum. Þau hafa gert víðreist og
meðal annars farið í frí til Bandaríkjanna.
Hjónin ferðuðust nokkuð um þessa daga og spurðu
margs. Þeim þótti frelsi á öllum sviðum, velmegun,
vöruúrval, tískustraumar, menntun og menningarlíf
hérlendis nánast handan við það sem hægt væri að láta
sér detta í hug hjá svo lítilli þjóð. Þar við bættist að hér
væri enginn her og því engir, herskylda, en samt öryggi
og friður. Ótrúlegt!
Júgóslövunum þótti skrýtið að heyra fólk kvarta yfir
að erfitt væri að búa í landi þar sem veðurfar væri svo
óstöðugt og leiðinlegt. „Þó að þið hafið nú ekki veður-
blíðu allt árið um kring ofan á allt annað, skárra væri
það!“
Konan, sem kom með ávexti í poka til landsins handa
vinkonu sinni, því hún hafði veitt því athygli að hún
borðaði mikið af ávöxtum í Júgóslavíu og dró af því þá
ályktun að þeir væru fáséðir hér, varð agndofa af undr-
un þegar hún skoðaði matvöruverslanir í Reykjavík.
Hún kvaðst oft gera sér ferð yfir landamærin til að
kaupa matvörur í Trieste, stærstu hafnarborg Ítalíu,
því þar væri svo mikið úrval, en það væri ekkert í
líkingu við það sem hér gerðist. Það var nú það.
Flest erum við þeirrar gerðar að við vanmetum það
sem við höfum og ofmetum það sem við sækjumst eftir.
Þetta á bæði við um stóra hluti og smáa. Það er því
ekkert óhollt að staldra við þegar manni gefst kostur á
að sjá umhverfi sitt og lifnaðarhætti með augum þeirra
sem búa við ólík skilyrði.
Séra Árelíus Níelsson sagði eitt sinn frá ungum
manni sem gaf sig á tal við hann á kaffihúsi í ísrael,
þegar hann heyrði að hann væri frá íslandi. Ungi mað-
urinn sagðist hafa heyrt um ísland í herskólanum, land
þar sem ríkti friður, lýðræði, velmegun og menntun og
heilbrigðisþjónusta stæði öllum til boða.
Hann bað séra Árelíus að gefa sér einhvern hlut sem
hann hefði gengið með eða borið á sér því hann taldi
gæfu fylgja hlut frá svo ótrúlegu landi.
Við erum líka býsna hamingjusöm með að vera ís-
lendingar, ef marka má skoðanakannanir. Þessi ham-
ingja kemur þó stundum sérkennilega fyrir. Ef við höf-
um fylgst með fréttum alveg nýverið vitum við að:
— Ofskynjunarlyfið LSD er hér í umferð, þótt allir
viti að það getur haft í för með sér geðveiki, jafnvel
varanlega. Það sem einu sinni var kallað eiturlyf er nú
kallað fíknilýf og eiturlyfjaneytendur eru fíknaefna-
neytendur. Allar tegundir fíkniefna eru fáanlegar á ís-
landi í dag, samkvæmt viðtölum í dagblöðum við kunn-
uga, og þess er mikið neytt, bæði af ungu fólki og því
sem eldra er og telst virðulegra. Sá tími mun liðinn að
óhætt sé fyrir þann sem lendir í höndum lögreglunnar
að segja til þeirra sem hann skipti við, ef hann ætlar að
halda heilsu. Ótrúlegar sögur eru í umferð um það sem
gerist og viðgengst í þessum málum. Á sama tíma verja
stjórnendur þjóðarinnar og ýmsir merkir menn ómæld-
um tíma í að þrefa um hvort Ieyfa eigi innflutning á
áfengum bjór, sem þegar er borinn inn í landið af
ákveðnum starfsstéttum og ferðafólki, auk þess sem hér
eru bjórkrár á hverju horni, þótt þar sé „aðeins" selt
bjórlíki.
— Samkvæmt skoðanakönnun myndu 40 þúsund ís-
lendingar vilja flytjast til útlanda til frambúðar og um
70 þúsund í minnst fimm ár. Tæplega þriðjungur alls
fólks á aldrinum 18—22 ára vill flytjast burt til fram-
búðar ef marka má niðurstöður þessarar könnunar.
— Hjá hamingjusömustu þjóð í heimi, sem hefur
meira en allt, að áliti sumra útlendinga, eru fram-
kvæmdar tvær fóstureyðingar á dag að meðaltali allt
árið. Þannig voru framkvæmdar 700 fóstureyðingar ár-
ið 1983. Verulegur hluti þessara fóstureyðinga er ef-
laust vegna nauðgana, heilsubrests viðkomandi konu
eða óbærilegra aðstæðna. Samt sem áður er þetta und-
arlega há tala hjá upplýstri og menntaðri smáþjóð, þar
sem allir hafa aðgang að getnaðarvörnum.
Á sama tíma eru börn sótt til fjarlægra heimshluta
handa íslendingum sem ekki geta eignast börn. Skelegg
ung kona sagði við mig þegar þetta bar á góma, að það
væri siðlaust að nefna þetta tvennt í samhengi. Þetta
væru óskyld mál. Auk þess gæti enginn ætlast til þess í
nútíma þjóðfélagi að kona gengi með barn til að gefa
það frá sér. Það er mikið til í því. Engu að síður er hér
einhver skekkja í kompásnum.
Hér er aðeins drepið á fáein atriði úr fréttum sem
koma upp í hugann þegar maður staldrar við vegna orða
útlendings til að skoða hvernig þjóð sem hefur meira en
allt bregst við slíku meðlæti.
Á sama tíma er auðvitað ótal margt skemmtilegt,
merkilegt og fréttnæmt að gerast. Fólk sem er að yrkja,
mála eða syngja lætur vita af sér. Alls staðar spretta
upp leikhópar og kórar. Kaffihús og bjórkrár setja orðið
svip á bæjarlífið. Við eigum óperu, góð leikhús, erum að
byggja tónlistarhöll, höldum kvikmyndahátíð og Dag
ljóðsins og erum kát. Blaða- og tímaritaútgáfa er áreið-
anlega einsdæmi miðað við margumtalaðan fólksfjölda
og tímaritin bera nöfn eins og Mannlíf, Nýtt líf og
Lúxus. Unga fólkið menntar sig, stundar líkamsrækt,
tekur þátt í alls kyns samkeppnum sem varða hæfni og
útlit og er á margan hátt heilbrigðara og frjálsara af
sér en nokkru sinni fyrr. Og kannski erum við ham-
ingjusamasta þjóð í heimi eftir allt saman. Hinsvegar
þætti mér gaman að hitta þann íslending sem í daglegu
lífi sínu er þeirrar skoðunar að hanna hafi allt, — hvað
þá meira en allt.
JÓNÍNA MICHAELSDÓTTIR
LESBOK MORGUNBLAÐSINS 15. JÚNl 1985 3