Lesbók Morgunblaðsins - 14.08.1993, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 14.08.1993, Blaðsíða 5
Forsíða bókarinnar sem Solum Forlag hefur gefið út í Noregi. Teikningar í bókinni eru eftir Anne-Lise Knoff og hefur hún byggt á gömlum Maríumyndum. Fyrirmynd hennar að myndinni á forsíðu er María frá Hedal, norsk Maríumynd nær kjama málsins en þýðing. Skáld hljóta alltaf að enduryrkja þegar ljóðum er snar- að af einu máli á annað. Ivar Orgland hefur mikla reynslu á þessu sviði. Áður hefur hann þýtt á norsku Sólarljóð, helgikvæðið Rósu, sem áður er á minnst, Milsku, sem nú er nýkomin út, Heilaga kirkju eftir Stefán frá Hvítadal, svo og helgikvæðin Harmsól, Líknarbraut og Niðurstigningarvísur. Öll era þau úr kaþólskum sið á íslandi og öll mega heita óþekkt hér á landi. „MARIA DROTTNING HU- ERN MANN HEYRIR“ En hversvegna heitir kvæðið Milska? Ef til vill er það fornt orð, sem ekki er leng- ur til, en til eru þær skýringar, sem segja að milska sé mjöður og þó einna helst „sætur hungangsdrykkur". Þetta er tákn- rænt fyrir Maríu guðsmóður og hliðstætt öðrum nafngiftum svo sem Lilju og Rósu. í hörðum heimi er María mildin sjálf og mér finnst ekki ólíklegt að milska gæti einmitt verið dregið af mildi. Milska er til í þremur handritum, sem öll voru varðveitt í Ámasafni. í einu hand- ritanna vantar aftan á kvæðið og þar hef- ur Ámi Magnússon skrifað: „Milska, qvædi so kallad, sine titulo et nomene authoris, vantar mikid aptan vid“. í öðru handriti er furðuleg yfirskrift með rauðu bleki eftir skrifarann sjálfan: „hier hefur Rosu sem sigurdur blindur hefur kuedit“ Hér er eitthvað málum blandað, en Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn hefur rannsakað þessi handrit gaumgæfílega og taldi að Milska og Rósa væru ekki eftir sama höfund og að rétt sé að eigna Sigurði blind aðeins Rósu. Þó er eftirtektarvert að þessir löngu kvæðabálkar enda báðir á sömu ljóðlínu. í Rósu lýkur 133. erindi svo: „endann fel ek svo gudi áá hendi“, en 90. erindi Milsku: „endan fel eg svo gvdi á hendi.“ Svo mikill sem vegur Lilju hefur orðið, má teljast furðulegt að Milska sé að heita má alveg ókunn nema meðal fárra fræði- manna. Milska getur að vísu ekki talizt jafnast á við Lilju, en þetta er engu að síður merkilegt og epískt kvæði, sem grein- ir frá fæðingu' Krists og síðar pínu og dauða Mannssonarins. En um leið víkur höfundurinn mjög oft að hinni mildu móð- ur, sem er um leið drottning himnanna, æðri englum. Um muninn á þessum trúarlegu, ís- lenzku miðaldakvæðum segir Ivar Org- land: „Lilja varð fljótlega frægt kvæði og dáð og er talið bezt þessa kveðskapar frá 14. öld sem segja má að sé helgaður Maríu guðsmóður. Lilja er 100 erindi og það er engu líkara en höfundur Rósu sé að reyna að komast framúr Lilju með því að hafa sitt kvæði 133 erindi og raunar tveimur betur, sem talið er víst að hafi fallið nið- ur. Rósa þykir gott kvæði; það er drama- tískt og epískt, en ekki eins lýrískt og Lilja; ekki eins auðugt af skáldskaparleg- um táknum. Höfundur Milsku lætur aftur á móti þesskonar skáldskaparföng ekki vanta. Milska er ríkari af skáldamáli og ljóð- tækni; það er þróaðra kvæði en Rósa, þó ekki nái það sömu snilld og Lilja. Að líkind- um er Milska ort eftir 1400, eða talsvert síðar en Lilja, kannski heilli öld. Rósa er líka yngra kvæði en Lilja. En það sem þau eiga öll sameiginlegt er að benda til sér- stakrar Maríudýrkunar á íslandi." MARÍUMYNDIR Efalaust hefur fjöldi Maríumynda piýtt íslenzkar kirkjur frá þessum tíma og næst- um allar eru þær glataðar; hafa verið gerð- ar útlægar ásamt dýrlingamyndum eftir siðaskiptin. Elzt Maríumynda á íslandi er María frá Skarði á Skarðssrönd; mynd ofin í altarisklæði sem lengi var í kirkj- unni á Skarði, en er nú varðveitt í Þjóð- minjasafninu. Myndin er svo gömul að hún er gerð í byzantískum stíl og eins og þá tíðkaðist var María sýnd sem drottning með kórónu og heldur á Jesúbaminu. Hin veglega útgáfa Solum Forlag á Milsku er skreytt grafískum myndum eftir norsku listakonuna Anne-Lise Knoff, sem hefur mikla reynslu í myndlýsingum af þessu tagi, því hún hefur áður unnið mynd- ir í Sólarljóð, Heilaga kirkju, Rósu og Harmsól; allt við þýðingar Ivars Orglands. í hinni nýju útgáfu af Milsku eru 15 sjálfstæðar myndir Anne-Lise Knoff. Hún hefur valið þá leið að byggja á Maríumynd- frá um 1250. um sem til eru frá fyrri öldum og leitar víða fanga. Þar á meðal er „Vor frú frá Villers" (Notre Dame de Villers) flæmsk mynd í rómönskum stíl, Maríumynd frá Graz í Austurríki, Svarta madonna frá Póllandi, Kyndilmessu-madonna, mynd frá því um 1700 og síðast en ekki síst: María frá Hedal, norsk Maríumynd frá Valdres, skorin í eik um 1250. Listakonan notar þessar fyrirmyndir fijálslega og bætir ýmsu við í þeim stíl sem hún er kunn fyr- ir. Það er myndin sem gerð er eftir Maríu frá Hedal, sem prýðir kápu bókarinnar. MILSKA VERÐUR FLUTT í NOREGI „Á því er enginn efi“, segir Ivar,„að kirkj- an hefur fengið strangara og kaldara svip- mót síðar meir þegar dýrkunin á Maríu var ekki lengur svo sem verið hafði. Stef- án frá Hvítadal segir svo í ljóði: Messan nýja var myrk og köld, Maríu nefndi enginn." En hvað með Ivar sjálfan, hefur hann kannski orðið kaþólskur í þessari orða- glímu þar sem yrkisefnið er að stærstum hluta dýrkun á Maríu. Ivar svaraði því brosandi eins og hans er háttur, að sjálfur sé hann afar fijálslyndur í þessu efni; kunni vel að meta ýmsa kosti sem bæði sé að finna hjá kaþólskum og lúterskum. Til dæmis um hvað þessum innflutningi á andlegu fóðri og gömlu menningarverð- mæti frá íslandi er vel tekið í Noregi, má geta þess að tónverk hefur verið samið við Milsku. Það gerði norska tónskáldið Kjeld Mörk Karisen, sem sigraði í sam- keppni sem fram fór vegna vígslu orgels- ins í Hallgrímskirkju. Öll 90 erindin verða flutt í Tönsberg og Asker í október. Sumt flytja einsöngv- arar, sumt flytja kórar og sumt verður lesið upp. Ég minntist á það við Ivar hvort fýsilegt þætti í Noregi að gefa úr íburðarm- ikla bók með kvæði eins og Milsku. Hann kvað forlagið Solum líta á það sem menn- ingarátak og fengi forlagið styrk til þess. FLEIRA Á DÖFINNI Ivar er einnig búinn að þýða á norsku annað íslenzkt miðaldakvæði, Líknarbraut, sem er dróttkveðið; Milska er aftur á móti ort undir hrynhendum hætti. Forlag- ið Solum ætlar líka að gefa þetta kvæði út og Anne-Lise Knoff er þegar búin að vinna myndir í þá bók. Líknarbraut er nokkuð langt kvæði, en líkt og Harmsól, annað dróttkveðið helgikvæði, er það ekki helgað Maríu, heldur getur það talizt trúar- játningakvæði, almenns eðlis. Þá er Ivar búinn að snara Niðurstigning- arvísum, sem eru enn eitt íslenzkt miðalda- kvæði. Það greinir frá helför Krists; hann fer til Heljar og tekur þaðan með sér alla Adamsætt og fer með hana til himna. Um leið er Satan sigraður og óskaðlegur gerð- ur. Kvæðið er styttra en Lilja og Rósa. „Menn töldu,“ segir Ivar, „að Jón biskup Arason hefði ort Niðurstigningarvísur og Jón Helgason, prófessor, hefur sagt að það geti staðizt. En það er eitt sem mælir á móti því. Kvæðið hefði að öllum líkindum orðið frægt ef það væri eftir Jón biskup, en svo er ekki. Það var alla tíð fremur lítið þekkt. En þetta er sterkt kvæði og Jón Arason hefði verið alveg fullsæmdur af því. Áhrifa- miklar eru lýsingarnar á því þegar Kristur á í andlegu stríði við Djöfsa, en venjuleg vopnaviðskipti eru ekki nefnd. Kristur sigr- ar með sínum andlega krafti. Og þarmeð er ég líklega búinn að þýða öll helztu ís- lenzku helgikvæðin frá miðöldum. Mér fínnst undarlegt tómlæti að ekki skuli vera til íslenzkar útgáfur af þessum miðaldakvæðum, öðrum en Lilju, sem Knut Ödegaard gaf út með viðhöfn ásamt Geisla. Á norsku eru aftur á móti til tvær Liljuþýðingar eftir okkur Knut. Það verður alltaf persónulegur blær eða tök á svona þýðingum, svo þessar þýðingar okkar eru eitthvað ólíkar, án þess að ég hafi sérstak- lega verið að bera það saman." ORÐABÆKUR Nú í sumar kemur út norsk-íslenzk orða- bók, sem Ivar hefur unnið að í mörg ár. Árið 1985 kom út íslenzk-norsk orðabók og hún kom í 2. útgáfu á síðasta ári. Þörf- in fyrir hana var áreiðanlega fyrir hendi því hún hefur selst vel. Ivar: „Hróbjartur Einarsson, sem vinnur hjá Norðurlandaráði í Kaupmannahöfn, hefur samið stóra og ítariega norsk- íslenzka orðabók og hún er góð fyrir þá, sem þurfa á stórri orðabók að halda. Mín- ar orðabækur eru aftur ájnóti minni og henta því betur til að taka með sér, til dæmis á ferðalögum. Báðar eru góðar og nauðsynlegar. Eg hef unnið að þessu í félagi við Frederik Raastad, menntaskóla- kennara. En af þessu öllu má sjá, að það hefur ekki verið neinn skortur á verkefnum hjá mér. Doktorsritgerðin mín, Stefán frá Hvítadal og Noregur, er líka komin út á íslenzku núna í þýðingu hins aldna en síunga Steindórs Steindórssonar, fyrrver- andi skólameistara á Akureyri“. BRAGI SIGURJÓNSSON Iðrunar- sálmur landspjalla- mannsins Faðir minn átti fagurt land: fjöllin lithrein í bragði, innlönd gróin og útnes skyggnd, angan af skógum lagði, hafaldan tær um fjörur fór földuð skærsólarbliki. í heiminum öllum var ekkert land órafjær sora og ryki. Faðir minn átti fagurt land: fuglar þar dýrðir sungu höfundi lífs og lækur sæll kvað ljóð honum snjallmæltri tungu. Flaumelfur dansaði stall af stall og stakk sér í dagmálafossinn í sömu andrá og sólin reis og sendi þeim morgunkossinn. Faðir minn átti fagurt land, hann fól mér þá listasmíði, ungum og stórhuga ætlaði mér að auka því sæmdir og prýði. Nú afleikur minn blasir öllum við: oftekinn varð mér fengur, og föður míns stolta fósturland er fegursta storð ekki lengur: Fjöll eru sporug, fjörur við flýtur vogrek á bárum, fagurbragð nesjum farið af, flaka innlönd í sárum, engan ber skógarilm að sjó innan frá dalahliðum, lækur, sem glaður við gróður kvað, gnístir tönnum í skriðum, seinfær er á af sandi þung, sístendur fok um heiðar, örskreið er rofmold út til hafs, ekkert sem varnar leiðar. Ég á mér dætra- og sonasveit, sárt er að búa að tapi: þeim verður lengi, það er sýnt, þungt gagnvart mér í skapi. Höfundur er fyrrverandi alþingismaöur og býr á Akureyri. EINAR INGVI MAGNÚSSON Frelsis- „ dansinn Á brattann liggur leið mín í frelsið á fjallatindum Um mig leikur golan Við hvem sinn fingur í dansi við svalan vindinn undir söngrödd móður náttúru, sem syngur frelsissöngva í víðum fjallasal. Sál min tekur feimnislega í útrétta hönd himinsins hneigir sig í auðmýkt á þröskuldi víðáttunnar miklu og segir: „Takk, ég vil dansa. “ Sála mín blómstrar gleðiáru og lifir sumar andartaksins. Af blómlegum krónum falla frjó og fjúka burt með svölum andvaranum um klettaborgir og inn í fjöll. Sum þjóta til fundar við nýfædda vatnsdropa úr skýjum himinsins á meðan önnur líta út á hið stóra haf. Höfundur er Reykvíkingur og gaf út sína fyrstu bók á síðastliðnu ári. LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 14.ÁGÚST1993 5

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.