Lesbók Morgunblaðsins - 17.06.1995, Blaðsíða 9

Lesbók Morgunblaðsins - 17.06.1995, Blaðsíða 9
EGILS SAGA OG FORNIR JÁRNHAUSAR Aírlandi í fomöld þótti enginn læknir naskari en Fingín, enda þurfti snillingur ekki annað en að líta framan í sjúkling til að vita hvað honum var að meini. í hvert skipti sem hann kom nálægt húsi gat hann ráðið af reyknum sem lagði út um ljóra hve marg- ir væru sjúkir þar inni. Með því að honum skeikaði hvergi í sjúkdóms greining og lækn- ingu, þótti sjálfsagt að leita til hans þegar allir aðrir brugðust. Hitt þykir einnig vel af sér vikið er nú- tíma læknir ræður af letrum einnar forn- sögu hvað gekk að miklum garpi sem lést saddur lífdaga að Mosfelli fyrir röskum þúsund árum. Árið 1984 birti Þórður Harð- arson læknir kynngi magnaða ritgerð í Skírni um sjúkdóm Egils Skalla-Grímsson- ar. Lesöndum Eglu hafði löngum verið ljóst að skáldið gekk ekki heill til skógar á efstu árum sínum; hann var hrumur af elli, reik- ull á fótum, blindur og kulvís. En enginn gerði sér ljóst hvað amaði að karli fyrr en Þórður leit söguna læknis augum, skýrði meinsemd Egils til hlítar og sannaði að svo kallaður beinasjúkdómur Pagets hrjáði hið forna skáld. Vafalaust hefur grein Harðar Þórðarson- ar orðið mikil forvitnibót stallbræðrum hans í læknisfræði, enda varpar hann nýju ljósi á sögu og eðli tiltekins sjúkdóms; með grein- argerð Harðar urðu þjáningar Egils tækni- legt vitni um annarlega beinahörku. Þó mun lesendum Egils sögu ekki þykja minna koma til þess afreks sem Hörður hefur unnið á sviði ritskýringar með þesari grein. Hann beitir í rauninni vísindalegri þekkingu sinni á læknisfræði í því skyni að gera athafnir Egils skiljanlegri nútímafólki en áður tíðkað- ist; eðli sögunnar í heild verður ljósara um leið. Fyrir nokkrum árum tókst bandaríski fræðimaðurinn Jesse Byock á hendur að rannsaka málið enn rækilegar en Þórður læknir hafði gert; með skeleggum ritgerð- um, hálærðum athugasemdum og mikilli snilli hefur hann aukið mjög á hróður þeirra beina sem forðum hvíldu í vígðri mold að Mosfelli. Nú er Egils saga Skalla-Grímssonar orðin Hauskúpa Egils Skallagrímssonar hefur verið til umræðu að undanförnu. Fleiri dæmi má fmna í fornsögum um sama stefið; þá hörðu járnhausa sem vopn orkuðu ekki á. Óeðlileg beinharka kann að hafa stafað af því að berserkir neyttu einhvers, sem annað fólk lagði sér ekki til munns. Eftir HERMANN PÁLSSON fræg um allan heim, og það sem einkum veldur orðstír hennar er ekki ritsnilldin sjálf heldur sú eindæma harka sem auðkenndi hauskúpu Egils frá öðrum mannlegum hjarnaskálum. 2. Þegar kveðskap sleppir þykir Egils saga svo ljós að þar verði hvergi villst um myrkv- an staf, en þó hrökk lýsing hennar á Agli í lifanda lífi ekki til að greina beinasjúkdóm Pagets. Hins vegar var höfundur sögunnar svo hugulsamur að láta fljóta með dálítinn sprett um bein Egils sem reyndist Herði Þórðarsyni öruggur leiðarvísir og vitnisburð- ur um eðli sjúkdóms. Svo hagaði til að Egill lauk ævi sinni í heiðnum sið en hafði þó látið prímsignast þegar hann var á Eng- landi, „því að það var þá mikill siður, bæði með kaupmönnum og þeim mönnum er á mála gengu með kristnum mönnum, því að þeir menn er prímsignaðir voru höfðu állt samneyti við kristna menn og svo heiðna, en höfðu það að átrúnaði er þeim var skap- felldast." Egill gat því með góðri samvisku haldið áfram að dýrka Óðin, enda var það eitt hinsta verk skáldsins að grafa silfur í jörðu, svo að hann ætti sér innistæðu fyrir handan til að gamna sér við í Valhöllu. Óðinn sjálfur setti þau lög að hver skyldi njóta þess fjár er hann sjálfur hefði í jörð grafið. Rétt eins og sjálfsagt þótti um slík- an garp sem Egill var, þá lét Grímur bóndi á Mosfelli leggja hann í haug með vopnum og klæðum. En skömmu síðar er skipt um sið og Valhöll hverfur úr tísku. Stjúpdóttir Egils lét flytja jarðneskar leifar hans til kirkju þeirrar er reist var eftir kristnitöku, enda mun karl þá hafa notið prímsigningar sinnar. Löngu síðar, að því er virðist, var kirkjan færð og voru þá tekin upp þau bein sem þar höfðu legið i moldu. Undir altarisstað í gömlu kirkjunni fundust furðu stór manna- bein sem gamlir menn eignuðu Agli. Skapti prestur var staddur þar, vitur maður. Hann tók upp hausinn Egils og þótti undarlega mikill og þungur og allur báróttur utan svo sem hörpuskel. Hörður læknir tekur öll slík auðkenni á hauskúpu til greina. Þá vildi Skafti forvitnast um þykkleik haussins. Tók hann þá handöxi vel mikla og reiddi annarri hendi sem harðast og laust hamrinum á hausinn og vildi brjóta, en þar sem á kom hvítnaði fyrir en ekki dalaði né sprakk, og má af slíku marka, að haus sá mundi ekki auðskæður fyrir höggum smá- mennis, meðan svörður og hold fylgdi. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkju- garði að Mosfelli. 3. Herði Þórðarsyni og Jesse Byock verður seint fullþakkað fyrir þann mikla greiða sem þeir hafa gert Egils sögu og lesöndum henn- ar með rannsóknum og greinum, en hins er þó skylt að minnast að ritskýring er í eðli sínu býsna fólkin og fjölræð, enda er hægt að virða fornsögur fyrir sér af ýmsum sjónarhólum. Beinamálum Egils er engan veginn lokið, þótt rökstudd skýring á sjúk- dómi hans sé nú orðin hluti af vestrænni menningu. Fyrirbærinu HÖRÐ HÖFUÐ- BEIN bregður fyrir í ýmsum sögum utan Eglu og er því skylt að gefa gaum að slík- um frásögnum. Egils saga er einstæð að því leyti hve skýra grein hún gerir fyrir beinahörku, en þó skyldi enginn ætla sér reifa beinamál til hlítar nema hann taki önnur vitni einnig til greina. Glefsan úr Eglu hér að ofan er þegin frá Bjarna Einarssyni, sem hefur rýnt rækilega í handrit sögunnar og betrumbætt orðalag hennar, svo að um munar, stafsetningu færði ég til nútíma venju. Bjarni er glöggur og hugkvæmur fræðimaður og lætur sig ærið margt skipta í skýringum sínum. Árið 1976 birti hann greinina „Hörð höfuðbein“ í afmælisriti Kristjáns Eldjárns, og ber þar frásögn Eglu saman við beinagrefti í Bjarn- ar sögu Hítdælakappa, Grettlu, Eyrbyggju, Flóamanna sögu og Laxdælu. Gísli Sigurðsson: Af Agli, 1985. Síðasti spretturinn í grein Bjarna varðar sérstaklega túlkanir þeirra Þórðar Harðar- sonar og Jesse Byocks á beinahörku Egils, og er hún þó átta árum eldri en grein Harð- ar. ^Líklega er frásögn Jómsvíkinga sögu af Ásláki hólmskalla elsta skrifaða sögnin um furðusterka hauskúpu formanns,“ segir Bjarni og bendir á hvernig kauði hagar sér í orrustunni á Hjörungavogi, þegar hann „etur fram berum skallanum um bardag- ann.“ Sótt er að karli, höggvið í höfuð hon- um með sverðum og öxum, „og beit ekki á, og hrýtur úr skallanum við höggin.“ Svo lauk þó ævi hans að Eyfirðingurinn Vigfús Víga-Glúmsson heggur með steðja í höfuð Ásláki svo að í heila stóð; slík tiltekt reið dólgi að fullu. Bjami Einarsson ber hörkuna í hauskúpu Ásláks saman við þijá staði í öðrum sögum sem hníga í svipaða átt. I fyrsta lagi við ummælin um hjarnaskál Egils „að haus sá mundi ekki auðskæður fyrir höggum smá: menna, meðan svörður og hold fylgdi." í öðru lagi við frásögn Grettlu að Þorbjörn öngull hjó saxi í höfuð Gretti, og brotnaði þá skarð í saxið. Og í þriðja lagi við frá- sögn Heimskringlu af drápi Háreks í Þjóttu. Magnús góði gefur veganda þykka, vegg- slegna öxi til föðurhefnda: „Ætla svo, Ás- mundur, að hörð munu bein í þeim karli.“ Ásmundur þiggur öxina og heggur henni í höfuð Háreki, sem hlaut bana, en eggin féll úr öxinni við höggið, svo að vopnið tald- ist ónýtt eftir. 4. Svo skemmtilega hagar til að faðir Vig- fúss þess sem réð niðurlögum Ásláks hólm- skalla með steðja varð á sínum tíma bana- maður Bjarnar járnhauss, sem Víga-GIúms saga kallar berserk mikinn, enda var hann einstakur hrokagikkur, ögraði mönnum og skoraði á þá til hólmgöngu. Viðurnefni ber- serks gefur glögglega í skyn að þar hafi verið á ferðinni dólgur með helsti hörð höf- uðbein, enda reynir Glúmur ekki að særa hann með vopnum heldur lætur hann dynja mörg högg á durgi sem lætur bráðlega líf- ið. Surtur járnhaus heitir víkingur mikill í Flóamanna sögu, „hinn mesti illgerðamað- ur,“ hann skorar á Ólaf jarl til einvígis og fellur þó á hólmstefnu fyrir íslendingnum Þorgilsi, sem heggur undan honum fótinn; höfuðbeinin á Járnhausi mun hafa verið öllu harðari en leggirnir. Háreki járnhausi í Þorsteins sögu Vík- ingssonar er lýst á þessa lund: „Þá er hann var sjö vetra var hann sköllóttur um allt höfuð. Haus hans var svo harður sem stál. Því var hann járnhaus kallaður." Björn blá- tönn hjó sinni ógnarlegu tönn í haus Há- reki, „og skaðaði hann ekki.“ Nú munu fáir treysta þessari fornsögu svo vel að þeir leggi fullan trúnað á hveija staðhæf- ingu sem í henni er fólgin, en þó verður hinu naumast neitað að ’ninn óþekkti höfund- ur hennar mun hafa þegið slíka vitneskju úr einhveiju fornu minni um hausharða garpa. í sömu sögu er getið um Herbrand hinn höfuðmikla föður Ötunfaxa víkings sem engin járn bitu, ekki einu sinni sverðið Angurvaðill. Göngu-Hrólfs saga lýsir mögnuðum ber- serkjum; einn þeirra var Þórður Hléseyjar- skalli, sem lét sér ekki bregða þegar Sigurð- ur ullband hjó til hans, heldur atti hann skallanum á móti, rétt eins og Áslákur hóln> skalli gerði á sínum tíma, og beit ekki á. í orrustunni miklu (31. kap.) gekk Þórður fram með miklu kappi mót andstæðingum. „Hann atti fram berum skallanum, en þótt á hann væri höggvið með sverðum eða öx- um, þá beit ekki.“ Slíkir atburðir gerast í heimi hugarburðar, óraveg frá veruleika Eglu. Nær heimi hennar er viðureign tveggja Vestfirðinga í Hávarðar sögu ísfirð- ings, þeirra Atla hins litla í Otradal og Þor- gríms Dýrasonar. Báðir eru þeir fjölkunnug- ir, enda bítur hvorugan vopn. Orð Þorgríms eru sérstaklega eftirminnileg: „Hví dirfist þú að tala um slíkt, því að eg hjó til þín áðan svo sem mér var hægast, og beit ekki á þinn vonda skalla.“ Atli lét sér ekki bregða við smámuni, þótt lítill væri vexti: „Hann greyfist niður að honum Þorgrími og bítur sundur í honum barkann.“ Þetta afrek hef- ur verið borið saman við meðferð Egils Skalla-Grímssonar á Atla hinum skamma: „Egill greyfðist að niður og beit í sundur í honum barkann.“ Þeir sem lögðu stund á barkabit voru einkum fordæður og fjöl- kynngismenn. Ýmis önnur dæmi mætti nefna úr forn- sögum um sama stefíð, þá hörðu jámhausa sem vopn orkuðu ekki á. Slíkir menn voru einkum berserkir, enda er ástæða til að ætla að þeir hafí verið Óðinsdýrkendur og fjölkynngismenn. Þótt allt virðist vera á huldu um uppruna Ásláks hólmskalla, þá er freistandi að ætla að hann hafí einmitt verið berserkur. Hann kemur til sögu með því móti að Tófa Strút-Haraldsdóttir gefur hann Búa hinum digra áður en þeir Jómsvík- ingar leggja af stað í feigðarför til Noregs. Þess eru önnur dæmi að höfðingjar ættu berserki og gæfu öðrum. Frægir em sænsku berserkirnir Halli og Leiknir, sem Eiríkur hinn sigursæli gaf Hákoni Hlaðajarli, en hann gaf þá síðan Vermundi hinum mjóva í Bjarnarhöfn, sem lét Víga-Styr bróður sinn fá þá. Oeðlileg beinaharka kann að hafa stafað af því að berserkir neyttu einhvers, sem annað fólk lagði sér ekki til munns, í því skyni að hrinda berserksgangi af stað og slíkt kann að hafa valdið breytingu á gerð beina. Vitaskuld er engan veginn ósennilegt að miklum vígamönnum hafi þótt slægur í hörðum beinum, jafnvel þótt þeir gyldu þeirra í elli sinni. En hvað sem því líður, þá er ástæða til að minnast Ynglinga sögu þegar fjallað er um berserki og aðra járn- hausa að fornu: „Óðinn kunni svo gera að í orrustu urðu óvinir hans blindir eða dauf- ir eða óttafullir, en vopn þeirra bitu eigi heldur en vendir, en menn hans fóru brynju- lausir og voru galr.ir sem hundar eða varg- ar, bitu í skjöldu sína, voru sterkir sem birn- ir eða griðungar. Þeir drápu mannfólkið, en hvorki eldur né járn orti á þá. Það er kallaður berserksgangur." Höfundurerfyrrverandi prófessorvið Edinborg- arháskóla. « LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 17. JÚNÍ 1995 9

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.