Lesbók Morgunblaðsins - 20.04.1996, Side 7
Lífið lék hana grátt
AKUREYRI ári 1878.Vatnslitamynd eftir J.W. Thompson. Þannig leit Akur-
eyri út 6 árum áður en Guðfinna lézt. Síðast þegar bæði andleg og Hkamleg
heilsa var þrotin var henni komið fyrir einn dag í hverju húsi.
PÉTUR
ÞORSTEINSSON
Dansað
við dauð-
ann
Hefur nokkur séð Janis Joplin
nýlega?
Hvert skyldi hún hafa farið?
Það fóru sælustraumar um menn,
þegar þeir sáu hana syngja á sviði.
Hefur nokkur séð Jim Morrison
nýlega.
Hvar ætli hann haldi sig?
Hann lét fólk titra af æsingi,
sem sá hann syngja á sviði.
Hefur nokkur séð Jimi Hendrix
nýlega?
Ætli hann sé einhvers staðar
hérna?
Hann hélt fólki í spennu,
sem sá hann leika á gítar.
ÖII stóðu þau fyrir menningu,
sem fullt af fólki hreifst af.
Enn eru ungmenni að leita að
sama
lífsstíl, sem Janis, Jim og Jimi
stóðu fyrir.
Hefur nokkur séð Jonna Jóns ný-
lega?
Við höfum ekki hitt hann lengi í
kirkjunni.
Hann fermdist ífyrravor - frábær
strákur.
Allir dýrkuðu hann og dáðu,
og honum gekk vel í öllum þáttum
lífsins.
En Jonni drap sig í þunglyndis-
kasti,
eftir að hafa tekið alsælutöflur,
sem sölumenn dauðans seldu hon-
um.
Janis, Jim, Jimi og Jonni þáðu öll
tilboðið,
þegar dauðinn bauð þeim upp í
dans.
Hefur þú áhuga á að þiggja dans-
boð dauðans?
Segðu nei við því og veldu þannig
lífið sjálft.
Leiðrétting
I Lesbók 30. marz sl. urðu þau leiðu
mistök í grein Helga Hálfdanarson-
ar um tvær myndir Hjalta í Vatns-
firði, að myndatextar víxluðust.
María önnur er sú nefnd sem hér
fylgir með, en myndatextinn við þá
mynd stóð undir myndinni af Maríu
rusticu og öfugt. Leiðréttist þetta
hér með og eru höfundur og lesend-
ur beðnir velvirðingar.
A19. ÖLD áttu fáir erfiðara með að
hafa í sig og á en þær konur er
reyndu að standa á eigin fótum,
óstuddar af karli; eiginmanni eða föður.
Kaup þeirra var yfirleitt helmingi lægra en
karlanna og skipti engu þó um sömu at-
vinnu væri að ræða. Þegar kaupstaðirnir
tóku að breytast í alvöru þorp eygðu sumar
þessara kvenna nýja von um bættan hag;
þær flýðu vinnuhörku sveitabóndans og
fluttust í kaupstaðinn. Þar beið þeirra þó
ekkert sæluríki.
Vinnuharkan í kaupstaðnum var síst
minni en í sveitinni og húsbóndavaldið ekk-
ert veikara en í dreifbýlinu. Þær sem voru
svo heppnar að komast í vist gátu ekki
vænst þess að fá frí nema einu sinni í viku,
og þá aðeins part úr sunnudegi. Að fá frí
heilan dag var eitthvað sem gerðist jafnvel
ekki oftar en einu sinn á ári.
Sjálfsagt hefur það þó verið mismunandi
eftir heimilum hvernig háttaði um frítíma
heimilisfólks en hitt er staðreynd að engum
þótti neitt athugavert við slík kjör sem hér
er lýst. Það var þó engu að síður talið happ
hverri stúlku að komast í góða vist þar sem
hún gat menntast í mannasiðum og þurfti
aldrei að fara svöng í rúmið. Þær kynsystur
hennar sem urðu að reiða sig algerlega á
eigin handafla voru í allt öðrum sporum.
Þær gátu aldrei reitt sig á vísa launavinnu
og gengu til allra starfa er til féllu.
Fyrir norðan, á Akureyri, áttu lausakonur
ekki vísa vinnu nema rétt yfir heyskapartím-
ann, í svo sem sex til átta vikur á ári. Aðra
tíma ársins voru þær í ýmsum íhlaupastörf-
um og þóttust fullgóðar ef þær höfðu í sig
og þak yfir höfuðið. Algengt var að lausa-
konur væru við tóvinnu en hún var illa borg-
uð og konurnar tæpast matvinnungar við
að umbreyta ullinni í föt: sokka, vettlinga
og peysur.
Af þessum ástæðum hafði niðurjöfnunar-
nefnd Akureyrar stundum hliðrað sér hjá
því að leggja aukaútsvar á vinnukonur
bæjarins. Þegar þessi linkind var kærð af
tveimur karlkyns skattgreiðendum árið
1895 bentu nefndarmenn á bág kjör vinnu-
kvenna. En staðreyndin um útsvarið var að
geðþótti þeirra er sátu í niðuijöfnunarnefnd
réði oft jafnmiklu og tekjur manna um
hversu mikið þeir greiddu til bæjarins. Og
vissulega voru fyrir því fordæmi að bláfá-
tækar vinnukonur greiddu til bæjarþarfa
þó að slíkt heyrði fremur til undantekninga.
II
Vorið 1862 flutti Guðfinna Halldórsdótt-
ir, ógift og barnlaus, ofan frá Stóra-Eyrar-
landi niður á Akureyri. Fyrstu árin var ekki
amast við henni utan eitt sinn að hún var
kölluð fyrir bæjarfógeta að gera grein fyrir
högum sínum. Ekki er annað að sjá en að
vel hafi farið á með Guðfinnu og yfirvaldinu
og skömmu síðar fékk hún leyfisbréf til að
mega vera lausakona á Akureyri.
Liðu nú árin og gætti Guðfinna þess
vendilega að endurnýja dvalarleyfi sitt á
Akureyri árlega. Hún var engum til byrði
og greiddi jafnan til bæjarþarfa með skilum.
En það sagði sína sögu um efnahag Guð-
finnu að hún borgaði aldrei nema aukaút-
svar sem var lagt á eftir efnum og ástæðum
og rann að langmestu Ieyti til framfærslu
fátæklinga. Hinn hluti útsvarsins var reikn-
aður af fasteignum manna, matjurtagörðum
og skepnueign. Guðfinna komst aldrei í þær
álnir að hún ætti eitthvað að telja fram.
Að áliðnu sumri 1867 varð henni á að kvarta
við bæjarfulltrúana útaf aukaútsvari sínu
sem henni þótti sett fullhátt. Bæjarstjórnin
féllst á rök konunnar, lækkaði útsvarið og
vísaði henni um leið burt úr bænum á þeim
forsendum að hún væri snauð og líkleg til
að verða baggi á bæjarsamfélaginu ef hún
næði að verða sveitlæg í kaupstaðnum. En
nýtt fardagaár var runnið upp og vistráðn-
ingar að baki. Guðfinna hafði því frest til
næsta vors að finna sér nýjan samastað.
Brot úr lífsbaráttusögu
fátækrar lausakonu á
Akureyri.
Eftir JÓN HJALTASON
III
Ekki dró úr áhyggjum bæjarfulltrúanna
þegar einhver þeirra gerði sér ferð til sókn-
arprestsins að athuga hversu lengi Guðfinna
hafði dvalið á Akureyri. Það kom sem sé
upp úr dúrnum að dvalartiminn var kominn
á níunda ár en tíu ára samfelld dvöl í einu
og sama sveitarfélaginu tryggði aðkomu-
manni framfærslurétt í því. Ognin sem staf-
aði af konunni hafði skyndilega vaxið um
allan helming og um veturinn ítrekuðu bæj-
arfulltrúarnir við hana búsetubannið með
hátíðlegu bréfi. Sögðu þeir það mjög isjár-
vert að veita henni lengri lausamennskudvöl
„þar eð vel getur að borið bæði að heilsu
yðar hnigni og að þjer vegna hins almenna
skorts og báginda, sem nú eiga sjer stað,
verðið bænum til þyngsla.“
Guðfinna var ekki aldeilis sátt við þessa
röksemdafærslu. Vegna „ókominnar heilsu-
hnignunar minnar“ þykjast bæjarfulltrúarnir
sjá þörf til að vísa mér burt, skrifaði hún
Stefáni Thorarensen bæjarfógeta, og svo
auðvitað til að hindra að ég ávinni mér sveit
í kaupstaðnum. Að mati Guðfinnu voru þetta
marklitlar ástæður og raunar spurning hvort
hún væri ekki þegar orðin sveitföst í kaup-
staðnum með samanlagðri 10 ára dvöl í
gamla Hrafnagilshreppnum og á Akureyri.
Hún hafði komið til Akureyrar utan úr Glæsi-
bæjarhreppi vorið 1857 og átt heima í kaup-
staðnum og á Stóra-Eyrarlandi allar götur
síðan.
Ekki vildi Stefán bæjarfógeti fallast á
þessa lagatúlkun er hann sagði byggða á
misskilningi. Guðfinna hefði ekki verið sveit-
föst í Hrafnagilshreppi 1862, þegar Akur-
eyri varð sérstakt umdæmi aðskilið frá
hreppnum, og því gætu engar samlagning-
arkúnstir gert hana sveitfasta í kaupstaðn-
um. Og enda þótt Stefán og bæjarfulltrúarn-
ir væru langt því frá að þylja sama óðinn
þegar kom að almennum lýðréttindum þá
var hann aldrei þessu vant sammála félögum
sínum í bæjarstjórninni um að réttast væri
að konan hyrfi á braut. Vinnukraftar hennar
væru ekki meiri en svo að hún gæti naum-
lega haft ofan af fyrir sér og þar við bætt-
ist að hún væri farin að síga á efri aldur.
Það mætti því búast við að hún yrði hjálpar-
þurfi fyrr en síðar.
IV
Hvað sem leið boðum yfirvaldanna þá var
Guðfinna ekki á þeim buxunum að flytjast
burtu. í árslok 1869 bjó hún enn í Fjör-
unni, undir sama þaki og ekkjan Sigríður
Jónsdóttir, móðir Nonna og Manna. Þessi
þráseta getur varla átt sér nema eina skýr-
ingu; málið hefur komið til kasta Péturs
Havsteins amtmanns og hann komist að
annarri niðurstöðu en Stefán bæjarfógeti.
Engar skjallegar heimildir finnast þó fyrir
afskiptum amtmannsins en útilokað er að
Guðfinna hafi megnað að standa upp í hár-
inu á bæjarfógetanum og öllum bæjarfulltrú-
um Akureyrar. Þeir hefðu einfaldlega skotið
undir hana hesti og flutt nauðuga viljuga á
heimahrepp hennar. En til þessa úrræðis var
aldrei gripið og næstu árin var Guðfinna
víða til húsa á Akureyri. í manntalsbókum
var hún sögð lausakona og lifa „á ýmislegri.
handbjörg sinni“. Hún var orðin Akureyring-
ur.
Það var svo annað mál að örlög Guðfinnu
urðu ekki hóti betri en bæjarfulltrúarnir
höfðu spáð. Hún gat aldrei verið viss með
húsnæði og þar kom í byijun árs 1873 að
hún átti hvergi athvarf. Bæjarstjórnin kvaðst
ekki geta liðsinnt henni, hún hefði ekki yfir
neinu lausu húsnæði að ráða, auk þess sem
henni sýndist að Guðfinna hefði alla burði
til að bjarga sér sjálf. Þremur mánuðum síð-
ar losnaði lítið herbergi í Indriðahúsi (Aðal-
stræti 66) sem bæjaryfirvöld höfðu keypt
árið áður til að geta komið þar fyrir vegalaus-
um Akureyringum og barnaskóla kaupstað-
arins. Þar fékk Guðfinna inni fyrir þijá rík-
isdali um árið.
Næstu árin fór næsta litlum sögum af
Iífi þessa einstæðings. Endrum og sinnum
skaut nafni hennar upp á fundum bæjar-
stjórnarinnar, þá iðulega vegna þess að full- j
trúunum þótti hún draga fulllengi að borga
leiguna. En hún stóð við sitt og tókst lengi
vel að komast hjá því að þiggja lán úr fá- j
tækrasjóði. Þegar bærinn seldi Indriðahús
1879 samdi Guðfinna við nýja eigandann
um að fá að dvelja þar áfram og var það
auðsótt mál en flestir hinna leigjendanna
urðu að víkja. Varla hefur þetta þó verið
vegna þess áð Guðfinna þætti öruggari borg-
unarmaður en aðrir íbúar hússins. Hana
vantaði ekki nema eitt ár í að verða hálfsex-
tug og átti í sífellt meira basli við að afla
tekna fyrir húsaleigunni. Um mitt ár 1880
komst hún loks í skuld við fátækrasjóðinn,
heilsan var ekki orðin gull í skel og starfs-
þrekið minnkaði ört. Tveimur árum síðar
bilaði geðheilsa Guðfinnu og var henni þá
komið fyrir á spítalanum um skeið en síðan
kjálkað niður hjá bæjarbúum, einn dag hjá
hveijum og byijað syðst. Þetta var örþrifar-
áð á meðan reynt var að finna henni fastan
samastað. Fljótlega barst tilboð frá bónda
nokkrum en vegna lasleika Guðfinnu var
ekki talið óhætt að flytja hana langan veg.
Runnu á hana slík æðisköst að hún trylltist
gjörsamlega og þorðu bæjaryfirvöld ekki
annað en að láta vaka yfír henni um nætur.
Tókst loks að koma henni fyrir hjá fátækri
fjölskyldu í Fjörunni en aðrir íbúar hússins
kvörtuðu og heimtuðu skaðabætur frá bæn-
um fyrir ónæði og andvökur er Guðfinna
ylli þeim í hvert skipti er æðið kæmi yfir
hana.
Fór svo að lokum að henni var komið fyrir
í sveit þar sem hún andaðist í september
1884, væntanlega södd lífdaga.
V
Það var ekki fyrr en þremur árum eftir
andlát Guðfinnu að bæjarfulltrúar Akureyrar
töldu útséð um að hafast myndi upp í skuld-
ir hinnar látnu við bæjarsjóð og viðurkenndu
að þær rúmu 850 krónur er höfðu gengið
til framfærslu hennar væru glatað fé. Bæjar-
stjórn Akureyrar vildi í lengstu lög forðast
að tapa peningum ineð þessum hætti. Og á
því er enginn vafi að bæjarbúar voru upp
til hópa samþykkir þeirri stefnu enda stóð
upphæð aukaútsvarsins nánast í réttu hlut-
falli við þyngslin af þurfafólki kaupstaðar-
ins. Fyrir vikið var alltaf stæk andstaða í
bæjarstjórninni gegn því að leyfa fátækling-
um að setja niður bú í bænum. Og eins og
þegar er á minnst horfðu fulltrúamir iðulega
langt fram í tímann þegar þeir ráku fátæk-
ar fjölskyldur í burtu, duglegir verkamenn
eins og til dæmis Guðfínna, gátu kannski
bjargað sér á meðan starfskraftarnir voru
óskertir en hækkandi aldur breytti því eins
og mörgu öðru.
Höfundur er sagnfræðingur og býr á Akureyri.
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 20. APRÍL 1996 7