Lesbók Morgunblaðsins - 31.08.1996, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 31.08.1996, Blaðsíða 6
síðar var kallaður Íslandshatari, ég veit ekki af hveiju - og kaupi mér foi-láta regnkápu. Borga reikninginn, sting honum í vasann og held áfram. Skömmu síðar vindur sér að mér maður, klappar á öxlina á mér og segir: „Hvar hafið þér fengið þessa regnkápu?" Ég gapti af undrun. Þá segir hann: „Það var stolið frá mér svona kápu áðan.“ Ég sýni honum þá nótuna og fullvissa hann um að ég sé ekki þjófurinn, en líklega hef ég keypt regnfrakkann við vöxt, eins og sæmir góðum íslenzkum sveitamanni. Hann biður mig af- sökunar, og ég held áfram. Kem í Tívolí og heyri þá einhveija músík, geng á hljóðið og kaupi miða að tónleikunum, en hafði ekki efni á að fá mér prógram, svo að ég vissi ekki hvað verkið hét. Mér fannst það afskap- lega fallegt, en sorglegt.“ „Var þetta draumur, Kaldal, eða skaut ég inn í. „Nei, þetta var blákaldur veruleiki. Verkið var úr Éroica. Ég hafði verið að hlusta á sorgarmarsinn. VIÐ Pálmi Hannesson létum ekkert tækifæri ónotað til að fara á konserta. Eitt kvöldið vorum við að malla hafragraut, það var minn dagur að sjá um matseldina. Þegar ég er nýbúinn að setja hafragrautinn yfir, kemur Pálmi móður og másandi og segir: „Komdu strax, það er konsert niðri í Casino. Við megum engan tíma missa.“ Ég snara mér frá eldamennskunni, fer í yfirhöfn og við af stað, hlaupum niður í Breið- götu og komum í tæka tíð. Það var einhver enskur, lítt þekktur píanóleikari, sem hélt þessa tónleika. En í miðri Tunglskinssónöt- unni kviknaði allt í einu á perunni hjá mér og ég hvísla að Pálma: „Hver andskotinn, er ekki hafragrauturinn enn á gasinu!“ Við létum það samt ekki á okkur fá, en sátum sem fastast tónleikana á enda - en ætluðum svo ekki að þora heim að þeim lokn- um. En þar fyllti sengjulyktin af hafragrautn- um öll vit okkar þegar við komum í forstof- una. Gamla konan, sem leigði okkur og hét Kristín, íslenzk að ætt og uppruna, var okkur svo góð að hún sagði aldrei neitt og ekki heldur í þetta skipti. Enginn vissi, hvað hún var gömul, því aldrei hafði frétzt af íslenzkum stúdent, sem var svo gamall að hann hefði ekki einhvern tíma hitt Kristínu. Ekki átti hún húsið, heldur leigði hún íbúð í því og lifði á því að leigja út frá sér. Eitt sinn þegar við Pálmi vorum að fljúgast á, brutum við stól, en þá sagði hún aðeins: „Ég skil ekkert í þessu, hann er búinn að endast í 30 ár.““ „Hvernig líkaði þér að koma til Hafnar, Kaldal?“ „Vel.“ „Ekkert sérlega minnisstætt?“ „Ég man einna bezt eftir því, þegar þeir ætluðu að kalla mig í herinn. Þá reiddist ég. í byijun árs 1919 fæ ég bréf frá hernum og mér er sagt að mæta á skráningarskrifstof- unni, sem var í gömlu húsi í Holmensgade, þeirri frægu götu, og brakaði í hveiju þrepi, þegar gengið var upp stigann. Eg ríf bréfið frá hernum og hugsa ekkert frekar um málið. En þegar ég fæ annað bréf frá þeim og mér er hótað að lögreglan sæki mig, ef ég komi ekki til skráningar innan tveggja eða þriggja daga, hundskaðist ég þangað niður eftir, fokvondur, finn húsið, þrælast upp brattan stigann og kem í skrif- stofuna, sem er þá troðfull af væntanlegum nýliðum. Þeir stara auðmjúkir og biðjandi eins og guð sér til hjálpar á afgreiðslumenn- ina. Þeir segjast eiga konur og börn og þurfi að fá frest í nokkra daga. Þetta hleypti í mig illu blóði. Ég var eng- inn dönskumaður, en náði mér venjulega á strik, þegar ég þurfti að blóta á dönsku. Þegar ég kemst að afgreiðsluborðinu, kemur skikkanlegur maður að máli við mig. Ég segi, að ég hafi fengið bréf og skilji ekkert í inni- haldi þess, þetta hljóti að vera einhver mis- skilningur, ég sé íslendingur og íslendingar séu undanþegnir herþjónustu í Danmörku. Vesalings maðurinn verður vandræðalegur, fer inn í aðra skrifstofu og að vörmu spori kemur út þessi líka feikna jaki, alþakinn orð- um niður á maga eins og rússneskur generáll. Ég segi honum að þetta sé einhver mis- skilningur, en hann fer þá bara að brúka kjaft. Það kveikir í mér. Ég tek af honum orðið, dembi mér yfir hann, segi að við íslend- ingar séum ekki herskyldir, hann þekki ekki landslög og sé ekki starfi sínu vaxinn. Hann varð klumsa. Allir aðrir hættu að skrafa í skrifstofunni og hlustuðu undrandi á okkur - og ég er mest hissa á, að karlinn skyldi ekki láta taka mig fastan, eins og hann bólgn- aði af reiði. Ég rauk svo á dyr, en á skör- inni tók maður í höndina á mér svo lítið bar í KAUPMANNAHÖFN árið 1920. á og þakkaði mér fyrir. „Þeir eiga fyrir þessu, þeir djöflar," sagði hann. Ég strunsaði svo beint í skrifstofu Sveins Björnssonar og fékk yfirlýsingu hjá íslenzka sendiráðinu um, að Islendingar væru ekki herskyldir í Danmörku. Daginn eftir fór ég með yfirlýsinguna til þeirra í Hólmsgötunni og spurði eftir jakanum. Skrifstofumaðurinn, sá hinn sami og ég talaði við fyrst, kímdi og sagði: „Hann er því miður ekki við.“ Hann hefur víst ekki langað í aðra lotu.“ Og þá er komið að lokasprettinum. Hann ijallar auðvitað um ljósmyndun, hver er kveikjan að list og lífsstarfi Kaldals? „Ég er fæddur og uppalinn í Stóradal í Húnavatnssýslu, af miklum ættbálki," sagði hann. „Sigurður skólameistari sagði við mig, að við værum næstum því hálfbræður, svo skyldir værum við í allar áttir. Við Jón alþing- ismaður í Stóradal vorum systkinasynir, við Jón á Akri og Jón Leifs bræðrasynir. Allt er þetta sama Jóns nafnið. Faðir minn hét Jón Jónsson, afi minn Jón Pálmason, langafi minn hét Jón Benediktsson og langalang- amma mín Ingibjörg Jónsdóttir. Og svo mætti lengi telja. EG ÓLST upp í Stóradal, sem var eitt af stórbýlum sýslunnar. Þangað kom Jón Pálmi Jóns- son, vinur okkar krakkanna, sem ferðaðist um sveitina og fótograferaði fólk. Hann var við nám hjá Hallgrími Einars- syni, ljósmyndara á Akureyri, fór seinna til Ameríku og var þekktur ljós- myndari þar. Hann sýndi okkur krökkunum myndir og sagði okkur frá tækjunum. Mér fannst þetta göldrum líkast að ná fólki á pappír - og kannski eru það líka galdrar. En þarna vaknaði hjá mér löngun til að verða ljósmyndari. Þegar ég var 19 ára fórum við systkin öll til Reykjavíkur, þar sem ég hóf nám hjá Carli Ólafssyni. Hjá honum var ég svo hálft þriðja ár, en fór þá utan til Kaup- mannahafnar. Jón Pálmason alþingismaður segir meðal annars í grein um Stóradalsheimilið" - Kal- dal nær í ritið, ég les: „Jörðin Stóridalur er ein af stærstu jörðum í Húnavatnssýslu, geysilega landmikil og kostarík, en erfið er hún, ef hún skal nytjuð að fullu, og ekki á færi annarra en atorku- manna að gera svo. í búskapartíð Jóns Jóns- sonar var þó ekki um að villast, að hver slæg- ur blettur var sleginn og beitin notuð hvenær sem færi gafst til hins ýtrasta. Féð var oft 500-600 ær, sauðir og lömb. Fært var frá lengst af. Líklega síðast 1904. Ær í kvíum voru oft 160-200, ijallalömbin flest eða jafn- vel öll sett á vetur, sláturfé var þá allt fullorð- ið, sauðir, ær og veturgamalt fé . .. Heyverk- un hjá Jóni í Stóradal var með afbrigðum góð og vita allir bændur hve miklu máli sá þáttur skiptir. Hann var iíka vandlátur að fóðri á fé sínu og hafði af því góðar afurðir, lagði rækt við að bæta féð eftir föngum. Heybirgðir átti hann ævinlega yfirdrifnar og miklar fyrningar á hveiju vori, hvernig sem viðraði. Þangað var og ævinlega hjálpar að leita fyrir heyþrota menn ... Hann var framúrskarandi dugnaðar- og fyrirmyndarbóndi og gaf sig allan og óskipt- an að búskapnum og heimilishag. . . Jón Jónsson var mjög geðfelldur maður í allri framkomu, alúðlegur og gamansamur þegar svo bar undir, heldur i lægra meðallagi á vöxt, beinvaxinn og fríður sýnum, dökkur á hár og með jarpt skegg, ekki mikið. Hann var kvikur í hreyfingum og hljóp venjulega við fót, þar sem hann var á gangi við kindur eða á annan hátt. Hann var hestamaður mik- ill, laginn tamningamaður og sérstaklega fór orð af því, hve snjall hann væri að ríða hesta til skeiðs ..." Um móður Kaldals segir Jón: „Ingibjörg Gísladóttir var fríð kona og vel gefin. Hún var hið mesta góðkvendi, sem öllum þótti vænt um á heimili og utan þess. Fórust þau hjónin eigi á mis í því efni. .. “ Ég fann strax, að Kaldal þótti vænt um þessa grein Jóns frænda síns, og lofaði mér að vitna í hana til að stytta mér leið. „Móðir okkar lézt 1903,“ sagði hann, „en faðir okkar þremur árum síðar. Þá fluttumst við krakkarnir til Pálma, föðurbróður okkar, að Ytri-Löngumýri, og vorum þar í góðu yfir- læti. Við Jón Pálmason erum því uppe'.dis- bræður. Ég hafði unun af hestum eins og pabbi og tamdi marga, og við Pálmi vorum oft eins og tveir léttlyndir strákar, þegar við vorum að temja. Það var oft gaman hjá okkur að Löngumýri. En ég hljóp ekkert meira en aðrir unglingar í sveit og hugsaði aldrei urn að verða hlaupari. Jón segir, að pabbi hafi verið góður smalamaður og oft hlaupið við fót. Ætli hann hefði ekki orðið betri hlaupari en ég, ef hann hefði farið til Kaupmannahafn- ar? Eitt atvik er mér minnisstætt frá æskuár- unum í Stóradal. Það sýnir, hvernig myndir greypast í minninguna og geymast þar. Ég stóð úti á hlaði með föður mínum. Veðrið var gott, bjartviðri. Þá sáum við hvar fjórir menn komu ríðandi að bænum vestan tungur, sem kallaðar voru, á milli þeirra gengur maður. Þegar þeir koma heim á hlað, sjáum við, að þar er enginn annar en Þjófa-Lási, sem kall- aður var, og höfðu þeir hann í böndum á milli sín, því að hann var svo fljótur að hlaupa að þeir hefðu ekki náð honum, ef hann hefði sloppið. Þeir voru á leið með Lása til hrepp- stjórans, Ingvars í Sólheimum. Þeim ferðalöngunum, þjófnum og réttvís- inni, var boðið upp á veitingar, og síðan var haldið áfram með Þjófa-Lása, sem var lítill karl og ekki eftirminnilegur, út að Sólheim- um. Þar var hann skilinn eftir. Ingvar og pabbi voru miklir vinir. Bændur höfðu það þá fyrir sið að heimsækja hver annan, fá sér dálítið í staupinu, en þó ekki svo að á þeim sæist, reyna gæðinga hver annars, og stundum gistu þeir tvær til þijár nætur hver hjá öðrum. Nokkrum dögum eftir að þjófurinn hafði farið um hlað hjá okkur í Stóradal, kemur hann aftur og þá einn síns liðs. Við feðgarn- ir stóðum úti á túni. Hann gengur til pabba, heilsar honum og biður hann lána sér hest til að sundríða Blöndu. Faðir minn segir: „Það er sjálfsagt, þú bara sleppir honum, þegar þú ert kominn yfir ána.“ Þjófa-Lási fékk hestinn sem skilaði sér nokkru síðar. En mig grunar, að þetta hafi verið samantekin ráð milli Ingvars og föður míns, að þeir hafi ekki viljað níðast á vesal- ingnum. En það væri gott að eiga hlaupara á borð við Þjófa-Lása núna,“ bætir Kaldal við með húnvetnskt bros á vör. Svo sagði hann mér að lokum, að það hefði verið tilviljun ein að hann fór að æfa hlaup. Hann byijaði í leikfimi hjá ÍR, þegar hann kom suður, eins og fyrr getur, og hefur alla tíð haldið tryggð við það félag og vini sína þar. ÉR Jiótti gott að vera í IR og hef ávallt verið í félaginu og eignazt þar marga góða vini, sem ég hefði ekki viljað án vera. En ástæðan til þess að ég hóf leik- fimisæfingar hjá ÍR var sú, að við Pálmi Hannesson þjálfuðum okkur hvern dag í Mullers-æfingum og fengum til þess afnot af leikfimissalnum í Menntaskólanum. Þegar ég svo æfði undir annað víðavangshlaupið, skokkaði ég upp í Árbæ og svo í bæinn aft- ur, en Pálmi hjólaði með mér alla leiðina. Svo mikill var áhugi hans, bæði á því að mér gengi vel í hlaupinu og ekki síður á að halda sér í þjálfun. En ég var að segja þér frá ljósmyndaran- um, sem lagði leið sína um Húnavatnssýslu, þegar ég var drengur. Þessu get ég bætt við að lokum: Um þær mundir sem ég var að byija að lesa, sat heimilisfólkið eitt sinn sem oftar að spjalli yfir hádegismatnum. Þá segir einhver, að séra Stefán á Auðkúlu komi á morgun. Mér þótti það ekki verra, því að hann var mér sérlega góður. En þá sagði einhver: „Hann er mikill mannþekkjari, hann séra Stefán.“ Ég hrökk við. Ekki vissi ég þá, hvað það var að vera mannþekkjari, en mér var sagt að hann sæi, hvort maður væri góður eða vondur. „Og stundum sér hann jafnvel, hvað fólk hugsar,“ var bætt við. Mér var ekkert um það. En upp frá því fór ég að líta öðruvísi á fólk og veíta fyrir mér, hvernig það hugsaði, hvernig þessi eða hinn væri í raun og veru. Ég fór að hugsa um manninn bak við grím- una. Skyggnast undir skelina. Og það hef ég ávallt síðan reynt að gera. Kannski að þessi áhugi minn hafi hjálpað mér eitthvað við myndatökuna. Annars tók séra Stefán strax ástfóstri við mig. Hann lagði 20 króna gullpening á vögg- una mína, þegar ég var á fyrsta ári, og sagði, að ég ætti að eiga hann vegna þess „hvað hann er fallegur". Þetta var fyrsta og eina fegurðarsamkeppnin, sem ég hef unnið um dagana. Merkilegt annars hvað maður getur breytzt!" Morgunbladió/Ólafur K. Magnússon KALDAL i vinnustofu sinni á Laugavegi 11 árið 1958. 6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 31. ÁGÚST 1996

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.