Alþýðublaðið - 21.08.1985, Qupperneq 4

Alþýðublaðið - 21.08.1985, Qupperneq 4
Alþýðublaðiö, Ármúla 38, 3. hæð, 108 Reykjavík., Sími: 81866 Útgefandi: Blað hf. Ritstjórn: Friðrik Þór Guðmundsson (ábm.) Framkvæmdastjóri: Valdimar Jóhannesson. Skrifstofa: Helgi Gunnlaugsson, Halldóra Jónsdóttir og Eva Guömundsd. Setning og umbrot: Alprent hf., Ármúla 38. Prentun: Blaðaprent hf, Síðumúla 12. Miðvikudagur 21. ágúst 1985 alþýöu- ■ n Fr>TT>m Askriftarsíminn er 81866 AFI SPÁ T FRAMTÍÐINA Framtíðarsýn hefur lengi verið fólki hugleikin. Sumir fara til spá- konu, aðrir lesa sig til í heimi vís- indaskáldsögunnar, en flestir telja ógerlegt að sjá fyrir það sem fram- tíðin ber í skauti sér. Einn er sá maður, sem lagt hefur fyrir sig framtíðarspár í atvinnu- skyni undanfarin þrjátíu ár. Ferill hans hófst i starfi hjá Pentagon, en nú rekur hann eigið fyrirtæki sem spáir í framtíðina. Maður þessi nefnist Marvin Cetron og er banda- rískur. í viðtali sem birtist við hann í blaði um vísindi fyrir almenning lýsir hann framtíðarsýn sinni. Áreiðanleiki framtíðar- spádóma Marvin Cetron hefur oft spáð rétt í framtíðina á löngum ferli. Hann spáði t. d. falli íranskeisara löngu áður en atburðirnir sjálfir áttu sér stað. Hann spáði fyrir um ókyrrðina í Póllandi, pólitískum óeirðum á Indlandi og sá fyrir hern- aðarbrölt íraka. Hann spáði um stórfelldar breytingar á stöðu kynj- anna og uppgangi hægri aflanna í Bandaríkjunum. Marvin Cetron segir velgengni sína byggða á stað- reyndum, hann tölvukeyrir ákveðn- ar staðreyndir og fær út framtíðar- spá, sem er raunhæf. Framtíðar- sinnar.segir hann, spá út í loftið, í krafti hugmynda, hugsjóna, en slíkt er einungis fallegur óraunveruleiki og hefur engin áhrif. Framtíðar- sinnarspá þvíað við munum leggja undir okkur geiminn á næstu 50 ár- um, þrátt fyrir að slíkt sé bæði óþarft og allt of dýrt. Þeir spá því einnig að sólarorkan verði megin- orkugjafi jarðar á 21. öldinni, þrátt fyrir að sólarorka sé í dag tvisvar sinnum dýrari en olía. I framtíðarspá, „Stefnumóti við framtíðina", sem Cetron gaf út árið 1982, spáði hann endurkjöri Reag- ans í forsetastól í Bandaríkjunum, hann spáði því einnig að á næstu ár- um muni kraft draga úr verkalýðs- félögum vestra og félögum þeirra muni fækka. Hann hefur spáð því að vélmennin muni í auknum mæli taka yfir þá vinnu, sem fram fer við færiböndin, og hann sagði fyrir um „kreditkortaþjóðfélagið" — þjóð- félag þar sem ávísanir og lausafé væru úr sögunni. í bókinni „Stefnumót við framtíðina" spáir Cetron smátölvunni auknum vin- sældum í heimilislífinu, auknum áhrifum hennar í viðskiptum og skólakerfinu. Hann gerði sér einnig grein fyrir þeirri þróun sem fylgir í kjölfar tölvuvæðingar að æ fleiri ættu þess kost að vinna heima hjá sér. Um þessar mundir, á meðan um- rótið í Mið-Austurlöndum er enn að aukast og ástandið í Suður- Afríku er forsíðuefni blaða um all- an heim — rétt eins og Cetron spáði, vinnur hann að útgáfu tveggja bóka sem fela í sér framtíð- arspá um skóla framtíðarinnar og stöðu konunnar á næstu öld. Að spá í staðreyndirnar Þær framtiðarspár sem Cetron vinnur að núna eru unnar sam- kvæmt kerfi sem hann hefur þróað. Ótal upplýsingar eru tölvukeyrðar og síðan liggja niðurstöðurnar til grundvallar því hvort líkur eru á að einhver ákveðinn atburður eigi sér stað á næstu fimm árum, tíu eða tuttugu árum. Hann vinnur með módel og vaxtaskilgreiningar á 200 þáttum þjóðfélagsins, allar breyt- ingar eru færðar inn jafnóðum og þannig tengjast ólíkir þættir saman í eina heild, sem spádómurinn byggir á. Ef til dæmis spurt er um framtíð plastefna í bílaiðnaði, þá verður að spyrja um það hvers kon- ar plast komi til greina, og i staðinn fyrir hvað á að nota það? Hann kannar breytingar á kostnaði, styrkleika og þunga og aðra þætti efnisins, sem nota skal í stað málma. Ef skilgreina á vöxt í ein- hverri grein þá eru athuguð efni sem til greina koma í stað annarra, svo sem möguleiki á að nota gervi- gúmmí í stað gúmmís, og sætuefni í stað sykurs. Síðan eru settar fram spurningar sem fela í sér svör við því hvaða þró- un hefur orðið í gerviefnaiðnaði, hvers vegna sú þróun átti sér stað og á hve löngum tíma. Cetron segist byggja niðurstöður sínar á notkun sextíu og fjögurra fasta. Vitneskjan um það hvað á að mæla verður að liggja fyrir. Fast- arnir eru að hans mati mikilvæg- asta stærðin í framtiðarspánni og flestir þeirra eru hans atvinnu- leyndarmál. En hann minnist oft á þær tvær föstu stærðir sem eru honum hugleiknastar — sú fyrri er atvinnuleysi ungra, ógiftra karla milli 18 og 30 ára aldurs. Það eru órólegu árin að mati Cetrons og þessir menn geta hafið byltingu fjölgi þeim um of. Annar mikil- vægasti fastinn er hlutfall launa í viðmiðunarhópum, sem fela í sér annars vegar 10% þeirra tekju- hæstu og hins vegar 10% þeirra tekjulægstu. Á Norðurlöndunum er munurinn á tekjum þessara við- miðunarhópa 2,5. Annars staðar í Evrópu er munurinn á milli sex til átta, en í Bandaríkjunum hefur annar hópurinn allt að því tíu til ellefu sinnum meiri tekjur. Cetron segir að ástæðan fyrir þvi að unnt var að sjá fyrir þær breyt- ingar sem áttu sér stað í íran hafi verið sú að hjá viðmiðunarhópun- um hafi ajlt farið úr böndum. Hóp- urinn sem fyllti topp tíu hafði rétt fyrir byltingu um það bil 38 sinnum meira úr að spila en tíu prósentin sem á botninum voru. Öllum hulið En ýmsar uppákomur í heimin- um hafa farið framhjá vökulu auga Cetrons og má þar nefna Falklands- eyjastríðið. Hann segist ekki hafa getað séð fyrir innrás Argentínu- manna, né heldur vilja breskra yfir- valda til þess að verja svo miklum fjármunum í að halda eyjunum undir breskum yfirráðum. Einnig virðist pólitísk þróun í Bandaríkj- unum hafa verið hulin honum á nokkurn hátt. Hann sá að vísu fyrir endurkjör Reagans Bandaríkjafor- seta, en sá hins vegar ekki fyrir að Demókratar myndu halda meiri- hluta í bandaríska þinginu. Hann telur ákveðnar orsakir liggja að baki þessari þróun. Bandarískir kjósendur vilji hafa nokkra mótstöðu sem ekki fylgi endilega röddinni í Hvíta húsinu, þeir hafni ríkisstjórn héraðsmála og vilji að yfirstjórnin nái einungis til varnarmála, landbúnaðarmála og slíkrar stjórnunar. Orkumál Cetron sér ekki fyrir hækkun á olíuverði næstu árin, heldur lækk- un ef eitthvað er. Hann rökstyður það á eftirfarandi hátt: Saudi-Ara- Framh. á bls. 2 Hvernig verður það þjóðfélag sem barnabörnin okkar koma til með að búa í? Er unnt að birta framtíðarspár sem byggja á raunveruleikanum, en ekki einungis á ímynduðum heimi vísindaskáldsögunnar? Molar Veðdeild eða . . . Það er oft nokkuð margt um manninn á Veðdeild Landsbank- ans í Reykjavík og jafnvel þótt biðraðirnar séu ekki alveg út úr dyrum, getur maður engu að síð- ur þurft að bíða drjúga stund áð- ur en röðin kemur að manni. En þótt maður sé loksins kom- inn að, er málinu ekki þar með sjálfkrafa farsællega lokið. Fyrst þarf að bíða meðan verið er að finna skjalamöppuna. Sumir segja að það sé svo sjaldgæft, að skjalamappan sé þar sem hún á að vera að þar sé yfirleitt leitað síð- ast. 1 Svo getur náttúrlega komið fyr- ir að enn vanti einhver vottorð eða undirskriftir til að þú getir fengið „greiðsluerfiðleikalánið" þitt af- greitt og sömuleiðis höfum við sannar fregnir af því að Veðdeild- in hafi sent út eyðublöð sem ekki voru nauðsynleg fyrir þessa sér- stöku tegund af láni og fólk hafi þannig þurft að leggja á sig vissa aukavinnu. Fróðir menn segja þó að yfir- leitt hafist þetta allt saman með þolinmæðinni og sértu tilbúinn að leggja á þig að fara nægilega margar ferðir, þá komi lánin yfir- leitt til útborgunar að lokum. Einn þessara fróðu og lífs- reyndu manna skaut því að okkur um daginn að trúlega væri and- rúmslofti því sem ríkir innan dyra deildarinnar betur lýst ef nafninu væri breytt örlítið. Það ætti að fjarlægja V-ið úr nafninu, sagði hann, og setja G í staðinn! „Laun samkvæmt . . .“ „Laun samkvæmt launakerfi starfsmanna ríkisins". Eitthvað á þessa leið hljóðar yfirleitt niður- lag auglýsinga um lausar stöður hjá hinu opinbera og sú var tíðin að þessi orð þóttu nokkur trygg- ing fyrir sæmilegum launum. Eitthvað mun þetta hafa breyst á síðustu árum og nú lesum við í Vestfirska fréttablaðinu að í nokkurt óefni sé komið hjá emb- ætti bæjarfógeta á ísafirði. Þar mun nú vanta bæði gjald- kera og innheimtufulltrúa. Áug- lýsingar um störfin bera ekki ár- angur og þó hefur verið leitað með logandi ljósi út um allt að fólki í stöðurnar síðan í maí, að sögn blaðsins. En það er víst ekki nóg með að umsóknir hafi ekki komið inn. Það hefur ekki komið svo mikið sem ein einasta fyrirspurn! Bjór á útsölu Sterkur bjór er mikil munaðar- vara á íslandi svo sem kunnugt er enda fæst hann ekki öðruvísi en smyglaður. Hins vegar munu all- margir aðilar annast þann inn- flutning þótt ólöglegur sé og því nokkurt framboð á þessari mun- aðarvöru. Eftir því sem við komumst næst mun verðið á smyglaða bjórnum vera nokkuð misjafnt eða frá sextán til sautján hundruð krónum upp í tvö þúsund og fimm hundruð. Margir íslenskir bjórunnendur vildu því sjálfsagt fegnir vera staddir í Danmörku núna, en þar er þýska ölið komið á útsölu eftir að dönsku verksmiðjurnar tóku aftur til starfa eftir verkfallið. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum kostar kassinn af sterkum þýskum bjór á útsölu núna þessa daga 100 krónur danskar, eða um 400 íslenskar. Dýr sönglög Frá útlöndum höfum við líka spurt þau tíðindi að Michael Jackson hafi fjárfest í útgáfurétt- inum að þeim sönglögum Bítl- anna sem samin voru á tímabilinu frá 1964 til 1970. Fyrir höfundarréttinn að lög- unum gaf Jackson hvorki meira né minna en fjörutíu og sjö og hálfa milljón dollara, sem er stærri fjárhæð en svo að við treystum okkur til að þýða hana yfir á íslenskar krónur. Þessi upp- hæð er þó ekki sögð vera nema svo sem helmingurinn af eignum Jacksons. Michael Jackson keypti höf- undarréttinn af fyrirtækinu ATV sem náði honum af Bítlunum eftir málaferli 1969. Sagt er að meðal lysthafenda hafi einnig verið stórfyrirtæki á borð við sjónvarpsstöðina CBS og Coca Cola að ógleymdum þeim Paul McCartney og Yoko Ono. Snögg ákvörðun Það var til þess tekið á föstudag- inn hvað útvarpsstjóri var snögg- ur að ákveða sig, þegar röðin kom að honum að skipa í stöður eftir umsagnir útvarpsráðs. Svo sem kunnugt er mælti út- varpsráð með Helga Helgasyni sem fréttastjóra sjónvarps en Markús Örn skipaði Ingva Hrafn í staðinn. í stöðu deildarstjóra innlendrar dagskrárgerðar mælti útvarpsráð með Tage Ammen- drup en útvarpsstjóri skipaði Hrafn Gunnlaugsson. Allt gerðist þetta svo snöggt að varla hafði frétin af niðurstöðum útvarpsráðsfundarins borist á blöðin, fyrr en komin var fréttatil- kynning um ákvörðun útvarps- stjóra. Fréttatilkynningin var bæði löng og ítarleg og þykir af þeim sökum einsýnt að hún hljóti að hafa verið tilbúin fyrir fund út- varpsráðs!

x

Alþýðublaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.