Morgunblaðið - 04.02.2001, Blaðsíða 14
14 SUNNUDAGUR 4. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
angra eftir langvarandi suð og samningaum-
leitanir af hálfu köfunarfyrirtækjanna annars
vegar og herforingjastjórnar Myanmar hins
vegar, með tilheyrandi sporslum og greiðslum
mis-opinberra „stimpilgjalda“. Þeir fáu sem
hafa fengið úthlutað leyfi setja sjálfir strangar
reglur um verndun umhverfisins. Þar af leið-
andi er þessi náttúruperla einn af fáum
„ósnortnum blettum“ á jörðinni hvað varðar
ágang mannsins í náttúrunni. Einu manna-
ferðirnar um svæðið í þennan tíma voru farnar
af Moken-flökkufólkinu (sjávarsígaunum), sem
enn þann dag í dag flakkar um milli eyjanna og
flyst búferlum eftir árstíðum. Þeir slá þá upp
hálfgerðum einnota þorpum úr bambus og
pálmablöðum þar sem þeir dveljast í nokkra
mánuði í senn. Það var því eftirminnileg upp-
lifun að verða á vegi þeirra og fylgjast með
þeim sigla um eyjarnar og veiða á litlu trébát-
unum sínum. Öðru hverju keyptum við líka af
þeim ferskan fisk í soðið. Þetta langvarandi
ferðabann hefur því stuðlað að varðveislu eyja-
klasans sem griðlands fyrir land- og sjávardýr.
Ef heppnin er með manni má m.a. sjá villta
fíla, apa og jafnvel tígrisdýr á sumum af stærri
eyjunum. Neðansjávar eru áhrifin svo þau að
þar eru dýrin alls ófeimin við mannskepnuna
og synda því hákarlar og aðrir stærri fiskar
mun nær manni en víðast hvar annars staðar,
eins og myndirnar bera með sér. Þetta á sér-
staklega við um Silfuruggana, hákarlana sem
til stóð að heimsækja við Burma Banks-hrygg-
inn, en þeir hafa reyndar vanist mannaferðum
að vissu marki undanfarin ár og því að öðru
hvoru sé gaukað að þeim smáfiskbita.
Heilsað upp á hákarlana
Morguninn fyrir fyrirhugaðar hákarlakaf-
anirnar lá eftirvæntingin í loftinu. Þegar á
hólminn var komið var ég vissulega spenntur
og svitni maður í kafi þá gerði ég það örugg-
lega, en hræðslan sem ég hafði búist við að
finna fyrir ætlaði að láta á sér standa. Þess í
stað fylltist ég djúpri lotninu við þessi fyrstu
kynni mín af svo stórum og stæltum hákörlum
sem, þrátt fyrir að synda innan um okkur, bók-
staflega í seilingarfjarlægð og allt að sjö í einu,
voru langt í frá ógnandi. Allar fyrirfram-inn-
prentaðar ranghugmyndir um blóðþyrsta
mannætuhákarla hrundu líkt og spilaborgir í
tólf vindstigum. Þvert á móti hélt maður niðri í
sér andanum í þeirri von að þeir kæmu sem
allra næst og gat ekki beðið eftir að fara aftur.
Enda var það gert – allan daginn. Vissulega
var það brýnt fyrir okkur að fara að öllu með
gát, halda að okkur höndunum og vera ekki
með óþarfa pot og bendingar. Eins hefði ekki
verið verra að vera með augu í hnakkanum,
enda von á þeim úr öllum áttum. Það var þó
helst til þess að missa ekki af því eitt augnablik
að fylgjast með þessum tígulegu skepnum
spóka sig um í sínum eigin bakgarði, ef svo má
að orði komast, en ekki innilokuðum í gler-
búrum sædýrasafna eða í hinu óverðskuldaða
hlutverki ókindarinnar í veruleikafirrtum af-
þreyingarmiðlum. Minn einkaleiðsögumaður
Davíð, sem hafði oftar en tölu varð á komið
komist í návígi við þessa óumdeilanlegu herra
hafsins og þekkti þá orðið í sundur (og suma
með nafni), tjáði mér líka að hann fengi aldrei
nóg af þessari mögnuðu upplifun. Þrátt fyrir
að í örfáum tilvikum í gegnum tíðina hafi ná-
lægðin kannski orðið ögn meiri en góðu hófi
gegndi og smáklapp á trýnið hugsanlega orðið
til að aftra nánari kynnum á „innviðum“ há-
karlsins, hafði aðdáun hans og virðing farið sí-
vaxandi með auknum samverustundum, enda
iðaði hann allur eins og krakki í dótabúð við til-
hugsunina eina saman. Við erum jú, þegar öllu
er á botninn hvolft, gestirnir í þeirra heim-
kynnum.
Eftir vægast sagt viðburðaríkan dag ferð-
uðumst við yfir nótt til Black Rock þar sem við
tók ekki síður æsispennandi upplifun. Þar urð-
um við þeirrar einstöku ánægju aðnjótandi að
fylgjast með á annan tug hinna krúttlegu hlé-
barðaháfa við tilhugalífsbrölt sitt, þar sem
fengitími þeirra stóð sem hæst þann mánuð
sem við vorum á ferðinni. Við þær kringum-
stæður, þar sem þeir hringsnerust hver um
annan í eltingarleik við að reyna að vinna hylli
hins kynsins, skeyttu þeir engu návist okkar,
heldur syntu stundum í óðagoti sínu beint í
flasið á manni svo það þurfti bókstaflega að
ýta þeim frá sér. Við það var hægt að strjúka
þeim eftir endilöngum skrokknum og virtust
þeir kunna því vel. Enn ein ólýsanlega tilfinn-
ingin!
Í fótspor stjarnanna
Eftir fjóra ævintýralega daga og um tuttugu
kafanir við hinar ýmsu eyjar Mergui-hafsins lá
leiðin aftur yfir landa/sjóamærin til Taílands.
Var stefnan tekin aftur á Similan-eyjaklasann
og þaðan til Phi Phi-eyjanna og svæðisins þar í
kring sem margrómað er fyrir stórbrotið
landslag þar sem skógivaxin klettabelti rísa á
annað hundrað metra upp úr sjónum. Yfir
höfði okkar svifu svo hafernir og skönnuðu
hafflötinn í leit að einhverju í soðið. Sumir
kannast e.t.v. við svæðið sem tökustað kvik-
myndanna The Beach og Cutthroat Island og
nokkurra Bond-mynda. Þar er landslagið ekki
síður magnað neðansjávar, en þverhníptir
klettaveggir þaktir kóral og iðandi af lífi ná frá
yfirborðinu tugi metra niður á sendinn botn-
inn. Þar gafst mér kostur á fyrstu hellaköfun
minni. Það verður að segjast að það að kafa inn
í myrkvaða hella er ekki fyrir alla, enda létu
nokkrir í hópnum sér nægja að dást að þeim
utan frá. Inni í hellunum var heldur minna líf
og fjör en úti fyrir á rifinu. Þess í stað gat þar
að líta margbrotnar bergmyndanir og skúma-
skot. Í einum hellinum, sem innangengt/synt
var í úr öðrum stærri, var hægt að synda upp í
rjáfur og stinga höfðinu upp úr vatninu þar
sem í gegnum tíðina höfðu safnast fyrir loft-
bólur annarra kafara og myndað loftrými á
stærð við lítið herbergi. Það var svolítið súrr-
ealískt að vera staddur um 10 metra undir yf-
irborði sjávar en þó draga andann án hjálpar
köfunarbúnaðarins. Að lokinni fertugustu og
síðustu köfun ferðarinnar var svo haldið aftur
til Phuket með viðkomu á Ströndinni – The
Beach – á einni af Phi Phi-eyjunum og fetað í
fótspor Leonardo „Des Caprio“, eins og þjóð-
verjarnir kölluðu hann.
Úr sjó
í snjó
Það var svo sannarlega reynslunni ríkari
hópur sem sté frá borði, heldur seltinn og
þrekaður, en ánægðari en orð fá lýst. Eftir að
hafa þakkað fyrir mig; áhöfninni fyrir örugga
og ánægjulega dvöl um borð, Davíð fyrir leið-
sögn og liðveislu og síðast en ekki síst veð-
urguðunum fyrir að hafa rekið mig af stað
heiman frá til að byrja með, var tími til kominn
að fara og finna sér hótel og svo þaðan heim á
leið daginn eftir. Fyrir svona landkrabba eins
og mig tók það enda nánast allan daginn að
komast yfir sjóriðuna sem stundum sækir á
menn eftir slíka dvöl á sjó og lýsir sér ekki
ósvipað mjög útþynntri sjóveiki. Það var ekki
laust við að Davíð glotti við tönn að ástandi
mínu, enda vannst honum varla tími til sjóriðu
þar sem haldið skyldi út á sjó aftur og allt pró-
gramið endurtekið með nýjum hópi eftir að-
eins sólarhringsdvöl í landi.
Það var svo með blendnum tilfinningum;
fullnægju og söknuði að ég hallaði hausnum á
koddann í ThaiAirways-vélinni og lét hugann
reika á milli hríðarbyljarins sem eflaust biði
mín heima og hinnar ógleymanlegu dvalar
minnar í djúpunum. Stuttu síðar var ég svo
sofnaður og farinn að dreyma röndótta há-
karla og bleikar risaskötur með grænum dopp-
um sem syntu inn um annað eyrað á mér og út
um hitt. Það er ekki að furða þótt hugtakið
draumaheimur komi fyrst upp í hugann þegar
lýsa skal þeim fjarlæga í vissum skilningi, en
þó svo nálæga, heimi sem hrærist undir yf-
irborði sjávar. Þangað ætla ég sko aftur!
Sjávarsígaunarnir, Moken-flökkufólkið, á einum báta sinna við strendur Búrma.
Ljósmynd/Davíð Sigurþórsson
Þorkell í góðum félagsskap hins vingjarnlega hlébarðaháfs (Stegostome Fasciatum). Handagangur var í öskjunni enda fengitími þessarar
hákarlategundar í hámarki þegar leiðangurinn var í heimkynnum þeirra. Litla myndin er tekin á einni af mörgum paradísareyjum á svæðinu.
Morgunblaðið/Þorkell
Búddalíkneski í Búrma.
Lúxusbáturinn Genesis 1 sem köfunarleiðangurinn hafði til umráða.
Ljósmynd/Davíð Sigurþórsson
Einn sá flottasti á rifinu er þessi skrautlegi
indverski ljónfiskur (Pterois Miles).
Morgunblaðið/Þorkell
Morgunblaðið/ÞorkellMorgunblaðið/Þorkell