Morgunblaðið - 07.09.2001, Blaðsíða 4
TBR tekur þátt í Evrópukeppni
félagsliða í badminton í Uppsölum í
Svíþjóð og er í riðli með liðum frá
Rússlandi, Belgíu og Spáni. Í fyrra-
dag tapaði TBR fyrir rússneska lið-
inu Lokomotiv Record, 2:5. Njörður
Ludvigsson og Helgi Jóhannesson
töpuðu tvíliðaleik, 2:7, 3:7 og 3:7.
Ragna Ingólfsdóttir og Katrín Atla-
dóttir töpuðu í tvíliðaleik, 1:7, 4:7 og
2:7.
HELGI Jóhannesson tapaði í ein-
liðaleik 5:7, 4:7 og 0:7. Ragna Ing-
ólfsdóttir sigraði í einliðaleik, 7:2,
7:0 og 7:5. Magnús Ingi Helgason
tapaði í einliðaleik, 0:7, 2:7 og 6:8.
Sara Jónsdóttir sigraði í einliðaleik,
7:0, 7:5 og 7:3. Baldur Gunnarsson
og Halldóra Elín Jóhannsdóttir töp-
uðu tvenndarleiknum.
VALUR hafnaði í sjötta sæti á al-
þjóðlegu móti sem lauk í Montpellier
í Frakklandi um helgina. Valur tap-
aði þremur leikjum á mótinu, fyrir
Montpellier, 28:20, fyrir franska
landsliðinu, 33:22, og fyrir landsliði
Alsír, 27:24. Eini sigurleikurinn var
á móti ítalska liðinu Rubieira en
þann leik unnu Valsmenn, 30:20. Sig-
urvegarar á mótinu varð lið Mont-
pellier sem lagði spænska liðið
Granollers í úrslitaleik.
SNORRI Guðjónsson fyrirliði og
leikstjórnandi Vals var markahæsti
leikmaður mótsins, skoraði 31 mark.
ATLI Jóhannesson og Gunnar
Heiðar Þorvaldsson, leikmönnum
ÍBV, var á dögunum boðið að koma
til Stoke eftir leiktíð knattspyrnu-
manna hér heima. Þeir afþökkuðu
boðið að sinni þar sem þeir hyggjast
ljúka stúdentsprófi um næstu ára-
mót. Hins vegar kemur það til greina
hjá þeim að fara út að því loknu.
ENGINN leikmaður úr efstu deild
karla var úrskurðaður í leikbann á
fundi aganefndar KSÍ í fyrrakvöld.
Þrír leikmenn úr 1. deild úrskurðaðir
í eins leiks bann. Þetta er ÍR-ing-
urinn Ágúst Guðmundsson, Ragnar
Árnason, Stjörnunni og Haukur Úlf-
arsson, Víkingi. Þeir taka leikbannið
út næstkomandi sunnudag en þá fer
fram næst síðasta umferðin í 1. deild
karla.
HARRY Redknapp, fyrrverandi
framkvæmdastjóri West Ham, sagði
við breska fjölmiðla á miðvikudaginn
að hann gæti verið á leið til Leicest-
er. Redknapp er nú starfsmaður
Portsmouth en slakur árangur Leic-
ester þykir auka líkurnar á því að
Peter Taylor verði sagt upp.
FÓLK
Michel Zen-Ruffinen tók viðstöðu framkvæmdastjóra
FIFA fyrir þremur árum, eða þeg-
ar Josep Sepp Blatter sagði starfi
sínu lausu til að gerast forseti sam-
bandsins. Zen-Ruffinen var milli-
ríkjadómari áður en hann hóf alvar-
leg afskipti af knattspyrnustjórnun
og sagði það einn besta skólann
sem hann hefði notið fyrir lífið og
starf sitt innan FIFA. Hann dæmdi
í 23 ár, þar af 8 ár í efstu deild í
Sviss og starfaði í tvö ár sem milli-
ríkjadómari. Sjálfur lék hann knatt-
spyrnu sem strákur en dómgæslan
átti hug hans allan frá 15 ára aldri.
Zen-Ruffinen kom í fyrsta skiptið
til Íslands á föstudag og leist vel á
land og þjóð.
Hvað veistu um íslenska knatt-
spyrnu?
„Þar til ég kom vissi ég mun
meira um knattspyrnu á Íslandi
heldur en landið sjálft,“ sagði Zen-
Ruffinen. „Nú er því öfugt farið því
ég eyddi þremur tímum í flugvél-
inni í að lesa mér til um landið og
veit því nokkuð. Ég þekki nokkra
leikmenn án þess þó að geta borið
nöfn þeirra fram, þar sem þau eru
of flókin fyrir mig. Ég veit þó
hversu mikilli velgengni þeir hafa
átt að fagna, sérstaklega í Eng-
landi. Einnig veit ég að landsliðið
hefur staðið sig mjög vel að und-
anförnu. Liðið er nú á réttri leið og
á meira að segja möguleika á að
komast í lokakeppni heimsmeist-
aramótsins. Þetta er ekki stórt land
en við höfum Íslendinga í nefnd-
arstörfum innan FIFA svo við vit-
um í gegnum þá hversu góðir Ís-
lendingar eru í knattspyrnu.“
Gríðarlegur áhugi fyrir
HM í Japan og S-Kóreu
Hvernig gengur undirbúningur
fyrir heimsmeistaramótið sem fram
fer í Japan og S-Kóreu næsta sum-
ar?
„Ég var í Japan í síðustu viku við
fundastörf og við erum mjög
ánægðir með hvernig undirbúning-
ur gengur. Þetta er fyrsta skiptið
sem HM er haldið í tveimur lönd-
um. Sú ákvörðun var tekin fyrir
fimm árum. Ég er fullviss um að
keppnin muni takast fullkomlega.
Áhuginn fyrir henni er rosalegur og
við gætum örugglega selt fjórfalt
fleiri miða en hægt er. Við vitum að
það verður uppselt á alla leiki,
skipulagið verður frábært og
tæknileg atriði verða framkvæmd
af mikilli nákvæmni. Við fórum
fram á að hvort land hefði tíu velli
tilbúna, sem er í raun of mikið. Þau
urðu samt við því og glæsilegasti
völlurinn kostaði 500 milljónir
bandaríkjadala og það er hægt að
setja þak yfir hann.“
Eigið þið hjá FIFA einhverjar
skýringar á auknum áhuga á knatt-
spyrnu í heiminum undanfarin ár?
„Knattspyrna er einfaldur leikur
og hann er meðal annars hægt að
leika á götum úti og alls staðar.
Einnig eru reglurnar einfaldar.
Áhugi á knattspyrnu hefur farið
vaxandi í löndum þar sem ekki eru
til miklir peningar. Börn vita að ef
þau standa sig vel í knattspyrnu er
það leið út úr fátækt. Einnig leika
flestir sér til ánægju og það er stór-
kostlegt að sjá hvaða þjóðir eru al-
vöru knattspyrnuþjóðir. Það sér
maður um leið og stigið er inn á
flugstöð hverrar þjóðar.“
Umboðsmenn og sumir
leikmenn fá of mikið
Sumir segja að peningar séu að
eyðileggja knattspyrnu, hvað hef-
urðu um það að segja?
„Ég er ekki sammála því.
Kannski eru peningar að eyðileggja
íþróttir, en ekkert frekar knatt-
spyrnu en aðrar íþróttagreinar. En
það eru of miklir peningar í húfi,
það verð ég að viðurkenna. Um-
boðsmenn og sumir leikmenn fá
alltof mikið í sinn hlut. Hins vegar
skil ég vel að lið þurfi að greiða
bestu leikmönnum sínum há laun
þar sem þeir skapa tekjurnar fyrir
félögin. Einnig er ferill knatt-
spyrnumanna stuttur. Frekar vil ég
þó að leikmenn fái of há laun heldur
en að þeir séu keyptir og seldir fyr-
ir háar upphæðir.“
Hvaða áhrif hefur hið nýja kerfi
um kaup og sölu leikmanna sem tók
gildi 1. september?
„Við höfum unnið myrkranna á
milli til að koma nýja kerfinu á og
ég vona að það muni bæta ástandið
vegna peningamála. Samningar við
leikmennina gengu illa á tímabili en
nú hefur náðst samkomulag. Nýja
kerfið miðar að því að gera bæði
minni félögum og leikmönnum sem
ekki eru launaháir hærra undir
höfði. Því held ég að breytingin sé
til góðs.“
FIFA lenti í nokkrum vandræð-
um vegna markaðsfyrirtækisins
ISL. Eftir margra ára samstarf
varð fyrirtækið gjaldþrota í vor.
Hvaða áhrif hefur það á starfsemi
FIFA?
„Við höfum nú stofnað okkar eig-
ið markaðsfyrirtæki og það er í
raun mun hagstæðara fyrir okkur.
ISL tók til sín töluverða upphæð í
umboðslaun fyrir þau störf sem það
vann fyrir okkur en núna fara pen-
ingarnir til okkar sjálfra. Nú ræða
sjónvarpsfyrirtæki beint við okkur,
eða markaðsfyrirtæki FIFA, sem
er mun hagstæðara.“
Sýningarréttur seldur
hæstbjóðanda
Tekjur af sýningarrétti frá knatt-
spyrnuleikjum í sjónvarpi hafa vax-
ið mjög undanfarin ár. Óttast FIFA
ekki að nú sé ákveðnu hámarki náð?
Sama á máske við launagreiðslur til
leikmanna. Getur þetta tvennt ekki
orðið til að fólki ofbjóði að lokum og
það missi áhugann á íþróttinni, eða
jafnvel hætti að vilja borga stórfé
fyrir að horfa á kappleiki?
„Það hefur nú þegar verið náð
ákveðnum hámarkstekjum út úr
sölu sýningarréttar í sjónvarpi. Við
sjáum það á sölu á sjónvarpsrétti
fyrir HM á næsta ári. Það er einnig
nýtt fyrir okkur. Við seldum hér áð-
ur fyrr allan sjónvarpsrétt til eins
fyrirtækis sem sér til dæmis allri
Evrópu fyrir efni. Upphæðin var
alltaf sú sama, óháð því hve tekj-
urnar yrðu miklar. Það verð var
alltof lágt miðað við hvað sjón-
varpsfyrirtækin græddu á að sýna
knattspyrnu. Árið 1998 þegar síð-
ustu kosningar áttu sér stað hjá
FIFA var ákveðið að selja sjón-
varpsrétt til hæstbjóðenda. Barátt-
an stóð á milli tveggja fyrirtæki og
eitt einkafyrirtæki keypti að lokum
réttinn. Fyrir það fékk FIFA góða
summu sem er jákvætt fyrir knatt-
spyrnuna sjálfa. Það neikvæða er
að sjónvarpsfyrirtæki í ýmsum
löndum eru ekki tilbúin að greiða
rétthafanum jafn háa upphæð og
hann fer fram á fyrir réttindin.
Verðið á sjónvarpsréttinum hefur
tífaldast síðan á síðustu heims-
meistarakeppni sem fram fór í
Frakklandi. FIFA mun hins vegar
ganga í málið verði niðurstöðum
ekki náð fyrir HM og tryggja það
að allar þjóðir, þar á meðal Ísland,
fái sjónvarpsrétt,“ sagði Michel
Zen-Ruffinen.
irisbe@mbl.is
Lítið land með góða
knattspyrnumenn
Morgunblaðið/Kristinn
Michel Zen-Ruffinen, framkvæmdastjóri FIFA, segir verðið á
útsendingarrétti HM-leikja 2002 vera tífalt hærri en 1998.
Michel Zen-Ruffinen, framkvæmdastjóri
Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA,
var staddur á Íslandi til að fylgjast með
leik Íslands og Tékklands um síðustu
helgi. Íris Björk Eysteinsdóttir hitti
Zen-Ruffinen að máli og spurði hann út
í íslenska knattspyrnu, nýjar reglur
varðandi leikmannakaup, sjónvarpsrétt,
undirbúning fyrir HM og fleira.
KKÍ ræðir
við Friðrik
SAMNINGUR Friðriks
Inga Rúnarssonar sem
landsliðsþjálfara í körfu-
knattleik rann út um
mánaðamótin þegar ís-
lenska landsliðið lauk
keppni í forkeppni Evr-
ópukeppninnar í körfu-
knattleik.
Að sögn Péturs Hrafns
Sigurðssonar, fram-
kvæmdastjóra KKÍ, eru
samningaviðræður hafn-
ar við Friðrik Inga um
framhaldið. Verkefni fyr-
ir landsliðið á næstu árum
eru ekki mikil. Engir
landsleikir eru fyrirsjáan-
legir í vetur, næsta sumar
verður Norðurlandamót
og veturinn þar á eftir er
undankeppni á ný og þar
verður landsliðið meðal
þátttakenda.