Morgunblaðið - 23.09.2001, Blaðsíða 4

Morgunblaðið - 23.09.2001, Blaðsíða 4
U pp um alla Manhattan eru andlit á blöðum, límd upp hér og þar; á símaklefum, ljósastaurum, húshliðum. Og þau eru hundruðum saman á minningarstöðum sem hafa sprottið upp í görð- um, götuhornum og neðanjarðarlestastöðvum. Sömu andlitin sér maður aftur og aftur og allt eru þetta myndir frá hamingjustundum. Francesco Cruz er af suðuramerísku bergi brotinn. Þarna er Laura Rockefeller. Kate More McCloskey. Wesley Mer- cer. Dr. Snea Ann Philip. Ég sé að Melissa Vincent hefur átt sama afmælisdag og ég og eftir þessari máðu mynd að dæma hefur hún verið lífsglöð stúlka. Shawn Powers slökkviliðs- maður. Mary Lou Hague hefur verið 26 ára. Robert J. Ferr- is. Azael Vazques situr þétt upp við unga eiginkonu sína og heldur á litlu barni. Þau hlæja öll. Hann hefur verið 21 árs. Lucy Fishman. Og þarna er mynd af mæðgum, Ruth McCo- urt og þriggja ára dóttur hennar, Juliana. Richard Rescola er stór og mikill. David Tengelin. Peter Moutos. Guy Barzvi. Öll þess nöfn og öll þessi andlit. Í lestarstöð undir Times Square er ég að rýna í myndir sem hafa verið límdar á súlu, með upplýsingum um fólkið og símanúmerum ættingja, þegar ung kona brestur í grát við hlið mér. Hún hefur séð andlit gamals vinar. Ég lána henni penna og hún skrifar niður símanúm- erið, ætlar að hringja í ættingjana. Venjulega er Union Square-garður friðsæll staður með grænum flötum, fólki að spjalla á bekkjum og íkornum sem skjótast um. Strax að kvöldi ellefta september tók það að breytast í minningareit þar sem fólk kom hundruðum og þús- undum saman, kveikti á kertum og sameinaðist í sorginni. Þar voru settar upp myndirnar af þeim sem saknað er, fólk skrifaði orðsendingar og hugleiðingar og festi á girðingar, börn sem fullorðnir teiknuðu myndir og tónlistarfólk lék. Það var hátíðlegt en umfram allt dapurlegt að reika um og virða fyrir sér það sem fólk hafði verið að skrifa. Skilaboðin voru mörg og ólík; sumir vildu hefnd, aðrir frið eða leitað var huggunar í trúnni: Guð var sofandi! Ekki fleiri dauðsföll í nafni Guðs. Sameinuð stöndum við, sundruð föllum við. Guð blessi Am- eríku. Hið mannlega ævintýri heldur áfram… Stríð? Nei! Ekki fleiri dráp. Okkar skínandi tákn kunna að falla – en andinn mun sigra! Guðs nýjustu englar. Sorg okkar er ekki kall á stríð. Guð blessi Ameríku. Sum átakanlegustu skilaboðin voru myndir og skrif skóla- barna. Oft teikningar af Tvíburaturnunum, á sumum eru þeir að brenna og flugvél að fljúga inn í þá. Börnin stíluðu bréfin gjarnan á slökkviliðsmenn borgarinnar, og sögðu á tæran og einlægan hátt hvað þeim þætti leiðinlegt að svo margir þeirra skyldu hafa dáið við að bjarga öðrum. Önnur bréf voru per- sónulegri eins og: Kæri litli bróðir, þú getur ekki komið út í ár. Allir flugvellirnir eru lokaðir. Ég er hrædd um að önnur flugvél muni springa. Frá Jackie. „Hér eru allir lamaðir,“ segir Margrét Hjaltested sem býr í Queens. „Það er eins og allir hafi þekkt einhvern. Allir eru að takast á við sorgina og hver á sinn hátt.“ Engu að síður er nálægðin við hryðjuverkin og afleiðingar þeirra mest á suðurhluta Manhattan. Á fimmtudagskvöldið var fór ég inn á hverfisbar rétt við rústasvæðið að fylgjast með George W. Bush Bandaríkjaforseta í sjónvarpi, ávarpa sameinað þing og þjóðina. Þar var sérkennileg blanda gesta; sumir íbúar hverfisins sem var nýbúið að hleypa aftur heim til sín eftir viku fjarveru, en þar voru líka björgunarmenn sem voru búnir að vera í sex tíma að leita að lifendum eða liðnum í rústunum, auk lögreglu- og slökkviliðsmanna. Fólk fylgdist grannt með ræðunni; margir tóku undir og klöppuðu þegar forsetinn lýsti áherslum sínum í baráttunni gegn hryðjuverkum og þeim aðgerðum sem framundan eru. Að annaðhvort væru þjóðir með Bandaríkjunum eða með hryðjuverkamönnum. „Þetta er stríð, það er gott á þessa andskota,“ sagði bar- þjónn. En ung kona var áhyggjufull og sagði að þetta væri bara byrjunin á meiri hörmungum. Fólk er hrætt og óttast óvissuna. Það er enn að reyna að átta sig á því sem gerst hefur. Ummerkin eru svo sláandi; það þarf ekki annað en fara á neðri hluta Manhattan og sjá viðbúnaðinn; hermenn á öllum götuhornum og skilríki skoð- uð. Þetta er eitthvað sem fólk bjóst aldrei við að myndi ger- ast í þessu landi, í þessari borg frelsisins. Borgarstjórinn í New York, Rudolph Giuliani, sem hefur verið hylltur sem þjóðhetja fyrir tök sín á ástandinu, hefur beðið landsmenn að koma til borgarinnar og eyða svolitlum peningum til að koma lífinu aftur í eðlilegt horf. Þótt það verði aldrei sem fyrr, þá verður maður mun minna var við að eitthvað alvarlegt hafi gerst þegar farið er um íbúðahverfi of- arlega á Manhattan; ef undan eru skildir bandarísku fánarnir sem hanga út um allt. En áður en borgarbúar geta reynt að halda áfram af fullum krafti, verða þeir að takast á við sorg- ina og missinn; öll þau mannslíf, drauma og vonir sem glöt- uðust í hryðjuverkunum. Síðdegis á föstudag var haldin falleg en sorgleg athöfn í kirkju fullri af fólki ofarlega á Manhattan, þar sem minnst var Howards eiginmanns Vigdísar Ragnarsson, en hann starfaði í öðrum turninum og eiga þau son sem er hálfs árs gamall. Í ræðu sinni sagði presturinn að fjölskyldan hefði beðið fólk um að minnast hans með gleði, ekki reiði. En margir Bandaríkjamenn sem rætt er við heimta svör og að- gerðir strax; þeir vilja ekki þurfa að upplifa hryðjuverk sem þessi á ný. Sorgin 4 B SUNNUDAGUR 23. SEPTEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ Guð blessi Ameríku Eftir hraustlega regnskúr er fólk aftur mætt á Union Maður les hugsanir fólks af miðum á vegg í Greenwich Village. Brúða, blóm, boxhanski og kerti standa fyrir sorgina á Union Square. Bargestir klappa fyrir ræðu Bandaríkjaforseta í sjónvarpinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.