Morgunblaðið - 29.01.2002, Page 8
KNATTSPYRNA
8 B ÞRIÐJUDAGUR 29. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
PAUL Gascoigne var í aðalhlut-
verkinu í leik Everton og Leyton
Orient í 4. umferð ensku bikar-
keppninnar þar sem Everton vann
auðveldan sigur, 4:1. „Gassi“ sýndi
frábæra takta og átti þátt í þremur
af fjórum mörkum sinna. Kevin
Campbell skoraði tvö marka Ever-
ton, Duncan Ferguson eitt og
fjórða markið var sjálfsmark.
AÐEINS 17.600 áhorfendur
mættu á Riverside-leikvanginn í
Middlesbrough þegar heimamenn
öttu kappi við Manchester United í
bikarkeppninni um helgina. Hátt
miðaverð, hádegisleikur og að leik-
urinn var í beinni útsendingu hjá
Sky-sport sjónvarpsstöðinni var
ástæða þess hve fáir mættu.
STEVE McClaren, knattspyrnu-
stjóri Middlesbrough, verður lík-
lega að hætta við kaupin á Dwight
Yorke frá Manchester United.
Tvær ástæður liggja þar að baki. Sú
fyrri er að leikmaðurinn fer fram á
mjög há laun og sú síðari er að eftir
að Yorke kom inn á sem varamaður
í liði United á Riverside má hann
ekki taka þátt í bikarleikjum með
öðrum liðum á þessari leiktíð.
BRESKA blaðið Sunday Times
hefur heimildir fyrir því að New-
castle hafi boðið Mick McCarthy,
landsliðsþjálfara Íra, um að taka
við stjórn Newcastle fyrir keppn-
istímabilið 2003.
SHUNSUKE Nakamura, jap-
anskur landsliðsmaður, mun ganga
í raðir spænska stórliðsins Real
Madrid eftir heimsmeistarakeppn-
ina í Japan og S-Kóreu í sumar.
Nakamura er 23 ára gamall og leik-
ur með Yokohama F. Marinos í
Japan og var fyrir tveimur árum
valinn besti leikmaður japönsku at-
vinnumannadeildarinnar.
OLIVER Kahn, markvörður Bay-
ern München, var um helgina skip-
aður fyrirliði þýska landsliðsins í
stað Oliver Bierhoffs. Bierhoff fór
fram á að láta fyrirliðastöðuna af
hendi og óskaði hann eftir því við
Rudi Völler landsliðsþjálfara að
Kahn tæki við fyrirliðabandinu sem
Völler varð við.
SVÍINN Joachim Björklund
gekk í gær til liðs við enska úrvals-
deildarliði Sunderland. Björklund
kemur til Sunderland frá ítalska
liðinu Venezia. Hann er 30 ára
gamall varnarmaður og greiddi
Sunderland 1,5 milljónir punda fyr-
ir leikmanninn.
MÁL Jamie Carragher, varnar-
manns Liverpool, sem gerði sig
sekan um að henda smápeningi til
baka upp í áhorfendapalla í leik
Arsenal og Liverpool á sunnudag-
inn er komið á borð lögreglunnar.
Talsmaður Scotland Yard segir að
lögreglan muni rannsaka málið til
hlítar og hann útilokar ekki að
Carragher verði ákærður.
GUÐNI Bergsson og félagar
hans í Bolton voru mættir til leiks á
White Hard Lane gegn Tottenham
í fjórðu umferð bikarkeppninnar en
rúmri klukkstund áður en leikurinn
átti að hefjast ákvað Steve Dunn,
dómari, að fresta leiknum enda
völlurinn þá nánast á floti eftir mik-
ið úrhelli. Leikurinn hefur verið
settur á að nýju þriðjudaginn 5.
febrúar.
GUÐNI verður hins vegar í eld-
línunni á Reebok-leikvanginum í
Bolton í kvöld en þá fá nýliðarnir
ensku meistarana í Manchester
United í heimsókn.
HELGI V. Daníelsson var ekki í
leikmannahópi Peterborough í bik-
arleiknum á móti Newcastle. 2.
deildar liðið, sem var að spila sinn
4. leik á átta dögum, lenti 2:0 en
tókst að jafna metin í 2:2. New-
castle tryggði sér svo sigurinn með
tveimur mörkum á síðustu 6 mín-
útunum.
JÓHANNES Harðarson var ekki
leikmannahópi Groningen sem tap-
aði fyrir AZ Alkmaar í hollensku 1.
deildinni í knattspyrnu.
FÓLK
HERMANN Hreiðarsson og fé-
lagar hans í Ipswich geta nú ein-
beitt sér að því að halda sæti sínu
í ensku úrvalsdeildinni eftir skell
á heimavelli á móti læriveinum
Kevins Keegan í Manchester City
í 4. umferð ensku bikarkeppn-
innar í knattspyrnu. Topplið 1.
deildarinnar fagnaði sigri á Port-
man Road, 4:1, og fer Keegan á
fornar slóðir með lið sitt í 5. um-
ferðinni því Manchester City
dróst á móti Newcastle, liðinu
sem Keegan lék með og var fram-
kvæmdastjóri hjá. Hermann var
að vanda í byrjunarliði Ipswich
en var skipt útaf á 80. mínútu
leiksins.
Lárus Orri Sigurðsson átti góð-
an leik fyrir WBA sem tryggði
sér sæti í 16-liða úrslitum bik-
arkeppninnar í fyrsta sinn í tólf
ár þegar liðið bar sigurorð af
botnliði ensku úrvalsdeildarinnar,
Leicester. Eina mark leiksins kom
11 mínútum fyrir leikslok úr víta-
spyrnu sem þótti mjög umdeild.
Lárus Orri, sem var tæpur fyrir
leikinn vegna meiðsla í nára, var
sterkur í vörn WBA eins og hann
hefur verið mest alla leiktíðina.
Eiður Smári Guðjohnsen var
óvænt á varamannabekknum í liði
Chelsea sem gerði 1:1 jafntefli við
West Ham. Claudio Ranieri, stjóri
Chelsea, ákvað að gefa Finnanum
Mikael Forsell tækifæri í fremstu
víglínu við hlið Jimmy Floyd
Hasselbainks og það á kostnað
Eiðs. Eiður Smári, sem á dögun-
um skoraði tvö mörk gegn West
Ham í deildinni, kom inná á 70.
mínútu.
„Eiður hefur átt við meiðsl að
stríða og hefur lítið æft að und-
anförnu. Ég vildi því hvíla hann
en ákvað hins vegar að setja hann
inná undir lokin og freista þess
að ná fram sigri,“ sagði Claudio
Ranieri eftir leikinn.
Jimmy Floyd Hasselbaink skor-
aði 20. mark sitt á leiktíðinni með
glæsilegri vinstrifótarspyrnu en
Frederic Kanoute jafnaði fyrir
West Ham tíu mínútum fyrir
leikslok. „Það voru vonbrigði að
vinna ekki sigur. Við sköpuðum
okkur fullt af færum en West
Ham skoraði nánast úr eina færi
sínu,“ sagði Ranieri.
Lárus Orri sterkur í vörn WBA
Mike Riley, dómari, sá sami ogvísaði Lárusi Orra Sigurðs-
syni af velli í landsleik Íslendinga
og Búlgara í undankeppni HM í
fyrra, var í aðalhlutverki í síðari
hálfleiknum á Highbury. Hann
byrjaði á því að vísa Martin Keown,
varnarmanni Arsenal, útaf fyrir
brot á Michael Owen á 66. mínútu.
Fimm mínútum síðar fór Dennis
Bergkamp sömu leið fyrir ljótt brot
á Jamie Carragher en þar með var
þætti Rileys ekki lokið. Þegar
Carragher hugðist framkvæma
aukaspyrnuna eftir brot Berg-
kamps var smápeningi kastað í átt-
ina að honum, Carragher svaraði í
sömu mynt og það mislíkaði Riley
sem umsvifalaust tók upp rauða
spjaldið.
„Ég vil ekki gefa mitt álit á
brottrekstrunum heldur vil ég frek-
ar hrósa leikmönnum mínum fyrir
góða frammistöðu. Þetta var ekta
bikarleikur en mér fannst hann alls
ekki grófur. Auðvitað voru menn að
takast á en ég held að leikurinn
hafi verið heiðarlegur þó svo að
þrír leikmenn hafi verið sendir af
velli. Ég var ánægður með spila-
mennsku minna manna og fannst
sigur okkar fyllilega sanngjarn,“
sagði Arsene Wenger, knattspyrnu-
stjóri Arsenal sem mátti horfa upp
á 10. rauða spjaldið fara á loft hjá
liðsmönnum sínum á þessari leiktíð.
Phil Thompson aðstoðarstjóri
Liverpool sagði eftir leikinn að
Jamie Carragher hefði brugðist
rangt við þegar hann kastaði smá-
peningnum til baka upp í áhorf-
endapalla en bætti því að aðeins
væri tímaspursmál hvenær leik-
maðurinn yrði fyrir meiðslum af
völdum áhorfenda.
Ferguson reiður
Sir Alex Ferguson, knattspyrnu-
stjóri Manchester United, húð-
skammaði sína menn eftir ósigur-
inn á móti Middlesbrough í fjórðu
umferð ensku bikarkeppninnar.
United réð ferðinni lengst af leiks-
ins en náði lítið að skapa sér af
færum. Fyrir það var þeim refsað.
Misskilningur á milli frönsku vin-
anna Laurent Blanc og Fabien
Barthez varð til þess að Noel Whel-
an kom „Boro“ yfir á 85. mínútu og
á lokamínútunni rak varamaðurinn
Andy Campbell naglann í líkkustu
ensku meistaranna þegar hann
skallaði í netið eftir góða sókn
heimamanna.
„Ég er mjög vonsvikinn. Liðs-
menn mínir spiluðu kæruleysislega.
Leikur liðsins var í hálfgerðum
molum og til að bæta gráu ofan á
svart færðum við Middlesbrough
mörkin silfurfati. Ég átti aldrei von
á að Middlesbrough færi með sigur
af hólmi. Við áttum að vinna leik-
inn, það vitum við og ég held að all-
ir aðrir hafi vitað það. En við vor-
um kærulausir og var refsað illilega
fyrir það. Við fengum vissulega
færin í leiknum en kæruleysið var
einkennandi þegar menn áttu að
ljúka verkinu,“ sagði Ferguson.
Ryan Giggs og Ruud van Nistel-
rooy komu inná sem varamenn í
síðari hálfleik en David Beckham
og Sebastian Veron voru hvíldir
sökum meiðsla.
Colin Lee, stjóri Walsall, gat
ekki óskað sér betri byrjun í starf-
inu en hann tók við liði Walsall fyr-
ir helgina. Lee fór með sína menn á
Valley Park og óvænt úrslit litu þar
dagsins ljós því 2. deildarliðið gerði
sér lítið fyrir og lagði úrvalsdeild-
arlið Charlton, 2:1. James Walker,
markvörður, Walsall, var hetja
sinna manna. Hann varði hvað eftir
annað meistaralega vel og kórónaði
frammistöðu sína með því að verja
vítaspyrnu skömmu fyrir leikslok.
Cole enn
á skotskónum
Nokkrum klukkustundum eftir
að Manchester United féll úr bik-
arkeppninni gat fyrrverandi liðs-
maður United, Andy Cole, fagnað
sigri en þessi mikli markaskorari,
sem ensku meistarararnir gátu
ekki notað, skoraði Cole sigurmark
Blackburn á móti Milwall fjórum
mínútum fyrir leikslok. Þetta var
fjórða mark Cole fyrir Blackburn
frá því hann kom til liðsins frá
United.
Reuters
Dennis Bergkamp fagnar sigurmarki sínu á Liverpool með því
að stökkva upp á bak félaga síns, Thierry Henry.
Sæt hefnd
Arsenal á
Highbury
ARSENAL er sigurstranglegasta liðið sem eftir er í ensku bikar-
keppninni í knattspyrnu eftir að hafa rutt úr vegi bikarmeisturum
Liverpool í 4. umferð keppninnar á Highbury á sunnudaginn þar
sem þrjú rauð spjöld litu dagsins ljós. Dennis Bergkamp skoraði
eina mark leiksins – skallaði í netið á 27. mínútu eftir vel útfærða
sókn heimamanna og það reyndist sigurmarkið. Arsenal náði þar
með að hefna ófaranna frá því í vor en þá tapaði liðið fyrir Liverpool
í úrslitaleik bikarkeppninnar á þúsaldarvellinum í Cardiff.