Lesbók Morgunblaðsins - 22.09.2001, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 22.09.2001, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 22. SEPTEMBER 2001 7 ars Jónssonar og vantar nú ekki nema Eng- lendinginn auðuga. Þessi orð lýsa vel hve mikilvæg ættartengsl Thorvaldsens við landið voru mörgum Íslend- ingum, þótt hann hafi aldrei til Íslands komið. Má ganga að því vísu að almenningur í Reykja- vík hafi þekkt tvö verka hans, skírnarfontinn í Dómkirkjunni í Reykjavík og sjálfsmyndina sem þá stóð á Austurvelli og var eina högg- myndin á almannafæri hér á landi á þessum tíma. Af greinunum tveim er ljóst að menn fögn- uðu ekki aðeins íslenskum myndhöggvara, sem þeir auk þess líktu við þann sem þeim þótti mestur, heldur einnig því að listamað- urinn skyldi takast á við efni úr íslenskri menningu sem sérhver Íslendingur ætti að þekkja. Í þessu fólst hins vegar nokkur mót- sögn. Því þótt mönnum hafi fundist Ísland hafa eignast alíslenskan Thorvaldsen, þegar Einar Jónsson kom fram á sjónarsviðið, var fátt líkt með verkum þessara listamanna, hvorki að efni né útfærslu. Af þeim Íslendingum, er fóru til Kaup- mannahafnar í listnám laust fyrir aldamótin 1900, var Einar Jónsson sá eini sem tengdist róttækum listamönnum í Danmörku. Þessir listamenn höfnuðu hinni klassísku hefð, sem list Thorvaldsens var fulltrúi fyrir, og natúral- ismanum sömuleiðis. Þegar Einar kom til Kaupmannahafnar snemma vors árið 1893, átti list þessa mesta myndhöggvara Dana ekki lengur upp á pallborðið hjá yngri listamönnum og hafði svo verið um nokkurt skeið. Uppreisn- arástand ríkti í dönsku listalífi. Ungir lista- menn höfðu risið gegn rótgrónum listastofn- unum á borð við Listaháskólann og Charlott- enborgarsýninguna. Stofnaðir höfðu verið listaskólar til hliðar við hinn konunglega listaháskóla og árið 1892 stofnaði hópur rót- tækra listamanna sýningarsal undir heitinu „Den frie Udstilling“ til mótvægis við hina op- inberu sýningarstefnu. Hvorki Einar né aðrir Íslendingar, sem hófu listnám í Kaupmanna- höfn í lok 19. aldar, sóttu hina róttæku lista- skóla. Hins vegar átti Einar eftir að slást í hóp myndhöggvara sem afneituðu natúralismanum og stóðu að sýningum á „Den Frie“ undir heit- inu „De frie Billedhuggere“. Fyrstu árin í Kaupmannahöfn sótti Einarkennslu hjá norska myndhöggvaranum Stephan Sinding, en verkum hans hafði hann kynnst af ljósmyndum í sýningarskrá frá Charlottenborg, sem hann hafði séð í Lands- bókasafninu í Reykjavík. Þótt Einar segist ekki hafa kynnst þessum fyrsta kennara sínum náið, skipti dvöl hans hjá Sinding máli fyrir síð- ari þróun hans. Sinding, sem átti rætur í þjóð- ernisrómantík 19. aldar, en hafði síðar getið sér frægð fyrir natúralísk verk, vann einmitt um þetta leyti að verkum þar sem efnið var sótt í norræna goðafræði og hafði jafnvel orð á því við hinn íslenska nemanda sinn að hann ætti að sækja sér efni í Íslendinga sögurnar. Átti það eftir að hafa nokkur áhrif á efnisval Einars. Eftir dvölina hjá Sinding stundaði Ein- ar nám við Listaháskólann í Kaupmannahöfn árunum 1896–99. Þar kynntist hann hinni klassísku hefð sem þar ríkti. Voru kennarar hans þeir Vilhelm Bissen og Theobald Stein, sem báðir áttu rætur í þeirri hefð, þótt í verk- um þeirra gætti einnig áhrifa frá natúralisma. Það gefur auga leið að þessir myndhöggv- arar hafa haft mótandi áhrif á Einar sem eins og aðrir Íslendingar hafði á engri myndlist- arhefð að byggja. Í fyrstu verkum hans gætir þannig áhrifa frá klassískri hefð sem og nat- úralisma, en einnig þjóðernisrómantík sem ríkti í norrænni list við lok 19. aldar og ekki síð- ur í íslenskum bókmenntum og menningarum- ræðu. Í doktorsritgerð sinni um list Einars tel- ur Ólafur Kvaran að rekja megi hugmyndina að verkinu Útlagar aftur til þess tíma, er Einar var hjá Sinding, en í bréfi til sr. Valdimars Briem frá árinu 1893 segir Einar að Sinding hafi hvatt sig til að sækja sér myndefni í Ís- lendinga sögurnar og hann hafi byrjað á mynd af Gretti Ásmundarsyni. Síðar segist hann hafa ætlað að gera stóra mynd af Gretti sem hann hafði hugsað sér á bókarkápu Grettis- ljóða Matthíasar Jochumssonar. Mun Matth- ías hafa haft fregnir af þeim áformum Einars, en nokkru seinna hvatti hann Einar til þess að gera myndir við gullaldarbókmenntir Íslend- inga til að kynna þær þjóðinni. Þessi hvatning Matthíasar er áhugaverð í ljósi þess að einmitt um svipað leyti var helstu myndlistarmönnum Norðmanna falið að myndlýsa Heimskringlu sem verið var að undirbúa viðhafnarútgáfu á. Þau verk með myndefni úr norrænni goða- fræði, sem Einar mun hafa gert á þessum tíma, hafa ekki varðveist, en til eru verk og drög að verkum frá sama tíma þar sem hann hefur sótt efnið bæði í klassíska og norræna goðafræði auk Biblíunnar. Ætlun hans var þó ekki að færa frásögn textans yfir í mynd heldur virðist hann fremur ganga út frá innihaldi textans í vangaveltum sínum um ýmsar tilvistspurning- ar um örlög mannsins og gerðir sem og spurn- ingar af trúarlegum toga. Þetta er vert að hafa í huga þegar skoðuð eru verk Einars þar sem hann hefur sótt myndefnið í þjóðsögur og goðsagnir. Í stað þess að yfirfæra efni sögunnar í mynd notar hann það sem ramma til að vinna úr á persónu- legan hátt. Myndefnið verður því ekki rakið til tiltekinnar sögu heldur hefur hann skapað samsetta heild eða samhverfu úr ýmsum minn- um úr ákveðnum sagnaflokki með það fyrir augum að ná fram sérstökum áhrifum sem hafa táknrænt gildi. Myndefnið miðlar annars vegar efni frásagnarinnar á hlutkenndan hátt og hins vegar hugmyndalegu inntaki verksins. Þessi úrvinnsla á þjóðsagnaminninu var al- geng í verkum norrænna myndlistarmanna sem aðhylltust symbólismann í lok 19. aldar. Symbólisminn var andóf gegn natúralisama og efnishyggju og boðuðu áhangendur hans að listin ætti miðla því andlega handan hins sýni- lega í stað þess að lýsa ytri veruleika. Í verkum norrænu symbólistanna voru þjóðsagnaminnin birtingarmyndir samhverfunnar þar sem þau voru alþýðleg og auðskiljanleg í senn, en fólu jafnframt í sér eitthvað háleitara. Höggmyndin Útlagar er gott dæmi um slíka úrvinnslu á söguefninu frá hendi Einars. Sam- kvæmt handriti að riti um list hans, sem Norð- maður að nafni Øyvind Heggtveit skrifaði í samvinnu við Einar og varðveitt er í safni hans, er sagan að baki verkinu hugarsmíð lista- mannsins. Þar er þess getið að maðurinn hafi orðið betri maður í sambúðinni með stúlkunni, sem hann hafði rænt, og ekki getað neitað henni um þá bón hennar að fá að hvíla í vígðri mold, og jafnframt að maðurinn hafi átt að finna til enn meiri einsemdar, þegar hann sneri aftur til óbyggðanna. Þótt sagan sé byggð á þekktum minnum úr íslenskum útilegumanna- sögum, er í handritinu er tekið fram að hug- mynd Einars eigi ekkert sameiginlegt með ís- lenskum útilegumannasögum, heldur hafi verkið táknræna merkingu. Það lýsi ekki ein- ungis sorgarsögu aðalpersónunnar heldur leiði hugann að leit hinnar útlægu sálar að þeim fjársjóði sem býr í hinni hrífandi einsemd nátt- úrunnar. Í safni Einars eru til frumdrög að þessu verkisem eru til vitnis um að hann var farinn að vinna að því síðasta árið í Listaháskólanum. Þar má sjá hvernig þyngdarpunkturinn við mótun verksins hefur færst æ meir á yfir á karlmanninn, einkum andlit hans sem verður miðpunktur þess. Í endanlegri gerð sýnir verkið stórskorinn karlmann með barn á hand- leggnum og konu á bakinu og við hlið hans gengur hundur. Karlmaðurinn er gerandinn í verkinu þar sem hann stígur fram og styður sig við rekuna í hægri hendi. Hann horfir star- andi augum fram fyrir sig og er mikilúðlegur á svip. Mynd hans einkennist af grófum dráttum í andliti og handleggjum og klæðnaði hans eru gerð nákvæm skil í samræmi við lýsingar úr þjóðsögum. Mynd konunnar einkennist hins vegar af mýkt og klæðnaður hennar hefur ekki heldur sömu sögulegu skírskotun og klæðn- aður mannsins. Stílfræðilega leiðir mynd hennar hugann að verkum klassismans og er í andstöðu við grófa og raunsæja mynd manns- ins. Fljótt á litið virðist verkið fyrst og fremst lýsa frásögninni sem að baki lá. Sú viðleitni Einars að láta myndefnið tjá ákveðna hug- mynd auk þess að koma frásögninni til skila lýsir sér hins vegar í uppbyggingu verksins og formmótun. Staða karlmannsins sem gefur í skyn hreyfingu fram á við, andlitsdættir hans og starandi augnaráð eru atriði sem kalla fram ákveðnar tilfinningar sem tengja má dramatík sögunnar. Af látbragði mannsins, sem lítur fram hjá barninu sem hann heldur á, má einnig ráða að inntak verksins sé innhverfara. Það leiðir hugann að því sem fram kemur í handriti Heggtveits: að hugmyndalegt inntak þess sé einmanaleikinn, jafnt í lífi einstaklingsins sem í leitinni að fjársjóðnum í hinni hrífandi einsemd náttúrunnar. Til að tjá þetta inntak hefur Ein- ar skapað táknmál sem byggist á sefjunar- mætti myndarinnar í stað skilgreindra tákna sem hafa ákveðna merkingu. Heildarform verksins og látbragð mannsins ráða þannig upplifun áhorfandans og túlkun á hinum dulda boðskap þess. Með orð sr. Jóns Helgasonar í huga má segja að Einari Jónssyni hafi tekist að hrífa landa sína með verkinu sínu og jafnvel að þeir hafi meðtekið boðskap þess, þótt hann verði ekki túlkaður á einn veg. Þó má telja víst að efnið eitt og sér, sem Einar lagði út af, hafi átt greiðan aðgang að huga Íslendinga, að minnsta kosti þeirra sem létu sér annt um þjóðernið. Einari sjálfur var líka annt um að verkið færi til Íslands, en yrði ekki innlyksa í Danmörku. Því til sönnunar er bréf sem hann skrifaði vini sínum 11. júní árið 1904. Þar seg- ist hann hafa fengið tilboð frá listasafni í Ríbe í Danmörku í sína „gömlu mynd“ sem hann kall- ar sjálfur Útilegumanninn. Verðtilboðið þykir honum hins vegar of lágt, 600 kr., og segir svo: …og af því að jeg er öldungis peningasnauð- ur, verð jeg að láta dýrið, en miklu og mörg- umsinnum heldur vildi jeg óska honum (útil.m.) heim til Reykjavíkur, fyrir sama eða þá minna verð, til þess að hann gæti orðið heima, því ef hann fer þangað til Jótlands, í þennan smábæ, er hann gersamlega dottinn úr sögunni, fyrir Ísland minsta kosti. Ætli að það væri hugsanlegt að nokkrir heima kærðu sig um þetta verk mitt? Síðar í bréfinu veltir Einar því fyrir sér, hvort hann eigi að fara fram á það við bæj- arstjórn Reykjavíkur að bærinn keypti verkið. Orð Einars um að verkið dytti úr sögunni, lenti það inn á safni í Danmörku, eru athyglisverð. Þau segja okkur að hann hefur hugsað sér það í ákveðnu sögulegu og menningarlegu sam- hengi og að án þess samhengis væri það merk- ingarlaust. Það liðu sem sagt nokkur ár þar til „einhver auðmaður“ keypti Útlaga Einars. Var það hvorki listasafnið í Ribe né Reykjavíkurbær heldur danski kaupmaðurinn Ditlev Thomsen, sem keypti það sumarið 1904 og gaf þjóðinni. Má vera að vinur Einars hafi átt þar hlut að máli. Var verkið fyrsta íslenska listaverkið sem Listasafn Íslands eignaðist og var því komið fyrir í anddyri Alþingishússins eftir því sem greint var frá í íslenskum blöðum. Útlagar Einars Jónssonar hrifu fleiri en ráð-setta menn aldamótanna. Halldór Laxness segir frá því í bókinni Úngur eg var að hann hafi, sjö ára gamall, látið hrífast af verkinu, sem hann segist hafa séð í anddyri Íslands- banka, og að það hafi verið sér slík opinberun og áskorun að hann hafi beðið Guðmund frá Miðdal að gera teikningu af því fyrir bókar- kápuna af Sjálfstæðu fólki. Prýðir teikning af verki Einars kápu annars bindis frumútgáfu skáldsögunnar, sem kom út árið 1935, en er með áritunina „JB“ og því ekki eftir Guðmund. Þegar bygging listasafns Einars var reist á Skólavörðuholti eftir hugmyndum hans sjálfs var verkið flutt þangað og hefur verið þar frá því safnið var opnað á Jónsmessu árið 1923. Þar eru einnig frumdrög að því, meðal annars eitt sem sýnir hvernig Einar hugsaði sér að koma mætti því fyrir á opinberu svæði. Á gam- alli ljósmynd sést hvaða áhrifum Einar vildi ná með þeirri sviðsetningu þar sem hann lætur manninn koma inn á sviðið af fjöllum. Heimildir: Einar Jónsson, bréf til ónafngreinds vinar, dags. 11.6. 1904. Einar Jónsson, Minningar, Reykjavík 1944. Halldór Laxness, Úngur eg var, Reykjavík 1976. Jón Helgason, „Íslensku listamannsefnin erlendis“, Ísa- fold, 19. maí 1901. „Útilegumaðurinn“, Sunnanfari, IX, 8, 1901, bls. 64. Margaretha Rossholm, Sagan i Nordisk Sekelskiftes- konst, Stockholm 1974. Ólafur Kvaran, Einar Jónssons skulptur, formutveck- ling och betydelsevärld, 1987. Øyvind Heggtveit, Einar Jónsson (handrit.) Einar Jónsson: Frumkast að Útlögum, 1900–1901. Hugmynd Einars að staðsetningu verksins á opinberu svæði. Listasafn Einars Jónssonar. Höfundur er forstöðumaður Listasafns Einars Jónssonar. Ég bergi á miði Braga bind hann í skálda mál Reyni að uppvekja eldinn inni í minni sál. Kvistum á eldinn kasta kneyfa hið máttka vín, flétta með gömlu formi fáein orð til þín. Forðum úr landi lögðu ljóðskáldin stolt í ferð. Erlendum kóngum kváðu kvæði af dýrstu gerð. Gull var að launum goldið glæsiskikkjur og lín. Hetjur af hornum drukku hilmanna eðalvín. Röddin sem kvæðið kynnti var kröftug sem norðanbál. Stundum hörð sem heiftin, og hamraveggjarins stál Stundum blíð sem blærinn og bæjarlækjarins rjál Stundum létt sem laufið ljúf sem vorsins mál Nú land mitt gistir gestur það gleður skálda þjóð hann skilur fegurð fjallsins og fossins töfraljóð Stormsins reginrokur regnsins dimma hljóð Hann gleðst við kólgu kalda og kvöldsins sólarglóð. Frá Kína er hann kominn að kveða um Íslands fjöll vorsins þíðu vinda vetrarins hvítu mjöll Sumarlandsins sælu sólarljóssins yl niðdimmt næturhúmið norðurhjarans byl. Enn sem fyrrum ferðast frækin skáld um lönd. Þó kvæðalaun ei komi úr kóngsins ríku hönd. Þau eru að kalli knúin sem kemur innan frá og ást á ljóðsins listum í lýðsins hjörtu sá. VILHJÁLMUR H. GÍSLASON Höfundur er kennari og þýðandi. Ljóðið er ort til Wang Ronghua, sendiherra Kína í Reykjavík, en Vilhjálmur hefur þýtt ljóð hans um íslenska náttúru og sögu sem birst hafa í Lesbók. LJÓÐ TIL VINAR

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.