Lesbók Morgunblaðsins - 25.05.2002, Qupperneq 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 25. MAÍ 2002
Á
undanförnum fimmtán
árum hefur Andrew
Vachss gefið út hátt á
annan tug skáldsagna,
tvö smásagnasöfn, fræði-
rit um málefni unglinga
og „barnabók fyrir full-
orðna“. Frægðarsól hans
hefur risið hægt og bítandi og umfjöllun um
bækur hans sífellt orðið meiri. Engu að síð-
ur má með nokkrum rétti segja að ritstörfin
séu aðeins aukagrein í ævistarfinu. Vachss
er einnig lögfræðingur og í rúm tuttugu ár
hefur hann sérhæft sig í málum er varða
kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.
Alltumlykjandi óþverri
Svonefndar glæpabókmenntir eiga sér
langa og margslungna sögu en rætur forms-
ins eru jafnan raktar til nokkurra smásagna
Edgars Allans Poe frá því um miðja
nítjándu öld og hafa fræðimenn tengt blóm-
legan vöxt greinarinnar við stórborgar- og
iðnvæðingu tímabilsins er þá fór í hönd.
Dóms- og réttarkerfið færðist úr höndum
yfirstéttarinnar og lögregla í nútímalegri
mynd varð fyrst til. Aldagömul samskipta-
mynstur breyttust í stórborginni þar sem
ókunnugir umgengust ókunnuga. Þá voru
afkimar og undirdjúp mannssálarinnar
rannsökuð og þær margvíslegu hvatir sem
undirvitundinni voru eignaðar áttu eftir að
skapa rithöfundum hryllings- og glæpabók-
mennta efnivið um langa framtíð. Rann-
sóknarlögreglumaðurinn, sem gengur um
myrk öngstræti stórborgarinnar og leitast
við að raða saman vísbendingum, þurfti ekki
einvörðungu að bregða sér í hlutverk sál-
greinanda sem getur lesið í hjörtu manna
heldur þurfti hann líka að geta ráðið í borg-
armyndina.
Bókmenntategundin hefur síðan notið
mikilla vinsælda allt frá því að hún lét fyrst
á sér kræla. Reyndar var hylli ákveðinna af-
kastamikilla höfunda sem ruddu greininni
braut á fyrri hluta 20. aldar, og teljast ekki
til andans afreksmanna, s.s. Agöthu Christ-
ie, Edgar Wallace, Earl Stanley Gardner
o.fl., slík að að tegundinni var skipað neð-
arlega í stigveldi bókmenntanna. Kom þar
líka til formúlukennd bygging flestra sagn-
anna. Það hefur þó ekki aftrað seinni tíma
„bókmenntalegum“ rithöfundum á borð við
Joan Didion, Umberto Eco, Martin Amis og
Antonio Munoz Molina frá því að leggja lag
sitt við greinina og nú er svo komið að
geirahöfundar líkt og James Ellroy og Art-
uro Perez Reverte hafa hlotið almenna við-
urkenningu fyrir verk sín sem mælist m.a. í
umfjöllun í virtum bókmennta- og menning-
arritum. Bandaríkjamaðurinn Andrew
Vachss tilheyrir þessum síðastnefnda hópi
en markar sér þó sérstöðu af ýmsum ástæð-
um og vegur þar þyngst reynsla hans sem
lögfræðingur og fangelsisstjóri en
hún endurspeglast ríkulega í skáldsög-
unum sem flestar skarta sömu söguhetj-
unni, neðanjarðarmanninum Burke, sem líkt
og höfundurinn sérhæfir sig í glæpamálum
er tengjast börnum en ólíkt Vachss leitar
hann ekki á náðir dómstóla í leit sinni að
réttlæti.
Þegar Vachss skrifaði sína fyrstu skáld-
sögu, Flood, er lýsir leit að týndri stúlku í
undirheimaveröld barnakláms og vændis,
um miðjan níunda áratuginn var kynferð-
islegt ofbeldi gegn á börnum mikið feimn-
ismál og langan tíma tók að brjóta niður
þagnarmúrinn í kringum glæpi af þessu
tagi. Harkan sem einkenndi umfjöllun
Vachss greindi hann frá öðrum sem látið
höfðu sig málefni barna varða á einn eða
annan hátt. Hugsunin sem lá bókinni til
grundvallar, og sama má segja um þær sem
komu í framhaldinu, var sú að glæpirnir
sem fjallað var um væru ekki „undantekn-
ingar“. Hér var ekki um hið hefðbundna frá-
sagnarmynstur að ræða þegar hinn þekkj-
anlegi heimur fer úr jafnvægi við einhvers
konar „rof“ sem hleypir atburðarásinni af
stað og lýkur þegar söguhetjan sigrast á
óvininum og framkallar jafnvægi á nýjan
leik. Lesandi fær frekar á tilfinninguna að
þau sakamál sem Burke tekur sér fyrir
hendur að leysa séu aðeins toppurinn á ís-
jakanum og þótt rannsókn hans reynist
e.t.v. áhrifarík í einstöku máli sé hún van-
máttug þegar á heildina er litið. Ekki ósvip-
uð veruleikasýn birtist í kvikmynd Martins
Scorsese um leigubílstjórann Travis Bickle
sem á næturferðum sínum kynnist borg-
armenningu þar sem „óþverrinn er allt-
umlykjandi“.
Verkefni höfundarins
Tilgangur Vachss með skrifum sínum er
að ljá máls á málefni sem honum er hug-
leikið; hann vill vekja sterkar tilfinningar í
brjósti lesenda sinna til að opna fyrir um-
ræðu um ofbeldi gegn börnum: „Bækur
mínar þjóna öðrum tilgangi en gengur og
gerist hjá rithöfundum,“ segir hann í nýlegu
viðtali. „Fólk gerir ekkert nema það sé reitt
til reiði. Skrif mín hafa ákveðin markmið, og
þótt ég samþykki að fullnægja verði
ákveðnum afþreyingargildum til að lesendur
ljúki bókinni eru þau aðeins í hlutverki
bragðefna.“ Ritstörfin eru þannig á vissan
hátt eðlileg framlenging á starfi Vachss inn-
an dómskerfisins, „Með skrifum mínum var
ég að leita að stærri kviðdómi en ég gat
fundið innan veggja dómssalarins,“ sagði
hann öðru sinni.
Því fer þó fjarri að skáldsögur Vachss séu
einfaldar málpípur góðborgaralegra skoð-
ana, enda kemst sú skilgreining hvergi
nærri þeirri róttæku lífssýn er einkennir
verkin. Velgengni Vachss á ritvellinum hvíl-
ir á frásagnarhæfileikum og sérstæðri inn-
sýn í myrkar hliðar mannlífsins, en hvort
tveggja nýtur sín til fullnustu í hans bestu
verkum. Í bókum á borð við Strega (1987),
Down in the Zero (1994) og nýjustu skáld-
sögunni, Pain Management (2001), er dregin
upp mynd af miskunnarlausum stórborg-
arfrumskógi þar sem hinir sterku traðka á
þeim sem minna mega sín, allt er til sölu og
manngildishugsjónir eru það fyrsta sem fell-
ur í valinn í eyðilandi svika og hryllilegra
glæpa. Atburðarásin er jafnan harðneskju-
leg og ógeðfelld, svo mjög að lesendum fyr-
irgefst að eiga í erfiðleikum með að meðtaka
frásögnina. Trúverðugleiki bókanna verður
þó seint dregin í efa enda litast sýn Vachss
á umhverfið óneitanlega af atvinnu hans, en
áður en hann varð sjálfstætt starfandi lög-
fræðingur gegndi hann stöðu fangelsisstjóra
í fangelsi fyrir ofbeldishneigða unglinga í
Massachusetts og sem opinber eftirlits-
fulltrúi í kynsjúkdómavörnum. Þá var eig-
inkona hans, Alice Vachss, um langt skeið
saksóknari og yfirmaður kynferðisafbrota-
deildar saksóknaraembættisins í Queens-
hverfi New York borgar, og hefur lýst
reynslu sinni í bókinni Sex Crimes, magn-
aðri ádeilu á þá meðferð sem kynferðisaf-
brotamál fá í bandaríska réttarkerfinu. Sá
áleitni grunur að í verkum sínum sé Vachss
bókstaflega að lýsa því sem hann og eig-
inkona hans upplifa dag hvern í vinnunni
gerir þær að nærri óbærilegri lesningu á
köflum.
Utangarðsmaðurinn Burke
Bækur Vachss flokkast skýrt og greini-
lega sem innlegg í glæpasagnahefðina.
Skýrustu áhrifavaldar hans eru glæpahöf-
undar millistríðsáranna en ritháttur Vachss
minnir um margt á harðsoðinn og skor-
inyrtan fyrstupersónu frásagnarstíl Dash-
iells Hammett og Raymonds Chandler, en
Vachss heldur jafnvel enn lengra en þeir í
átt að því sem best væri lýst sem skrifum
við frostmark. Áhersla er lögð á samræður,
en lýsingum á persónum og sögusviði er
haldið í lágmarki, táknsviðið er hrátt og frá-
sögnin því gagnsærri en oft er. Kalt tilfinn-
ingaleysi einkennir frásögnina og ákveðin
fjarlægð skapast því milli texta og lesanda.
Persónur bókanna hafa fyrir löngu sagt
skilið við hefðbundnar siðferðisreglur og lifa
að mestu utan marka þjóðfélagsins. Það
þýðir þó ekki að þær séu siðlausar. Siðferð-
isleg vídd bókanna skýrist smám saman og
verður til úr margþættu samspili innan bók-
anna og bóka á milli, en er ekki búin til á
beinan hátt með innleggi eða útúrdúrum
höfundar.
Flestar skáldsögur Vachss skarta sömu
söguhetjunni, Burke, einfara er lifir og
hrærist í undirheimum New York-borgar.
Burke, sem ekki virðist bera skírnarnafn og
er því nærri nafnlaus, er hvergi til í kerfi
hins opinbera. Hann lifir á jaðri þjóðfélags-
ins og starfar sem dálítið einkennileg
blanda af leynilöggu, svikahrappi og mála-
liða sem engu að síður sérhæfir sig í glæpa-
málum er tengjast börnum (líkt og höfund-
urinn). Hann leggur sjaldnast lausn
rannsóknarinnar í hendur lögreglunnar,
eins og sígildir spæjarar gerðu á árum áður,
heldur tekur sjálfur að sér að vera kviðdóm-
ur, dómari og oftar en ekki böðull. Þótt ekki
sé beinlínis hægt að segja að Vachss hafi
mildast í efnistökum eftir sem liðið hefur á
ferilinn er reiðin sem ólgar í fyrstu bók-
unum nærri áþreifanleg. Auðvelt er að
ímynda sér að hin harðsvíraða andhetja sem
höfundurinn skapaði í sinni fyrstu útgefnu
bók sé einskonar birtingarmynd þeirra til-
finninga sem lögfræðingurinn varð að
byrgja inni. Burke má því sjá sem skáldað
andsvar Vachss við gölluðu dómskerfi og
holdgervingu þeirra einörðu skoðana sem
Vachss hefur verið óhræddur við að viðra í
fjölmiðlum um barnaníðinga, en þess má
geta að Vachss hefur gegnt veigamiklu
hlutverki í almennri umfjöllun um þetta
málefni í Bandaríkjunum auk þess að beita
sér fyrir lagabreytingum og nýjum laga-
setningum.
Að deyfa sársaukann
Í nýjustu bókinni, Pain Management
(Sársaukastjórnun), tekst Burke á við mál
sem í fyrstu virðist sáraeinfalt. Unglings-
stúlka hefur hlaupist á brott frá því sem við
fyrstu sýn virðist fyrirmyndarheimili. Fað-
irinn ræður Burke til að hafa upp á henni en
þegar dýpra er grafið koma ýmis fjölskyldu-
leyndarmál í ljós. Söguþráðurinn, sem kem-
ur þeim sem þekkja höfundinn kunnuglega
fyrir sjónir, fléttast saman við annars konar
málefni sem greinilega skiptir Vachss líka
máli en það er sársaukastjórnun á heilsu-
gæslustofnunum. Meðan á rannsókninni
stendur lendir Burke í samfloti við dul-
arfulla konu sem stjórnar undirheimabraski
með verkjalyf. Málstaður konunnar er for-
vitnilegur: fjöldi langveikra sjúklinga líður
yfirgengilegar og látlausar kvalir á spítölum
sökum opinberrar skömmtunarstefnu
verkjalyfja, „stöðugur sársaukinn hirðir
hvern snefil af reisn frá sjúklingunum,“ seg-
ir hún á einum stað, „og skilur ekkert eftir
nema æpandi skelina.“ Ásamt fleira fólki,
sem horft hefur upp á sína nánustu ganga í
gegnum slíkt þjáningaferli, er hún að und-
irbúa stórfellt rán á nýjum verkjalyfjum
sem enn eru ekki komin á markað. Burke er
tortrygginn og kýs að taka ekki þátt í bar-
áttu konunnar en þræðir sögunnar fléttast
haganlega saman því boðskapurinn er m.a.
ábyrgðarhlutverk opinberra aðila við sárs-
aukastjórnun hvort sem það á við um lang-
veika sjúklinga eða fórnarlömb kynferðisof-
beldis.
SKRIF VIÐ
FROSTMARK
Rithöfundurinn og lögfræðingurinn Andrew Vachss.
Nýjasta skáldsaga Vachss heitir
Pain Management.
E F T I R B J Ö R N Þ Ó R V I L H J Á L M S S O N
Rithöfundurinn og lögfræðingurinn Andrew Vachss
hefur vakið sívaxandi athygli fyrir skáldsögur sínar á
undanförnum árum, en kynferðislegt ofbeldi gegn
börnum er sérsvið hans í lögfræðinni og myndar
gjarnan baksvið verka hans.
Höfundur er bókmenntafræðingur.