Lesbók Morgunblaðsins - 08.06.2002, Side 3
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. JÚNÍ 2002 3
Þ
ví er stundum haldið fram að
pólitísku siðferði sé ábóta-
vant hér á landi og er þá
einkum vísað til þess að ráða-
menn neiti að sæta pólitískri
ábyrgð þegar þeir misstíga
sig í starfi. Þessu til sönn-
unar er bent á að í mörgum
nágrannalöndum okkar tíðkast það að
ráðamenn segi af sér embætti ef þeim hef-
ur orðið á í störfum sínum eða að embætt-
isverk þeirra eru mjög umdeild. Forsenda
afsagna er ekki brot á landslögum heldur
sæta stjórnmálamenn og embættismenn
pólitískri ábyrgð á gjörðum sínum. Póli-
tískt siðferði nær hins vegar til margs
fleira en misgjörða í starfi. Í kjölfar sveit-
arstjórnarkosninganna stendur þrennt
upp úr þegar litið er til pólitísks siðferðis.
Í fyrsta lagi eftirlit stjórnmálaflokka með
kjósendum á kjörstöðum. Í öðru lagi sú
leynd sem hvílir yfir fjárframlögum til
stjórnmálaflokka. Í þriðja lagi árásir ein-
stakra stjórnmálamanna og fylgisveina
þeirra á fjölmiðlafólk og fræðimenn.
Eftirlit stjórnmálaflokka með fram-
kvæmd kosninga er nauðsynlegur þáttur í
lýðræðislegum kosningum. Stjórn-
málaflokkar eiga skilyrðislausan rétt á því
að fylgjast með framkvæmd kosninga allt
frá undirbúningi þeirra í kjörnefndum til
talningar atkvæða. Eftirlit stjórn-
málaflokka á kjörstöðum er mikilvægur
hluti þessa ferils. Það virðist hins vegar
gæta nokkurs misskilnings á þessu eft-
irlitshlutverki hjá einstaka stjórn-
málaflokkum. Lagt er ofurkapp á eftirlit
með kjósendum á kjörstað en minna lagt
upp úr því sem hið raunverulega eftirlit
felur í sér, þ.e. eftirlit með fulltrúum rík-
isins sem sjá um framkvæmd kosninga.
Nöfn allra þeirra sem mæta á kjörstað
eru skrifuð niður. Nöfnum er safnað í
bunka með reglulegu millibili og brunað
með upplýsingarnar á flokksskrifstofuna.
Þar er haldið bókhald yfir alla þá sem
mætt hafa á kjörstað sem og þá sem hafa
kosið að sitja heima. Þannig heldur flokk-
urinn lista yfir stóran hóp kjósenda sem
kýs að nýta sér ekki atkvæðisrétt sinn í
kosningum og veit þar af leiðandi að þess-
ir kjósendur eru ekki stuðningsmenn
flokksins. Á kjördag mega einstaklingar
úr þessum hópi eiga von á því að flokk-
urinn hringi í þá og hvetji þá til þess að
kjósa nú rétt. Þeir sem einkum eiga von á
hringingum eru þeir sem eru plúsmerktir
á listum flokksins og einstaklingar sem
tilheyra tilteknum markhópi sem flokk-
urinn vill sérstaklega höfða til eins og t.d.
ungt fólk eða konur á tilteknum aldri.
Skilaboð flokksins eru skýr. Ef þú mætir
ekki á kjörstað veit flokkurinn það. Ef þú
mætir ekki á kjörstað ert þú ekki stuðn-
ingsmaður flokksins. Og við vitum það!
Þessi vinnubrögð hafa ekkert með eft-
irlit á framkvæmd kosninga að gera. Hér
er ekki neitt annað á ferðinni en persónu-
njósnir af verstu gerð. Kjósendur hafa val
um það hvort þeir mæta á kjörstað eða
ekki og það er óásættanlegt að flokkar
haldi lista yfir þá kjósendur sem kjósa að
sitja heima á kjördag.
Í sumum löndum er lagaleg skylda að
kjósa og ríkið fer með það hlutverk að
fylgjast með því hverjir brjóta lögin. Okk-
ur getur fundist að allir eigi að nýta sér
atkvæðisrétt sinn og að flokkar eigi að
hvetja fólk til að nýta sé þennan rétt.
Stjórnmálaflokkar hafa hins vegar ekkert
með það að gera að halda lista yfir það
hverjir mæta á kjörstað og hverjir ekki.
Eftirlit stjórnmálaflokka á kjörstöðum á
að beinast að því hvort fulltrúar ríkisins
framkvæma kosningar eins og lög gera
ráð fyrir. Eftirlitið á ekki að beinast að
kjósendum.
Ísland er eitt af fáum lýðræðislöndum í
heiminum sem ekki hafa sett reglur um
fjárframlög til stjórnmálaflokka. Þessar
reglur eru einkum settar í þeim tilgangi
að upplýsa kjósendur um það hverjir
standi á bak við stjórnmálaflokka og að
koma í veg fyrir að einstaklingar og fyr-
irtæki kaupi sér stuðning þeirra. Sú leynd
sem hvílir á fjárframlögum til stjórn-
málaflokka hér á landi stangast á við lýð-
ræðishefðir. Þessi leynd grefur einnig
undan trausti almennings á stjórn-
málaflokkum. Það er sjónarmið út af fyrir
sig að ekki megi takmarka fjárstuðning
einstaklinga og fyrirtækja við stjórn-
málaflokka þar sem það er réttur þessara
aðila að reyna að hafa áhrif á aðra með
fjárframlögum sínum. Það hlýtur hins
vegar að vera skilyrðislaus krafa fyrir
ótakmörkuðum fjárframlögum til stjórn-
málaflokka að kjósendur viti hverjir
borgi. Fyrirtækjum sem og einstaklingum
er gert skylt að gera grein fyrir tekjum
sínum gagnvart hinu opinbera. Það sama
hlýtur að eiga við um stjórnmálaflokka og
er í raun grundvöllur fyrir trausti almenn-
ings á stjórnmálaflokkum og trúverð-
ugleika þeirra.
Það er nokkuð sérstæð naflaskoðun að
kenna öðrum um ófarir sínar. Skammir
einstakra stjórnmálamanna og fylgi-
ssveina þeirra í garð nafngreindra fjöl-
miðlamanna og fræðimanna nú að loknum
kosningum eru hreint með eindæmum.
Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að
hér er um ekkert annað að ræða en árásir
á fólk sem er að reyna að sinna störfum
sínum eftir bestu getu. Tilgangur þessara
árása virðist vera sá einn að sverta nafn
þessa fólks og reyna að koma í veg fyrir
að það sé trúverðugt í störfum sínum. Lík-
lega sjáum við einungis hluta af þessum
árásum í opinberri umræðu þar sem þær
fara oftar en ekki fram á bak við tjöldin
með símhringingum, einkabréfum, tölvu-
pósti og heimsóknum flokksgæðinga.
Það er ekkert sjálfsagðra en að fjöl-
miðlafólk og fræðimenn sæti gagnrýni
fyrir störf sín eins og aðrir. Gagnrýni ætti
að leiða til þess að fólk vandaði sig betur
við vinnu sína öllum aðilum til hagsbóta.
En beinar árásir og útúrsnúningar virðast
oft þjóna engum öðrum tilgangi en hræða
fólk frá því að beita gagnrýnni hugsun á
stjórnmálalífið í landinu og útiloka það frá
opinberri umræðu. Slíkar árásir eru ekki
til þess fallnar að stuðla að upplýstri
stjórnmálaumræðu.
Pólitísku siðferði er klárlega ábótavant
í íslenskum stjórnmálum. Við eigum því
miður langt í land að ná þeim pólitíska
þroska sem nágrannalönd okkar hafa náð.
Leifar gamla flokksræðisins endurspegla
enn athafnir einstakra stjórnmálaflokka
og stjórnmálamanna sem neita að horfast
í augu við nýja og breytta tíma þar sem
réttur kjósenda til upplýstrar umræðu er
til staðar sem og réttur þeirra til að fá að
vera í friði fyrir flokksræðinu.
PÓLITÍSKT SIÐFERÐI Í
KJÖLFAR KOSNINGA
RABB
B A L D U R Þ Ó R H A L L S S O N
NÍNA BJÖRK ÁRNADÓTTIR
SKÁLDIÐ
Hvers minnist ég
Kossa þinna
sem vöktu mig alveg
þeir voru svo ólmir
Handa þinna
sem trylltu mig alveg
þær voru svo óðar
Nei
þessa minnist ég varla
En andartaksins
þegar ég sá óttann
þeysa um augu þín
andartaksins
þegar þú hékkst
í firringu skelfingarinnar
Úr Engill í snjónum. Iðunn, 1994.
LESBOK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING LISTIR
2 2 . T Ö L U B L A Ð - 7 7 . Á R G A N G U R
EFNI
Myndlista- og
handíðaskóli Íslands
heyrir sögunni til, orðinn deild í Listhá-
skóla Íslands. Vekur margar spurningar,
en orðræðan lítil ef nokkur á opinberum
vettvangi. Þó mikið álitamál hvort alfarið
sé ávinningur af þeirri þróun, t.a.m. hvort
breytingin hafi ekki einnig skapað tóma-
rúm í sjónmenntafræðslu á landinu. Þetta
verður Braga Ásgeirssyni að spurn.
Yoichi Onagi
myndlistarmaður er á sjötugasta og þriðja
aldursári, og segist aldrei hafa verið jafn
frjáls til að sinna listinni og nú. Heiða Jó-
hannsdóttir ræddi við þennan þekkta jap-
anska myndlistarmann, en yfirlitssýning á
verkum hans verður opnuð í Hafnarborg í
Hafnarfirði dag.
Íslensk raftónlist
í dægurtónlistarlegum skilningi, hefur átt
gengi að fagna þótt það hafi farið skamm-
arlega lágt hérlendis. Arnar Eggert Thor-
oddsen skoðaði þennan lifandi en um margt
dulda tónlistargeira og velti fyrir sér inn-
taki hans og eðli.
Robyn Archer
söngkona og stjórnandi listahátíða víðs
vegar um Ástralíu kom hingað til lands fyr-
ir skemmstu til að kynna sér íslenska list á
Listahátíð í Reykjavík. Guðrún Arnalds fór
með Helgu Arnalds og leikhúsinu Tíu fingr-
um í boði menntamálaráðuneytisins og
Regional Arts of Australia til Tasmaníu síð-
astliðið vor og átti síðan samtal við Robyn
Archer þegar hún kom hingað til lands um
listahátíðina í Tasmaníu og í Reykjavík og
samskipti þessara þjóða.
FORSÍÐUMYNDIN
er tekin í miðborg Prag. Ljósmyndari Kristinn Ingvarsson.