Lesbók Morgunblaðsins - 08.06.2002, Page 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 8. JÚNÍ 2002
Í
HEIMALANDI sínu er Robyn Archer
fyrst og fremst mjög þekkt söngkona
en á síðustu árum hefur hún uppgötvað
nýja hlið á sjálfri sér og orðið eftirsótt-
ur skipuleggjandi listahátíða. Hún var
stjórnandi hátíðarinnar Ten days on
the Island eða Tíu dagar á eyjunni sem
haldin var í Tasmaníu síðastliðið vor.
Þessi hátíð var tileinkuð eyþjóðum um allan
heim.
Íslenska listamenn til Ástralíu
Hefurðu komið til Íslands áður?
„Nei en mig hefur lengi langað að koma til
Íslands. Listahátíðin Ten Days on the Island í
Tasmaníu styrkir þennan hluta ferðar minnar
um Evrópu, með það fyrir augum að ég geti
kynnt mér hvað íslenskir listamenn eru að
gera.“
Eruð þið þá aðallega á höttunum eftir ein-
földum litlum sýningum eins og þeirri sem
Helga var með í Tasmaníu?
„Ekkert frekar. Við gætum alveg viljað sjá
eitthvað stærra og flóknara. Ég er ekki bara að
hugsa um festivalið í Tasmaníu þegar ég skoða
mig um. Ég verð til dæmis stjórnandi á festi-
valinu í Melbourne næsta haust þar sem lögð
er áhersla á leikhús. Mig langar að benda ís-
lenskum listamönnum á að gera okkur tilboð
og senda okkur efni. Þá erum við að tala um
allar listgreinar; bókmenntir, leikhús, tónlist,
dans... Við sendum ljósmyndara til Íslands á
síðasta ári, sem dvaldi hér í nokkrar vikur.
Hún var að skoða áhrif ljóssins. Við viljum
halda þessum samskiptadyrum opnum.“
Hrifin af Veislunni
Ertu ánægð með þessa heimsókn til Ís-
lands?
„Já, mig hefur dreymt um að koma hingað í
20 ár og nú fyrst ég er búin að koma þá verður
ábyggilega auðveldara að koma aftur.“
Robyn skoðaði það sem hún gat komist yfir
af atriðum á Listahátíð. Þá var hún mjög heill-
uð af leiksýningunni Veislunni á sviði Þjóðleik-
hússins. Robyn sagði að hún væri yfirleitt ekki
mjög ginnkeypt fyrir hefðbundnum leiksýn-
ingum og það þyrfti að vera mjög sérstök sýn-
ing til að slíkar leiksýningar heilluðu hana.
„Þetta var mjög vel leikin sýning og afar
heillandi uppsetning.“ Hún nefndi líka ljóða-
dagskrá í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.
Hún hefur viðað að sér heilmiklu af efni frá
ýmsum listahópum. Og mun eitthvað af því
efni verða kynnt á listahátíðum í Ástralíu. Hún
var líka mjög heilluð af landinu; sá Gullfoss í
miklum vatnsham og lét sig dreyma í Bláa lón-
inu. Og var ákveðin í að gefa sér nokkrar vikur
næst.
Listahátíð
tileinkuð eyþjóðum
Við rifjuðum upp heimsókn okkar Helgu og
leikhússins Tíu fingra til Tasmaníu síðastliðið
vor og litum yfir feril hennar sem stjórnandi
listahátíða. Eins og áður kom fram hefur Rob-
yn stjórnað mörgum listahátíðum víðs vegar
um Ástralíu, m.a. hefur hún þrisvar verið
framkvæmdastjóri á stærstu hátíð Ástrala í
Adelaide, sem haldin er annað hvert ár, síðast
nú í vor. Samkvæmt hefðinni var aldrei sami
stjórnandi oftar en einu sinni en vegna þess
hversu vel hún leysti það af hendi var þessi
hefð rofin. En hvernig kom hún til, þessi hug-
mynd um að halda hátíð tileinkaða eyþjóðum?
„Ég var beðin um að skipuleggja alþjóðlega
listahátíð í Tasmaníu og varð að halda mig inn-
an mjög þröngra marka fjárhagslega miðað við
þær hátíðir sem ég hef áður komið að. Stóru
hátíðirnar kosta á bilinu 4-8 milljónir ástralsk-
ra dollara. Hérna vorum við með 600 þúsund
dollara. Við gátum valið að bjóða upp á eitt
stórt atriði sambærilegt því sem boðið er upp á
á stórri hátíð eða að gera þetta öðru vísi. Mig
langaði ekki til að gera fátæklega „versjón“ af
stórri hátíð. Við vorum að leita að leið til að
halda góða hátíð án þess að fara út fyrir fjár-
hagsrammann sem okkur var settur. Á einu og
hálfu ári var svo búið að velja 62 atriði frá eyj-
um um víða veröld.“
Leifur heppni
„Sýningin frá Íslandi var gott dæmi um það
sem við vorum að leita að, lítil sýning og fag-
mannlega unnin, einföld sviðsmynd, listfengi á
háu stigi og hún fjallar um Ísland. Sýning sem
við höfðum efni á.
Sýning Helgu kom stórkostlega vel út. Þetta
er frábær sýning, full af orku og hæfileikum.
Margir sem komu að sjá hana og bjuggust við
barnasýningu voru fullir undrunar að sjá sögu
um konur og kvennapólitík, sagða á svona
skemmtilegan hátt. Ég hlakka til að sjá næstu
sýningu. Ég heyrði að Helga væri byrjuð að
undirbúa sýningu sem hún ætlar að vinna aftur
með sama leikmyndahönnuði, Peter Matazec,
og sem mér skilst að verði tilbúin næsta haust.
Sýningin var mjög vinsæl og vel sótt. Margir
sem höfðu aldrei hugsað um Ísland vita núna
að Ísland býr yfir hæfileikaríkum listamönn-
um og bíða eftir að sjá fleira frá Íslandi.“
List fyrir venjulegt fólk
„Alone it stands frá Írlandi var líka mjög
einföld í sniðum, þar eru 6 leikarar og engin
leikmynd.
Við vildum fá góða blöndu af öllu, eitthvað
fyrir alla. Tasmanar eru ekki vanir að fá ut-
anaðkomandi listamenn í heimsókn. Ástralskir
listamenn gera sér ekki oft ferð svona langt út
á hafið. Tasmanar eru því óvanir mjög flóknum
eða háþróuðum listviðburðum. Við vorum að
leita að sýningum sem væru hugmyndaríkar,
gæfu mynd af hæfileikum listamannsins og
gætu um leið höfðað til allra.“
Eyjahátíð annað hvert ár
Hvernig gekk listahátíðin?
„Mjög vel. Viðbrögðin sem leikhúsið Tíu
fingur fékk í Tasmaníu gefur góða mynd af því
hvernig öll hátíðin gekk. Það hefur verið
ákveðið að halda aðra hátíð árið 2003. Ég verð
líka stjórnandi á henni. Mig langar að sjá þetta
verða að föstum viðburði.
Ég held ekki að það hafi verið hugmyndin
upprunalega að hafa áfram hátíð sem myndi
alltaf snúast um eyjar og eyjamenningu en það
hefur verið svo vinsælt að nú er hugmyndin að
halda því áfram. Tasmanar hafa gaman af að
sjá verk sem kenna þeim eitthvað um þá sjálfa,
stundum eiga þessar eyjar eitthvað sameig-
inlegt og svo eru eyjar sem eru svo gerólíkar
Tasmaníu og menningin því framandi.“
Eyjalist
Nú berð þú væntanlega ábyrgð á vali atriða.
Mér fannst öll atriðin sem ég sá vera frekar
hrein og bein og einlæg og þau höfðuðu til
hjartans.
„Já, það er rétt, margar þessara sýninga
snerta mann djúpt. Kannski er þetta einkenni
á þeim verkum sem koma frá eyjum. Fólkið á
meginlandinu getur frekar leyft sér að sýna
kaldhæðni – kannski verða listamennirnir að
vera harðari af sér. Á eyjum getur fjárhag-
urinn verið viðkvæmur og þá er meira pláss
fyrir hjartað. Kannski er þetta líka lýsandi fyr-
ir mig – ég vil láta hreyfa við mér. Það er gott
að vera gagnrýninn og ýta við þeim sem
stjórna í heiminum, en ef ekki er sagt eitthvað
meira þá snertir það okkur ekki.“
Hvað eiga eyjabúar sameiginlegt?
Hvað finnst þér einkenna eyjamenningu?
„Eyjan getur verið bæði fangelsi og paradís.
Fyrir þann sem vill komast í burtu virkar hún
eins og fangaklefi ef hann á ekki fyrir farinu í
burtu. Kannski finna unglingarnir oft mest
fyrir þessu. Þegar ég fékk bílpróf gat ég keypt
mér ódýra druslu og keyrt sjálf til Sydney,
eins og mig hafði lengi dreymt um. Margir
listamenn hafa svo valið að setjast að á eyjum
því þar geta þeir fengið frið til að einbeita sér
að list sinni. Til dæmis setjast margir að í
Tasmaníu til að skrifa.“
Á Ten Days on the Island fór fram umræða
um eyjamenningu. Ég læt hér með fylgja
nokkra punkta sem komu fram í þeirri um-
ræðu: „Eyjaskeggjar hafa tilhneigingu til að
leita inn á við, leita aftur til uppruna síns þegar
þeir skapa.“ „En þeir horfa líka út og fá
kannski minnimáttarkennd gagnvart stóru
þjóðunum.“ „Verk eyjaskeggja eru oft frumleg
og kannski dálítið sérlunduð vegna einangr-
unar.“
Sögur eyþjóða fjalla líka oft um ferðalög.
Þar er sagan um Leif Eiríksson gott dæmi.
Sagan af Leifi heppna í flutningi Helgu er sam-
bland af sögunni sem við þekkjum um ferðalag
Leifs til Vesturheims og svo sagan af þvotta-
konunni Ísafold sem getur ekki hætt að segja
sögur.
Fyrsti kvenfram-
kvæmdastjóri í Adelaide
Hefur þér verið boðið að skipuleggja listahá-
tíðir annars staðar en í Ástralíu?
„Já, mér var boðið að fara til Bandaríkjanna.
Fyrirvarinn var bara of stuttur, þetta var
vinna í nokkrar vikur og ég sá mér ekki fært að
fara frá fjölskyldunni eins og sakir stóðu. Ég
er frá Adelaide og fjölskylda mín býr þar.
Heimili mitt á að heita í Sydney en ég bý í
ferðatösku, er aldrei lengur en tvær vikur á
sama stað.
Ég tók að mér að skipuleggja hátíðina í
Adelaide árin 1998 og 2000 og svo núna í vor
EYJA-
LISTAHÁTÍÐ
Á HVOLFI
Nýlega var hér á ferð Robyn Archer, söngkona og stjórnandi listahátíða víðs vegar um Ástralíu. Hún
kom hingað til lands til að kynna sér íslenska list á Listahátíð í Reykjavík. GUÐRÚN ARNALDS fór með
Helgu Arnalds og leikhúsinu Tíu fingrum í boði menntamálaráðuneytisins og Regional Arts of Austr-
alia til Tasmaníu síðastliðið vor og átti síðan samtal við Robyn Archer þegar hún kom hingað til lands
um listahátíðina í Tasmaníu og í Reykjavík og samskipti þessara þjóða.
Auglýsingaspjald hátíðarinnar í Tasmaníu.
Helga Arnalds, Robyn Archer og Guðrún Arnalds í Reykjavík.