Lesbók Morgunblaðsins - 21.09.2002, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 21.09.2002, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. SEPTEMBER 2002 Skáldsagan Blár þríhyrningur (2000) eftir Sigurð Pálsson fjallar einnig um borgarbúa sem hafa slitnað frá rótum sínum og þjást af eirðarleysi og sjálfsmyndarkreppu. Átthaga- sambandið hefur rofnað, enda landsbyggðin bara uppgufuð fortíð, og þess í stað hefur verið stofnað til Átthagamiðstöðvarinnar sem hefur það umdeilda og tilgangslausa hlutverk að halda ólíkum átthögum til haga. Persónum í sögu Sigurðar er lýst sem föng- um í eigin líkama sem er merktur upplausn- arástandi borgarsamfélags samtímans, þeim er engrar undankomu auðið nema með því að grípa til örþrifaráða. Skáldsaga Braga Ólafssonar, Hvíldardag- ar (1999), beinir einnig spjótum sínum að band(víddar)óðum borgarnútímanum – hraðanum, tómleikanum og óraunveruleik- anum. Saga Braga er hæg og viðburðalítil á yfirborðinu en undir því lúrir sérlundaður sumarleyfishafi sem upplifir sjálfan sig eins og misskilda persónu í skáldsögu – eins kon- ar Truman – óraunverulegan, hálfmeðvit- undarlausan og alls ekki sjálfs sín ráðandi. Hann kemst ekki frekar en sögupersónur Sigurðar út úr borginni, nema rétt í blálokin þegar hann skríður í var ofan í Maríuhelli í Heiðmörk og óskar sér að leysast upp í dimmunni. Skýrasta birtingarmynd hinnar framandi og aðfluttu borgar í íslenskum bókmenntum er þó ef til vill borgin í skáldsögu Rögnu Sigurðardóttur, Borg (1993). Í henni birtist Reykjavík í líki vestrænnar stórborgar með öllu tilheyrandi, svo sem neðanjarðarlest, fljóti sem rennur í gegnum borgina miðja og borgarmúrum með þremur borgarhliðum. Í Borg stígur Ragna yfir þau mæri sem borg- arlífið hefur skapað í íslenskri menningu, Reykjavík hættir að vera þessi ókennilega og smækkaða eftirlíking af útlenskri borg og verður beinlínis útlensk borg, hún verður „allar borgir“, eins og segir í sögunni. Í þessum borgarveruleika er ekki neitt rúm fyrir náttúruna eða sveitina nema sem til- vitnanir í endalausu textaflæði borgarinnar, skáldskap, auglýsingum, myndlist. Hér er raunverulegt afturhvarf til upprunans því heldur ekki mögulegt og raunar hefur hin íslenska borgar- eða kannski þjóðarvitund leyst upp í samspili sínu við hið aðflutta landslag. Heimsbók- menntir? Staða íslenskra bókmennta og breskra er svo gjörólík að varla er hægt að bera það saman. Enska er lesin í nánast hverju horni heimsins en íslenskan á sitt lögheimili uppi á þessari afskektu eyju norður í hafi og sýn- ir ekkert fararsnið á sér. Þegar Goethe talaði um heimsbókmenntir átti hann ekki við að það væru bókmenntir á heimsmælikvarða heldur að fólk væri farið að lesa sömu bókmenntirnar víða um heim- inn og þá fyrst og fremst fyrir tilstilli þýð- inga. Hann taldi þessi bókmenntalegu sam- skipti þjóða á milli vera grundvöllinn að sterkum þjóðarbókmenntum en þótt skáld- skapur sé heimsborgaralegur sýnir hann þjóðlegt eðli sitt betur eftir því sem hann verður áhugaverðari, að mati Goethe. Óhætt er að taka undir það að samræða milli ólíkra mál- og bókmenntaheima er mikilvæg, ekki bara fyrir bókmenntirnar sjálfar heldur og fyrir samskipti þjóða, eins og Goethe benti á, hugmyndalega og sögu- lega þróun. Og kannski hafa stór málsvæði á borð við hið enska og spænska og þýska nálgast eitthvað það stig að samræmi sé á milli innlendra og erlendra bókmennta inn- an þeirra en það taldi Goethe forsendu þess að til yrðu heimsbókmenntir. Þessi mál- svæði eru þó misopin fyrir þýðingum á er- lendum bókmenntum, rétt eins og minni málsvæði þótt ástæðurnar kunni að vera aðrar þar. Hér á landi hefur mikið verið þýtt af erlendum bókmenntum en fjarri því nóg. Stóru málsvæðin einkennast einnig af hinni fjölmenningarlegu skörun, sem áður var bent á og verður til í bókmenntum tví- tyngdra höfunda. Í slíkum bókmenntum verður hin eftirsótta snerting milli miðju og jaðars, hefðar og framandleika. Þessi snerti- flötur hefur einnig myndast í íslenskum bókmenntum, þótt með öðrum hætti sé eins og rakið var í köflunum hér að framan. Sér- staða lítilla málsvæða á borð við Ísland felst líka fyrst og fremst í því að bókmenntahefð þeirra er jaðarhefð. Það kann að hafa mis- munandi áhrif. Það getur gert hana að þiggjanda. Það getur sett hana í andófs- stöðu gegn meginstraumnum. Í öllu falli skapar það áhugaverða samræðu sem hugs- anlega mætti kenna við hugmyndina um heimsbókmenntir og gefa mætti meiri gaum. throstur@mbl.is N EI, ég var aldrei útgef- andi.“ Bertil Falck brosir góðlátlega og rifjar upp hvernig stóð á því að hann fékk hug- myndina að því að halda bókasafnahátíð – síðar hina árlegu bóka- messu í Gautaborg. „Fyrir langa löngu var ég í lögreglunni. Með tímanum fór ég síðan að fikra mig áfram með tölvur, lærði forritun og fór að vinna fyrir stórfyrirtæki eins og Volvo. Ég var að vinna fyrir borgarbókasafnið í Gautaborg þegar ég fékk hugmyndina að því að halda eins konar bóksafnahátíð til að hvetja bókasafnsfræðinga til dáða. Bókasafnsfræðingar vinna aðdáunarvert starf við að hvetja almenning til lestrar. Lest- ur er í senn mikilvægur fyrir okkur hvert um sig og lýðræðið í heild. Bækur veita okkur innsýn inn í hugsunarhátt, líf og menningu annarra. Við öðlumst þroska og skilning á öðru fólki – verðum ekki jafn dómhörð.“ Bertil segir að fyrsta hátíðin hafi verið haldin árið 1985. „Hugmyndin gekk út á að gefa bókasafns- fræðingum tækifæri til að hitta rithöfunda og hlýða á áhugaverða fyrirlestra um bók- menntir. Þekktustu rithöfundarir á fyrstu ráðstefnunni voru án efa nóbelsverðlauna- skáldið Isak B. Singer og barnabókarithöf- undurinn Michael Ende. Fyrir utan tvímenn- ingana þáðu fjöldi annarra spennandi rithöfunda boðið,“ segir hann og tekur fram, að þó markmiðið hafi ekki verið að efna til kaupstefnu hafi verið komið upp lítilli bóka- sýningum með bókum eftir sænska höfunda á ráðstefnunni. „Skemmst er frá því að segja að bókasafnahátíðin tókst vonum framar. Dagskráin laðaði ekki aðeins að sér bóka- safnsfræðinga. Hátíðina sótti fjöldi kennara, bóksala og útgefenda og áfram mætti telja. Við höfðum vonast eftir því að fá til okkar 2.000 manns og fengum 5.000 manns. Ekki var heldur verra að fjöldinn allur af fjöl- miðlafólki sótti ráðstefnuna og átti stóran þátt í því að vekja á henni athygli.“ Ísland í brennidepli 1989 Viðbrögðin urðu til þess að nafni bóka- messunnar var breytt í „Bok og bibliotek“ (Bók og bókasöfn) árið eftir. „Við vildum laða að aðra Norðurlandabúa og ákváðum að til- einka hverja bókahátíð einu Norður- landanna. Norskar bókmenntir voru í brenni- depli á annarri bókahátíðinni. Norskir rithöfundar héldu fyrirlestra, norskar bækur voru kynntar o.s.frv. Enda þótt ótrúlegt megi virðast varð aðsóknin enn meiri en árið áður og fór upp í 27.000 manns. Aðsóknin hefur síðan farið stigvaxandi. Finnland var í brennidepli árið 1987, Danmörk árið 1988 og Ísland árið 1989.“ Bertil viðurkennir að Íslendingar hafi ekki verið sérstaklega áhugasamir um bókamess- una til að byrja með. „Ég og félagi minn kom- um hingað fimm sinnum veturinn 1988 til 1989 til að sannfæra Íslendinga um mikilvægi bókamessunnar. Með ómetanlegri hjálp frá Önnu Einarsdóttur hjá Máli og menningu fór þó allt vel að lokum. Bókamessan tókst vel og aðsóknin var góð. Ef mig misminnir ekki sóttu hana hátt í 60.000 manns þetta ár,“ seg- ir hann og velkist ekki í vafa um að bóka- messan hafi átt stóran þátt í vaxandi áhuga á íslenskum bókmenntum á Norðurlöndum. „Fyrir árið 1989 höfðu 50 íslenskar bækur verið þýddar á sænsku. Eftir árið 1989 hafa 50 bækur til viðbótar verið þýddar á sænska tungu. Eftir að Ísland var í brennidepli hafa alltaf einhverjir íslenskir rithöfundar sótt bókamessuna á hverju ári og í ár sækja hana Einar Már Guðmundsson og Jón Yngvi Jó- hannsson. Íslenskar bókmenntir hafa verið kynntar – ekki bara frá Máli og menningu heldur fleiri íslenskum bókaútgáfum. Núna erum við komin annan hring. Finnland verð- ur því aftur í brennidepli í ár.“ Bertil er spurður að því hvaða íslensku höfundar séu vinsælastir í Svíþjóð.„Mér koma fyrst í hug Einar Már Guðmundsson, Einar Kárason, Steinunn Sigurðardóttir og Thor Vilhjálmsson. Þó verður að segja eins og er að einmitt núna er áhuginn einna mest- ur á verkum Halldórs Laxness. Halldór Guð- mundsson frá Eddu ætlar að halda erindi um verk hans á sérstakri ráðstefnu um Laxness á bókamessunni núna. Bókamessan stendur yf- ir frá 19. til 22. september og er búist við yfir 100.0000 gestum. Þá hafa yfir 1.000 blaða- menn hafa boðað komu sína og hafa af nægu að taka því að yfir 700 manns halda erindi á bókamessunni. Rithöfundar frá 35 löndum eiga þar stefnumót við lesendur sína.“ Vigdís sameiningartákn Þú hlýtur að vera stoltur? „Já, ég er mjög stoltur. Núna er ég stjórnarformaður fyr- irtækisins. Dóttir mín Anna er fram- kvæmdastjóri. Við erum mjög ánægð með hversu vegur bókamessunnar hefur vaxið með árunum,“ svarar Bertil og rifjar upp að þegar hann hafi tekið ákvörðun um að halda fyrstu bókahátíðina hafi hann skrifað þrjú bréf. „Eitt bréfið var til forstjóra Volvo, ann- að til eins áhrifamesta forstjóra í Svíþjóð og þriðja bréfið til Vigdísar Finnbogadóttur. Ég hef alltaf haft áhuga á norrænni menningu og fannst Vigdís vera besta táknið fyrir þann grunn. Enda þótt ekkert kæmi út úr bréfinu langaði mig til að ná tali af Vigdísi eftir fyrstu hátíðina til að segja henni frá því hvernig hefði gengið. Ritarinn smeygði mér inn í þéttskipaða dagskrána og fundurinn varð sérlega ánægjulegur. Uppfrá því höfum við Vigdís verið ágætir vinir. Í sömu ferð hafði ég tækifæri til að heimsækja Halldór Laxness á Gljúfrasteini. Ég bauð honum á næstu bókamessu árið 1986 en hann komst ekki vegna veikinda.“ Bertil segir að bókamessan í Gautaborg sé að ýmsu leyti ólík bókamessunni í Frankfurt. „Bókamessan í Frankfurt er talsvert stærri og gengur fyrst og fremst út á að kaupa og selja réttindi til að gefa út bækur. Bókamess- an í Gautaborg er í senn kaupstefna og menn- ingarviðburður, fyrir bókasafnsfræðinga, út- gefendur, kennara og alla bókaunnendur. Að mínu viti er bókamessan í Gautaborg sú mik- ilvægasta fyrir norræna útgefendur. Allir út- gefendur hljóta að hafa áhuga á því að koma bókum sínum á framfæri í útlöndum. Sú vinna hlýtur að vera auðveldari innan Norð- urlanda því menningin er svo svipuð. Ekki má heldur gleyma því að útgefendur annars staðar frá með áhuga á norrænum bók- menntum koma sérstaklega til Gautaborgar til að kynna sér bæði höfunda og bækur.“ Bertil staðhæfir að vaxandi áhugi sé meðal Svía á íslenskum bókmenntum. „Ég vona bara að tengslin eigi enn eftir að aukast. Að fleiri íslenskir rithöfundar, útgefendur, blaðamenn og almenningur leggi leið sína á bókamessuna. Eins og ég sagði áðan er bóka- messan í Gautaborg ekki aðeins kaupstefna heldur menningarviðburður. Maður hittir vini og starfsfélaga frá öllum Norðurlöndum, myndar og viðheldur tengslum við aðra Norðurlandabúa. Þegar ég kem til Íslands hitti ég fyrir góða vini frá því á bókamess- unni. Ég er afskaplega hrifinn af Íslandi. Þú heyrir það,“ segir þessi geðþekki Svíi sem er ekki aðeins upphafsmaður og stjórn- arformaður bókamessunnar heldur kjörræð- ismaður Íslendinga í Gautaborg þar sem um 5.600 Íslendingar búa. LAXNESS VINSÆL- ASTUR Í SVÍÞJÓÐ Morgunblaðið/Þorkell Bertil Falck segir alltaf jafn ánægjulegt að koma til Íslands. Hin árlega bókamessa í Gautaborg fer fram dag- ana 19. til 22. september. ANNA G. ÓLAFSDÓTTIR spjallaði við upphafs- manninn Bertil Falck og fékk að vita að von væri á um 100.000 gestum og 1.000 fjölmiðlamönnum á þennan menningar- viðburð. ago@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.