Lesbók Morgunblaðsins - 21.09.2002, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 21. SEPTEMBER 2002 7
U
M daginn þyrmdi skyndi-
lega yfir mig – ég uppgötv-
aði að í upphafi næsta árs,
árið 2003, yrði ég þrítug.
Tilhugsunin ein um ártalið
var furðuleg. Ekki alls fyr-
ir löngu hljómaði ártalið
2003 eins og klippt út úr
geggjaðri vísindaskáldsögu.
Að líkja tilverunni við vísindaskáldsögu er
heldur ekki fjarri lagi. Á hverjum degi vakna
ég, drekk kaffi yfir fréttanetmiðlum og reyni
að telja mér trú um að heimurinn sé ósköp
hversdagslegur. En stundum kemst maður
ekki hjá því að skilja að hann er allt nema
hversdagslegur, enda svonefndur hversdagur
stórundarlegur sem slíkur. Mér finnst það
allavega þegar ég kveiki á ferðatölvu og opna
Internetið til að skoða heimsfréttirnar sem
fjalla um barnamorðingja jafnt sem hryðju-
verkamenn með níu líf, sendi svo vinnuaf-
rakstur gærdagsins í gegnum símalínur á
sinn stað og skoða loks stöðuna á yfirdrætt-
inum í rafrænum heimabanka.
Mamma mín var þrítug árið 1981 og bara
þá … – þá var allt svo mikið öðruvísi, bæði
hérna á Íslandi og fréttum sem fjölluðu um
aðra hluta heimsins. Ég man að vísu að hún
grét þegar því var útvarpað með nokkurra ári
millibili að Elvis Presley og John Lennon
væru látnir – annars virtist allt fremur átaka-
laust í veröldinni á meðan ég óx úr grasi.
Mamma átti þrjú börn, bjó í snotru timb-
urhúsi umkringdu gróðursælum garði upp í
sveit, hlustaði mikið á útvarpið og las nokkrar
bækur í hverri viku, eldaði ýmist fisk eða
kjötfars á kvöldin og mokaði frá bílnum á
morgnana til að keyra niður í skóla og kenna;
hún sótti Alþýðubandalagsfundi einu sinni í
viku, skrifaði stundum fyrir blöð og tímarit
með kúlupenna í stílabók og sötraði ódýrt
rauðvín í vinahópi á laugardagskvöldum.
Árið 1978, þegar börnin voru aðeins tvö,
hafði hún gefist upp á að eiga pínulítið svart-
hvítt sjónvarp og bilaða þvottavél. Og eftir
langa umhugsun hafði pabbi bitið á jaxlinn og
farið uppáklæddur til bankastjórans, fengið
lán með herkjum og snúið aftur með varning-
inn í sendibíl. Mamma varð svo glöð að hún
hlustaði á sjónvarpið og horfði á löðrið í
þvottavélinni fram á nótt.
Önnur veröld
Ég lifi í annarri veröld, aðeins þrjátíu kíló-
metrum frá sveitinni sem ég var alin upp í.
Aðeins þrjátíu árum eftir að foreldrar mínir
fóru að búa.
Ég er barnlaus og bý ásamt maka í lítilli
íbúð, miðsvæðis í Reykjavík. Ég hlusta aldrei
á útvarpið, ég horfi bara mikið á bíómyndir
og er með eindæmum montin ef ég les tvær
bækur sömu vikuna. Ég elda einhverjar ex-
ótískar sósur í sífellu, oft úr krukku frá Tilda.
Ég tek leigubíla frekar en strætó og nenni
ekki að keyra bíl. Það hvarflar ekki að mér að
fara á stjórnmálafundi, ég les frekar eitthvað
á Internetinu um George Bush eða Tony
Blair og þegar ég borða með vinum mínum þá
höldum við átveislur sem myndu sóma sér á 5
stjörnu veitingastað í New York.
Við mamma eigum aðeins eitt sameiginlegt
á þrítugsaldrinum: Ég skrifa stundum í blöð-
in, rétt eins og hún gerði til að drýgja tekjur
heimilisins – kannski til að borga upp í lánið
fyrir sjónvarpinu og þvottavélinni.
Ég nota hins vegar aukatekjurnar til að
fara á útsölu í Topshop, kaupa baðvörur í
Body Shop og borða reglulega á spennandi
veitingastöðum. Eitthvað annað en foreldrar
mínir sem gátu lengst af einungis farið á Ask,
Grillið á Hótel Sögu eða Naustið, þá sjaldan
að efni leyfðu.
Ástæðan fyrir þessu bruðli mínu er ekki
ríkidæmi. Þvert á móti er hún sú að ég lifi í
öðru bankakerfi: Bankarnir sækjast eftir
mínum viðskiptum – öfugt við pabba sem dró
fram skæld jakkaföt; þröngan jakka og út-
víðar buxur og greiddi úfið hárið til að sann-
færa bankastjórann um að hann, líffræðing-
urinn og ráðsettur fjölskyldumaðurinn, væri
traustsins verður að fá lán fyrir litasjónvarpi
og þvottavél.
Ég var um tvítugt þegar ég fékk fyrsta
neyslulánið, ómenntuð, atvinnulaus og gott ef
ekki húsnæðislaus líka. Og ég er enn að fá
lán, enda get ég verið með Debetkort með yf-
irdrætti, Vísakort, skuldabréf og víxil – allt í
einu og ekkert mál. Ég get haldið áfram út í
hið óendanlega að vefja mig í skuldafen og
nota alla aukapeninga í Topshop, Bodyshop –
og bara allrahanda-shop.
Allt getur gerst
Kannski segir bankinn loksins nei á morg-
un og fellir niður yfirdráttinn. Ef svo fer lýk-
ur þessum undarlega draumi, en ég hef þó
ákveðnar efasemdir um það. Svo getur líka
farið að allt þetta sem ég les um í fréttanet-
miðlunum, um Tony Blair og George Bush og
fjandmenn þeirra, taki snögga beygju – og
allt fari í kalda kol. Það geisuðu jú eitt sinn
tvær raunverulegar heimsstyrjaldir, plús öll
önnur raunveruleg stríð sem hafa átt sér stað
í gegnum tíðina, og ekkert sem segir að ég
njóti þeirrar hundaheppni að lifa á jörðinni án
þess að komast í snertingu við raunverulegt
stríð.
Og það er ekkert sem ég get gert til að vita
betur hvað er að gerast, akkúrat núna í þess-
ari andrá, í veröldinni. Ég get endalaust lesið
greinar á netinu, í blöðum og bókum og horft
á sjónvarpið – en ég verð engu nær. Stjórn-
mál heimsins eru nokkuð sem ég er algjör-
lega vanmáttug gagnvart, ég burðast aðeins
með vitneskjuna um að stjórmálamenn geta
beygt út af alls konar hömrum, eins og aðrar
manneskjur sem sitja við stýrið í brjálaðri
umferð og kafaldsslítanda.
Kosturinn við heimsstyrjöld væri þó sá að
ef allt færi á versta veg þyrfti ég ekki að hafa
áhyggjur af yfirdrættinum. En ég ætla ekki
að treysta á það. Frekar ætla ég að vera
ábyrgur þjóðfélagsþegn sem borgar skuld-
irnar sínar og fylgist með því sem er að ger-
ast í veröldinni. Þegn sem lætur jafnvel til sín
taka.
Í þeirri viðleitni get ég fetað í fótspor for-
eldranna og setið fundi hjá Samfylkingu eða
Vinstri-grænum, eins og þau sóttu Alþýðu-
bandalagsfundi, jafnvel hjá Framsókn,
Frjálslyndum eða Sjálfstæðisflokknum – en
þannig fundasetur skila mér ekki neinu. Í
besta falli myndi ég skipa mér á bás í félagi
með fólki sem kemur mér lítið eða ekkert við
– og agnúast út í fólk sem tilheyrir öðrum
keimlíkum félögum.
Ég yrði umkringd fólki sem lifir og hrærist
í hagsveiflum sveitarstjórnarmálanna; sjálf í
örgustu vandræðum með heimilisbókhaldið
og duttlungafulla bankareikninga.
Vanmáttur
Stjórnmálamennirnir hér heima tala um
velferð á sama tíma og ég les fréttir um bið-
raðir hjá Mæðrastyrksnefnd. Ég les líka
fréttir um erlenda þjóðarleiðtoga í skemmti-
siglingu á snekkjum og téðan George Bush
hoppandi í leikfimi, andaktugan af líkams-
æfingum jafnt sem trúnni á hið illa og hið
góða. Ég les um allskonar meiningar, ræður,
fundi, ráðstefnur, stefnur og skoðanir ráða-
manna víðsvegar um heiminn og á Íslandi –
en allt þetta tal breytir engu hjá einstæðu
móðurinni sem fjölmiðlar tjáðu mér að hefði
leitað til Mæðrastyrksnefndar.
Ekkert af þessu hjálpar alnæmissmituðu
barni í Afríku. Ekkert af þessu hjálpar ekkju
í Palestínu sem grætur voðaskot. Ekkert af
þessu hjálpar atvinnulausum, tyrkneskum
fjölskylduföður í Köln. Ekkert af þessu hjálp-
ar hjartveikum manni í Brooklyn. Ekkert af
þessu hjálpar gamalli konu með bjúg af nær-
ingarskorti í Mexico-City eða Pétursborg.
Sérfróðir og þenkjandi menn segja við mig
að ég megi ekki vera svona naív. Þeir segja
fátækt, örbirgð, hungur og stríð … ! Tja … að
maður þurfi að vera vondur til að vera góður,
að mannkynið sé ekki nægilega vandað til að
lifa í betri heimi, að svona sé þetta bara – þeir
séu fullkomlega sammála mér – en ég þurfi að
lesa þetta og lesa hitt til að skilja að þessu og
hinu verði ekki breytt. Þannig sé það nú bara.
Þeir benda á bækur eftir Nóbelsverðlauna-
hafa í hagfræði, stjórnmálarit, ólíka hags-
muni þjóða, lögmál mannkynssögunnar,
dæmi um efnahagskreppur, varhugaverðar
blekkingar, margskonar hluti sem ég kann
varla að nefna og samspil þeirra í stórum og
óreiðukenndum heimi. Það hrekkur jafnvel út
úr einum, á þriðja glasi, að íslenska þjóðin
geti mögulega orðið sú ríkasta í heimi og
óþarfi fyrir mig, verndaðan íslenskan þegn-
inn, að vera með móðursýkishjal.
Ég á bágt með að skilja svona málflutning.
Það eina sem ég veit er að í grundvallaratrið-
um finnst mér þetta allt svo rangt, þrátt fyrir
staðreyndaflauminn.
Það er ekki rétt að þessum manneskjum
líði svona, raunverulega. Ég þarf ekki að upp-
lifa heimsstyrjöld eins og stendur – en sumir í
þessum heimi gera það á hverjum degi. Og á
meðan þeir eru svona margir hef ég ekki
áhuga á stjórnmálum, eins mótsagnakennt og
það kann að hljóma. Þau gera ekkert annað
en að leiða mig fram og aftur blindgötuna.
Aftur á móti veit ég líka að manneskja sem
talar svona hljómar eins og ringlaður ung-
lingur, brjálæðingur, hryðjuverkamaður, an-
arkisti, heimskingi, fávís kona í ölæði. En mér
er alveg sama. Svona hugsa ég og er þá vænt-
anlega þetta allt.
Allaballar og exótískir réttir
Mamma og pabbi buðu upp á brauð með
túnfiski, súkkulaðiköku og kaffi þegar alla-
ballarnir komu heim til að ræða verkalýðs-
félög, jafnrétti, launakjör og allt það. Manni
þótti notalegt að hlusta á fólkið tala – vanda-
málin voru stór, en það var hægt að takast á
við þau. Lausnirnar voru þegar mótaðar í
kolli þess, lausnir sem þetta fólk taldi rétt-
látar – enda státaði það af sannfæringu.
Ég hef enga sannfæringu, enga hugsjón.
Ekkert nema vanmáttinn og undrunina yfir
öllum þeim farsafréttum sem ég les daglega í
fjölmiðlum, íslenskar jafnt sem erlendar.
Fréttir um aðstæður sem mér þykja svo
óraunverulegar en eru alltof raunverulegar
fyrir svo marga. Fréttir um fátækt, dóp,
stríð, morð, hungur, ofbeldi, eyðni, gereyð-
ingarvopn og umhverfisspjöll.
Líklega hefur mannlífið ætíð verið svona
ískyggilegt. Eina breytingin er auknar upp-
lýsingar. Enginn kemst hjá því að fá upplýs-
ingar um þvílík ógrynni vandamála að ekki er
þverfótandi fyrir þeim. Því er erfitt að horfa á
eitt vandamál í einu og reyna að leysa það,
eins og sallarólegir allaballar yfir túnfisk-
brauði og kaffi.
Þvert á móti hringsnýst allt í höfðinu, eins
og þung, djúp og óáþreifanleg móða, þegar
stjórnmál og vandamál heimsins ber á góma í
samsætum minnar kynslóðar. Í samsætum
þar sem matarborðin svigna undan exótísk-
um réttum og dýrum vínum og mathákarnir
hlæja, hlusta á aldraða tónlistarmenn frá
Kúbu, arabann Khaled eða söngkonu frá
Grænhöfðaeyjum – og hugsa um það eitt að
hugsa ekki. Einhverjir hugsa þó og þeir sem
það gera hafa lært að tala eins og reyndir
menn. Þeir rökstyðja lipurlega hvers vegna
það er ekki hægt að gera þetta eða gera hitt.
Allt fram streymir
Einhvers staðar á lífsleiðinni hætti mamma
mín að kenna, ala upp börn og elda ýsu í potti.
Hún flutti í miðbæinn og nú fer hún með mér
á stórútsölur í Topshop, sjálf með sitt
greiðslukort og rausnarlegan yfirdrátt.
Fyrir stuttu lauk mamma við að þýða
seinni bókina um fraukuna Bridgeti Jones.
Meðan á því stóð hafði hún óneitanlega mein-
ingar um þessa uppdiktuðu en þó sönnu nú-
tímastúlku. Fyrst var hún hlessa á vanvita-
hættinum í Bridgeti en hló samt. Svo fann
hún skyndilega til samlíðunar með henni, eins
langt og það nær.
Mamma hefur upplifað tímana tvenna og
einmitt þess vegna skildi hún Bridgeti. Hún
veit að stundum nennir maður ekki að vita,
nennir ekki að vera ábyrgur og hugsandi. Að
stundum verður raunveruleikinn svo þrúg-
andi og flókinn að það er best að hugsa bara
um sína nánustu og næstu útsölur, næsta
kortatímabil og gleyma sér í hugleiðingum
um viðeigandi líkamsþyngd. Ég held meira að
segja að hún hafi öfundað Bridgeti pínulítið af
því að vera svona mátulega takmörkuð, nógu
fáfróð til að geta lifað óáreitt í sínum heimi.
Mig grunar jafnframt að mamma hafi upp-
götvað að ég væri líkari Bridgeti Jones en
henni. Ef sú er raunin er mögulegt að um-
hverfið hafi núorðið mun meiri áhrif en genin.
Kannski tók mannfólkið róttækum breyting-
um undir lok síðustu aldar þegar því skildist,
eftir öld átaka og blóðsúthellinga, að skoðanir
og mótmæli væru frekar varhugaverð og
hjarðhyggja því betri en einstaklingshyggja.
Í reynd borgaði sig að fljóta með straumnum,
samþykkja allt og afneita eigin skoðunum,
eigin vitund – vera bara ein stór tilfinning í
stöðugum gleðskap eins og Bridget Jones –
eins og aparnir þrír, einn vildi ekki heyra,
einn vildi ekki sjá, einn vildi ekki tala.
Hættan er nefnilega sú að með því að
hlusta, vita og tala gætu ráðvillan, vanmátt-
urinn og undrunin eflst svo mikil að maður
taki að efast um eigin tilverurétt, eigin þæg-
indi og öryggi; óþægilegar spurningar geta
látið á sér kræla.
Það er best að lifa í draumi. Draumi sem
greiðvikinn bankinn viðheldur, gegn hæfileg-
um vöxtum og vaxtavöxtum, á meðan raun-
veruleikinn streymir hjá eins og strítt og vax-
andi stórfljót. Gáfulegast að nota
bankavelvildina til að kaupa sjónvarp með
risaskjá og þvottavél með innbyggðum
þurrkara og horfa aðeins á DVD-myndir og
muna að hafa þvottavélina stöðugt í gangi.
Ekki til að þvo af barnamergð, heldur til að
fyrirbyggja að örlítið hljóð frá götunni, lífinu,
landinu, heiminum – berist inn um gluggann.
Vona bara að bankinn trufli ekki drauminn
eftir þrítugsafmælið. Að hann skelli ekki
framan í mig sama raunveruleika og blasir
við atvinnulausa Tyrkjanum í Köln, veika
barninu í þriðja heiminum eða einstæðu móð-
urinni í röðinni hjá Mæðrastyrksnefnd.
FRIÐÞÆGING
FÁFRÆÐINNAR
„Ég hef enga sannfæringu, enga hugsjón. Ekkert
nema vanmáttinn og undrunina yfir öllum þeim
farsafréttum sem ég les daglega í fjölmiðlum, íslensk-
ar jafnt sem erlendar. Fréttir um aðstæður sem mér
þykja svo óraunverulegar en eru alltof raunverulegar
fyrir svo marga,“ segir í þessari grein þar sem ungur
rithöfundur reynir að ná utan um ríkjandi ástand,
hugarfar og menningu samtímans.
Höfundur er rithöfundur.
E F T I R
A U Ð I J Ó N S D Ó T T U R
Þvert á móti hringsnýst allt í höfðinu, eins og þung, djúp og óáþreifanleg móða, þegar stjórnmál
og vandamál heimsins ber á góma í samsætum minnar kynslóðar.