Lesbók Morgunblaðsins - 16.08.2003, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 16.08.2003, Blaðsíða 6
6 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 16. ÁGÚST 2003 I. F YRIR u.þ.b. fjórum áratugum var nafn Nikita Krústjoffs betur þekkt í heiminum en flestra annarra stjórnmálamanna. Hann var leiðtogi Sovétríkj- anna, annars af tveimur risa- veldum veraldar, og sem slíkur andlit heimskommúnismans, maður sem hafði örlög milljóna manna í hendi sér og gat, engu síður en Bandaríkjaforseti, steypt heiminum út í kjarnorkustyrjöld, nán- ast í einu vetfangi. Nú heyrist þessa manns sjaldan getið og þótt nafn hans hljómi kunn- uglega í eyrum þeirra, sem muna þá tíma er hann fór með æðstu völd í Sovétríkjunum, er óhætt að fullyrða, að hann sé mun minna þekktur, jafnvel á meðal fræðimanna og sér- fræðinga í sögu Sovétríkjanna, en eftirmaður hans, Leóníd Brjesneff, að ekki sé talað um forvera hans, þá Lenín og Stalín. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd, að ævihlaup Krú- stjoffs var lengst af samofið sögu Sovétríkj- anna og að ferill hans var um margt for- vitnilegur, ekki síst fyrir þá sök að hann var einn fárra frammámanna í sovéska komm- únistaflokknum, sem lifðu af ógnarstjórnina og hreinsanirnar miklu á 4. áratugnum, stóð sterkari en nokkru sinni við lok síðari heims- styrjaldar, komst til æðstu valda eftir lát Stalíns og átti mikinn þátt í að móta þróun al- þjóðamála á 6. og 7. áratug 20. aldar. Vesturlandamönnum var Krústjoff jafnan nokkur ráðgáta og framan af var vestrænum stjórnmálaleiðtogum ekki ljóst hvers væri að vænta af honum eða hvernig þeir ættu að nálgast hann. Allir vissu að hann hafði verið í forystusveit Sovétleiðtoga á dögum Stalíns og mestur valdamaður í Úkraínu á stríðsárunum og fyrst eftir styrjöldina. Hann hafði hins vegar komið lítt sem ekki við sögu utanrík- ismála á dögum Stalíns og þegar hann bar hæstan hlut í valdabaráttunni um það hver ætti að verða arftaki hans munu flestir hafa hyllst til að líta svo á, að þarna væri á ferð- inni ósköp venjulegur stalínisti og að ekki væri mikilla breytinga að vænta í austurvegi. Það kom því flestum í opna skjöldu, Sovét- borgurum ekki síður en öðrum, er Krústjoff flutti hina frægu leyniræðu á 20. flokksþingi sovéska kommúnistaflokksins árið 1956. Þar svipti hann hulinni af hreinsununum miklu á 4. áratugnum og fordæmdi ógnarstjórn og myrkraverk forvera síns. Hafði hann þó sjálf- ur stutt Stalín dyggilega, staðið í skjóli hans og tekið virkan þátt í hreinsununum, m.a. samþykkt skriflega dauðadóma yfir sumum fyrri félögum sínum. Í kjölfar ræðunnar á 20. flokksþinginu fylgdu ýmsar tilslakanir í Sovétríkjunum, ekki síst í menningarmálum, og sjálfur varð Krústjoff sýnilegri en áður á alþjóðavett- vangi. Þar var hins vegar hvergi slakað á klónni. Uppreisn Ungverja var barin niður með harðri hendi haustið 1956 og harðar deil- ur stóðu á milli Sovétmanna og Vesturveld- anna um Berlín. Árið 1962 kom svo Kúbudeil- an, en þá lá nær því en nokkru sinni að styrjöld brytist út á milli risaveldanna, og hefði vafalítið orðið að kjarnorkustyrjöld. Engum getur lengur blandast hugur um að Sovétmenn áttu mesta sök á þeirri atburða- rás, sem leiddi til Kúbudeilunnar, en á hinn bóginn þótti Krústjoff sýna bæði ábyrgð og skynsemi er hann lét undan síga. Undir lok 6. áratugarins, er hann hafði fest sig í sessi heima fyrir, tók Krústjoff að ferðast til Vesturlanda, nokkuð sem Stalín gerði aldrei á löngum valdaferli sínum. Hann fór í heimsókn til Bandaríkjanna 1958–1959 og flutti þá m.a. fræga ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þar sem hann braut fundarhamarinn. Árið eftir var hann staddur á sama vettvangi og reif þá af sér skóinn þar sem hann stóð í ræðustól og barði honum í borðið til að leggja áherslu á orð sín. Árið 1961 hitti hann John F. Kennedy Bandaríkja- forseta á leiðtogafundi í Vínarborg og einnig heimsótti hann Frakkland, auk þess sem hann var tíður gestur í kommúnistaríkjum, jafnt í Evrópu sem Asíu. Allt varð þetta til þess að samskipti valda- blokkanna tveggja, NATÓ og Varsjárbanda- lagsins, fóru batnandi og var stundum talað um „þíðu“ í því sambandi. Jafnframt kynntust Vesturlandamenn Krústjoff betur en fyrri leiðtogum Sovétríkjanna. Hann þótti litríkur persónuleiki, geislaði af fjöri, en var óútreikn- anlegur og uppátækjasamur, átti til að segja grófar gamansögur í fínum samkvæmum og lét ýmislegt út úr sér, sem ekki var í sam- ræmi við stífar og fastmótaðar umgengnis- reglur diplómata og þjóðhöfðingja. Af þeim sökum litu sumir á hann sem óuppdreginn bóndakurf, jafnvel einhvers konar grínper- sónu, lélegan fulltrúa rússneskrar fyndni. Fátt var þó fjær lagi, þótt framkoma manns- ins væri oft harla ólík því sem gerðist meðal starfsbræðra hans í öðrum löndum. Mun þó mála sannast, að hann hafi um margt verið frumlegri í hugsun en ýmsir samtímamenn hans og fyrri forystumenn í Sovétríkjunum og séð sitthvað öðrum augum en almennt gerðist þar eystra. Svo hvarf hann skyndilega af valdastóli, varð óbreyttur eftirlaunaþegi, eini leiðtogi Sovétríkjanna sem borið hefur það starfs- heiti. Í Sovétríkjunum söknuðu margir stjórnar hans og stjórnarhátta og vestan járntjalds klóruðu margir sér í kollinum og spurðu sjálfa sig hver hann hefði í raun verið þessi óvenjulegi eftirmaður Stalíns, og hvað hann hefði ætlast fyrir. II. Nikita Sergeivitsj Krústjoff fæddist í þorp- inu Kalinovka í Suður-Rússlandi 15. apríl 1894. Foreldrar hans voru fátækt bændafólk og í hópi þeirra, sem ekki höfðu jarðnæði en voru öðrum háðir um flesta hluti. Árið 1908 fluttust þau til námabæjarins Yuzovka í Donbashéraði, þar sem Sergei, faðir Krústjoffs, vann þá sem námamaður í kola- námu. Yuzovka var skírð upp árið 1924 og nefnd Stalino, en árið 1961, á valdatíma Krústjoffs, var nafni bæjarins breytt í Don- etsk og það heitir hann enn í dag. Eins og flest börn bænda og verkamanna í Rússlandi þessa tíma var Nikita Krústjoff settur til vinnu þegar á unga aldri. Í Kal- inovka hjálpaði hann hinum fullorðnu við skepnuhirðingu og önnur landbúnaðarstörf og í Yuzovka kynntist hann ýmiss konar málmiðnaði tengdum námavinnslunni. Hann gerðist lærlingur í vélsmíði og starfaði síðan sem málmiðnaðarmaður um skeið. Að eigin sögn féll honum vinnan vel og þótt lífsbar- áttan væri hörð á námasvæðunum í Suður- Rússlandi líkaði honum lífið. Sem iðnaðar- maður naut hann ýmislegra forréttinda, var t.a.m. undanþeginn herskyldu í fyrri heims- styrjöldinni og árið 1914 gekk hann að eiga Jefrosiníu Pisarevnu. Þau eignuðust tvö börn og einn þeirra höfunda, sem ritað hafa um ævi Krústjoffs, hefur gert því skóna, að hefði byltingin ekki orðið í Rússlandi árið 1917 hefði Krústjoff líkast til orðið tæknifræðingur eða einhvers konar iðnrekandi í málmiðnaði. Að eigin sögn dreymdi hann alltaf um störf á þeim vettvangi og víst er að hann hvatti bæði son sinn og sonarson til að hasla sér þar völl. En byltingin varð og hún gjörbreytti ævi og framtíðaráformum Nikita Krústjoffs. Framan af átökunum hélt hann sig þó heldur til hlés og þótt hann hafi síðar á ævinni stært sig af þátttöku sinni í byltingunni (það urðu allir ráðamenn af hans kynslóð í Sovétríkj- unum að gera) gerðu aðrir, t.d. Molotov, held- ur lítið úr hlut hans þar. Sannleikurinn er sá, að Krústjoff hélt að sér höndum framan af, enda var hann síður en svo í hópi þeirra sem samkvæmt kenningunni áttu að hagnast mest á sigri bolsévikka. Í upphafi byltingarársins 1917 var hann ungur maður á uppleið og bjó við góð kjör, eftir því sem þá gerðist í Rúss- landi. Í endurminningum sínum kvaðst hann hafa fagnað falli keisarastjórnarinnar í febr- úar, en hann hafði enga ástæðu til að vilja það stjórnarform, sem þá tók við í Rússlandi, feigt. Hafa og sumir fræðimen haldið því fram, að á þessum árum hafi hann verið mensjévikki í hjarta sínu en nógu skynsamur (eða tækifærissinnaður) til að bíða átekta, uns sýnt væri hver myndi bera hærri hlut. En hvernig sem þessu var varið er hitt víst, að Nikita Krústjoff gekk ekki í flokk bolsé- vikka fyrr en árið 1918 og eftir það varð ekki aftur snúið. Einhvern tíma seint á árinu 1918, eða snemma árs 1919, gekk hann í Rauða herinn og barðist með honum í Suður-Rúss- landi í borgarastyrjöldinni. Þegar henni lauk árið 1921 sneri hann aftur til Yuzovka, þar sem hann varð pólitískur kommissar í náma- héruðunum. Þar fikraði hann sig upp met- orðastigann í flokknum, uns hann var kvadd- ur til starfa í Úkraínu árið 1928. Þar gerði hann þó stuttan stans í það skiptið og árið 1929 fluttist hann til Moskvu, þar sem hann hóf nám við iðnaðarháskólann. Miklar og sársaukafullar breytingar urðu á fjölskylduhögum Krústjoffs á 3. áratugnum. Fyrsta eiginkona hans, Jefrósinía, lést úr taugaveiki á árum borgarastyrjaldarinnar. Árið 1922 kvæntist Krústjoff öðru sinni, 17 ára gamalli stúlku í Yuzovka. Það hjónaband varð skammvinnt. Marusia, en svo hét stúlk- an (ekki er vitað um eftirnafn hennar), átti dóttur áður en hún giftist Krústjoff og hermir sagan, að hún hafi ekki valdið uppeldi barna hans af fyrra hjónabandi, auk dóttur sinnar. NIKITA KRÚSTJOFF – GLEYMD- UR STJÓRNMÁLAMAÐUR? Nikita Krústjoff heyrist sjaldan nefndur á nafn þrátt fyrir að hafa verið einn áhirfamesti stjórn- málamaður sinnar tíðar. Í þessari grein er rifjuð upp saga Krústjoffs sem þótti skrautlegur persónuleiki og var sennilega mis- skilinn af mörgum. E F T I R J Ó N Þ . Þ Ó R AP Krústjoff var mikill ræðumaður. Hér lemur hann hnefanum í púltið orðum sínum til áherslu, einu sinni braut hann fundarhamar á ræðupúlti og öðru sinni reif hann af sér annan skóinn til að berja í borðið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.