Lesbók Morgunblaðsins - 13.09.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 13.09.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. SEPTEMBER 2003 11 Hverjir ákveða götunöfnin og eftir hverju fara þau? SVAR: Ýmislegt skemmtilegt og áhugavert er að segja um götunöfn í borgum og sögu þeirra, þar á meðal af því hvernig þau hafa orðið til á hverjum tíma og stað. Götunöfn í Reykjavík eru ágætt dæmi um þetta en þróun þeirra hefur fylgt svipuðum mynstrum og í ýmsum öðrum borgum eða þéttbýliskjörnum, þótt ein- stök skref í þróuninni hafi ef til vill ekki gerst á sama tíma þar og annars staðar. Elstu götunöfn í borgum taka yfirleitt mið af staðháttum. Þannig er væntanlega augljóst hvernig nöfn eins og Vesturgata, Suðurgata og Austurstræti eru hugsuð, og þau eiga sér hlið- stæður í mörgum öðrum borgum. Sömuleiðis blasir við hvernig heiti Aðalstrætis er til komið á sínum tíma, þó að það standi ekki undir nafni nú á dögum. En nefna má til gamans að Hovedgade er algengt sem heiti eða hluti heitis á dönskum götum, og Main Street er víða til í Bandaríkjunum. Í Reykjavík eru líka nöfn eins og Lækjar- gata, Tjarnargata, Laugavegur og Skóla- vörðustígur sem vísa til staðhátta og eldri örnefna á augljósan hátt þó að við hugsum kannski ekki alltaf út í það. Þegar Þingholtin byggðust hafa menn viljað láta götunöfnin vísa í tiltekna hugmyndaheild, í því tilviki norræna goðafræði, samanber heitin Óðinsgata, Þórsgata, Freyjugata, Týs- gata, Lokastígur, Haðarstígur, Baldursgata, Nönnugata, Bragagata, Urðarstígur og svo framvegis. Þessi nöfn vísa að sjálfsögðu ekki til neinna tiltekinna staðhátta eða fyrri örnefna á svæðinu. Þessari hefð hefur svo verið fram haldið annars staðar í Þingholtunum og síðan í Norð- urmýrinni þar sem persónur Íslendingasagn- anna ráða ferðinni: Njálsgata, Grettisgata, Ei- ríksgata, Leifsgata, Egilsgata, Gunnarsbraut, Bergþórugata, Flókagata, Skarphéðinsgata, Kjartansgata, Bollagata, Guðrúnargata og svo framvegis eins og menn geta lesið nánar til dæmis á kortunum í símaskránni. Þess má geta til gamans að svipuð regla gildir um götuheiti í tilteknu hverfi í Kaup- mannahöfn, Islands brygge. Þar heita göt- urnar nöfnum úr Íslendingasögunum: Njals- gade, Egilsgade, Gunløgsgade, Bergthorasgade og svo framvegis. Þegar Melarnir voru byggðir um og upp úr 1940 var svo enn brotið í blað og götunum gefin heiti örnefna með ákveðnum seinni hluta, -melur, sem vísar raunar í aðstæður á svæðinu áður en það var tekið undir byggð. Svipaðri grunnhugmynd hefur síðan verið beitt í mörgum hverfum, svo sem í Hlíðum, Holtum, Túnum, Teigum, Háaleitishverfi, Bæjum í Árbæjarhverfi, Bökkum, Hólum, Stekkjum, Töngum, Brekkum, Vöngum og þannig mætti lengi telja. Í seinni tíð hafa menn farið að raða götuheitum í tilteknu hverfi í stafrófsröð á kortið þannig að auðveldara er að finna göturnar innan hverfisins. Sömuleiðis hefur það nokkra kosti fyrir almenna borgara að götunöfn í tilteknu hverfi hafi einhver ákveðin sérkenni, þannig að við getum séð nokkurn veginn af nafninu í hvaða hverfi gatan sé. Það eru að sjálfsögðu sveitarfélögin á hverjum stað sem velja nýjum götum nöfn. Í Reykjavík hefur undirbúningur verksins oft verið falinn tilteknum ráðgjöfum eða nefndum. Margar erlendar þjóðir hafa þann sið að skíra götur eftir þekktum mönnum, samanber H.C. Andersens Boulevard í Kaupmannahöfn, Runebergsgatan í Helsinki, Rooseveltlaan í Amsterdam, Karl Johan í Osló og svo fram- vegis. Þessi siður hefur ekki fest rætur hér að ráði, ef til vill vegna íslenska mannanafnakerfisins. Okkur þætti líklega stirðlegt að búa við Jóns Sigurðssonargötu eða Jónasar Hallgrímsson- arstræti, þó að í síðara tilvikinu dygði líklega Jónasarstræti!? Nöfnin Kjarvalsgata og Ásgrímsgata mundu þó alveg hitta í mark, það síðara þó varla nema það væri á svipuðum stað og Kjarval. En þá lægi Jón Stefánsson óbættur hjá garði. Okkur yrði að vísu trúlega hugsað til hans ef Jónsgata lægi milli Kjarvals og Ásgríms en hvernig ætti þá að koma öllum hinum Jónunum að? Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í vísindasögu og eðlisfræði við HÍ. Hvaðan kemur græni liturinn í „einum grænum hvelli“? SVAR: Allmörg orðasambönd eru til í íslensku þar sem orðið grænn er notað. Uppruninn er mis- jafn og alloft eru þau sótt til dönsku. Sum eru þó heimasmíðuð og er í grænum (hvínandi, logandi) hvelli eitt þeirra. Stunduð er látið nægja að segja í einum grænum og hvelli þá undanskilið. Þarna er grænn áhersluorð sem hugsanlega er sótt til annarra sambanda þar sem lýsingarorðið er notað. Hvínandi og log- andi eru einnig áhersluorð í þessu sambandi. Annað dæmi um grænn sem áhersluorð er að hafa ekki grænan grun um eitthvað. Meðal annarra orðasambanda með grænn má nefna:  Vera á grænni grein ’vera vel staddur’ sem komið er úr dönsku ’komme på den grønne gren’.  Eiga ekki grænan eyri ’vera algerlega pen- ingalaus’. Að baki liggur að smámynt var slegin úr kopar og á hann féll smám saman spanskgræna þannig að myntin varð grænleit. Svipað orðasamband er til í dönsku, have ikke en rød øre.  Sofa/liggja á sínu græna eyra er fengið úr dönsku sove/ligge på sit grønne øre.  Fá grænt ljós til e-s ’fá leyfi til e-s’ er bæði til í dönsku og ensku, få grønt lys og give somebody the green light. Þetta á að sjálf- sögðu rætur að rekja til umferðarljósanna.  Gera hosur sínar grænar fyrir e-m ’reyna að koma sér í mjúkinn hjá e-m’ er fengið úr dönsku gøre sine hoser grønne for én. Hugs- unin er að biðill krýpur frammi fyrir stúlkunni sinni og fær grasgrænu í buxurnar, enda gat orðið ’hosur’ áður fyrr merkt ’buxur’.  Vera grænn ’vera óreyndur’er þekkt bæði í dönsku og þýsku, være grøn og grün sein. Merkingin er sótt til óþroskaðra ávaxta eða óþroskaðs grænmetis eins og til dæmis grænna tómata sem eiga eftir að þroskast betur. Einnig er talað um að vera grænn á bak við eyrun í sömu merkingu. Það er komið úr dönsku grøn bag øret.  Vera gulur og grænn af öfund er einnig erlent að uppruna. Það er til dæmis til í þýsku, sich grün und gelb ärgern, ensku green with envy og dönsku ærgre sig gul og grøn. Guðrún Kvaran, prófessor og forstöðumaður Orðabókar HÍ. HVERJIR ÁKVEÐA GÖTUNÖFNIN OG EFTIR HVERJU FARA ÞAU? Hvaða munur er á ljósu og dökku hári, eru lundahundar til á Íslandi og úr hverju eru raf- eindir og róteindir? Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum og hægt er að lesa svörin á slóðinni www.visindavefur.hi.is. VÍSINDI Taktu þér skammbyssu í hönd taktu þér skammbyssu sína í hvora hönd. Réttu út handleggina og hleyptu af eins og fara gerir. Hleyptu af án fyrirþanka og án eftirþanka – einhver mun liggja vel við skoti. Vitni þessa morðs hafa – þegar til kastanna kemur – verið fjarverandi eða annarshugar. Dómarinn mun í hæsta lagi líta á skammbyssurnar morðið og vitni morðsins sem tákn í listaverki. Eitt undarlegasta ljóð Sigfúsar Daðasonar, og ólíkt öllum öðrum skáldskap hans. Ekki fer á milli mála að það flytur háð, höfundaraf- staðan er greinilega írónísk, en að hverju, að hvaða fáránleika, er Sigfús að hæðast? Er hann kannski að draga dár að leikhúsi fárán- leikans, absúrdismanum, sem setti nokkurn svip á leikhúslífið í París meðan hann var þar við nám? Hann sá til dæmis Beðið eftir Godot eftir Beckett skömmu eftir frumsýningu, og Sköllótta söngkonan og Kennslustundin eftir Ionesco höfðu þá gengið um hríð. Um fyrst- talda leikritið skrifaði hann reyndar í bréfi til Elíasar Marar 15. febrúar 1953: „leikrit, sem er með því interessantasta sem ég hef séð hér enda afarvel fært upp“. Þessi skýringartilgáta virðist því ósennileg. Þótt ekkert sé í sjálfu sér torskilið í ljóðinu er ekki auðvelt að átta sig á því, en lesanda grunar þó að merkingin sé ekki ýkja djúp. Sem leiðir hugann að ummælum Sigfúsar um merk- ingu í ljóðum í grein hans um Stein Steinar: Kvæði geta verið auðskilin en merkingar- lítil. Svo tekið sé kvæði eftir Stein sjálfan, þá er „Skarphéðinn í brennunni“ til dæmis auðskilið en hefur litla merkingu. Við þetta er aðeins því að bæta að einnig tor- skilin kvæði geta haft litla merkingu.1 Peter Carleton (Kári Marðarson) vék að ljóðinu í doktorsritgerð sinni um togstreitu hefðar og nýjunga í íslenskri ljóðagerð á fyrri- hluta tuttugustu aldar, og kemur með túlkun: Sigfús Daðason employed for the most part a very plain, conversational style. The […] poem can be interpreted as an attack on Mod- ernism, or the new-critic […] The matter-of- fact tone of voice here is meant to reinforce the callousness of the criminal and the judge.2 Þetta virðast hæpnar ályktanir. Bendir eitt- hvað til þess að ljóðið sé árás á módernisma eða hinn nýrýna gagnrýnanda? Ekki fæ ég séð það, og kannski eru þessi orð fyrst og fremst til vitnis um að gagnrýnanda hættir gjarna til að sjá alstaðar það sem hann er með á heilanum. Hitt er rétt að örðugt er við fyrstu sýn að segja hvert tilefnið – og þá skotspónninn – er. Er kvæðið þá margrætt? Heimspeki fáránleikans er eldri en absúrd- ismi sjötta áratugarins og kvæðið virðist til að mynda geta verið um það sem kallað var l’acte gratuit (hin tilefnis- og ástæðulausa athöfn, ekki síst morð án tilgangs líkt og lýst er í ljóð- inu), hugtak sem varð frægt í frönskum bók- menntum eftir að André Gide gerði því skil í Caves du Vatican (Kjöllurum Vatíkansins). Seinna varð Albert Camus það dæmi og eitt helsta einkenni hins fáránlega í veröldinni og kröfunnar um algjört frelsi.3 Frægasta atvik af þessu tagi í verkum hans er þegar Meursault, aðalpersónan í l’Étranger (Útlendingnum), skýtur að tilefnislausu fimm skammbyssu- skotum á araba á ströndinni.4 Hugsunin var því ofarlega á baugi þegar Sigfús var í París. En þótt ekki sé fráleitt að ætla að kvæðið tengist hugsuninni um l’acte gratuit er kveikjan þó næstum örugglega eftirfarandi málsgrein í Síðara súrrealistaávarpi Bretons (sem kom út 1930): L’acte surréaliste le plus simple consiste, revolvers aux poings, à descendre dans la rue et à tirer au hasard, tant qu’on peut, dans la foule.5 Sem útleggst: „Hin einfaldasta súrrealíska athöfn er fólgin í því að taka sér skammbyssu sína í hvora hönd, fara niður á götu og skjóta á mannfjöldann eins og fara gerir og eins lengi og maður getur.“ Þegar ég les ljóðið nú með hliðsjón af þessari ‚stefnuyfirlýsingu‘ Bretons verður túlkun mín sú, að hér sé húmanistinn og raunsæismað- urinn Sigfús Daðason að hæðast að andhúm- anismanum og andskynsemishyggjunni sem óneitanlega settu töluverðan svip á fagurfræði nútímabókmennta og lista. Þar með er aug- ljóslega rangt að ljóðið sé merkingarlítið.  Hér að framan var stungið upp á fernskonar skilningi eða túlkun á ljóðinu: að það væri um módernisma og nýrýni, um absúrdismann í leikbókmenntum, um l’acte gratuit og heim- speki fáránleikans, um fagurfræði andhúman- ismans og andskynsemishyggjunnar. Er ein- hver leið að skera úr um að einn skilningurinn sé réttari en annar eða eru þeir allir jafngildir? Og sé svo, hljóta túlkunarleiðirnar þá ekki að vera fleiri? Getur nákvæmur lestur á ljóðinu gefið óyggjandi vitnisburð í þessu efni? Ljóðið leiðir hugann að ýmsum þrálátum deiluefnum í gagnrýni, svo sem því hversu miklu máli ætlun höfundar skipti fyrir lestur bókmenntaverks og skilning þess. Skiptir hún kannski engu máli eftir að höfundur hefur látið verkið frá sér fara? Og hvernig verður merk- ing texta til? Býr hún í textanum sjálfum áður en lesandi kemur að honum þannig að hægt sé – að minnsta kosti hugsanlega – að finna ‚rétta‘ merkingu textans; eða verður hún ekki til fyrr en við lesturinn, og merkingarnar þá hugsan- lega jafnmargar lesendum? Dugir lestur text- ans – ‚orðanna á blaðinu‘ – einn sér til að finna merkingu hans eða er æskilegt að fara út fyrir hann ef kostur er, til dæmis í bréf höfundar, drög verks eða aðrar utanaðkomandi upplýs- ingar, og reyna að grafast fyrir um tilefni, áhrif, sögulegar aðstæður, höfundarætlun? Og hvað er svo í rauninni ‚merking‘ ljóðs? – það sem hægt er að endursegja í einni eða fáum setningum, undirtexti þess og heildaráhrif, allt það sem gerir ljóðið að ljóði? Eða er merking texta kannski alltaf svo óstöðug og afslepp að hún verði aldrei höndluð svo að einhlítt sé? Svo má endalaust spyrja. Flestum finnst sennilega að hér sé að ástæðulausu verið að gera einfalda hluti flókna, og auk þess sé ljóðið varla nógu veiga- mikið til að standa undir slíkum vangaveltum. En ef það sem kallað er teóría í bókmennta- fræði hefur eitthvert gildi fyrir lestur og skiln- ing bókmenntaverks þá er það einmitt fólgið í því að spyrja spurninga og draga í efa það sem okkur hættir til að finnast ‚sjálfsagðir hlutir‘. Reynsla síðustu aldar er hinsvegar sú, að mínum dómi, að þótt teóría geti varað við ýmsum hæpnum leiðum og bent á aðrar betri getur hún ekki gefið nein einhlít svör við spurningum okkar um hvernig lesa skuli bók- menntir.6 Svörin eru háð vindi tískunnar en spurningarnar blífa. Neðanmálsgreinar 1 Ritgerðir og pistlar, Forlagið 2000, bls. 230. 2 „Tradition and Innovation in 20th Century Icelandic Poetry“, Berkeley 1967, bls. 280. 3 „La théorie de l’acte gratuit couronne la revendication de la liberté absolue“, segir í L’Homme révolté, Gallimard 1951, bls. 121. 4 Albert Camus: L’Étranger, Gallimard 1957, bls. 88. 5 André Breton: Manifestes du surréalisme, Gallimard (coll. idées) [án ártals], bls. 78. Ekki er útilokað að Sigfús hafi rekist á ummælin hjá Camus sem fordæmir þau í L’Homme révolté, bls. 120. 6 Einn af frægari bókmenntafræðingum 20. aldar byrjar formála að nýlegri bók sinni á þessa leið: „There is no single way to read well, though there is a prime reason why we should read.“ (Harold Bloom: How to Read and Why, Simon & Schuster (Touchstone) 2001, bls. 19.) SIGFÚS DAÐASON: HENDUR OG ORÐ III Sigfús Daðason

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.