Lesbók Morgunblaðsins - 13.09.2003, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 13.09.2003, Blaðsíða 13
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. SEPTEMBER 2003 13 P ER Olov Enquist er Íslending- um af góðu kunnur, hvort held- ur er fyrir leikrit sín eða skáld- sögur. Fyrsta skáldsaga hans, Kristallögat, kom út 1961 og þremur árum síðar sló hann í gegn með sögulegu skáldsög- unni Magnetisörens femte vin- ter. Það var síðan skáldsagan Legionärna, sem færði honum alþjóðlega viðurkenningu, en fyrir hana hlaut hann bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Tvær síðastnefndu sögurn- ar hafa verið færðar upp á hvíta tjaldinu. Meðal þeirra verka Enquists sem þýdd hafa verið á íslensku eru skáldsagan Líflæknirinn og leikritið Nótt ástmeyjanna. Per Olov hefur komið nokkrum sinnum til Íslands þótt nú séu liðin meira en tíu ár síðan hann kom hingað síðast. Hann lýsir furðu sinni á því hversu mikið Reykjavík hefur breyst. „Hún virðist heimsborgaralegri,“ segir hann, „á einhvern hátt auðugri.“ Þegar Per Olov er spurður hvort hann hafi meira gaman af því að skrifa skáldsögur eða leikrit er hann snöggur að svara: „Skáldsögur. Ég hóf feril minn sem skáld- sagnahöfundur og það var ekki fyrr en 1975 að ég skrifaði leikritið Nótt ástmeyjanna. Ég skrifaði það verk á ellefu dögum og reiknaði ekkkert frekar með að það yrði sviðsett. Síðan hefur það verið sýnt um allan heim og ég hef stokkið á milli skáldsögunnar og leik- hússins. Það er auðvitað óhemju skemmtilegt að skrifa fyrir leikhús. Verkin eru ekki eins löng, það tekur styttri tíma að skrifa þau og maður kemst í snertingu við leikara og leik- stjóra. Ég hef líka sjálfur fengist nokkuð við leikstjórn, bæði á leiksviði og í útvarpi. Það hefur gefið mér mikið. En það er einmana- legt starf að skrifa skáldsögur og tekur lang- an tíma. Hins vegar er kosturinn við þær að þú getur látið hvað sem er gerast í þeim. Mér finnst skáldsagan vera Formúla 1 í listum.“ Mótsagnakennd persóna tefur „Þróunar- og ritunartími skáldsögu getur verið mjög langur. Ég byrjaði, til dæmis, á síðustu skáldsögunni minni, Ferðir Levís, árið 1993 og vann í henni í þrjú ár, áður en ég byrjaði á Líflækninum. Eftir þriggja ára vinnu fannst mér ég fjarri því að finna leið til þess að skrifa þá sögu sem ég var að reyna að segja. Ég skildi ekki aðalpersónuna. Ég lagði söguna til hliðar og byrjaði á Líflækn- inum og lauk við hana. Eftir það fór ég að skilja Leví og átta mig á því að hann hafði mjög flókinn persónuleika og var mjög mót- sagnakenndur. Hann var í senn íhaldssamur og róttækur, á vissan hátt púrítani og á viss- an hátt upplýsingamaður. Ég varð að melta hann. Síðustu tvö árin sem ég var að skrifa söguna var síðan áhugavert og skemmtilegt að skrifa þessa sögu. Þetta er ekki í eina skiptið sem ég hef átt í basli með að skrifa. Það kemur stundum fyrir að ég byrja að vinna að sögu og vinn við hana í langan tíma áður en ég átta mig á því að hún er ekki að gera sig. Lengst hef ég unnið við sögu í tvö ár, áður en ég hætti og fleygði henni í ruslið. Hvað Leví varðar var ég svo heppinn að sagan lifnaði aftur við.“ Skáldsögur Enquists gerast á öllum tímum og söguefnið er ákaflega fjölbreytt. Hann hefur fjallað um æskuslóðir sínar í Vest- urbotni, skrifað sögulegar skáldsögur og sög- ur um samtíma okkar. Þegar hann er spurður hvort hann sé þekktari sem skáldsagna- eða leikritahöfundur segir hann það misjafnt eftir löndum. „Ef þú ferð til Póllands segja þeir þér að ég sé leikskáld. Í Þýskalandi í dag er alveg klárt að ég er skilgreindur sem skáldsagna- höfundur, en á 9. áratugnum litu þeir á mig sem leikskáld. Í Frakklandi er ég skáld- sagnahöfundur – en hér á Íslandi er ég hvort tveggja.“ Fer þangað sem ástin teymir mig Verk Enquists hafa verið þýdd á þrjátíu tungumál og njóta vinsælda um allan heim. Sjálfur býr hann í Svíþjóð, í Vaxholm sem er þrjátíu kílómetra fyrir utan Stokkhólm. „En ég hef ekki alltaf búið þar,“ segir hann. „Ég bjó í Danmörku í fimmtán ár og flutti aftur til Svíþjóðar 1993.“ Hvers vegna? „Ég kvæntist í þriðja sinn. Fyrsta konan mín var sænsk. Við bjuggum í Svíþjóð og vorum gift í sautján ár. Þá hitti ég danska konu og var kvæntur henni í Dan- mörku í fimmtán ár. Þá hitti ég aftur sænska konu og flutti með henni til Svíþjóðar. Ég fer bara þangað sem ástin teymir mig.“ Hvar finnst þér best að vinna? „Ég get unnið hvar sem er, ef ég hef ritvél og enginn er að horfa yfir öxlina á mér. Ég hef búið í Berlín, Los Angeles, London, Kaupmannahöfn – en nú finnst mér dásam- legt að vera kominn aftur heim.“ Hvort ertu að vinna að skáldsögu eða leik- riti núna? „Ég er að vinna að skáldsögu sem verður lokið 2012 eða 2016. Þegar ég er bjartsýnn segi ég að hún komi út 2008 en þegar ég er svartsýnn segi ég 2024, eftir að ég er allur.“ Hvað með leikrit? „Leikrit skrifa ég þannig að ég fæ hug- myndina og skrifa verkið síðan mjög hratt. Það er ekki hægt með skáldsögur. Ég myndi fagna því að fá aldeilis frábæra hugmynd að leikriti – en hún bara kemur ef hún kemur.“ Morgunblaðið/Ásdís Per Olov Enquist: Ég fer bara þangað sem ástin teymir mig. SKÁLDSAGAN ER FORMÚLA 1 Í LISTUM Verk sænska rithöfundarins Pers Olovs Enquists hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR spjallaði við hann um leikritun, skáldsagnaskrif og búsetu. FAGRA veröld, hvar ert þú? … er heiti tónleika sönghópsins Voces Wien í Salnum á sunnudagskvöld kl. 20.00. Þetta er reyndar dagskrá í tali og tónum þar sem flutt verða sönglög, dúettar, tríó og kvartettar eftir Schubert, auk þess sem lesið verður úr sendibréfum tónskálds- ins, endurminningum vina hans, skálda og málara, og varpa þær birtu á líf Schuberts og aðdraganda dauða hans, svo og tilurð ljóðanna. Lesið verður á þýsku, en íslenskar þýðingar fylgja í efnisskrá. Söngv- ararnir eru Renate Burtscher sópr- an, Maria Bayer alt, Bernd Oliver Fröhlich tenór og baríton- söngvarinn kunni Kurt Widmer, en Jónas Ingimundarson leikur með þeim á píanóið. Heiti tónleikanna er fengið úr ljóðlínu eins sönglaganna sem flutt verða á þessum óvenjulegu Schu- bert-tónleikunum. Mörg laganna eru sjaldheyrð og það víðar en hér- lendis. Svissneski barítonsöngvarinn Kurt Widmer er þekktur og virtur um allan heim fyrir söng sinn. Hann segir söngva Schuberts fyrir fleiri en eina rödd kannski ekki svo mjög sjaldheyrðari en aðra söngva tónskáldsins. „Það verður að hafa í huga að Schubert samdi um 600 sönglög, og lög hans sem við heyrum oftast og eru vinsælust eru bara lítið brot af þessum stóra sjóði. Þorri einsöngs- laga hans heyrist því sjaldan í sam- anburði við þau vinsælustu. Lög Schuberts fyrir fleiri en eina rödd eru líka mjög erfið í flutningi, og það hefur sitt að segja. Þau eru þess eðlis að það þarf einsöngvara í hverja rödd, – ekki kórfólk. Ein- söngvarar eru vanir því að syngja einir og hafa áhyggjur af eigin rödd, en geta átt erfitt með að syngja með öðrum. Það krefst mik- illar einbeitingar og aðlögunar á vissan hátt.“ Syngur Vetrarferðina í Kína Kurt Widmer segir að þessir söngvar séu í sjálfu sér ekki frábrugðnir öðrum ljóðasöngvum Schuberts. Hann notar svipaðan skáldskap og yrkisefni og tónmálið er svipað. „Það er þó einkennandi í þessum lögum að það er alltaf ein áberandi laglínurödd, og hinar raddirnar eru eins og partur af meðleiknum. Stundum skiptast raddirnar þó á að leiða lagið. Það má kannski segja að þetta sé eins og lag með hvort tveggja meðleik á píanó og meðleik fyrir raddir.“ Það var Sibyl Urbancic sem stofnaði Voces Wien. Í hópnum eru einsöngvarar sem hafa ánægju af því að syngja með öðrum og takast á við óvenjuleg verkefni. Hópurinn hefur aðsetur í Vín, en býður gesta- söngvurum víða að til þátttöku. Kvartettinn sem syngur í Salnum er bara einn þáttur starfseminnar, stundum syngja þau í annars konar hópum og annars konar verkefni. Kurt Widmer er löngu heims- þekktur fyrir söng sinn. Hann þyk- ir einn besti ljóðatúlkandi dagsins í dag, en syngur líka nýja músík jafnt sem gamla, og fjölmörg verk hafa verið samin fyrir hann. Hann er fastagestur á mörgum helstu tónlistarhátíðum heims, og eftir dvölina hér er ferðinni heitið til Kína. „Í Kína ætla ég að syngja Vetrarferðina eftir Schubert á Bach-hátíð. Þá fer ég heim til Sviss að syngja í nýju verki eftir landa minn Klaus Huber, fyrir söngrödd og mandólu, sem er stórt strengja- hljóðfæri – stórt mandólín. Það verða sex konsertar, og þaðan er ferðinni heitið áfram út í heim.“ Morgunblaðið/Þorkell Jónas Ingimundarson með Voces Wien. Maria Bayer, Kurt Widmer, Renate Burtscher og Bernd Oliver Fröhlich. SAMSÖNGS- LÖG SCHU- BERTS Í SALNUM

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.