Lesbók Morgunblaðsins - 20.12.2003, Side 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. DESEMBER 2003 5
heild sinni á íslensku sest ég við að fara yfir
þýðinguna á skipulegan hátt. Ég er allan tím-
ann með frumtextann við hlið mér og reyni
líka að ná mér í erlenda þýðingu á sama texta.
Það getur verið gott að athuga hvaða leiðir
aðrir þýðendur hafa farið ef um vafaatriði er
að ræða. Yfirlesturinn er mjög tímafrekur
eins og öll þessi vinna. Ég var þrjá mánuði að
fínpússa þýðinguna á Friðþægingu eftir að
hafa þýtt hana í gegn. Síðan var ég tvo mán-
uði að lesa hana saman við frumtextann. Í
þeirri umferð geri ég líka miklar breytingar
og reyni að passa upp á samræmi og spegl-
anir. Því næst taka yfirlesarar við, konan
fyrst og svo forlagsmenn, og úr ábendingum
þeirra þarf að vinna. Að endingu les ég próf-
arkir, mismargar eftir atvikum, en oftast end-
ar það á því að ég les þær undir drep þangað
til mér verður bumbult. Þá veit ég að bókin er
að verða tilbúin.
Þetta er iðulega grýtt leið, minnir stundum
á Þorskafjarðarheiðina að vori.“
Lítið varið í þýðingu sem er
hárrétt ef hún er steingeld
Leggurðu áherslu á að þýða nákvæmlega,
til dæmis frá orði til orðs, eða leggurðu
áherslu á að finna textanum einhvern íslensk-
an farveg, íslenska hrynjandi?
„Mikið af þessu gerist ómeðvitað, en í
grundvallaratriðum er viðhorf mitt þetta:
Númer eitt, tvö og þrjú er að ná andblæ bók-
arinnar, ná hrynjandinni, stílnum og málsnið-
inu svo að andrúmsloftið í henni komist til
skila. Ég hef tekið mið af því sem Viðar
Hreinsson bókmenntafræðingur sagði einu
sinni við mig að það væri lítið varið í þýðingu
sem væri hárrétt ef hún væri steingeld. Þó að
ég sé mjög nákvæmur maður í eðli mínu þá
legg ég samt langmesta áherslu á að koma
andblæ bókar til skila. Og í þeirri viðleitni
reiði ég mig mest á innsæi mitt og tilfinningu.
Að því leyti er þýðandi eins og tónlistarmað-
ur, nóturnar eru fyrir framan hann og síðan
þarf hann að beita kunnáttu sinni og innsæi til
þess að túlka lagið og láta það hljóma vel. Hér
skiptir miklu að þýðandinn sé ekki bara góður
á því máli sem hann er að þýða úr heldur
einnig því máli sem hann þýðir á. Reyndar
þykir mér það mikilvægara að hann hafi mikla
færni í málinu sem hann þýðir á; þýðandinn
þarf að vera nokkurs konar fimleikamaður til
þess að geta fylgt frumtextanum eftir.“
Getur þú útskýrt nánar hvað þú átt við með
andblæ með því að bera saman þýðingarnar á
Hinni feigu skepnu og Friðþægingu?
„Bók Roths er, eins og áður sagði, afar vits-
munaleg. Kepesh er menningarviti sem fjallar
um líf sitt sem slíkur og textinn ber keim af
því. Stemningin í bók McEwans er af allt öðr-
um toga, miklu fremur skáldleg, ef nota má
það orð í hefðbundinni merkingu, og kallast
svolítið á við epískar bókmenntir frá 19. öld.
Roth skrifar hér fremur stuttar málsgreinar
en McEwan oft langar og flóknar málsgreinar
sem falla stundum illa að íslenskunni en öllu
þessu reyni ég samt að halda til haga til að ná
andblæ bókanna. Þær eru eiginlega andstæðir
pólar.“
Þýðingarbragur getur þýtt
eitthvað nýstárlegt
Stundum er talað um að það sé sérstakur
þýðingarbragur á þýðingum. Reynirðu að
sneiða hjá honum með einhverjum ráðum?
„Þýðing er yfirleitt metin af sjálfri sér. Hún
er sjaldnast borin saman við frumtexta og fyr-
ir bragðið er hún metin á þeim forsendum að
hún sé ekki þýðing. Hún er með öðrum orðum
lesin sem frumtexti og því fylgir stíf krafa um
að hún sé ekki annarleg, að hún fylgi út í
hörgul viðteknum venjum um gott mál, jafn-
vel betur en íslenskur texti, annars er hætta á
að hún þyki hafa þennan þýðingarbrag sem
þú nefnir eða að lesandanum finnist sem þýð-
andanum hafi brugðist bogalistin. Af þessum
sökum getur þýðandi lent í því að hafa fulllítið
svigrúm til að koma frumlegum stílbrögðum
úr frumtextanum á framfæri. Það getur því
leitt af sér vissa fölsun að krefjast þess að
þýðing sé eins og frumtexti aflestrar.“
Þýðingarbragur á texta getur með öðrum
orðum þýtt að þar sé eitthvað nýstárlegt á
ferð?
„Já. Stundum er maður að þýða höfunda
sem eru að gera eitthvað nýstárlegt, jafnvel
svo að það telst annarlegt á þjóðtungu þeirra.
Hvað á þýðandi að gera í því tilviki? Í Leik
hlæjandi láns stóð ég til dæmis frammi fyrir
því að höfundur notar talsvert mál kínverskra
innflytjenda í Bandaríkjunum sem er mjög
bjöguð og annarleg enska. Til að endurspegla
þetta í þýðingunni varð íslenskan að vera
bjöguð og annarleg. Lesendur gætu misskilið
slíkt og haldið að þýðingin væri óvönduð.“
Krafan um að það sé ekki þýðingarbragur á
þýðingum er þá ekki endilega góð pólitík?
„Hún vekur að minnsta kosti spurningar.
Maður verður að hafa í huga að í þýðingu er
oft og tíðum verið að flytja menningu á milli
ólíkra menningarheima, hvorki meira né
minna. Ég fyrir mitt leyti nýt þess að finna
fyrir framandleika og vil að hann komist að
einhverju leyti til skila í þýðingunni. Ef ég
þýði sögu sem gerist í óbyggðum Ástralíu þá
má þýðingin ekki orka á lesandann eins og
sagan gerist á Hornströndum.
Þetta er mikil áskorun vegna þess að
tungumáli fylgir fjölþættur menningararfur.
Ég er ekki sammála þeim sem halda því fram
að tungumál sé hlutlaust tæki til þess að
koma hugsun á framfæri. Þýðandi kemst
fljótt að því, held ég. Þegar ég þýddi Frið-
þægingu, sem gerist að mestu í kringum 1940,
gætti ég þess til dæmis að nota orð sem ættu
við sögutímann, textinn varð að skila tilfinn-
ingu fyrir þessum tíma, án þess að virðast
fyrntur.“
Það er ekki eins manns
verk að þýða bók
Þú hefur talað nokkuð um að íslenskuna
skorti orð um marga hluti. Vantar ekki tals-
vert upp á að við eigum þau tæki og tól sem
teljast í flestum löndum nauðsynleg til þess að
það sé yfirleitt hægt að stunda þýðingar, til
dæmis almennilegar orðabækur?
„Ég býst við að þeir sem þýða úr ensku eins
og ég standi þó einna best að vígi. Ensk-
íslenska orðabókin frá Erni og Örlygi var
stórvirki á sínum tíma en það er orðið afar
brýnt að þjóðin sameinist um að uppfæra
hana, að því kemst ég daglega og til að bregð-
ast við því nýti ég mér óspart ensk-enskar
orðabækur og önnur gagnasöfn á Netinu.
Sem dæmi um vandann sem við er að etja
get ég nefnt að hluti Friðþægingar gerist á
sjúkrahúsi í seinni heimsstyrjöldinni og þar
koma því stundum fyrir læknisfræðileg hug-
tök. Þau er oft ekki að finna í ensk-íslensku
orðabókinni. Stundum get ég bjargað mér
með því að fara í orðabanka Íslenskrar mál-
stöðvar á Netinu, þar hefur verið komið fyrir
íðorðasafni sem reyndar gefur iðulega svarið:
„Ekkert fannst. Er tungumálið rétt?“ Þá er
næst að fara í leitarvél og reyna að finna eitt-
hvert orðasamband sem gæti komið mér á
sporið. Stundum tekst það. Ef allt um þrýtur
er það síminn, hringt til dæmis í Frúna á
Flötunum, sem er hjúkrunarfræðingur.
„Blanket bath, hvað kallið þið það?“ „Áttu við
rúmþvott?“ „Já, það er orðið. En bedpan, er
til eitthvert skárra orð en bekken?“ „Þvag-
flaska fyrir karla, annars notum við bara
bekken.“ Sama er að segja um plöntuheiti,
þýðingar á þeim finnast iðulega ekki. Þetta á
einkum við þegar ég þýði ástralskar eða suð-
ur-afrískar bókmenntir. Þá hef ég leitað til
sérfræðings, Ágústar H. Bjarnasonar, og
hann hefur einfaldlega smíðað fyrir mig ný
plöntuheiti. Í þýðingu minni á sögunni „Eig-
inkona í óbyggðum“ eftir ástralska þjóðskáld-
ið Henry Lawson er að finna þessa setningu:
„Ekkert sem gleður augað annað en dökk-
grænt silkiskeggið sem dæsir yfir mjósleginni
lækjarsprænu.“ Silkiskegg; þarna fór Ágúst á
kostum.
Árið 2001 sat ég við að þýða bókina Ísherr-
ann, bók um einn af leiðöngrum Vilhjálms
Stefánssonar norður í Íshaf í byrjun 20. aldar.
Þar er lýst búnaði vísindamannanna, meðal
annars mæli sem kallaður var „sling thermo-
meter“. Auðvitað getur maður búið til sína
eigin þýðingu á slíkum fyrirbærum en þá
hættir maður alltaf á að missa tiltrú ákveð-
inna lesenda. Ég kallaði mælinn fyrst
slöngvumæli og þóttist öruggur með það enda
sá ég að danskur þýðandi sama verks kallaði
mælinn „slyngtermometer“. En svo náði ná-
kvæmnin yfirhöndinni og ég fór að velta fyrir
mér hverjir gætu hugsanlega verið heima á
þessu sviði. Mér datt í hug að leita til Guðjóns
Ármanns Eyjólfssonar, skólastjóra Stýri-
mannaskólans, og sendi honum skeyti. Hann
benti mér á Þór Jakobsson, verkefnisstjóra
hafísrannsókna á Veðurstofu Íslands. Þór leit-
aði síðan til samstarfsmanns, Flosa Hrafns
Sigurðssonar, og hann upplýsti: „Sling
thermometer er kallaður sveiflumælir,“ og
síðan fylgdi nákvæm lýsing á áhaldinu. Þetta
er bara lítið dæmi um þá vinnu sem getur fal-
ist í þýðingum. Það er ekki eins manns verk
að þýða bók og dýrmætt að geta leitað til sér-
fróðra. Þess vegna get ég þeirra sérstaklega í
nýjustu þýðingunum.“
Þýðingar í gjörgæslu á
íslenskum bókamarkaði
Að endingu. Hvernig er búið að þýðendum
á Íslandi?
„Það má auðvitað alltaf gera betur, en það
er ótrúlegt en satt að hér standa þýðendur
töluvert betur að vígi en í mörgum þeim lönd-
um sem við miðum okkur helst við. Það er
kannski eðlilegt því þýðendur eru lífsnauðsyn-
legir á svona litlu málsvæði. Taxtinn okkar er
síst lakari en víðast hvar á Norðurlöndum, svo
dæmi sé tekið, þó hann mætti vera hærri. Og
hvað varðar réttindamál þá hafa menn býsna
mikinn skilning á því hérlendis að þýðandinn
er höfundur texta síns og hann beri að höndla
sem slíkan. Það er iðulega getið um þýðanda á
titilsíðu og oftast á kápu en reyndar sjaldnast
í auglýsingum. Að mínu mati eykur það metn-
að þýðenda að þeirra sé getið í öllu kynning-
arefni bókarinnar. Ég held líka að vandlátir
lesendur velji sér þýðendur eins og höfunda,
þeir vilja frekar lesa bók sem þeir vita að hef-
ur verið snarað af færum þýðanda. Það ætti
því að vera hluti af markaðssetningu bók-
arinnar að taka fram hver þýddi. Fagleg
gagnrýni á þýðingar er því miður í skötulíki
ennþá.
Hitt er annað mál að staða þýðinga er al-
mennt talað ekki góð á íslenskum bókamark-
aði, það má segja að þær séu í gjörgæslu.
Þýðingar á fagurbókmenntum hafa ekki verið
í tísku undanfarin ár, að minnsta kosti ekki
hjá almenningi. Hinn almenni borgari virðist
ekki kaupa þýddar fagurbókmenntir, eða fag-
urbókmenntir yfirleitt. Maður veltir því fyrir
sér hvort hinn almenni íslenski lesandi hafi
orðið takmarkaðan metnað á þessu sviði,
nenni ekki lengur að leggja á sig ferðalag um
margslungið skáldverk og sé bara sáttur við
að lesa sín dagblöð og umfram allt sína sjón-
varpstexta. Um leið og almenningur nennir
ekki lengur að leggja á sig þá vinnu sem lest-
ur fagurbókmennta útheimtir, er hann hugs-
anlega líka að glata læsinu á slíka texta, að
verða ólæs á bókmenntir. Ef það gerist er
enginn markaður lengur fyrir fagurbók-
menntaútgáfu af því tagi sem íslensk forlög
standa fyrir á hverju ári. Þýðingar á borð við
þær sem við höfum verið að ræða hér seljast
oft ekki í meira en tvö til þrjú hundruð eintök-
um og þá á útgefandinn í vök að verjast. Og
það ber að hafa í huga að þetta eru þýðingar á
öndvegishöfundum, höfundum sem móta
landslag heimsbókmenntanna.
Hér mættu fjölmiðlar gera betur, að mínu
mati. Þeir veita frumsömdum íslenskum
skáldverkum nánast undantekningarlaust
mikla athygli, birta fréttir, umsagnir og viðtöl.
En það er algerlega undir hælinn lagt hvort
þýðing á erlendum toppbókmenntum fái sömu
umfjöllun. Reyndar finnst mér að þýðingarn-
ar séu að fá eilítið meiri athygli nú á þessari
vertíð en stundum áður. Samt held ég að við
þurfum að taka okkur á ef ekki á illa að fara
því við megum ekki gleyma því, hvað sem ár-
angri í tungumálakennslu líður, að fyrir Ís-
lending jafnast ekkert á við að lesa á því ást-
kæra ylhýra. Og við viljum að áfram verði
töluð íslenska hér á landi, ekki satt? “
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þýðing er yfirleitt metin af
sjálfri sér. Hún er sjaldnast
borin saman við frumtexta og
fyrir bragðið er hún metin á
þeim forsendum að hún sé ekki
þýðing. Hún er með öðrum
orðum lesin sem frumtexti og
því fylgir stíf krafa um að hún
sé ekki annarleg, að hún fylgi
út í hörgul viðteknum venjum
um gott mál, jafnvel betur en
íslenskur texti, annars er
hætta á að hún þyki hafa
þennan þýðingarbrag sem þú
nefnir eða að lesandanum
finnst sem þýðandanum hafi
brugðist bogalistin. Af þessum
sökum getur þýðandi lent í því
að hafa fulllítið svigrúm til að
koma frumlegum stílbrögðum
úr frumtextanum á framfæri.
throstur@mbl.is