Lesbók Morgunblaðsins - 20.12.2003, Síða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. DESEMBER 2003
SIGURÐUR Pálsson hefur lokið sínu
mikla tólf binda verki sem hófst með útgáfu
ljóðabókarinnar Ljóð vega salt árið 1975.
Nú tuttugu og átta árum síðar kemur Ljóð-
tímavagn út og er hún lokabindi þeirra bóka
sem kenndar hafa verið við ljóðtíma. Ferill
Sigurðar er orðinn býsna langur og farsæll.
Hann hefur haldið tryggð við ljóðið alla tíð
en mörg skáld hafa gefið út ljóð í upphafi
ferils síns en hafa síðan haslað sér völl á
vettvangi skáldsagna, t.d. Pétur Gunnars-
son, Þórarinn Eldjárn, Steinunn Sigurðar-
dóttir og Einar Már Guðmundsson svo
nokkur nöfn séu nefnd.
Fyrstu bækurnar hafa allar vega í miðj-
unni og vísar það bæði til nafnorðsins vegur
og sagnarinnar að vega. Titillinn gefur
þannig til kynna vissa jafnvægislist, sbr.
leikinn alkunna að vega salt. Strax í fyrsta
ljóði bókarinnar „Árstíðasólir“ I má lesa eft-
irfarandi línur; „meðan kyndill dagsins
hækkar á brothættum morgni/sem vegur
salt og mjúk nóttin fjarlægist“. Hér slær
Sigurður kunnuglegan tón sem lesendur
hafa notið í bókum hans æ síðan. Ljóðlist
hans einkennist af mælsku, leik og lífsfögn-
uði. Þótt fyrsta bók Sigurðar hafi verið verk
þroskaðs skálds má finna í henni mikinn
galsa og ýmsar tilraunir með mál og form.
Önnur bókin, Ljóð vega menn, kom út 1980
og hefst á athyglisverðum ljóðaflokki sem
heitir „Á hringvegi ljóðsins“. Þar beitir Sig-
urður nokkuð beittri ádeilu og vill fá lesand-
ann með sér í ferð út á hringveg ljóðsins
„umfram allt burtu héðan/úr helvíti neyslu-
skyldunnar“. Ferðin er reyndar ekki hættu-
laus og allt er lagt að veði, jafnvel „eignir og
vit og áttir/ráð og ræna“ en umbunin er lika
vís því að fundurinn „er okkar fundur“. Í
þriðju vegabókinni, Ljóð vega gerð sem
kom út 1982, stendur eftirfarandi um ljóð-
vegina: „Vertu ekki að leita/ljóðveganna á
kortinu/Þeir eru ekki kortlagðir/en samt eru
þeir og verða.“ Ljóðvegirnir liggja nefnilega
inn á við og eru í stöðugri mótun en eru
engu að síður rannsakanlegir. Skáldskapur
Sigurðar Pálssonar er bæði innhverfur og
úthverfur, hann yrkir bæði um innri og ytri
veruleik. Honum tekst reyndar stundum að
sameina þetta tvennt með eftirminnilegum
hætti eins og sjá má í Ljóðvegagerð VII:
Hafið og hljóðfallið
Eitt augnablik
Áreynslulausa rými
Söngur og nekt
Nærvera og bros
Ljóðvera
Raunvera
Ljóðnámubækurnar tóku síðan við af ljóð-
vegabókunum. Sú fyrsta, Ljóð námu land,
kom út árið 1985, fjallar á frumlegan hátt
um landnám Íslands og dregur jafnframt
fram líkindin með því að yrkja land og ljóð.
Gleði landnemanna var fölskvalaus að koma
að ónumdu landi „Sköpun úr óskapnaði:/
gefa nafn/þiggja land og gæði/yrkja/fara
eldi um landnám.“ Það er einnig eftirtekt-
arvert að ljóðin eru gerendur, þau námu
landið. Þessi skemmtilega hugmynd opnar
ýmsar túlkunarleiðir, t.d. þá að landnem-
arnir koma með ljóðin með sér (dróttkvæðin
og eddukvæðin) eða í víðari skilningi menn-
ingin fylgir manninum og þar með bók-
menntirnar, orðsins list.
Í næstu bók, Ljóð námu menn, vitnar Sig-
urður í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar
en þar fjallar Tómas um hversu vandasamt
sé fyrir mannkynið að vinna málma úr jörðu
og segir að þeir sem slíkt stunda nefnist
námumenn. Hér virðist skáldið vera að vísa
til þeirrar túlkunar að ljóðskáld sé eins og
námumaður að leita að gulli í málmgrýti
tungumálsins. Rússneska skáldið Maja-
kovskí hafði reyndar notað eftirfarandi lík-
ingu í hinni frægu ljóðabók sinni Ský í bux-
um: „Skáldskapur er sama og vinnsla á
radíum/Hvert unnið gramm kostar ár af erf-
iði.“ Hér er ekki leiðum að líkjast en frum-
leg notkun tungumálsins einkennir ljóð
rússneska módernistans og það er einmitt
eitt af aðalsmerkjum ljóða Sigurðar Páls-
sonar. Ljóð námu völd heitir þriðja námu-
bókin og er sá titill skemmtileg þversögn
því hingað til hafa ljóð ekki verið tengd
völdum svo neinu nemi. Í samnefndu ljóði er
vísað í hlátur Leníns en nú sé nýr hlátur
kominn til sögunnar og það er „hjartanlegur
hlátur/Havels“. Sigurður lýsir hér á eft-
irminnilegan hátt að hið veika sigrar oft hið
sterka og það eru ljóðin sem „námu rödd/
veika rödd“. Ljóð eru valdamikil af því þau
hlusta og ljá hinum kúguðu mál um síðir.
Ljóðlínudans kom út 1993 og markaði
upphafið að ljóðlínubókunum. Hugsun
skáldsins verður heimspekilegri með árun-
um, framsetningin yfirvegaðri. Eitt af erf-
iðustu viðfangsefnum heimspekinnar er tím-
inn og hann leitar á Sigurð í eftirfarandi
ljóði sem nefnist Ljóðlínudans VI. Hér flétt-
ar hann saman línum, tíma og dansi á afar
markvissan hátt.
Tíminn á grannri línunni
er margir tímar samtímis:
ljóðtíminn
Línan granna
tvöþúsund og fimmhundruð ára löng
yfir ógnardjúpið
Með list dansins gleymum við
sundlandi skelfingunni
Með línudansinum ögrum við
ógnardjúpinu
Muldrið sönglið
Hvíslandi barn í myrkri
Bænir í myrkri
Muldrið verður að söng
Ljóðtíminn vitjar okkar
Ljóðlínur allra tíma
Ljóðlínuskip hét önnur bókin í línubók-
unum og kom út 1995. Eins og nafnið gefur
til kynna er mikið ort um siglingar í þessari
bók. Það er reyndar bæði siglt um staði og
staðleysur, bæði um innri og ytri veruleik.
Hafið hefur ávallt verið eitt af eftirlætis
yrkisefnum Sigurðar og í ljóðabálkinum
„Hafvillur“ fjallar hann um leit mannsins að
tilgangi, takmarki í lífinu. Ádeilan er þarna
skammt undan enda líst skáldinu ekki meira
en svo á þróun mála, það óttast að skamm-
sýni mannsins og græðgi verði honum dýr-
keypt, jafnvel að heimsendir sé í nánd. En
svartsýnin nær aldrei tökum á Sigurði þótt
hann yrki af alvöru um heimsmálin. Hann
er umfram allt galdramaður orðlistarinnar,
kann að magna öflugan ljóðaseið með ofur
einföldum orðum. Þetta gerir hann í ljóðum
á borð við „Dýrð“ og „Hvíslandi ilmur“. Síð-
asta bókin í þessari þriðju þrennu Sigurðar
heitir Ljóðlínuspil og kom út 1997. Í þessari
bók er m.a. lögð áhersla á tónlist og dans
sem er skáldinu hugleikið yrkisefni. Sem
dæmi má taka prósaljóðið „Miðja vega“ sem
segir stutta sögu. Fyrir tilstilli hvirfilbyls
og/eða tónlistar Getz og Gilberto verða hlut-
ir og persónur uppnumin til himna. List
skáldsins felst í því að breyta galdri tónlist-
ar í galdur orðlistar og Sigurður er einmitt
meistari í slíkri list. Í fyrstu bók hans minn-
ir titillinn á jafnvægislist en hér í ljóð-
línubókunum er skáldið línudansari sem er
enn erfiðari list. Ljóðlínur eru margslungn-
ar, þær liggja út um allt og þær geta líka
verið strengdar yfir djúp eins og kom fram í
ljóðinu sem vitnað var til hér að framan.
Fjórða ljóðþrenna Sigurðar hefst með
bókinni Ljóðtímaskyn árið 1999. Hér er það
tíminn sem er í sviðsljósinu og reyndar er
það rökrétt að lokahlutinn fjalli um svo mik-
ilvægt en jafnframt snúið yrkisefni. Víða er
fallega ort um eftirsjá eftir liðnum stundum,
t.d. í ljóðinu „Stundir“, þar sem mælanda
langar heim til: „Stundanna sem lifna/stund-
anna sem opnast/eins og ástarandlit/sem
nóttin færir okkur.“ Ljóðið „Sandkorn“
fjallar um tvíeðli tímans á skýran og eft-
irminnilegan hátt. Við mennirnir vitum vel
af stundlegu eðli okkar frá fæðingu: „En við
gleymum því fljótt þegar við kynnumst/
dýrðlegu tvíeðli tímans: hinni upphöfnu
stund/sem réttlætir hinar dauðu stundir.“ Í
lok ljóðsins leikur Sigurður sér að lykiland-
stæðunum dauður – upphafinn. Erum við
dauður eða upphafinn sandur? Freistandi er
að velja hið síðarnefnda og í ljóðum skálds-
ins er það einmitt seiðurinn leiðslan, upp-
hafningin sem lyftir lesandanum ofar duft-
inu. Önnur bókin í tímaflokknum nefnist
Ljóðtímaleit og var út árið 2001. Í þremur
ljóðtímaljóðum í upphafi bókar er fjallað um
leitina „að ljómandi augnablikum“ eins og
komist er að orði í þriðja ljóði. Í öðru ljóði
er sagt að ljóðtíminn komi þegar honum
hentar, hann hlýðir ekki skipunum en bygg-
ir þó undarlega samsett hús „sem ekkert
sameinar/annað en ljóðtíminn“. Hugleiðing-
ar um endalokin óumflýjanlegu setja einnig
mark sitt á Ljóðtímaleit. Áhrifarík mynd-
hverfing er notuð í ljóðinu „Mæðusöngur“
þar sem „kónguló tímans“ spinnur sinn vef
um „flugurnar í dauðateygjum“. Sama hugs-
un er sögð í ljóðinu „Skilorð“ en þar kemur
fram „að héðan förum við ekki/öðruvísi en
kassalögð“. Það er í sjálfu sér rökrétt að
hugleiðingum um tímann fylgi einnig vanga-
veltur um dauðann og eilífðina. Síðasta bók-
in í tímaflokknum heitir svo Ljóðtímavagn
og er jafnframt lokabindið í þessu mikla
ljóðaverki Sigurðar Pálssonar. Bókin skipt-
ist í sex kafla sem allir geyma átta ljóð,
margfeldi þeirra er 48 sem talan 12 gengur
upp í og minna má á að árið 1948 er einnig
fæðingarár skáldsins. Lesanda þarf ekki að
koma slík formfesta á óvart í verkum
skáldsins, eitt augljóst dæmi er að allir titl-
ar ljóðabókanna innihalda tólf bókstafi.
Ljóðtímavagn sker sig að vissu leyti frá hin-
um bókunum, nema þeirri fyrstu, á þann
hátt að ekki er ortur sérstakur flokkur sam-
nefndur titlinum. Í stað þess býður skáldið
upp á ökuferð um ljóðvegi sína, sú ferð er
reyndar fremur inn á við og er það í sam-
ræmi við þróunina í ljóðlist Sigurðar. Hann
beinir sjónum að tímanum, eilífðinni, og
jafnvel framandi annarlegum heimi í bland.
Má sem dæmi nefna undarlegt ljóð sem
nefnist „Rúður“ og virðist vera allegoría um
heimana tvo sem settir eru upp sem and-
stæðurnar úti – inni. Ljóð þetta er reyndar
fremur dulúðugt og ekki árennilegt til túlk-
unar. Auðveldara er að ráða í ljóðið „Að
tíminn líði“ sem er skemmtilegt og einfalt
að formi en frumlegt hvað inntak varðar. Í
stuttu máli er niðurstaða ljóðsins sú að það
sé í raun gott að tíminn líði og hvað gerðist
nú ef tíminn stöðvaðist? Það gerðist þá lík-
lega það sama og í ævintýrinu um Þyrnirós
og þá gæti maðurinn ekki skynjað neitt eða
notið neins. Þess vegna er „Hverfult hlut-
skipti mannsins/að sönnu ekki slæmt“ eins
og skáldið kemst svo hnyttilega að orði. Í
ljóðinu „Fæðingarréttur“ undirstrikar
skáldið þá skoðun sína að mennirnir séu
fæddir til gleði þótt „Úti fyrir/[séu] glefs-
andi vígtenntir rakkar/neysluskynsemdar/
notagildis“. Eitt af helstu yrkisefnum Ljóð-
tímavagns er hreyfingin eins og kom fram í
ljóðinu um tímann hér að framan. Þessi
hugmynd verður skáldinu hugstæð og birt-
ist t.a.m. í ljóði sem ber heitið „Ljóðlistin“.
Skáldið fer að velta fyrir sér því afli sem
feykir snjókornum til og þetta sama afl fær
það til að skrifa jafn fjærstæðukennda setn-
ingu og þessa: „Það jarðbundnasta af öllum
skáldskap er líklega ljóðlistin.“ Þetta hljóm-
ar sem þversögn en geymir kannski sann-
leikskorn. Skemmtilegar vangaveltur eru
einnig í ljóðinu „Rætur“, þar veltir rótlaus
maður fyrir sér rótum trjáa og jurta og
kemst að þeirri frumlegu niðurstöðu að
hans rætur liggi hvergi „nema/í tímanum“.
Fallegt er ljóðið „Horfið lauf sem hvíslar“
þar sem „Hugsað lauf“ er látið hvísla „ein-
hverju um auðmýktina//Að auðmýktin sé
aldrei/auðmýkjandi“. Í „Næturljóði“ reynir
skáldið að nota annan mælikvarða á veröld-
ina en mælikvarða mannsins og lofsyngur
framandleikann.
Dýrðlegi framandleiki alls!
Unaðslega fjarlægð bernskunnar
allt frá einsemd
kattarkynshörku
…
Og eftir hverja slíka nótt
Allir vegir horfnir
Nýtt vegakerfi
Kortin gilda ekki lengur
Ljóðtímavagninn er allt í einu vegalaus
eftir slíka nótt. Dæmigert fyrir skáldskap
Sigurðar sem sýnir lesandanum einatt fram
á að ekkert ber að taka sem gefið. Ljóðið
„Hjarðljóð“ er sömuleiðis eftirtektarvert
þar sem skáldinu finnst því vera skylt að
yrkja hjarðljóð um afturhvarf til óbrotins
sveitalífs. En sauðburðurinn er aðeins í
sjónvarpinu og fossarnir eru horfnir. Það er
greinilega engin leið til baka, hjarðljóðið
hjáróma.
Lokaljóð Ljóðtímavagns heitir einfaldlega
„Þrisvar fjórir“ og er hugleiðing um þann
áfanga sem Sigurður Pálsson hefur náð með
þessari lokabók sinni. Talan tólf er heilög
tala, mánuðirnir eru tólf og postularnir
sömuleiðis. Talan er einnig margfeldi taln-
anna fjórir og þrír og sem Sigurður kallar
„margfeldið af rými og tíma“ sem eru
„Fjórar höfuðáttir/Þríeining ljóðtímans“.
Ljóst er að Sigurður hefur skilað af sér
glæsilegu verki og það er full ástæða til að
óska honum hjartanlega til hamingju með
áfangann. Hvað nú tekur við verður fram-
tíðin að leiða í ljós en freistandi er að enda á
tilvitnun í fyrrnefnt lokaljóð:
Vonin er vitur
og klár á því að allt
er opið
ÖKUFERÐ Í LJÓÐTÍMAVAGNI
LJÓÐ
Ljóðtímavagn
JPV útgáfa. Reykjavík 2003, 77 bls.
SIGURÐUR PÁLSSON
Morgunblaðið/Kristinn
„Ljóst er að Sigurður hefur skilað af sér glæsilegu verki og það er full ástæða
til að óska honum hjartanlega til hamingju með áfangann.“
GUÐBJÖRN SIGURMUNDSSON