Lesbók Morgunblaðsins - 20.12.2003, Page 16
16 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 20. DESEMBER 2003
B
ragi Jósepsson er kunnur fyrir
störf sín á sviði menntamála og
ritstarfa þótt ekki hafi allir
gert sér grein fyrir að einnig
liggja eftir hann
nokkur skáldverk
sem birst hafa
undir skáldanafn-
inu Kormákur Bragason.
Bragi hefur nú bætt við snún-
ingi með útgáfu Stykkishólms-
bókar, viðamikils þriggja binda
verks, þar sem íbúasaga Stykk-
ishólms frá fyrri hluta 19. aldar
fram til 1950 er rakin.
„Það er sex ára vinna sem ligg-
ur að baki þessu verki. Það gerir
auðvitað enginn svona nema hálf-
brjálaður maður og stundum
hvarflaði að mér að hætta þessu.
Fyrri þrjú árin fóru í söfnun
heimilda og ljósmynda en ég
byrjaði að skrifa textann fyrir
þremur árum og lauk honum í
sumar,“ segir Bragi sem gefur
sjálfur út bókina undir útgáfu-
heitinu Mostrarskegg. „Það á vel
við þar sem Stykkishólmur er í
Helgafellssveit, landnámi Þórólfs
Mostrarskeggs Örnólfssonar.“
Gengið hús úr húsi
Bragi skiptir bókinni í 9 kafla
sem hver er skýrt afmarkaður en
þó tengjast allir. „Kjarni bókar-
innar er húsaskrá Stykkishólms
þar sem ég lýsi hverju einasta
húsi í plássinu, byggingarsögu
þess og íbúum frá upphafi til
1950. Þannig fer ég hús úr húsi
og rek íbúasögu hússins, segi frá
fólkinu, eins og ég heyrði talað
um það og einnig eins og ég man
eftir því, þegar um fólk sem var mér samtíða
er að ræða. Viðfangsefni þessarar bókar er af-
markað sveitarfélag og ég lýsi því frá öllum
mögulegum hliðum.“
Fyrsti hluti bókarinnar nefnist Bragabók og
er saga Braga sjálfs af uppvexti og æskuárum
í Hólminum. „Ég ólst upp hjá séra Sigurði
Lárussyni presti í Stykkishólmi og konu hans
frú Ingigerði Ágústsdóttur. Lengi framanaf
var ég kallaður prestslambið eða Bragi prests-
lamb og eftir fermingu var ég yfirleitt kallaður
Bragi prests m.a. til aðgreiningar frá Braga
sýslumanns, Bjarna Braga Jónssyni, síðar
hagfræðingi. Uppnefni og viðurnefni voru al-
geng og þóttu sjálfsögð. Margir þekktust ekki
undir öðrum nöfnum en viðurnefnum sínum og
einnig var mjög skýrt hvaða konur voru kall-
aðar „frú“ og hverjar ekki. Fóstra mín frú
Ingigerður hefði ekki þekkst
undir nafni sínu eingöngu og
þannig var það um fleiri. Sumir
voru alltaf nefndir fullu nafni og
t.d. hefði Margrét Andrésdóttir í
Möngubæ aldrei þekkst ef hún
hefði verið kölluð Manga. Ég
skrifaði svolitla ritgerð um þetta
fyrirbæri, viðurnefnin, og birti í
bókinni.“
Stykkishólmsbókin vekur
strax athygli fyrir þessi óvenju-
legu efnistök þar sem ekki er
sögð saga sveitarfélags og versl-
unarstaðar sem átti sinn upp-
gangstíma á seinni hluta 19. ald-
ar og fram á þá 20.
„Umgjörð þessa verks er
mannlífið sem þreifst í plássinu
og ég legg mikla áherslu á mann-
lýsingar. Ég lýsi öllu því fólki
sem ég kynntist og þekkti þegar
ég var strákur að alast upp og
það vill mér til happs að ég var
mjög forvitinn krakki og lagði
mig eftir því að hlusta á það sem
fullorðna fólkið var að tala um.
Annað fólk var vinsælt umræðu-
efni og þannig voru löngu dauðir
Hólmarar ljóslifandi í mínum
barnshuga því sífellt var verið að
tala um þetta fólk. Húsin sjálf
höfðu sín séreinkenni og báru öll
nöfn. Fyrir 1950 voru engin götu-
heiti og húsnúmer heldur þekkt-
ust húsin á nafni sínu. Sum hús
breyttu um nafn eftir íbúum og
svo hétu fleiri en eitt hús sama
nafni. Þetta vafðist þó aldrei fyrir
neinum á þeim tíma. Skipulagsáreitið var svo
lítið. Sérkenni fólks og híbýla þess fengu að
njóta sín.“
Heilsufar og stéttaskipting
Brunnar í Stykkishólmi eiga sérstakan sess
í bókinni og lýsa lifnaðarháttum sem löngu eru
horfnir. „Í þorpinu voru 57 skráðir brunnar
þegar ég var að alast upp og þar sem ég vissi
hvar þeir voru þá ákvað ég að staðsetja þá alla.
Það sem síðan vakti umhugsun mína var að á
þessum árum milli 1930–50 voru íbúarnir um
700 og í bænum voru hvorki meira né minna en
120 kýr. Við hvert hús var því fjós og fjóshaug-
ur. Brunnarnir voru svo auðvitað í næsta ná-
grenni við mykjuhaugana. Þetta þætti sjálf-
sagt ekki gott hreinlæti í dag en sannleikurinn
er sá að fólk varð sjaldan lasið eða veikt af um-
gangspestum. Ég man ekki eftir því.
Fóstri minn, séra Sigurður Lárusson, var
merkilegur maður. Hann átti fjölmarga vini
t.a.m. Þórberg Þórðarson sem nefnir hann
Sigga Lar í Íslenskum aðli. Séra Sigurður
stofnaði knattspyrnufélagið Fram og var í lið-
inu sem varð fyrsti Íslandsmeistarinn árið
1911, árið áður en titillinn var ákveðinn og því
urðu KR fyrstu opinberu íslandsmeistararnir.
Þetta var mikið hjartans mál fyrir Framara
áratugum saman.“
Stéttaskiptingin í plássi á borð við Stykk-
ishólm var mikil, þar sem embættismennirnir
og kaupmennirnir töldust til yfirstéttar og
aðrir til lágstéttar. „Þessi skipting var í raun-
inni merkilega mikil og áþreifanleg. Ég kynnt-
ist fólkinu í plássinu auðvitað misjafnlega mik-
ið en þótt ég væri af prestheimilinu átti ég
leikfélaga og vini úr alþýðustétt. Séra Sigurð-
ur var alþýðlegur og hafði ekkert á móti þessu
en börn sumra annarra embættismanna urðu
að hlíta ákveðnum reglum sem foreldrar settu
þeim um umgengni við börn úr alþýðustétt.
En það var enginn stéttarígur og svo virtist
sem allir virtu þetta fyrirkomulag. Samfélagið
var svo fastmótað að engum datt í hug að hægt
væri að hrófla við því. “
Stykkishólmsbók prýðir mikill fjöldi mynda
af flestu því fólki sem þar er nefnt til sögunnar
og er heildarfjöldi myndanna 1.800 talsins,
fæstar hafa birst opinberlega áður. Á fimmta
þúsund einstaklingar eru nefndir og manna-
myndir skipa veglegan sess í verkinu. „Ég
lagði gríðarlega mikla vinnu í að hafa upp á
myndunum og gekk fast á eftir því að fólk
legði til myndir sem það átti í fórum sínum.
Mesta puðið var þó að hafa uppi á upplýs-
ingum um allt þetta fólk og þurfti að bera sam-
an prestþjónustubækur og sóknarmannatöl og
komst ég að því að þau eru morandi í villum.“
Mannlýsingarnar lýsa fjölbreyttu mannlífi
og ekki fer hjá því að ýmislegt hafi gerst sem
ekki hefur komið á prent og á kannski ekki er-
indi þangað. „Ég legg mikið upp úr mannlýs-
ingunum og lagði áherslu á að draga fram
ýmsar sögur sem sagðar voru af fólkinu. Ég
hafði þó fyrir sið þegar ég var að vinna að
þessu að senda afkomendunum kaflana um
fólkið þeirra og spyrja hvort þeim væri þetta
að skapi. Stundum kom fyrir að fólk vildi láta
sleppa einhverju og ég varð þá við því. Ég lenti
auðvitað í ýmsum uppákomum útaf þessu og
sumum fannst algjörlega óþarft að setja á
prent sögur sem höfðu gengið manna á milli
áratugum saman. Ég held að bókin sé þó síst
verri þó ýmsar sögur hafi ekki fengið að fljóta
með og sjálfur er ég ánægður með hvernig til
tókst.“
FÓLK OG HÚS
Í STYKKISHÓLMI
Bragi Jósepsson hefur gefið út Stykkishólmsbók,
þriggja binda verk um íbúa og hús í Stykkishólmi,
frá öndverðri 19. öld fram til 1950. HÁVAR SIGUR-
JÓNSSON átti samtal við Braga um bókina
og helstu einkenni þessa viðamikla verks.
Morgunblaðið/Jim Smart
„Umgjörð þessa verks er mannlífið sem þreifst í plássinu,“ segir Bragi Jósepsson.
havar@mbl.is
Frú Ingigerður
Ágústsdóttir
Séra Sigurður Ó.
Lárusson
Skólastígur í Stykkishólmi.
ENN á ný stormar Gylfi Gröndal fram á rit-
völlinn með sögur frá 20. öldinni í miklum doðr-
anti. Í þetta sinn segir hann sögu þeirra sem
vildu gera fátækt útlæga á Íslandi á fyrstu ára-
tugum aldarinnar og á áratugunum þar á und-
an. Sagt er frá þekktum Íslendingum sem að-
hylltust jafnaðarstefnu eftir miðja 19. öld og
fólki sem safnaði liði og stofnaði verkalýðsfélög,
gaf út blöð til að koma hugsjónum á framfæri og
tók þátt í pólitík til að breyta heiminum. Alls
kyns annar félagsskapur á uppruna sinn á þess-
um tíma því þetta var tími félagastofnunar.
Menningar- og skemmtifélög, bindindisfélög,
kvenfélög og svo mætti lengi áfram telja. Alltaf
var markmiðið að bæta lífskjör og
lífshætti almennings. Bókin fjallar
um tímabil sem var mikill um-
brotatími um allan heim. Á Íslandi
voru að verða til stéttir sem hér
höfðu ekki þekkst áður. Aðstæður
bænda og verkafólks voru vægast
sagt ótryggar og samskipti þeirra
við kaupmenn og atvinnurekendur
voru varla til fyrirmyndar. Það
vefst varla fyrir neinum lengur að
þörfin á úrræðum var raunveruleg,
þótt sú skoðun hafi ekki notið al-
mennrar hylli ráðamanna á þeim
tíma og furðu mikla fyrirhöfn hafi
kostað að ná fram þeim úrbótum
sem tókst þó. Opinber umræða var
heit og oft lágkúruleg, svívirðingar
og málsóknir máttu heita daglegt brauð.
Þótt hugmyndastefnur og pólitík rammi mál-
efnið inn er bókin um fólkið sem barðist fyrir
betra lífi og réttlátara þjóðfélagi. Gylfi segir
margar sögur af mörgum körlum og nokkrum
konum. Þetta er hefðbundinn ís-
lenskur frásagnarháttur, þar sem
maður er nefndur, raktar ættir
hans, vitnað í ljóð og sagðar sögur
sem gefa mynd af persónunum
sem koma við sögu. Raunar koma
þær meginsögu bókarinnar mis-
mikið við, en að lokum tengir þó
alltaf aftur við baráttuna fyrir
frelsi alþýðufólks og verkið
myndar ákveðna heild. Þannig er
samtvinnað einkalíf, atvinnumál,
hugsjónir og stjórnmál.
Höfundur notast við margar
heimildir og til þeirra er vísað í
textanum. Því miður eru aftan-
málsgreinar, en þar þvælist fyrir
sú hégilja íslenskra bókaútgef-
enda að lesendur vilji ekki sjá neðanmálsgrein-
ar. Miklu erfiðara er fyrir lesanda að þurfa sí-
fellt að fletta aftar í bókinni til að skoða
tilvísunartextann, sérstaklega þegar hann er
hafður nánast inni í miðri bók. Lágmarkstillits-
semi væri að hafa hann þá aftast. En aftan við
tilvísanirnar er prentuð stefnuskrá Íslenskra
jafnaðarmanna, lög Jafnaðarmannafélags Ak-
ureyrar, stefnuskrá Alþýðuflokksins og lög Al-
þýðusambands Íslands og er vel til fundið að
hafa það með, sem og litmyndirnar eftir íslenska
myndlistarmenn sem sýna fólk að störfum.
Sömuleiðis er ágætur annállinn sem er yfirlit yf-
ir nokkra sögulega áfanga. Að lokum er heim-
ildaskrá og nafnaskrá, en atriðaorðaskrá hefði
mátt fylgja bók sem þessari. Sá sem ætlar að
lesa Fólk í fjötrum skyldi koma sér vel fyrir og
gefa sér tíma, því þetta er ekki verk til að renna í
gegnum, heldur á að njóta og læra. Fyrir þá sem
þekkja til er lítið um nýjar upplýsingar, en frá-
sögnin er trú sjálfri sér. Hrópandi óréttlæti
hlaut að kalla á aðgerðir hinna vinnandi stétta,
ástandinu varð að breyta. Þekking og samstaða
markaði leiðina. Fyrir hina, sem ekki eru eins
vel að sér um málefni og aðstæður í byrjun 20.
aldar, ætti bókin að vera vel til þess fallin að
læra af, því hún er vel læsileg.
Að skapa réttlátt þjóðfélag
Gylfi Gröndal
BÆKUR
Saga
Gylfi Gröndal. Útgefandi og umbrot JPV útgáfa,
prentun og bókband Prentsmiðjan Oddi,
kápuhönnun Jón Ásgeir, 390 bls.
FÓLK Í FJÖTRUM BARÁTTUSAGA
ÍSLENSKRAR ALÞÝÐU
Lára Magnúsardóttir