Íslendingaþættir Tímans - 07.07.1982, Blaðsíða 4

Íslendingaþættir Tímans - 07.07.1982, Blaðsíða 4
 NG Ragnar dýralæknir Ragnarsson Fæddur 2.10.1948 Dáinn 27.6.1982 Það var komið yfir lágnætti þegar við komum í hlaðið á Sauðanesi að afloknum fyrsta fundi nýkjörinnar hreppsnefndar, tveir félagar af Útnesinu. í dyrunum beið Dagný konan mín og ég sá að eitthvað var að. „Hann Ragnar dýralæknir er dáinn.“ Fyrst skynja ég naumast veruleika þessara orða, en svo leggst hann á mig eins og farg. Hann Ragnar þessi þróttmikli maður sem fór héðan fyrir fjórum dögum, er allur. Hann sem tæpri viku áður, kom siglandi kringum hálft ísland með vini sínum ólafi Rafni, og sagði að þegar flóinn opnaðist og hann sá fjöllin, þá hafi honum fundist hann vera kominn heim. Þessi glaði djarfi maður, sem við væntum svo mikiis af, var horfinn og mér fannst ég vera einn. Þessi tilfinning hefur ásótt mig frá þeirri stundu, og nú í nótt sest ég niður og hripa þessi fátæklegu kveðjuorð, sem ég þó veit að munu ekki segja það sem mér býr í brjósti, þvi orð eru ófullkomin og vald mitt á þeim, takmarkað. Kunningja eignast menn marga, vini fáa. Ragnar Ragnarsson var vinur minn. Mér er í minni, þegar ég sá þennan hvatlega, ljóshærða mann í fyrsta sinn. Það var á fyrstu starfsdögum hans hér nyrðra, og ég sé hann enn fyrir mér þar sem hann stendur við bílinn sinn, i hlaðinu á Syðra-Lóni og snjór yfir öllu. Augun voru óvenju skörp og eins og vörn í fasinu. Síðar komst ég þó að því, að brynjan var ekki þykk og undir henni sló stórt og tilfinningaríkt hjarta, sem var óvenju næmt og því e.t.v. auðsæranlegt, þegar brynjunni hafði verið kastað. Ragnar Ragnarsson var fæddur í Reykjavík 2.10.1948, sonur Ingibjargar Jónsdóttur og Ragnars Guðmundssonar. Föður sinn missti Ragnar strax en ólst upp með móður sinni á Haukagili í Borgarfirði, og síðar fósturföður sinum, Ingvari Sigurðssyni, og hálfsystkinum á Þingeyrum í Húnaþingi og víðar og loks settist fjölskyldan að á Velli í Rangárþingi árið 1955. Sá bær er allfrægur úr Njálu sem Ragnar vitnaði tíðum i og gat heimfært víða í nútímann, enda kunni hann hana utanbókar. Ragnar fór snemma að vinna eins og títt er í sveitum, fyrst heima því næst við ýmsar byggingaframkvæmdir. Að loknu venjulegu undirbúningsnámi settist hann í M.A. einn vetur en féll þar ekki vistin og flutti sig suður i M.R. Lauk hann þar stúdentsprófi 1969 og hélt siðan utan til náms i dýralækningum við háskólann í Hannover haustið 1970, og lauk þaðan prófi 1975. Þá vann hann ytra með námi og kom svo heim 4 1977 og tók við héraðsdýralæknisembættinu á Þórshöfn þá um haustið og gegndi því til vorsins 1981, en þá fékk hann ársleyfi og hélt utan til framhaldsnáms en að því loknu tók hann við rekstri Dýraspitala Watsons og rak hann til dauðadags. Árið 1980 gerðist Ragnar oddviti á Þórshöfn og hófst þegar handa með félögum sinum við að byggja upp atvinnulífið á staðnum, og árangurinn af því er meðal annars hið glæsilega togskip Stakfell, sem lagðist að bryggju á Þórshöfn rúmum sólarhring eftir að Ragnar var allur og þungt mun ýmsum hafa verið niðri fyrir þá, þvi að í hópinn á bryggjunni var skarð. Nú hef ég að mestu haldið mig við þurrar staðreyndir um Ragnar, en hvemig var maðurinn bak við dýralækninn og oddvitann? Skapmikill var hann og kappsamur svo kalla mátti ofurkapp, leitandi einhvers sem ætíð reyndist handan næsta leitis, svo að þegar sigur var unninn og ákveðnu takmarki náð, þá var það ekki lengur eftrirsóknarvert, heldur aðeins áfangi á vegferð og fram varð að halda og eftirláta öðrum að njóta þess, sem unnist hafði og viðhalda þvi. Slíkir menn eru veitendur hvar sem þeir fara og þeim fylgir gustur og annað hvort eru menn með þeim eða á móti. Þeir setja sterkan svip á umhverfi sitt og eru svo svo stór hluti þess, að þegar þeir hverfa af velli lífsins þá verður stórt skarð, sem aldrei verður fyllt hjá vinum þeirra og vandamönnum og lífið verður snauðara og allt litlausara en áður. Samt sem áður sættir það mann við þennan heim að vita, að slíkir menn eru til, þótt ofætlun sé, að rekast á marga á einni mannsævi. Minningar liða um hugann ein af annari og lítið verður úr verki þótt úti skíni sólin nótt sem dag. Allar eru þær bjartar og kalla fram í hugann drengilegan mann, fluggreindan og fróðan sem lét sér fátt mannlegt óviðkomandi. Hann kunni margt að segja af öðrum löndum og úr öðrum landshlutum og dró af því lærdóma enda mjög skýr í hugsun og framsetningu. Hið skemmtilega fór heldur ekki framhjá honum, hann var mikill húmoristi, og gjarnan kom þá skellihlátur sem var alveg sérlega smitandi og oft skalf hér húsið þegar við kepptumst við að ganga hvor fram af öðrum, og oft gleymdist stund og staður. Þessar heimsóknir brugðu birtu yfir skamm- degið hér við íshafið, þótt oft væri upphaflegt tilefni þeirra ekki gleðilegt, veik eða meidd skepna. Sem dýralæknir var Ragnar sérlega glöggur og fljótur að sjá hvað við átti og framkvæmdin fylgdi fast á eftir. Veður skipti ekki máli og væri ófært fyrir bil, þá kom hann brunandi á gandi sínum tygjaður til að takast á við frost og kulda. Þennan útbúnað var hann óspar á að nota til liðsinnis bændum, þegar selflytja þurfti fé úr heiðum í snjóum á haustin, enda var það mála sannast að alla tíð var hann trúr uppruna sínum og átti sterkar rætur í islenskri mold. Gott var að sækja þau heim hann og hans góðu konu, Höllu Bergsdóttur sem bjó honum og börnunum fjórum hlýtt heimili. Þau hjónin voru samhent, og fann ég að Ragnar gerði mikið með álit Höllu og átti við hana sálufélag sem var honum mikill styrkur. Nú er mikill harmur kveðinn að henni og- bömunum og þeirra nánustu, enda hafa þau mikið misst. Þann mátt sem öllu ræður bið ég að hjálpa þeim yfir þessa erfiðu daga, og gefa þeim styrk í framtíðinni. Ágúst Guðröðarson Sauðanesi. t í dag miðvikudag 7. júlí fer fram útför Ragnars Ragnarssonar dýralæknis dýraspítalans frá Þjóð- kirkjunni í Hafnarfirði. Þungir eru þeir dagar þegar lífið krefst þess að maður skilji það sem ekki verður skilið og þyngri eru þeir dagar sem maður finnur sinn besta vin horfinn snögglega. Víst veit maður staðreyndir ltfsins og þykist þekkja þess gang og hugsar til þess eins og úr fjarska, en þeir dagar koma að raunveruleikinn ber að dyrum og birtir manni lifsins lögmál og eru þá orð þekkingarinnar tómir stafir, merk- ingarlausir. Ragnar vinur minn er farinn. islendingaþættir

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.