Íslendingaþættir Tímans - 20.04.1983, Blaðsíða 7

Íslendingaþættir Tímans - 20.04.1983, Blaðsíða 7
bundið og stóð óbreytt þar til ég hefði lokið kandidatsprófi. Er ég sagði Sigursteini, að ég þyrfti að hitta yfirmann landbúnaðardeildar Edin- borgarháskóla við fyrsta tækifæri til að ræða við hann tilhögun náms míns, bauð hann mér að koma með mér til þeirra viðræðna og útvegaði mér stefnumót til þess næsta dag. Ferð okkar Sigursteins á fund prófessors E. Shearers yfir- manns landbúnaðardeildar háskólans næsta dag bar góðan árangur. Er ég hafði með aðstoð Sigursteins skýrt að ég óskaði eftir að stunda óreglulegt nám í tvo vetur til að læra sem mest ég gæti í búfjárrækt sérstaklega sauðfjárrækt, sagði prófessorinn að slíkt væri óráð. Ég væri ágætlega undirbúinn og ætti að stefna beint að kandidats- prófi í búvísindum. Ég andæfði í byrjun og bar við féleysi ekki Síst eftir að ég heyrði hve skólagjöld voru mikil. Erindinu lauk svo, að er við kvöddum prófessorinn brosti hann alúðlega og sagðist treysta því að ég gengi undir próf í ensku, sem halda ætti innan fárra daga fyrir þá nýstú- denta, sem ekki áttu ensku að móðurmáli. Ég fylgdi ráðum prófessorsins ekki síst fyrir einlæga örvun og föðurlega umhyggju Sigursteins. Við urðum þegar mestu mátar og entist sú vinátta meðan báðir lifðu. Hann fylgdist með mér og hvernig mér sóttist námið og ég kom vikulega á skrifstofu SÍS mér til sáluhjálpar og til að sækja peningaskammt minn. Væri Sigursteinn ekki sér- staklega vant við látinn bauð hann mér inn til sín og ræddi við mig um hin ólíkustu efni. Oft barst talið að dilkakjötsmarkaðinum í London. Gleymi ég aldrei hvílíkan áhuga Sigursteinn hafði á að ná sem hæstu verði fyrir kjötið. Var þá oft deilt um brot úr pennyi. Á þessum árum unnu þeir Sigursteinn og Jón Árnason ptrauðir að því að bæta meðferð á kjötinu á allan hátt. Sagði Sigursteinn að fyrir mér lægi mikið starf að leiðbeina bændum til að rækta holdameira fé. Eftir að ég hóf framhaldsnám í kjötrannsóknum og' s'amanburði fjárkynja með tilliti til kjötgæða bauð Sigursteinn mér jafnan að vera mcð sér við móttöku íslensk'a kjötsins í London til þess að ég gæti séð með eigin augum hvað kaupendur fyndu að kjötinu. Það var ekki aðeins í kjötsölunni, sem ég hreifst af samviskusemi og dugnaði Sigursteins í starfi. Mér fannst festa, fyrirhyggja og gætni samfara yfirveguðu áræði einkenna allt hans starf. Hann ræddi stundum við mig urh ýmis áhugamál sín og hverju hann vildi beita sér fyrir til framfara í verslun og atvinnulífi Islendinga yfirleitt. Sumt af þeim áhugamálum náðu skjótt fram, önnur síðar og ótalmörg sem engan óraði fyrir urðu að veruleika, en sum aldrei eins og gengur. Fyrstu árin eftir að Ingibjörg og Sigursteinn komu til Edinborgar bjuggu þau í hverfinu Joppa, keyptu síðan ágætt hús að 5 Lygon Road í einu besta hverfi Edinborgar, en er aldur færðist yfir seldu þau þetta hús og keyptu þægilega íbúð í sambyggingu við Orchard Brae á fögrum, kyrr- látum stað í norðvestur hluta borgarinnar. Ég kynntist fyrst heimili þeirra hjóna á aðfanga- dagskvöld 1933. Þá var é{> boðinn þangað ásamt öðrum íslenskum kunningjum þeirra búsettum í Edinborg til jólakvöldverðar. Það var ógleyman- legt kvöld. Glæsibragur og háttvísi húsráðenda, glöð og efnileg börn, íslenskir jólaréttiri jóla- söngvar og rammíslensk jólagleði einkenndu þessa hátíðarstund. Næstu þrjú aðfangadagskvöld naut ág slíkra jólaboða á heimili þeirra Ingibjargar og Sigursteins ávallt með Valgarði Ólafssyni, Norð- lendingi, sem starfaði síðari hluta ævi sinnar í Edinborg, og með þeim íslendingi, sem vann á skrifstofu SÍS hverju sinni. Þessi boð voru alltaf jafn hátíðleg og skemmtileg og færðu einmana- fslending á erlendri grund nær ættlandi sínu. Þau hjón voru frábærir gestgjafar, svo einlæg í gestrisni sinni, glöð og söngvin. Um leið og gestir voru innan veggja heimilis þeirra var allt svo íslenskt jafnt viðmót sem veitingar, og gert að’ gamni sínu með gleði og söng. Húsráðendur höfðu þó frá komu sinni til Skotlands tamið sér hætti og siðu breskrar yfirstéttar og ólu börn sín upp af frábærri kostgæfni, svo að þau bæru ekki með sér einkenni útlendinga í skólum eða fram- göngu yfirleitt. Þau hjón skildu gildi menntunar, komu börnum sínum í bestu skóla sem völ var í borginni og spöruðu á engan hátt í því efni, en gættu sjálf fremur hófs í eyðslu fjár að skoskukm sið sérstáklega þegar fjárhagur fólks þar í landi var erfiður á styrjaldarárum og lengi vel eftir það. Er ég kvaddi þau Ingibjörgu og Sigurstein að loknu námi í Bretlandi sumarið 1938 reiknaði ég með að hitta þau innan fárra ára, en svo fór að ég kom ekki til Skotlands aftur fyrr en 10 árum síðar, þá ásamt konu minni. Það vildi svo til að við hjónin vorum stödd í Edinborg 17. júní 1948. Sigursteinn bauð okkur heim til sín. Þar var hópur glaðværra íslendinga-meðal annarra þrír stúdent- ar, sem höfðu nýlokið prófi við Edinborgarhá- skóla, meðal þeirra Guðni Guðmundsson, nú rektor Menntaskólans í Reykjavík, sem ég er sannfærður um að hefur breytt þeim gamla og góða skóla til bóta með skoskum menningar- áhrifum. Það var glatt á hjalla á 5 Lygon Road þetta kvöld, mikið sungið og margt spjallað. Sigursteinn sagði að lengi hefði ég verið eini íslehski stúdent- inn vjð Edinborgarskóla en nú væri öldin önnur, Næstur mér hefði Hjörtur Eldjárn komið líka til landbúnaðarnáms, síðan Ólafur E. Stefánsson og um svipað leyti nokkrir fleiri og síðan hafði stúdentastraumurinn frá íslandi aukist og gerði það vonandi lengi enn. Það kom á daginn að Sigursteinn reyndist fleiri íslenskum stúdentum haukur í horni en mér og fleiri nutu fyrirgreiðslu hans meðal annars með því að vera í reikningi hjá skrifstofu SÍS í Leith. Sigursteinn var fram til hárrar elli stúdent í anda og naut sín óvíða eða hvergi betur en í hópi glaðra íslenskra stúdenta eins og fram hefur komið í ágætum minningar- greinum um hann. I þessu sem öðru var Ingibjörg honum samhent, aldrei var of mikið á sig lagt, hvernig sem á stóð, fyrir íslensku stúdentana, enda gerði íslenska stúdentafélagið í Edinborg Sigúrstein að heiðursstúdent 1946. í kvöldverði Edinborgarfélagsins á íslandi nú í vetur minntist aðalræðumaður kvöldsins Jón Baldvin Hannibals- son sérstaklega atvika úr kynnum sínum við Sigurstein Magnússon. Hann var, eins og ég nær aldarfjórðungi áður, sendurá vegu Sigursteins, til fyrirgreiðslu, en hann ætlaði að læra við Edinborg- arháskóla, „hvernig ætti að verða forsætisráð- herra“. Hann kom af togaraveiðum á Grænlands- miðum með fullar hendur fjár. Sigursteinn tók sjálfur fagnandi a móti Jóni, kynnti sér hagi hans og ók síðan rakleitt með hann í Seðlabanka Skotlands, The Royal Bank of Scotland, kynnti þennan íslcnding ráðamanni í bankanum og bað um að opnaður.yrði bankareikningur þar á nafni hans, þar sem Jón lagði hýru sína inn. Að því búnu sneri hann sér að Jóni og sagði að hann myndi þurfa £3 á viku til að lifa af. Datt mér þá í hug að lengi hefði Sigursteinn verið hollráður stúdentum, en Jóni fannst þreytandi að láta sér nægja 3 pund á viku og hækkaði vikuúttekt sína í 5 pund. Góð kynni tókust með konu minni og Ingi- björgu hinn 17. júní 1948 sem innan skammst leiddu til ævilangrarvináttu. Við höfum oft komið til Edinborgar síðustu 35 árin og nær aldrei farið þar um án þess að hitta þau Ingibjörgu og Sigurstein okkur til hinnar mestu ánægju. Heimili þeirra stóð jafnan íslenskum gestum opið ekki síst þeim, sem þau höfðu lengi þekkt. Sem aðalræðis- ■ jmaður íslands reyndist Sigursteinn með eindæm- um vel, en ávallt hinn trausti fyrirgreiðslumaður meðan kraftar entust. Nú gegnir Snjólaug dóttir hans þessu starfi. Ingibjörg og Sigursteinn eru öllum, sem kynnt--< ust þeim ógleymanleg, hún fríð sýnum, fjölhæf^ og listræn, hafði fágaða framkomu, óvenjufjölfróð og skemmtileg í samræðum, mikil og aðlaðandi húsmóðir og frábær gestgjafi. Ingibjörg var í æsku kvennaval og alla ævi að vaxa að manngildi og mannkostum og stærst var hún við hlið manns síns í sjúkdómserfiðleikum hans síðustu árin, þótt þrek hennar sjálfrar færi þá minnkandi. Sigur- steinn var karlmenni í sjón og raun, andlitið stórt, frítt og svipmikið, augnaráðið leiftrandi, herðar breiðar og handtakið trauæstvekjandi. Hann var snar í hreyfingum og svo fyrirmannlegur í framgöngu að hann vakti hvarvetna eftirtekt. Hann var fluggáfaður, skapmikill en skapstilltur, einbeittur, ráðríkur, en ráðsnjall, hjálpsamur og raungóður. Persónuleiki hans var slíkur að hann átti auðvelt með alla stjórnun. Sumum, sem ekki þekktu Sigurstein vel, fannst hann um of einbeitt- ur og eiga til að halda fólki frá sér. Ég hygg að þetta hafi orsakast af því að hann tamdi sér f daglegum störfum meira hætti Breta en íslend- inga, sem flestir telja sig standa jafnfætis húsbónda sínum. Sigursteinn var ágætur málamaður, unni bókmenntum, las mikið og var fjölfróður um hin ólíkustu efni, hrókur alls fagnaðar í samkvæmum og veitull gestgjafi. Þau Ingibjörg voru sannir íslendingar til hinstu stundar, báru djúpa virðingu fyrir íslenskri menn- ingu og tungu og þrátt fyrir búsetu í Edinborg í meira en hálfa öld gat enginn heyrt á tungutaki þeirra, að þau hefðu nokkru sinni búið erlendis. Þó kunnu þau til hins ýtrasta alla siði breskra góðborgara. Börn þeirra Ingibjargar og Sigursteins eru mikilhæft ágætisfólk, sem nutu ástríkis og ágætrar menntunar í uppvextinum og hefur árangur farið eftir því. Þeirra hefur verið getið af öðrum og verður því ekki fjölyrt um þau hér. Eitt aðalsmerki þeirra hjóna, Ingibjargar og Sigursteins, var að þau voru ávallt eins og nýgift, hvar sem þau fóru saman. Þau höfðu lifað langa og glæsilega ævi. Þökk sé þeim, sem öllu ræður, að þau fengu að verða því nær samferða úr jarðlífinu. Ég votta aðstandendum og vinum þeirra ein- lægrar samúðar. Blessuð sé minning þeirra. Halldór Pálsson. 7

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.