Íslendingaþættir Tímans - 29.02.1984, Qupperneq 2
börnin hændust að henni. Verst hve fundir okkar
strjáluðust hin síðari ár, en síðast sá ég Önnu í 80
ára afmæli Ræktunarfélags Norðurlands hinn 11.
júní vorið 1983. Anna gekk þá ekki heil til skógar,
en hún lét það ekki aftra sér frá því að sækja
Ræktunarféiagið heim, enda mun þeim hjónum
báðum hafa verið hlýtt til þess frá fyrri tíð.
Þessi fátæklegu kveðjuorð verða að nægja, þótt
margt sé enn ósagt. Áður en ég lýk þessum orðum
vil ég þó nefna sérstakan eiginleika, sem ætíð
fylgdi Önnu, en erfitt er að skilgreina. Þar á ég
við hversu vel mér leið ætíð í návist hennar, óháð
því hvort um lengri eða skemmri tíma var að
ræða. Ég veit að hér tala ég fyrir munn margra.
Mér er því fyrst og fremst þakklæti í huga til
Önnu og til forsjónarinnar fyrir að hafa látið leiðir
okkar liggja saman um stund.
Að lokum sendi ég og fjölskylda mín, þér, kæri
Jónas, ásamt börnum og barnabörnum ykkar
hjóna, innilegar samúðarkveðjur.
Þórarínn Lárusson
t
■ Anna Jósafatsdóttir lést á nýársdag Endalokin
komu ekki að óvörum. Hún fann fyrst til lasleika
fyrir rúmum þremur árum en lét lítt á bera framan
af. Síðastliðið haust herti sjúkdómurinn svo tökin
að hún gat ekki lengur undan vikist að leggjast á
sjúkrahús. Heimilið var alla tíð hennar vettvangur
og þótti henni þungbært að þurfa að yfirgefa það.
Anna fæddist í Húsey í Hólmi í Skagafirði 11.
apríl 1910. Hún ólst upp í Skagafirði, í Ytri-Hof-
dölum og í Hlíð í Hjaltadal. Þau Jónas sáust fyrst
á Sauðárkróki þar sem Anna vann á spítalanum.
Þau kynntust síðan á Hólum þar sem hann var í
hópi skólapilta og hún starfsstúlka við skólann. Á
nýársdag 1933 gengu þau í hjónaband og hófu
búskap á föðurleifð Jónasar, Hranastöðum í
Eyjafirði. Ásamt búskapnum stundaði Jónas
ráðunautsstörf í Eyjafirði.
Vorið 1947 tók Jónas að sér rekstur nýstofnaðr-
ar tilraunastöðvar austur á Fljótsdalshéraði, að
Hafursá á Völlum. Vorið 1949 var starfsemi
tilraunastöðvarinnar flutt að Skriðuklaustri.
Fyrstu árin var Anna norður á Akureyri á vetrum
og hélt heimili fyrir elztu börnin sem voru þar í
skólum.
Ég var svo lánsamur að kynnast Önnu á
Skriðuklaustri. Það var í mái 1952 að ég fór með
Jónasi upp í Klaustur til sumardvalar. Hann var
að koma norðan frá Akureyri þar sem Anna hafði
daginn áður fætt þeim son. Mér fannst aðkoman
að Skriðuklaustri vera hálf drungaleg. Húsið var
gríðarlega stórt og tómt. Þessa vordaga hvíldi yfir
því meiri kyrrð en ég var vanur heiman frá mér.
Hálfgert óyndi var í mér ellefu ára gömlum
stráknum, sem fór nú í fyrsta skipti að heiman.
En allt breyttist þetta í einu vetfangi þegar Anna
kom að norðan með soninn. Það var eins og allt
fengi líf í þessu stóra húsi við komu hennar.
Óyndið hvarf eins og dögg fyrir sólu og þarna átti
ég eftir að vera fjögur sumur. Anna var einstak-
lega hlýleg og elskuleg húsmóðir. Á sumrin var
fjölmennt á Klaustri á þessum árum. Þar voru
gjarnan 4-5 kaupakonur og álíka margir vinnu-
menn. í heimili gat alls verið um fimmtán manns.
Þetta var ekki lítið lið. Verkaskiptingin var skýr
og myndaðist af sjálfu sér. Anna sá um allt sem
laut að heimilisstörfum. Hún hafði gjarnan tals-
vert lið sér til aðstoðar en aldrei sat hún athafna-
laus með hendur í skauti.
Anna hafði vakandi athygli á öllu sem betur
mátti fara hvort sem það laut að umgengni og
heimilisbrag eða meðferð á mat og húsþrifum.
Hún var foringinn sem réði þegar inná hennar svið
var komið. Anna var ákaflega myndarleg og
umhyggjusöm húsmóðir, öllum þótti vænt um
hana og aðeins eitt lítið orð eða ábending um það
sem betur mátti fara var tekið til greina umyrða-
laust. Viðhorfið til hennar mótaðist af virðingu og
væntumþykju. Mér er minnisstætt að það versta
sem gat komið fyrir mig á Klaustri var að gera
eitthvað sem Önnu mislíkaði. Þar mátu allir
hlutverk húsmóðurinnar að verðleikum og báru
virðingu fyrir því. Þegar litið er til baka finnst mér
að heimilisbragur á Skriðuklaustri hafi verið með
svipuðu móti og gerðist á höfðingjasetrum til
forna. í sambandi við reksturtilraunastöðvarinnar
komu menn að um lengri eða skemmri tíma til
þess að sinna og fylgjast með ákveðnum verkefn-
um. Sérstaklega er mér minnisstæður Ólafur
Jónsson frá Akureyri.
Gesti úr sveitinni bar oft að garði. Anna tók á
móti fólki af einstakri gestrisni, sama hver í hlut
átti. Umhyggjusemi og nærgætni var hennar
aðalsmerki. Við áttum margar góðar og glaðar
stundir á Skriðuklaustri á þessum sólríku sumrum
og nutum hlýju og vináttu okkar góðu húsmóður.
Ég veit að Anna kunni vel við sitt hlutskipti sem
veitandi húsmóðir. Mér er næst að halda að
hennar þyngstu stundir ár hvert hafi verið þegar
sumarfólkið kvaddi á haustdögum.
Að leiðarlokum vil ég sérstaklega þakka fyrir
dvölina á Skriðuklaustri. Jónas, kæri vinur, þinn
missir er mestur, ég og fjölskylda mín vottum þér
innilega samúð okkar. Guð styrki þig við fráfall
þinnar elskulegu eiginkonu.
Sveinn Þorarinsson
t
Vorið 1958 réðst ég sem kaupamaður að Tilrauna-
stöðinni á Skriðuklaustri. Jónas Pétursson var þar
þá tilraunastjóri og Anna Jósafatsdóttir, kona
hans, stóð fyrir búi innanhúss.
Frá þeim tíma hefur heimili þeirra verið mitt
annað heimili; á Skriðuklaustri, Lagarfelli og í
Reykjavík meðan þau bjuggu þar á þingmannsár-
um Jónasar.
Anna Jósafatsdóttir var fædd í Húsey í Seylu-
hreppi II. apríl 1910. Foreldrar hennar voru
Jósafat Guðmundsson bóndi þar og þá ekkjumað-
ur, fæddur 1853, og Ingibjörg Jóhannsdóttir, fædd
1870, vinnukona hans. Anna átti eitt alsystkini.
Felix kennara og vegaverkstjóra, f. 1903, en 10
hálfsystkini samfeðra sem upp komust, hin elstu
miklu eldri en hún. Má nefna að systursonur
Önnu og litlu yngri en hún var Hafsteinn Björns-
son miðill.
Anna var tekin í fóstur á fyrsta árinu. Á því
hcimili gusu upp berklar og sýktist Anna af þeim
og átti hún við þá veiki að stríða til 10-11 ára
aldurs.
Árið 1914 flutti Jósafat að Syðri-Hofdölum í
Viðvíkursveit og tók þá Önnu til sín og ólst hún
þar upp uns hún fór í unglingaskóla á Hólum í
Hjaltadal en um það leyti var Bændaskólinn ekki
fullsetinn búfræðinemum og unglingafræðsla rek-
in þar jafnframt. Eftir það var hún starfsstúlka á
Hólum og þar kynntist hún Jónasi Péturssyni sem
stundaði þar nám árin 1930-32 og sumarið 1933
hófu þau búskap á hluta af Hranastöðum í
Eyjafirði, föðurleifð Jónasar.
Á Hranastöðum bjuggu þau til ársins 1946 að
þau flytja til Akureyrar, en árið eftir skipast mál
þannig að Jónas er ráðinn tilraunastjóri á nýstofn-
aðri tilraunastöð á Hafursá í Vallahreppi, næsta
bæ utan við Hallormsstað. Árið 1948 var ákveðið
að flytja stöðina að Skriðuklaustri. Sá tími er
tilraunastöðin var á Hafursá var uppbyggingar- og
undirbúningstími og það skammur að Anna og
Jónas komu sér þar ekki upp heimili.
Vorið 1949 flytur stöðin að Skriðuklaustri og
þar búa þau til ársins 1962 en fyrstu þrjá veturna
var Anna á Akureyri þar sem hún hélt heimili fyri
tvö elstu börn sín sem gengu þar í skóla. Frá 1962
bjuggu þau svo á Lagarfelli en nokkra vetur héldu
þeu heimili í Reykjavík yfir þingtímann.
Þessi ytri rammi í lífi Önnu segir ekki hálfa
sögu, meira er um verð sú kona sem að baki bjó.
Önnu fylgdi höfðingsskapur og reisn hvar sem
hún fór. E.t.v. gerði umhverfið mestar kröfur til
hennar þau ár sem hún stjórnaði innanstokks á
Skriðuklaustri, en því hlutverki skilaði hún með
stakri prýði. Þar starfaði margt manna, einkum á
sumrin og gestakomur voru miklar og öllum sem
þar dvöldu lengur eða skemur skapaði hún hlýtt
og notalegt heimili.
Störfum Jónasar Péturssonar um ævina hafa
iðulega fylgt meiri og minni fjárvistir frá heimili
og hvíldi því heimilishald oft mikið á Önnu.
Hlutur hennar í að gera Jónasi kleift að helga sig
þingmannsstarfinu á þingmannsárum hans var
líka mikill.
Þrátt fyrir erfiða æsku og sjúkdómsstríð á þeim
árum var Anna gæfumanneskja. Einn þáttur í
gæfu hennar að að hún átti létta lund. Hún sá
auðveldlega spaugilegu hliðarnar á tilverunni og
hún laðaði að sér fólk með sínu hlýja viðmóti.
Hún fagnaði gestum og ætíð var gestkvæmt á
heimili þeirra Jónasar. Á árunum sem ég og
fjölskylda mín bjó á Skriðuklaustri og við sóttum
verslun og aðra þjónustu í Egilsstaði notuðum við
hvert tækifæri sem gafst til að koma við á
Lagarfelli og þiggja þar góðgerðir. Vetrarríki
getur verið mikið á Héraði og þá var gott að vita
af Lagarfelli sem áningarstað á leið suður eða að
sunnan og svo ómetanlegt athvarf sem heimili
þeirra Jónasar var okkur þá höfðu þau einlægt lag
á því að kveðja okkur þannig að nú værum við
búin að gera þeim stóran greiða.
Anna og Jónas eignuðust þrjú börn. Þau eru:
Hreinn, rafmagnstæknifræðingur, kona Sigríður
Halblaub; Erla, símavörður, sambýlismaður
Ármann Magnússon og Pétur Þór, búfræðikenn-
ari, kona Freyja Magnúsdóttir.
Ég flyt Jónasi og börnum þeirra Önnu innileg-
ustu samúðarkveðjur mínar og fjölskyldu minnar.
Matthías Eggertsson
2
ÍSLENDINGAÞÆTTIR