NT - 01.09.1985, Blaðsíða 7

NT - 01.09.1985, Blaðsíða 7
NT Sunnudagur 1. seplember 7 > Ingólfur Davíðsson grasafræðingur er einn afþessum körlum, sem setja svip á bæinn. Hann fer fótgangandi allra sinna ferða og þó svo að hann fari ekki hratt yfir kemst hann þangað sem hann ætlar. Eins og lesendum er kunnugt skrifaði Ingólfur fasta pistla í blaðið um árabil en þá kallaði hann „Byggt og búið í gamla daga." Alls urðu þetta á fimmta hundrað greina um gamlar byggingar og búskap- arháttu auk þess sem hann skrifaði reglulega þætti um sérgrein sína, grasa- fræði. Sem vísindamaður hefur hann rutt brautina á margan hátt, skrifað fjölda bóka og unnið að merkum rannsóknum á sviði útbreiðslu jurta á íslandi og jurtasjúkdóma. Við hittum þennan aldna fræðaþul í garðinum heima hjá sér og fengum hann til að líta örlitla stund yfir farinn veg. Hann tekur málaleitan okkar vel. Virðist hafa nægan tíma og kann þá list að segja frá. Sá sem hlustar verður þátttakandi í sögunni og hún rennur upp skýr og lifandi. Hann segir okkur frá æskuheimili sínu, Stóru-Hámundarstöðum á Árskógsströnd. Búinu stýrðu faðir hans, hreppsstjórinn Davíð Sigurðsson og kona hans María Jónsdóttir. „Pabbi fór oft með okkur systkinin til að tína jurtir. Hann var vel heima í grasafræði frá því hann var í Möðruvallaskóla hjá Stefáni Stefáns- syni. Ég man að hann sagði að það væri óþarfi að segja nöfnin á plöntunum oftar en einu sinni. Það ætti að vera nóg til að við myndum þau. Það varð okkur kappsmái að þekkja plönturnar og nöfn þeirra. Mamma sagði okkur líka til og ég er viss um að þarna kviknaði áhugi sem hefur svo lifað með mér alla tíð. Þetta varð hluti af lífi manns, sem annars var enginn dans á rósum. Það var unnið myrkranna á rnilli." Ingólfur talár enn með sterkum norðlenskum hreim. Hann á auðvelt með að hverfa aftur til æskuáranna og segist muna atvikin skýrt, rétt eins og þau hefðu gerst í gær. Hann segirokkur frá Árskógsströndinni, fjöllunum og firðinum með útsýni til Hríseyjar og lengst í norðri sést Grímsey í hillingum. Hann segist hafa unað sér tímunum saman við bæjarlækinn sem barn og fylgst með lífinu í honum að ógleymdum jurtunum sem alltaf voru í uppáhaldi, og eru lifandi rétt eins og við. „Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér einhvern veginn að mér hafi aldrei leiðst hvort sem það er nú satt eða ekki. Ég þótti skapgóður og gat verið einn án þess að láta mér leiðast. Það var líka alltaf eitthvað, sem hægt var að hafa fyrir stafni. Á Hámundarstöðum var tvíbýii og stór krakkafloti og því oft mikið um að vera. Á vetrum vorum við á skíðum og það var sagt að krakkarnir á Árskógsströndinni hefðu fæðst með skíðin á löppunum. Við fórum líka á skíðum í skólann en það gat verið um klukku- tíma ferð. Mörgum árum síðar lá leiðin til Akureyrar í menntaskólann. Þá bjó ég á heima- vist og það var skemmtilegur tími. Sigurður Guðmundsson var skólameistari og í gildi strangar reglur. Við máttum til dæmis ekki fara út af vistinni eftir klukkan tíu á kvöldin. Ég var í öðrum árganginum sem skólinn fékk leyfi til að útskrifa sem stúdenta og við vorum sjö saman og haldið hópinn síðan. Við höfum öll fengið að njóta langra lífdaga og aðeins tveir úr hópnum fallnir frá og það nýlega. Akureyringum var vel til skólans, það þótti vinningur að hafa hann og auðvitað fundum við til okkar námsmennirnir. Stúdentsprófið var líka meira í þá daga en það er nú. Á vistinni var auðvitað bannað að vera með vín og reykingar ekki vel séðar því húsið var úrtimbri. Félagslífið þætti ef til vill ekki mikið miðað við kröfurnar í dag en einu sinni til tvisvar í mánuði voru svokölluð kaffikvöld þar sem einhver var fenginn til að halda tölu og síðan var dansað og sungið á eftir. Við héldum líka sérstök böll og þá máttu nemendur bjóða með sér einhverjum utanað- komandi. Sigurður skólameistari var orðlagður kennari og það voru fleiri afbragðs kennarar við skólann til dæmis Guðmundur Bárðarson og Guðmund- ur Hannesson svo einhverjir séu nefndir. Skóla- vistin varð heldur ekki til að minnka áhugann á náttúrufræði því ég las allt sem ég komst yfir í þeim efnum. Vorið 1929 útskrifuðumst við sem stúdentar og þá sótti ég um inngöngu í Kaupmannahafn- arháskóla. Ég var svo heppinn að hljóta stóra styrkinn, sem svo var kallaður, en hann var veittur fjórum íslenskum stúdentum, þremur að sunnan og einum að norðan. Það sem ég held að hafi gert út um þetta var það að ég ætlaði í náttúrufræði en sá sem bestu einkunnina hafði, Jón Sigurgeirsson, hugði á málanám og það hefur ekki verið talið eins nauðsynlegt. Svo hjálpaði það líka til að kennararnir, sem lögðu með okkur, töldu að fjarhagsaðstæður minar væru þannig að ég þyrfti meira á þessu að halda. Styrkurinn var hundrað krónur á mánuði og dugði fyrir herbergi og lélegu fæði. Þetta var samt stórkostleg hjálp og gerði það að verkum að ég gat haldið utan um haustið. Ég man eftir því að pabbi spurði mig að því hvort ég kviði fyrir að fara til Danmerkur en ég sagði honum að ég hlakkaði til og varð hann náttúrlega ánægður að heyra það. Foreldrar mínir komu með mér inn á Akureyri til að útbúa mig og það sem lagt var með mér voru aðallega föt. í Ijóðabók sinni Vegferðarljóð sem út kom árið 1973, minnist Ingólfur foreldra sinna meðal annars á eftirfarandi hátt: Man ég þína mjúku hönd, mildi og hollráð gefin. Frá þér út í fjarlæg lönd fékk ég móðurbréfin. Maður þú ert aldrei einn, átt þér félagsbróður, ef þér fylgir hlýr og hreinn hugur góðrar móður. Horfinn er mér sjónum horskur faðir. Sofnaði gamall saddur lífdaga. Hafði starfað af allri orku allt frá æsku til ellistunda. Ungur hlúði að hríslum í reit - nú kvaka þar fuglar á kvisti. - í elli blindur um bjarkarlauf þreifaði hlýjum höndum. Ingólfur segir okkur að sporin um borð í farþegaskipið (sland hafi verið létt en með því skyldi hann fara til Kaupmannahafnar. Um borð hitti hann gamlan kennara sinn Guðmund Bárðarson jarðfræðing og var hann að fara utan til að halda fyrirlestra um jarðfræðirannsóknir sínar. „Guðmundur lagði mér ýmsar lífsreglur á leiðinni og þótti mér stuðningur að hafa hann með mér í þessari fyrstu langferð minni. Ferðin gekk nokkuð öðruvísi en ætlað hafði verið, því hafís lá fyrir Norðurlandi og varð skipið að fara austur fyrir land á leið sinni til Reykjavíkur. Við vorum rúma tíu daga á siglingu til Kaupmanna- hafnar. Þegar út kom og ég virti fyrir mér heimsborgina þá fannst mér hún óneitanlega ógnvænleg við fyrstu sýn. Göturnar og húsin minntu mig á klettagjár og ég klifraði upp í alla turna sem ég komst í til að geta séð yfir. Flatlendið hafði svona áhrif á mig. Mér gekk heldur ekkert allt of vel að skilja málið í byrjun. Að vísu hafði ég lært dönsku í skóla og reyndar einnig svolítið af dönskum sjómönnum sem bjuggu heima um tíma. Þeir höfðu strandað skipi sínu skammt frá bænum og tveir þeirra dvöldust hjá okkur og ég babblaði mikið við þá. Veganestið að heiman dugði mér skammt en svo kom þetta auðvitað smám saman og það fyrr en mig grunaði. Samferðamaður minn og kennari Guðmundur Bárðarson hjálpaði mér að finna herbergi og frúin, sem leigði út herbergið var svo vinsamleg að bjóða mér upp á kaffi til sín á kvöldin og lét þá unga dóttur sína sitja meö okkur til borðs og skyldi hún kenna íslendingn- um málið.“ Dvölin í Danmörk átti eftir að hafa afgerandi áhrif á vegferð Ingólfs. Fyrir utan það að verða fulínuma í grein sinni grasafræði, kynntist hann danskri stúlku Agnes Marie Ingeborg sem síðar varð kona hans og lífsförunautur. Þegar hann minnist Hafnaráranna færist kankvíslegur svip- ur yfir andlitið. „Þetta voru skemmtilegir tímar og lífið brosti við manni. íslensku stúdentarnir héldu hópinn og sumir gengu reyndar svo rösklega fram í því að þeir kynntust ekki Dönum neitt að ráði. Ég var þó ekki í þeim-hópi því auk þess að vera í háskólanum ferðaðist ég töluvert um vegna námsins og kynntist því fólki víðs vegar í landinu. Það var í einni slíkri ferð sem ég kynntist Agnesi. Á þessum árum léku sterkir pólitískir vindar um íslensku námsmennina. Við hittumst reglu- lega og ræddum málin. Oft voru fengnir fyrir- lesarar til að fjalla um eitthvað málefni sem var ofarlega á baugi og þá gjarnan einhverjir að heiman sem þekktu til mála og voru á ferð í höfuðborg ríkisins. Ég var alltaf frekar til vinstri en þarna voru margir sem höfðu oftrú á komm- únismanum. Menn hreinlega sáu ekkert annað. Ég býst við að það hefði mátt flokka vin minn Sverri Kristjánsson í þann flokk. Það var reyndar einhver sem spurði hann af hverju hann flytti ekki til Rússlands þar sem hann væri svona hrifinn af systeminu þar eystra. Sverrir sem kunni vel að svara fyrir sig sagði að bragði að honum þætti betra að hafa vini sína í svolítilli fjarlægð frá sér.“ Það tístir i sögumanni okkar. „Eg kynntist líka Jóni Helgasyni vel á þessum árum. Hann bauð okkur löndunum oft heim til sín og mér er næst að halda að hann hafi í mörgum tilvikum verið í sama hlutverki og nafni hans Sigurðsson forðum. Jón er stórgreindur maður og mikill vinnuþjarkur. Hann er líka meinfyndinn og gerði stundum í því að láta aðra halda að hann væri hálfgert gerpi. Þá var hann að leiða menn út á hálar brautir jafnvel til að sýna fram á hversu vitlausir þeir væru. Ég man eftir því að Jón sagði um Ijóðin mín að þau væru góð fyrir þá sem ekki krefðust mikillar heimspeki. Svona gat hann verið mein- glettinn. Þetta gerði líka það að verkum að það voru sumir beinlínis hræddir við hann. Þegar ég lít tii baka þá finnst mér að meðal okkar stúdentanna hafi lifað andi þeirra Jóns Sigurðssoar og Jónasar. Maðurfann á einhvern hátt fyrir nálægð þeirra. Það var líka mikið gert að því að syngja Ijóð Jónasar en einhvern tímann brá svo við að ákveðinn hópur var hættur að taka undir þegar lagið vinsæla „Hvað er svo glatt...“ var sungið. Þegar farið var að spyrja hverju það sætti að menn tækju ekki undir þá sagði einhver sem orð hafði fyrir hópnum að þeir hefðu frétt það að þetta lag væri í uppáhaldi hjá Heimdellingum á íslandi og það þótti auðvitað ekki nógu gott. Svona gat pólitíkin tekið á sig margar myndir.“ Heimsborgin Kaupmannahöfn glapti líkafyrir mörgum. Það voru svo mikil viðbrigði aö koma úr sveitum landsins hér heima og þangað út. Þetta ruglaði menn í r í minu og ófáir flosnuðu úr námi þó svo þeir væru ágætir námsmenn. Mér tókst þó að halda mínu striki en oft var ég haldinn heimþrá. Ég tók mest eftir þessu á vorin þegar maður vissi að vorannirnar væru hafnar heima.“ Ingólfur lauk magistergráðu við Kaupmanna- hafnarháskóla árið 1936 með grasafræði sem aðalgrein og fluttist þá með konu sinni heim til íslands. Við spurðum hvernig fjölskyldan hefði brugðist við því þegar það fréttist að hann væri að koma heim með danskan kvenmann. Viðmælandi okkar brosir góðlátlega og strýk- ur hendinni um höfuð sér rétt eins og feiminn skólastrákur. „Þau tóku því vel þegar þau fréttu aðhún væri ekki rík kaupmannsdóttir og mönnum létti þegar það kom í Ijós að hún væri vön vinnu.“ Ingólfur og Agnes settust að í Reykjavík þar sem hún fór að kenna vefnað og hann fór að vinna að rannsóknarog kennslustörfum. Lengst af hefur hann unnið sem sérfræðingur við Atvinnudeild Háskólans og síðar arftaka hennar, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins. Hann hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa í gegn- um árin og síðast en ekki síst hefur hann eins og áður segir ritað margar bækur í sérgrein sinni. Þeir eru einnig orðnir fjölmargir nemendurnir sem Ingólfur hefur kennt fræðin um jurtirnar, sem honum eru svo hugleiknar. Þó árin séu orðin 82, sem hann á að baki, er hann enn að. Um þessar mundir vinnur hann að riti um nytjajurtir að fornu og nýju og segist fara snemma á fætur eins og hann hefur alltaf gert síðan hann var smali á Árskógsströnd.

x

NT

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: NT
https://timarit.is/publication/305

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.